Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Trúverðugleiki meirihlutans lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum

Eftirfarandi fréttatilkynning fór frá borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins í gær eftir umræður um ályktunartillögu meirihlutans um að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB. Sjálfstæðismenn lögðu fram aðra eftirfarandi tillögu sem var felld.

 

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeim vilja sem fram hefur komið að ná sem breiðastri sátt um næstu skref í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Með því getur Alþingi leitast við að vinna gegn þeirri tortryggni, sem einkennt hefur umræðuna um málið frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hóf aðildarviðræður á árinu 2009 án þess að vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Trúverðugleiki borgarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins er lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum í ljósi þess m.a. að mótmæli 70.000 einstaklinga gegn því að Reykjavíkurflugvöllur yrði færður úr Vatnsmýrinni í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur voru höfð að engu fyrir fáeinum mánuðum. Eins var farið með mótmæli foreldra vegna sameiningar skóla í Reykjavík.

 

Ítrekuð er sú stefna borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins að vinna að niðurstöðum allra mála í góðri sátt við borgarbúa og að vísa ákvörðunum í mikilvægum málum til þeirra og er Alþingi hvatt til að kanna allar leiðir sem færar eru til að vinna í víðtæku samráði.“

 

Tillagan var felld með 10 atkvæðum gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

 


Svigrúm óskast - "Hótel mamma" segir upp

Alvarlegt ástand ríkir í húsnæðismálum á meðal ungra Reykvíkinga í dag. Hátt leiguverð, lóðaskortur og langir biðlistar eftir stúdentaíbúðum eða skortur á almennum leiguíbúðum gera það að verkum að margt ungt fólk sér ekki fram á að geta flutt úr foreldrahúsum og stofnað eigið heimili. Ef ekki verður brugðist við þessu óvissuástandi sem allra fyrst þá er hætt við að ungt fólk flýi borgina. Slíkt er alvarlegt því í framtíðinni þarf samfélagið á kröftum þess og hugmyndum að halda.

Pólitísk töf
Lítið annað þarf en pólitískan vilja til þess að hætta að tefja uppbyggingu. Á einkamarkaðinum hafa fullskapaðar hugmyndir um góðar lausnir litið dagsins ljós. Lítið virðist ganga við endurskoðun byggingarreglugerðar og meirihlutinn í Reykjavík leggur áherslu á að miðstýra verkefni sem búið er að leysa í stað þess að einbeita sér að því að hleypa uppbyggingunni af stað. Uppbygging á kjörtímabilinu hefur verið kjánalega lítil auk þess sem algjörlega hefur verið vanmetið hversu margar íbúðir eru nú leigðar til ferðamanna og standa íbúum ekki lengur til boða. Talið er að hér sé um allt að 1500 íbúðir að ræða.

Hversu lengi á að bíða?
Til styttri tíma mætti til dæmis sjá fyrir bráðabirgðalausnir á borð við smáhýsalausn sem kynnt var fyrir nokkrum dögum eða þá að gefa hugmyndum þeirra sem unnið hafa að lausnum til að mæta eftirspurn eftir minni og ódýrari íbúðum byr undir báða vængi. Arkitektar, hönnuðir og byggingaraðilar hafa ekki setið aðgerðalausir heldur unnið að lausnum sem horfa ætti til.

Hægt væri að byggja upp slíkar íbúðir með stuttum fyrirvara fengjust lóðir við hæfi. Með slíkri innspýtingu gæti síðan fjöldi ungs fólks komið sér upp heimili í litlum og vistvænum íbúðum. Árangursríkast er að láta einkamarkaðinn um að anna eftirspurninni og einbeita sér að því að reglugerðir og tafir ríkis og borgar verði ekki til þess að gera vandamálið enn stærra. Einkaaðilar áætla að hægt væri að bjóða 35 fermetra stúdíóíbúðir á um 80 þúsund krónur á mánuði miðað við núverandi verðlag fái þeir sveigjanleika til þess að hefja uppbyggingu. Þess ber að geta að það er í raun ódýrt verð ef miðað er við það leiguverð sem Reykjavíkurborg innheimtir fyrir félagslegar íbúðir. En þar er leiguverð fyrir 40 fermetra á milli 60-100 þúsund krónur.

Einföldum málin 
Nauðsynlegt er að stórauka lóðaframboð í Reykjavík. Til að auka fjölbreytileika bygginga á hinum nýju lóðum væri skynsamlegast að endurskoða núverandi fyrirkomulag lóðaverðs, falla frá þeirri stefnu sem nú gildir að lóðaverð miðast ekki einungis við fermetrafjölda fasteignar heldur fjölda íbúða í hverri fasteign. Verð lóðar hækkar þannig með hverri íbúð sem við bætist. Þetta hindrar í raun uppbyggingu minni íbúða. Þar að auki er mögulegt að skapa aukna hvata á fasteignamarkaði til minni tilkostnaðar við byggingu fasteigna, hagkvæmara söluverðs og lægra leiguverðs með því að lækka verulega lóðagjöld í Reykjavík. Með fyrrnefndum breytingum yrði dregið úr hindrunum sem eru nú í vegi þeirra sem vilja byggja ódýrari og minni íbúðir fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, fjölskyldur sem eru að koma upp sínu fyrsta heimili eða aðra hópa sem ekki finna húsnæði við hæfi.

Höfnum skammtastefnunni
Heilbrigð blanda af skammtíma og langtímaaðgerðum í húsnæðismálum ungra Reykvíkinga, þar sem lagt er upp með að leyfa einstaklingsframtakinu að blómstra og mynda þannig fjölbreytta og vistvæna byggð, er leiðin til árangurs. Höfnum húsnæðisskömmtunarstefnunni og setjum frekar fjölbreytileikann í forgang og veitum markaðnum svigrúm til að bregðast við nýrri eftirspurn.

Ekki nóg að fara með fögru orðin


Fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fór ég fyrir umræðu um aðgengismál á borgarstjórnarfundi í gær. Algjörlega er til skammar er að borgin sé ekki komin lengra í aðgengismálum og hægt er að gagnrýna seinagang meirihlutans við að skipa fólk í átakshóp umhverfis- og samgönguráðs sem einmitt átti að fjalla um áherslur og verkferla um bætt aðgengi en sú tillaga var samþykkt fyrir sex mánuðum síðan. 

Borgin hefur gefið skýringar og svör við gagnrýni hagsmunaaðila á frágang við Hverfisgötu og hluti skýringanna er að húseigendur hafi ekki beðið um að aðgengi að húsum yrði bætt - en slíkar beiðnir yrðu samþykktar ef þær skertu ekki gæði götunnar. 
 
Það gengur ekki upp að setja aðgengismál í stefnuskrár og fara um þau fögrum orðum en þegar kemur að framkvæmd þá beri einhverjir aðrir ábyrgðina á því að breytingar nái í gegn. Ég efast um að allir þeir sem við Hverfisgötuna búi eða stunda verslun viti hvaða loforð eða sáttmála borgarstjórn hefur samþykkt. Ekki er hægt að vísa ábyrgðinni til húseigenda. Þrátt fyrir að húseigendum beri að kosta ákveðin hlut framkvæmda samkvæmt núgildandi reglum getur borgin ekki komið sér hjá því að hún hefur það hlutverk að stuðla að því að þær framkvæmdir verði að veruleika. 
  

Nokkur umræða varð í borgarstjórn að skökku skyti að borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna vildu að Reykjavíkurborg kæmi að framkvæmdum hjá einstaka íbúum. Slíkt er útúrsnúningur, því hægt er að stuðla að og hvetja til aðgerða með kynningu og samráði, og einnig er mikil ástæða að ræða hið stóra grundvallarmál um forgangsröðun eða af hverju þyki eðlilegt að gefa afslátt af kröfum um aðgengi á meðan algjörlega sjálfsagt að setja snjóbræðslukerfi í götur. Þess má geta að kostnaðurinn við endurnýjun götunnar er um milljarður króna.

Bókun okkar: 
 „Mjög mikilvægt er að huga að aðstæðum allra þegar götur borgarinnar í eldri hverfum eru endurnýjaðar. Við endurgerð gatna skapast tækifæri til þess að færa ferlimál fatlaðra til nútímans. Það eru sjálfsagt og stórt mannréttindamál sem borgin á að beita sér fyrir og taka frumkvæði að. 
 
Sjálfsagt er að vinna með þeim sem eru fatlaðir, samtökum þeirra og félögum þegar leitað er leiða til að gera betur. Auk þess er nauðsynlegt að gera þeim sem vilja gera úrbætur á húsnæði sínu kleift að nýta tímann þegar framkvæmdir eiga sér stað að gera breytingar í leiðinni eða kynna fyrir aðilum hvaða leiðir eru færar. Við endurgerð Hverfisgötu virðist alveg hafa gleymst að leita eftir samráði.

Fyrir nokkrum mánuðum var tillaga um sérstakan átakshóp um aðgengi samþykkt í umhverfis og skipulagsráði, að frumkvæði Sjálfstæðismanna í því ráði en meirihlutinn hefur ekki séð sér fært að ákveða skipun hópsins þrátt fyrir að um það bil hálft ár sé liðið frá því tillagan var lögð fram.“
 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband