Hið óskiljanlega

Óskiljanlegt er að meirihlutinn í Reykjavík hafi ekki lagt meira á sig í þágu þeirra sem nú upplifa algjörar hremmingar á húsnæðismarkaði. Húsnæðisskortur veldur því að fólk býr við óviðunandi aðstæður og himinhá húsnæðisgjöld. Sinnuleysi meirihlutans stuðlar að fátækt, efnaminna fólk er ekki lengur velkomið og borgin stendur ekki lengur undir nafni sem fjölmenningarborg.

Nýjar áætlanir til að kaupa sér tíma?
Í stað þess að sinna því grunnhlutverki að úthluta fleiri lóðum fór tími meirihlutans í að sýna almenningi fagurlega gerðar hönnunartillögur. Löngu var þó ljóst að þessar byggingar yrðu ekki tilbúnar fyrr en á eftir áætlaðan tíma og myndu lítið nýtast þeim sem mest þurfa á að halda.

Þegar meirihlutinn var svo farinn að þreytast á að hlaupa undan sannleikanum á enn einn kynningarfundinn var ákveðið að kynna nýja uppbyggingaráætlun. Þannig telur meirihlutinn að hann geti breitt yfir vangetu sína til að uppfylla stóra kosningaloforðið um þúsundir íbúða sem aðeins náði svo langt að komast á áætlun. Til þess að takast á við vandamálið, sem var orðið vandræðalega augljóst, varð úr að meirihlutinn skellti fram nýrri áætlun með enn fleiri íbúðum í því skyni að kaupa meiri tíma til að halda sama leiknum áfram. Algjörlega óskiljanlegt.

Við einhverjar aðstæður gæti þetta þótt sniðugt kynningarbragð. En alvarleiki málsins kemur svo sannarlega í veg fyrir það nú. Þegar leiga á litlu herbergi er komin yfir hundrað þúsund á mánuði er fokið í flest skjól fyrir fólk á leigumarkaði, vitað er að fjölskyldur búa í óásættanlegu húsnæði en geta sig hvergi hreyft þar sem ekkert annað er í boði. Fjöldi fólks er á hrakhólum og býr inn á fjölskyldu og vinum. Í slíkum aðstæðum er staða þeirra tekjulægstu, einstæðinga og innflytjenda sérstaklega erfið en við það situr því lausnir eru engar. Þetta kemur ekki aðeins fram í fjölmiðlum heldur er einnig saga félagsráðgjafa og fólks sem vinnur í félagsþjónustunni enda erfitt að vera ráðgjafi í slíkri stöðu.

Reykjavíkurhúsin - nýjung eða töf á uppbyggingu?
Á meðan boðar meirihlutinn lausnina “Reykjavíkurhúsin”. Meirihlutinn telur Reykjavíkurhúsin lykilþátt í stefnu borgarinnar um aukna fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Þarna séu fjölbýlishús þar sem áhersla verður lögð á að leigja fjölbreyttum hópi einstaklinga og fjölskyldna með ólíkan bakgrunn. Lausnin hefur ekki enn hefur verið tekin í notkun þó að talað hafi verið um hana í mörg ár. Meirihlutinn leggur mikla áherslu á þessa lausn í máli sínu því mætti halda að þarna væri um einhverja stórkostlega nýjung að ræða sem boðað gæti betri tíð. En þegar betur er að gáð sést að þarna er lítið annað á ferðinni en töf á uppbyggingu. Hugmyndin virðist því miður ekki ganga út á annað en það að blanda fólki með ólíkan félagslegan bakgrunn saman í fjölbýlishús, og vera nógu lengi að því. Öllu á þó að tjalda til við að gera þetta sem glæsilegast og valin var líklega ein dýrasta lóð Reykjavíkurborgar fyrir verkefnið. En fyrir andvirði slíkrar lóðar hefði mátt nýta sölutekjurnar til uppbyggingar í þágu mun fleiri.

Meirihlutinn ákvað einnig að hugmyndinni að Reykjavíkurhúsunum skyldi fylgja skilgreining á nýjum félagslegum hópi til að mæta kröfum um það sem kallast “félagsleg blöndun” á fagmáli. Nýji hópurinn kallast “efnaminni”. Hinir efnaminni eru ekki þeir sem eru verst staddir en engu að síður hópur sem ræður illa við að ná endum saman þegar húsnæðiskostnaður hefur hækkað svo gríðarlega vegna framboðsskorts og hárra leigu- og húsnæðisgjalda. Staða sem meirihlutinn í Reykjavík hefur leynt og ljóst unnið að með stefnu sinni. Á meðan er verst staddi hópurinn þó sniðgenginn.

Það óskiljanlegasta af því óskiljanlega
Eins og oft hefur komið fram eru þúsund fjölskyldur á biðlistum eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík. Uppbyggingarþörf hefur ekki verið sinnt. Meirihlutinn hefur sniðgengið þar sína helstu skjólstæðinga og eitt af mikilvægustu hlutverkum sínum.

Meirihlutinn í Reykjavík er samsettur af alls kyns vinstri flokkum og á stefnu margra er erfitt að átta sig. Aðferðirnar við að ná fram stefnumörkuninni eru líka algjörlega óskiljanlegar. Einn flokkur telur sig þó vera lengst til vinstri og sá hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum. Og þá kemur að því óskiljanlegasta af því óskiljanlega en áhyggjur vinstri grænna af húsnæðisvandanum virðast hafa gufað upp.

Þess má minnast að Vinstri græn stóðu vaktina ásamt Sjálfstæðismönnum og gagnrýndu meirihlutann í Reykjavík á síðasta kjörtímabili vegna of lítillar fjölgunnar félagslegra íbúða. Því miður situr sá flokkur nú á þessu kjörtímabili með hendur í skauti sér í faðmi kynningarstjórans eins og aðrir meðlimir meirihlutans.

Við þær aðstæður sem upp eru komnar hjá fjölda fjölskyldna í borginni hljótum við að fara fram á að þeir sem með völdin fara í Reykjavík hætti að einblína á að sérsníða lausnir út frá því hversu glæsilegar þær verði á kynningarfundi og einbeiti sér að því að hlutverki að aðstoða fólk í neyð.

Grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2017


Ungt fólk og lýðræði

Á dögunum var haldin ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði og samantekt og ályktun af þessum fundi barst meðal annars til mín. Áhugavert er að lesa hvað er þeim efst í huga og ég deili því hér með ykkur.

Borgarstjórn situr fundi með ungmennaráðsfulltrúum í Reykjavík einu sinni á ári. Fróðlegt hefur verið að heyra þeirra tillögur. Reyndar hefur staðan nú oft verið sú að sömu tillögurnar eru lagðar fram ár eftir ár því þrátt fyrir að þeim sé kastað inn í borgarkerfið virðast þær ekki ná að berast upp að strönd á réttum stað á því eina ári sem líður á milli fundanna.

Fram kemur margt áhugavert í ályktun af ráðstefnunni. Til dæmis að á síðustu 10 árum fái nú fleira ungt fólk tækifæri til að móta samfélagið og koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þess með þátttöku í ungmennaráðum. Fram kemur gagnrýni á samráðsskort við ungmennin sjálf þegar breytingar voru innleiddar á menntakerfinu og að mikið álag sé á nemendum.

Mikil áhersla er lögð á geðheilbrigði og fræðslu. Ályktað er um að boðið verði upp á sálfræðiþjónustu í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Einnig að bæta þurfi heilbrigðiskerfið, sérstaklega úti á landi.

Ungmennin upplifa þekkingarleysi gagnvart fjármálum, réttindum og skyldum á atvinnumarkaði og vilja aukna fræðslu í grunn- og framahldsskólum um þau málefni.

Mikið er lagt upp úr því að raddir ungmenna heyrist sem víðast og krefjast þau aukins aðgengis að nefndum innan sveitarfélaga. 

Sjálfsagt mál ætti að vera að koma til móts við ungmennin.


Skattpíndir íbúar Reykjavíkur

Ársreikningur fyrir árið 2016 hefur verið kynntur og er nú opinber. Eins og hjá öðrum sveitarfélögum eru tekjur sveitarfélaga nú mun meiri en áætlað var bæði skatttekjur og frá ríki.

Það virðist jákvætt að sjá tölur réttu megin við núllið en það segir einfaldlega ekki alla söguna. Það er lítill sigur að ná rekstrinum réttum megin við í því góðæri sem nú ríkir. Þá er skuldasöfnun enn á dagskrá þrátt fyrir góðæri.

"Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki seinna vænna að rekstur Reykjavíkurborgar, sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014, verði betri. Allt frá árinu 2010 hefur vandræðagangur verið á rekstrinum með of slöku rekstraraðhaldi því rekstrarvandræði borgarinnar hafa verið útgjaldavandi en ekki tekjuvandi.

Árið 2016 er gert upp með rekstrarafgangi og væri það ótrúlegt ef slíkt tækist ekki miðað við þá gríðarlegu tekjuaukningu sem orðin er í íslensku samfélagi og sjá má á jákvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga um land allt.

Þegar rekstur Reykjavíkurborgar, langstærsta sveitarfélags landsins er borinn saman við fjögur stærstu nágrannasveitarfélögin má sjá að rekstrarárangur borgarinnar er lakari en hjá þessum sveitarfélögum þrátt fyrir hærri tekjur af hverjum íbúa í borginni. Skatttekjur á hvern íbúa borgarinnar eru 624.000 kr. en meðaltal hinna sveitarfélaganna er 488.000 kr. á hvern íbúa þeirra. Þá er veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar 10,9% sem er til bóta frá alltof lágu veltufé árin á undan en meðaltal hinna sveitarfélaganna er 13,15%.


Skuldir borgarsjóðs (A-hluta) aukast um 3 milljarða á milli áranna 2015-2016 en skuldir hinna sveitarfélaganna standa í stað eða lækka.


Þá má nefna að Reykjavíkurborg leggur hámarksútsvar á íbúa sína en meðaltal hinna sveitarfélaganna er undir lögbundnu hámarksútsvari."

jantoocartoons

 

Mynd af vef Jantoo Cartoons.

 

 

 

 

 

 


Þreyttar áætlanir og lævís leikur

Nú er komið vel inn í seinni hluta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna í borginni. Flestum er orðið ljóst að lítið hefur áunnist.

Menntun á að vera algjört forgangsmál
Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja. Árangur íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í okkar samanburðarlöndum. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda að helsta áhersla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar til að gera betur. Því miður blasir annað við.

Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helst á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna svo að þeir geti nota þær til að efla eigið starf.

Ljóst er að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar í kennsluháttum og breytingum á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn.

Velferðinni er ábótavant
Biðlistar eftir þjónustu eru einkenni Reykjavíkurborgar. Fötluðu fólki sem þörf hefur fyrir þjónustu vegna athafna daglegs lífs er vísað á biðlista. Árið 2017 getur slíkt ekki gengið upp, það vitum við öll. Það á að vera skylda þeirra sem stjórna borginni að forgangsraða betur í þágu þeirra sem minna mega sín.

Grunnþörfum eins og þessum ætti ekki að vera hægt að vísa á biðlista. Sérstaklega ekki ef ástæðan er sú að borgarkerfið getur ekki mannað í þjónustustörfin. Við blasir að skortur er á nauðsynlegri uppstokkun til að mæta þörfum og eðlilegum kröfum fatlaðra og aldraðra. Aldraðir og fatlaðir eiga að geta valið þjónustu á eigin forsendum í stað þess að vera þiggjendur fyrirfram ákveðinnar þjónustu. Viðurkenna þarf ákveðna þjónustuþarfir og forgangsraða svo í fjármálum borgarinnar svo að þeim megi mæta. Það er ekki nóg að bjóða upp á heimsendan mat en sleppa þjónustunni ef vitað er að viðkomandi þarf aðstoð við að matast.

Fyrir liggur að þjónustan verður að taka stakkaskiptum á næstu árum. Væri minnsti vilji fyrir hendi væri borgarkerfið á góðri leið með að innleiða slíkar breytingar þessa dagana. Meirihlutinn í Reykjavík stendur í vegi fyrir framþróun. Ekki tekst að fjármagna sjálfsögð verkefni og áhersla á að breyta stöðnuðum aðferðum til að koma betur til móts við þá sem þurfa á þjónustu að halda er ekki til staðar.

Grunnþjónusta og gjöld
Í stað þess að forgangsraða er leitað enn dýpra í vasa borgarbúa. Útsvarið í Reykjavík er í botni, það hæsta samkvæmt lögum. Tekjur borgarbúa hækka og tekjur borgarsjóðs hækka í hlutfalli af því. Fasteignagjöld hafa hækkað gríðarlega, sérstaklega á borgarbúa. Orkugjöldin hafa margfaldast á undanförnum árum og meirihluti borgarstjórnar þakkar Planinu, finnst í góðu lagi að taka út arðinn en hvergi minnst á borgarbúa sem tóku á sig gríðarlegar hækkanir. Nei, þeir skulu áfram borga sín gjöld. Sorphirðan hækkar gjöld en dregur úr hirðutíðni. Engin ástæða er talin til að bjóða þjónustuna út til að draga úr útgjöldum eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gera. Samgöngukerfið er í ólestri, ásýnd borgarinnar er farin að líkjast vanþróuðu samfélagi. Húsnæðisvandinn gríðarlegur, viðvarandi og ýtir undir fátækt og á honum axlar meirihlutinn enga ábyrgð.

Borgarstjóri er lævís í kynningarmálum. Hann svarar ekki gagnrýni heldur býr til nýjar áætlanir og kynnir þær með miklum látum þegar að fyrri áætlanir hafi ekki staðist. En hingað og ekki lengra. Borgarbúar hafa áttað sig þessum þreytta og síendurtekna talnaleik. Nú þarf að hvíla flugeldasýningarnar og hætta að hafa borgarbúa að fíflum.

 

Grein birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2017


Hvar er áherslan á breytingar?

Lítið hefur verið hlustað á áhyggjur okkar Sjálfstæðismanna í borginni um að þau þjónustukerfi sem borgin rekur þurfi að fara í gegnum talsverðar breytingar til að vera tilbúin til að takast á við breytingar á aldurssamsetningu og fjölda vinnandi fólks. Ef málunum er pakkað inn þýðir þetta að fást verður við að mæta því hvernig bjóða má upp á fullnægjandi þjónustu fyrir fleiri án þess að meiri tekjur fylgi. Við höfum lagt áherslu á að innleiða tækninýjungar í velferðarþjónustuna við lítinn hljómgrunn. Við lögðum til strax í upphafi kjörtímabils að árið 2015 yrði 40 milljónum veitt í að skipuleggja slíkt breytingarferli í velferðarþjónustunni. Sú tillaga var felld. Í dag skilst mér að hálft stöðugildi (af um 7 þúsund) sinni innleiðingu velferðartækni hjá Reykjavíkurborg. Sem sagt engin áhersla lögð á þessi mál.

Ég var rétt í þessu að glugga í skýrslu sem gefin er út af Brussel skrifstofu sambands íslenskra sveitarfélaga og tekur á helstu málum ESB og EFTA árið 2017. Óháð því hvað mér finnst um rekstur þeirrar skrifstofu þá er þetta ágætis samantekt. Finn þarna samhljóm við stefnu okkar Sjálfstæðismanna í borginni hvað velferðarmálin varðar og einmitt þau mál sem of lítil áhersla er lögð á. Svo er þarna fleira áhugavert sem ég deili með ykkur svona á þessum fyrsta degi sumars :-)

Þetta er sem sagt samantekt um framtíð Evrópu:

"Evrópuþingið rekur hugveitu til að greina framtíðaráskoranir og helstu mál á döfinni. Meðalaldur hækkar stöðugt um allan heim og ef ekkert er að gert mun þessi þróun grafa undan velferðarkerfum eins og við þekkjum þau í dag og fólk mun þurfa að vinna talsvert lengur fram eftir aldri en nú. Meðalaldur í Evrópu 2030 verður 44 ár og sá hæsti í öllum heimsálfum. Meðalaldur á heimsvísu verður 33 ár. Hækka verður framlög til heilbrigðiskerfa umtalsvert og viðskiptamódel munu gerbreytast. Innflytjendamál verða áfram ofarlega á döfinni; vegna skorts á vinnuafli vegna lágrar fæðingartíðni, vegna aukinnar misskiptingar og vopnaðra átaka og jafnvel vatnsskorts. Tækninýjungar munu umbreyta heiminum á öllum sviðum; t.d. fjölmiðlum, lýðræðismálum og heilbrigðisþjónustu, vélmenni munu vinna sífellt fleiri störf sem nú er sinnt af fólki og þorri mannkyns mun búa í þéttbýli í framtíðinni. Þá er uppgangur lýðskrumara og þjóðernissinna einnig áhyggjuefni. ESB telur brýnt að móta langtímastefnu til að bregðast við ofangreindum áskorunum."


Bólusetningar - er meiri alvara á ferð en haldið var?

Fyrir um 2 árum lögðu fulltrúar borgarstjórnarhóps Sjálfstæðismanna fram tillögu um að óbólusett börn fái ekki leikskólapláss í Reykjavík. Þetta þótti borgarstjóra vanhugsað og róttækt og tillagan var felld.

Engar breytingartillögur komu fram hjá meirihlutanum í Reykjavík né var tillögunni sýndur lágmarksáhugi og vísað til Skóla- og frístundaráðs til frekari skoðunar ef hugsanlega mætti finna betri flöt á málinu. 

Í umræðum um málið kom fram að borgarstjóri teldi betra að borgin gæti farið í samráð við Landlæknisembættið um að fræða foreldra um gildi bólusetninga og styrkja heilbrigðiskerfið. 

Ég hef ekki orðið vör við það samráð frekar en flest annað samráð sem meirihlutinn telur engu að síður að hann standi fyrir!

Taka ætti málið upp að nýju.


Kaldar kveðjur úr ráðhúsinu

Það er meiriháttar að lesa skrif borgarstjórans sem sendir þessa helgi sem aðrar út áróðurbréf sitt á borgarstarfsmenn. Nú hefur hann áttað sig á því að hann hefur fallið á vaktinni og er að reyna að grafa upp skýringar úr fyrndinni.

Bréfið hefst svona "Eitt mesta óheillaskref sem stigið hefur verið í húsnæðissögu þjóðarinnar var þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gekk milli bols og höfuðs á verkamannabústaðakerfinu um síðustu aldamót. Það hafði byggst upp á meira en hálfri öld og veitt þúsundum fjölskyldna öruggt skjól. Ekkert var sett fram í staðinn. Markaðurinn átti að leysa málið. Þetta voru alvarlegar villigötur sem samfélagið er ennþá að súpa seyðið af." 

Um daginn var það leiðréttingin sem var skýringin á öllum húsnæðisvandræðum meirihlutans.  Í dag er það þessi. Sannleikurinn er sá að á hans vakt hefur félagslegum íbúðum ekki fjölgað nema brot af því sem talið er eðlilegt. Eitt af hlutverkum sveitarfélags er að sjá til þess að hægt sé að aðstoða þá sem í brýnni þörf eru um húsnæði. Þá hefur Dagur B. Eggertsson staðið í vegi fyrir því að gæta þess að nægt framboð sé á lóðum sem er grundvöllur þess að húsnæðisþörfinni í borginni sé mætt.

Húsnæðismál borgarinnar eru í meiriháttar ólestri. En það er auðvitað sárt fyrir borgarstjóra og fylgifiska að horfast í augu við þau mistök sem gert hafa verið á undanförunum árum á þeirra vakt. Erfið er upplifunin nú að sá sofandaháttur er orðinn valdur að því að efnaminna fólki er haldið í fátæktargildru uppsprengds húsnæðisverðs. 

Nú slær borgarstjóri sig sjálfur til riddara fyrir að hafa samið við ASÍ um uppbyggingu leiguíbúða. Aðgangur að þeim íbúðum verður fyrir félagsmenn og líklega verður um einhvers konar lottóaðferðir að ræða. Niðurstaðan er að lítill hluti efnaminni verður heppinn á kostnað annarra og fær inni í niðurgreiddri leigu. Ekkert er gert fyrir þá sem þykja í brýnni þörf og sitja biðlista eftir félagslegu húsnæði sem er samt sá hópur sem þyrfti mesta aðstoðina. 

Kveðjan er köld til efnaminnsta fólksins í borginni,
jafnköld og súpa dagsins til hinna eldri.

 

 

 

 


Betur má ef duga skal

Ljóst er að þéttingin í Reykjavík gengur hægar en áætlað var og aðeins komu 1557 fullbúnar íbúðir inn á markaðinn á bilinu 2010 -2015 eða um 260 á ári. Í áætlunum eru auðvitað mun betri töluleg gögn en ennþá eru það aðeins áætlanir. Tölur fyrir 2016 benda ekki til þess að fjölgun íbúða haldi áætlun heldur sé mun minni.

Talið er að uppsöfnuð þörf í Reykjavík sé um 4000 íbúðir og að eins verði að koma 1000 íbúðir inn á markaðinn á ári til að bregðast við fólksfjölguninni og uppsafnaða vandanum. Neyðarástand hefur skapast á húsnæðismarkaði og í ljósi þess hefði verið ástæða fyrir meirihlutann í Reykjavík að endurskoða áætlanir borgarinnar.

Í Úlfarsárdal má vinna að mun stærri byggð en áætlað er og það væri hægt að hraða uppbyggingu minni og meðalstórra íbúða verulega ef horft væri til þess svæðis. Nú er skipulögð 9 þúsund íbúða byggð þar en hún gæti verið mun stærri væri vilji væri til.

Meirihlutinn vill meina að slík "uppbygging upp til heiða" myndi kollvarpa öllum plönum um að minnka bílnotkun og að umferðarvandinn yrði verulega mikið verri en hann er í dag og því er engu tauti við hann komandi.

Nú eru hins vegar komin drög að borgarlínu. Borgarlínan verður veruleg umbylting í almenningssamgöngum meðal annars frá Reykjavík og upp í Mosfellsbæ. Borgarlínan getur orðið til þess að ferðum á bíl fækkar. Greinilegt er að meirihlutinn treystir sér ekki til að sjá það fyrir sér.

Þá vill meirihlutinn í Reykjavík ekki taka með í reikninginn alla þá fjölgun sem hefur orðið í sveitarfélögunum í kring sem að sjálfsögðu leiðir til enn frekari umferðarvanda í Reykjavík, sama vanda og þau eru að forðast með því að vilja ekki horfa til Úlfarsárdalsins. Og þá er ekki talið upp þá fjöglun sem fylgir ferðamönnum. 

Þéttingaráformin í Reykjavík eru góð og gild, en þau duga ekki lengur ein og sér. Það er ábyrgðarleysi að vilja ekki bregðast við því neyðarástandi sem hefur myndast í borginni.


Ruslið í Reykjavík

Meirihlutinn í Reykjavík er lítið fyrir að gæta hagsmuna borgarbúa. Tekjur borgarinnar hækka gríðarlega í gegnum útsvar og fasteignagjöld en meirihlutinn sér enga ástæðu til að reyna á sig í að leyfa borgarbúum að njóta þess.

Hér er ein staðfestingin af mörgum.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem ekki hefur boðið út sorphirðu frá heimilum. Augljóst er að mögulegur ávinningur borgarinnar af því að nýta samkeppnisútboð er mikill.

Þetta og fleira áhugavert segir í bréfi til okkar borgarfulltrúa frá Íslenska gámafélaginu sem meirihlutinn í Reykjavík heldur úti í kuldanum ásamt öðrum þeim sem hugsanlega myndu í bjóða í sorphirðuna í Reykjavík gæfist færi á því. Þetta hefur margoft verið lagt til af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins en viðbrögðin meirihlutans engin.

"Taflan sýnir fjórar mismunandi útfærslur á sorpgjöldum fyrir Reykjavík. Í þremur tilvikum reyndust sorpgjöld í borginni vera á bilinu 30% til 95% hærri en í hinum sveitarfélögunum. Í einu tilviki, þar sem miðað er við að heimili sé með minni gráa tunnu og sleppi blárri endurvinnslutunnu, reyndist gjaldið vera 4% lægra en hjá hinum sveitarfélögunum." segir með myndinni, í ofangreindu bréfi.

 

ruslið í reykjavík

 


Úr 50 í 40 - fyrir hvern?

Hæga umferðin sem skapast á álagstímum til dæmis á Hringbraut og Miklubraut er gríðarlega mikið mengunarvandamál og er skiljanlega óbærileg fyrir íbúa. Á þeim stöðum og tíma er umferðin frá 0-30 km/klst (ekki vísindalegt mat en raunsætt held ég).

Lækkun í 40 km/klst hámarkshraða kemur því vandamáli þá lítið við. Nema auðvitað til að hægja á umferð þegar ekki er álag og færri eru á ferli. Í hvers þágu er þá tillaga meirihlutans? 

SipulagssjáYfirlitsmyndin er úr skipulagsvefsjánni þar sem hægt er að fletta upp öllu mögulegu meðal annars vegum og hvað má keyra hratt hvar. Þessi mynd sýnir þjóðvegi þar sem keyra má á 50+.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband