Færsluflokkur: Bloggar

Er lýðræði klikkun?

Í gær birti DV frétt með fyrirsögninni "þetta er ekkert annað en þöggun". Stórkostleg fyrirsögn eins og þeim er lagið.

Tilefnið var að Margréti nokkurri Tryggvadóttur þingmanni Hreyfingarinnar fannst ótækt og klikkað að fulltrúar í menningar - og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar legðu fram fyrirspurn um ástæðu þess að útfærð hafði verið fundarröð um kosningarnar 20. október þar sem þau Eiríkur Bergmann og Sigríður Ólafsdóttir svöruðu spurningum fundarmanna.

Fyrir liggur og þekkt er að bæði Eiríkur og Sigríður eru á þeirri skoðun að þeim finnst að samþykkja eigi tillögur stjórnlagaráðsins. Fyrir liggur einnig að fjölmörgum þykir það ekki góð hugmynd. Af þeim ástæðum fannst fulltrúum í menningar- og ferðamálaráði eðlilegt að leita skýringa á þessu og um leið koma á framfæri þeirri skoðun sinni að mikilvægt væri að ólík sjónarmið hefðu talsmann á fundum sem opinberar stofnanir halda. 

Maður myndi ætla að slíkt ætti ekkert skylt við þöggun heldur frekar lýðræði.

 

 

 


Sanngirni, móðganir og fegrunaraðgerðir

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fer nú fram. Í morgun kom glöggt fram hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að erfiðleikar eru í samstarfi sveitarfélaga við ráðherra ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega fjármálaráðherra.

Ósanngirni ríkisstjórnarinnar
Þarna nefndi formaðurinn sem dæmi að ríkisstjórnin sýni engan vilja til að koma til móts við gífurlegan kostnað sem hljótast mun af því þegar 1800 manns munu missa atvinnuleysisbótarétt um áramót. Ákveðinn fjöldi mun þá þurfa að leita til sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fram kom að hér væri áætlað að kostnaður sveitarfélaga myndi þá fara úr 2,6 milljörðum króna og í 5-5,5 milljarða króna.

Á sínum tíma þegar atvinnuleysi jókst þótti sanngjarnt að sveitarfélögin tækju meiri þátt í greiðslu tryggingagjalds. Sveitarfélögin féllust á þetta. Nú hins vegar hefur dæmið snúist við. Ljóst er að atvinnuleysistölur Hagstofunnar lækka en það er vegna þess að atvinnulausir teljast nú skjólstæðingar sveitarfélaganna. Ástæðurnar hefur ríkisstjórnin hins vegar á ósvífin hátt  talið vera ótrúlegan eigin árangur. Sveitarstjórnarmenn vita að svo er ekki. Og nú telur ríkisstjórnin hins vegar engan veginn hægt að horfa til sanngirnissjónarmiða og fellst ekki á það að nú eigi sveitarfélögin að greiða minna tryggingargjald! Ósvífni og óbilgirni sagði formaðurinn og sveitarstjórnarmenn taka undir það.

 

Móðgaður fjármálaráðherra móðgar sveitarstjórnarfólk
Næst steig fjármálaráðherra á stokk og átaldi formann Sambandsins fyrir að hafa talað um óbilgirni og taldi formanninn hafa móðgað sig. Í kjölfarið vindur ráðherra sér í að kynna nýjustu útgáfu ríkisstjórnarinnar: Ríkisbúskapurinn 2013-2016. Það er mál manna hér á fundinum að önnur eins fegrunartilraun hafi varla sést og það á kostnað skattborgara. Í ritinu er ekki orði minnst á hið dulda atvinnuleysi sem sveitarfélögin bera. Hvergi talað um að hagvöxturinn sem drifinn er af einkaneyslu sé fjármagnaður með skuldasöfnun. Ritið endurspeglar svo ótrúlega vel hversu ósvífin og óbilgjörn þessi ríkisstjórn er. Sem betur fer styttist í kosningar.


Ríkisstjórnin er fallin!

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson var með fund í Valhöll í morgun þar sem hann fór yfir stærstu atriðin í aðdraganda kosninga. Vel var mætt og fundurinn góður.

Aukin jöfnuður  eða hærri laun fyrir alla tekjuhópa.
Farið var yfir hverju skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað. Eins og alþjóð veit hefur ríkisstjórnin haldið því fram sigri hrósandi að hafa aukið jöfnuð og vinstri menn fagna. En hvert er markmið þeirra með auknum jöfnuði. Í ljós kemur að ríkisstjórnin  hefur með skattastefnunni lækkað laun láglaunafólks þó að laun hálaunafólks hafi lækkað enn meira. Niðurstaðan er því – allir tapa. Er það markmiðið með jafnaðarstefnunni? Furðulegt er að fólk sjái ástæðu til að fagna þessu.


Minna atvinnuleysi en færri störf
Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að atvinnuleysi hafi minnkað svo nú sé ástæða til að gleðjast og þakka sér fyrir góð störf. Já störf, þarna er lykilorðið! Störfum hefur nefnilega ekki fjölgað þeim hefur fækkað. Í  Reykjavík hefur störfum t.d. fækkað um 8400 síðan 2007. 

Ítrekað er búið að benda ríkisstjórninni á það að skoða verði fleiri tölur og ná stærra samhengi áður en farið er að gleðjast yfir árangrinum. Þá sést glöggt að atvinnuleysið hefur lítið breyst, vandamálinu hefur verið ýtt yfir á sveitarfélögin sem nú berjast í bökkum við að reka mannsæmandi velferðarþjónustu. Í atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunar er ekki gert ráð fyrir atvinnulausum einstaklingum sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta en eru í engum öðrum skilningi neitt annað en atvinnulausir.  Fjöldi fólks hefur einnig leitað í nám eða ákveðið að leita sér að vinnu erlendis.


Fjárfesting í sögulegu lágmarki - sótt að atvinnugreinum.
Með aukinni verðmætasköpun verða til fleiri störf.  Fulltrúar og áhangendur ríkisstjórnarinnar hafa farið offari undanfarið í að draga fram sýndarárangur ríkisstjórnarinnar. „Landið rís“ og fleiri góðum slögurum hefur verið fleygt á loft. Því er haldið fram að hagvöxtur hafi aukist sem sanni góðan árangur. En hagvöxturinn er ekki fjárfestingadrifinn heldur er  á kostnað einkaneyslu í landinu sem er að mestu fjármögnuð með lánum, úff.  


Ríkisstjórnin sækir að atvinnugreinum með skattahækkunum og álögum sem verður til þess að störfum fækkar enn meira, ekki verða sömu skilyrði fyrir nauðsynlegar fjárfestingar. Hætta er á því að gæði minnki og samkeppisstaða versni. Um leið verður ríkiskassinn af sköttum og er verr í stakk búinn til að greiða niður skuldir.  Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Fjárfestingar hafa ekki verið minni á Íslandi síðan í lok seinni heimstyrjaldarinnar.  


Á meðan sú ríkisstjórn sem nú situr fær frið til þess, er lífsgæðum okkar og velferð stórlega ógnað.


Er ríkisstjórninni í nöp við atvinnulífið?

Í myndbandinu sem vísað er á hér fyrir neðan kristallast árangursleysi ríkisstjórnarinnar - störfum á Íslandi hefur fækkað um 9.900 frá 2007 og fækkunin í Reykjavík er talin um 8.400 eða um 85% af heildarfækkun. Reykjavík er að kikna undir álagi vegna atvinnuleysis og þörf á fjárhagsaðstoð. Ríkisstjórnin virðist ekki geta staðið við neitt eða hafa engan vilja til þess. Slóðin á myndbandið er http://www.youtube.com/watch?v=KGHCVbJN_R8&feature=plcp


Er öll vitleysan eins?

Í morgun hélt KPMG opinn fund um skattaumhverfi í ferðaþjónustu. Greint var frá könnun sem fyrirtækið gerði hjá um 35 hótelum sem saman sinna í um 80% af hótelrekstri á landinu.

Athyglisvert var að sjá að rekstrarafkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu er mun minni en hótelanna úti á landi. Talið er að sterk samkeppni bæði milli hótela og einnig hótelanna við gistingu af öðru tagi hafi þar mikið um að segja. Þá var einnig nefnt að einnig gæti þetta tengst því að laun væru lægri a landsbyggðinni og að þar hefðu menn sveigjanlegra umhverfi t.d. væri auðveldara að loka yfir ákveðið tímabil þegar minnst væri um ferðamenn.

Könnun KPMG sýnir að hækkun virðisaukans yrði hrein og klár aðför að ferðaþjónustunni!

Niðurstaða fundar KPMG var afar skýr. Verði hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkanir á virðisaukaskatti að veruleika  er ekki grundvöllur fyrir óbreyttum rekstri hótelanna sem munu þá skila tapi. 

Horft var til þriggja mögulegra dæma um hvernig brugðist yrði við hækkunum. Allar leiðirnar sýna skýrt og greinilega að virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustuna er enginn kostur og getur jafnvel leitt til þess að ríkissjóður verður af meiri tekjum en því sem nemur tekjum af hærri virðisaukaskatti.

 

Hvað gera borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta?

Nú stendur yfir fundur í borgarráði Reykjavíkurborgar þar sem ræða á um áhrif þessara fyrirhuguðu hækkana á störfin í borginni. Helsti ráðgjafi borgarráðs er fulltrúi fjármálaráðuneytisins og fróðlegt verður að heyra hvernig menn líta á málin þar á bæ. Munu borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta í borginni ekki mótmæla því að þessari vitleysu verði komið á. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bíðum eftir því að heyra þau svör. Í ljósi þess að störfum í Reykjavík hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum - mun meira en annars staðar á landinu ættu fulltrúar meirihlutans ekki að þurfa að vera að velkjast í vafa um svona mál.

 

Atvinnustefna Reykjavíkur í gíslingu

Á borgarráðsfundi sl. fimmtudag þann 16. ágúst lögðu félagar mínir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að borgarráð samþykkti eftirfarandi tillögu. Tillögunni var frestað og fróðlegt verður að sjá hvernig því mun lykta. Meirihlutaflokkarnir bóka á þá leið að mikilvægt sé að ríki og borg vinni saman að því að skapa ákjósanlegt rekstrarumhverfi í Reykjavík - nokkuð vel gert! Atvinnustefnan var nú líka samþykkt í fyrra. Nú er spurning hvort að Jóhanna hlusti á varaformann sinn úr borginni þegar hún tekur ákvarðanir, Besti bíður bara rólegur og vatnsgreiddur á meðan.

Tillagan:

"Borgarráð hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að endurskoða áform um skattahækkanir sem augljóslega munu hafa mjög alvarleg áhrif á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og bitna sérstaklega hart á reykvísku atvinnulífi. Reykjavíkurborg er ferðamannaborg og stefnir að því að auka þátt ferðaþjónustunnar. Í höfuðborginni eru staðsett flest hótel og gistihús landsins og
fjölmörg fyrirtæki byggja afkomu sína á annars konar þjónustu við ferðamenn. Áhugi á uppbyggingu nýrra hótelrýma hefur gefið góða von og endurspeglað trú á bjarta framtíð greinarinnar en hækkun virðisaukaskatts á gistingu úr 7% í 25,5% mun augljóslega setja mörg slík áform í uppnám. Hótel og gistihús starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og hafa takmarkað svigrúm til þess að fleyta
hækkunum sem þessum út í verðlagið.

Auk þess er verð gistinátta gefið út með löngum fyrirvara og verður ekki breytt eftir á. Borgarráð hvetur til samráðs við samtök ferðaþjónustunnar og bendir á mikilvægi upplýsingaöflunar en á það
hefur skort.

Fjármálaráðuneytið hefur þess vegna ekki haft nægilegar forsendur, að því er virðist, til þess að meta víðtæk áhrif hækkunar virðisaukaskatts en skattahækkun upp á 17,3% á eina skilgreinda atvinnustarfsemi á sér vart fordæmi. Fyrirhugaðar skattahækkanir munu leiða til lækkunar tekjuskattsgreiðslna í greininni og veruleg hætta er á að þær muni leiða til aukinna undanskota og skila sér þannig í óheilbrigðara viðskiptaumhverfi. Borgarráð bendir sérstaklega á þann fjölda fólks sem byggir framfærslu sína og fjölskyldna á störfum sem skapast hafa  ferðaþjónustu en augljóslega mun hækkun virðisaukaskatts leiða til samdráttar og uppsagna starfsfólks. "


Hrikaleg niðurstaða í borginni

Ótrúlegt að pólitískir fulltrúar sem taka ekki betur á rekstri borgarinnar telji sig hafa eitthvað þangað að gera - þeir forgangsraða ekki og skilja ekki að það þarf að taka á honum stóra sínum svo kerfi belgist ekki út. Að þeirra mati er sanngjarnt að kerfið belgist út á kostnað borgara.

Útsvar í botni, stórfelldar og ósanngjarnar hækkanir Orkuveitunnar (tala nú ekki um að hækka meira þann lið sem ekki er hægt að kaupa annars staðar) og hækkanir á öðrum gjöldum. 

A hluti er rekinn með 2,8 milljarða króna halla á meðan áætlun gerði ráð fyrir 66 milljónum í hagnað. Hagræðingarhugmyndir hafa engu skilað.

Hversu lélegt er þetta? 

 

 

 

Læt fréttatilkynningu okkar fylgja hér fyrir neðan:

Fréttatilkynning borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins:

Borgarbúar greiða fyrir stóraukin rekstrarkostnað kerfisins,

- Aukin skattheimta, skuldir aukast, lítið aðhald í rekstri, áætlanir standast ekki og hagræðingar sem ekki skila neinum ávinningi


Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram á fundi borgarstjórnar í dag.  ,,Niðurstöður reikningsins staðfesta mun lakari afkomu en áætlanir gerðu ráð fyrir, ónógt aðhald, ófullnægjandi árangur í hagræðingu og almennt ranga forgangsröðun í þágu kerfisins en á kostnað fólksins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru að rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 2.808 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 66 mkr.  Niðurstaðan er því verri en gert var ráð fyrir, sem nemur 2.874 mkr.  Sama þróun er í samstæðunni, A- og B- hluta, en þar er rekstrarniðurstaðan neikvæð um 4.675 mkr en átti að vera jákvæð um 3.400 mkr.  


Endurspeglar ár af mörgum röngum ákvörðunum

Hanna Birna segir ársreikninginn endurspegla ár af mörgum röngum ákvörðunum, hversu illa áætlanir meirihlutans standast og hversu lítill árangur hefur náðst í hagræðingu. Skatttekjur borgarinnar aukast um 16% á milli ára, sem þýðir að ætla megi að borgarbúar séu að greiða rúmlega 3.000 mkr meira í skatta en í fyrra.

Á sama tíma eykst rekstarkostnaður verulega á milli ára, samhliða því sem hann er mun hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. ,,Þannig vex kerfið á kostnað borgarbúa sem þurfa einmitt á því að halda að greiðslubyrði þeirra minnki. Borgarbúar líða fyrir það stefnu- og alvöruleysi sem ríkt hefur við stjórn borgarinnar á þessu kjörtímabili. Til að mæta þessum vexti í kerfinu seilist meirihlutinn stöðugt dýpra í vasa borgarbúa og lætur þá greiða fyrir eigið stjórnleysi með stóraukinni skattheimtu,“ segir Hanna Birna og bætir því við að  ársreikningurinn beri þannig ekki með sér góðar fréttir fyrir borgarbúa en staðfesti þá miklu gagnrýni sem verið hefur á fjármálastjórn meirihlutans.

Hanna Birna segir þennan viðsnúning til hins verra í rekstri borgarinnar og það hversu illa allar áætlanir standist, krefjast þess að meirihlutinn tileinki sér önnur og betri vinnubrögð við fjárhagsáætlunagerðina. ,,Borgarbúar eru einfaldlega að gjalda fyrir ranga forgangsröðun og vond vinnubrögð þessa meirihluta, samhliða því sem ársreikningurinn staðfestir að meintar hagræðingaraðgerðir meirihlutans skila ekki árangri, enda unnar án nokkrus samráðs við íbúa, starfsfólk eða kjörna fulltúa.“


Skuldir borgarinnar aukast um 56% frá 2009

Það er ekki eingöngu rekstrarkostnaður sem fer úr böndunum heldur hefur skuldsetning borgarinnar aukist um 56% á tveimur árum. Uppgreiðslutími lána fer hækkandi en árið 2009 hefði það tekið borgina 2 ár að greiða niður skuldir sínar en í lok árs 2011 tekur það borgina 5 ár að greiða niður skuldir. Þetta er áhyggjuefni þar sem að aðhald í rekstri borgarinnar er lítið og því gæti skuldaaukning orðið töluverð á næstu árum.


Umdeildar hagræðingaraðgerðir skila engu – rekstrarkostnaður menntasviðs eykst um 10%


Umdeildar hagræðingaraðgerðir í grunnskólum og leikskólum borgarinnar eru ekki að skila fjárhagslegum ávinningi.  Þetta sést best þegar litið er til þess að í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir rekstrarkosnaði sem næmi 18,3 milljarði en raunkostnaður varð 19,9 milljarður eða 9% aukning á kostnaði.  Þetta staðfestir að það sem meirihlutinn hefur boðað sem helstu hagræðingaraðgerðir sínar hafa engum árangri skilað.


Úttekt á söluferli OR

Eftirfarandi tilkynningu var send frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík vegna þess ótrúlega sem átti sér stað þegar eignir OR voru seldar í laumi. Tilkynningin var send á fjölmiðla í gær að borgarráðsfundi loknum. 

"Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu eftir því  á borgarráðsfundi sem var að ljúka að innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar og borgarlögmaður fari yfir söluferli vegna eignarhluta í Enex Kína og Envent Holding.  Óskað er eftir úttektinni þar sem staðfest hefur verið að OR seldi eignarhluti í þessum félögum án auglýsingar og eðlilegra upplýsinga til stjórnarmanna í Orkuveitunni.  

Beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í heild sinni:

Beiðni um úttekt á vinnubrögðum OR vegna sölu opinberra eigna
 

    Staðfest hefur verið að OR seldi eignarhlut REI í tveimur félögum (Enex Kína og Envent Holding) án auglýsingar og eðlilegrar upplýsingar til stjórnarmanna í OR og kjörinna fulltrúa.   Þar sem stjórnendur fyrirtækis og fulltrúar meirihlutans hafa svarað fyrir þessa aðgerð með þeim hætti að þetta standist alla skoðun, samþykktir og reglur, óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri [græn] eftir sérstakri úttekt á sölunni.
     
    Í þeirri úttekt er óskað eftir því að innri endurskoðandi skoði ferlið með hliðsjón af samþykktri skýrslu stýrihóps um málefni OR og REI; ítrekuðum ábendingum umboðsmanns Alþingis; stjórnsýsluúttekt innri endurskoðandi frá september 2008; bókunum og samþykktum eigenda og stjórnar OR um meðferð slíkra ákvarðana; og sérstökum verklagslegum stjórnar OR frá nóvember 2010.  Einnig er óskað eftir því að skoðað verði hvort ætla megi að slíkt ferli án opinberrar auglýsingar hafi skilað fyrirtækinu fullnægjandi verði fyrir umræddar eignir.  Mikilvægt er einnig að fram komi hvort það sé ásættanlegt að sömu starfsmenn OR fari fyrir því að réttlæta og rökstyðja ákvörðunina og tóku hana og framkvæmdu sem stjórnarmenn í dótturfélagi OR.   Að auki fylgi úttektinni álit borgarlögmanns á lagalegri stöðu málsins og þeim skýringum forsvarsmanna OR að ekki hefði verið  hægt að vinna málið með öðrum hætti."


Ótrúlegt - Eignir Orkuveitunnar Enex og Envent Holding seldar í laumi

Grafalvarlegar athugasemdir frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúum Vinstri grænna við það að eignir Orkuveitunnar hafi verið seldar nánast í laumi komu fram í umræðum í borgarstjórn rétti í þessu. Þetta er ótrúlegt miðað við sögu OR og REI.  Ljóst er að meirihlutinn hefur algjörlega hundsað athugasemdir sem Umboðsmaður Alþingis gerði um verklag við sölu eigna ásamt því að fara gegn eigin samþykktum í kjölfar þeirra athugasemda.  

 Algjörlega ljóst er að eignir Orkuveitunnar voru seldar án þess að farið væri eftir samþykktum né verklagsreglum.Eftirfarandi er fréttatilkynning borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna:


Málefni Orkuveitu Reykjavíkur voru rædd á borgarstjórnarfundi í dag.  Tilefni umræðunnar eru upplýsingar um að OR hafa selt eignarhluta sinn í Enex Kína og Envent Holding án auglýsingar.   

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sagði málið grafalvarlegt og bæri þess merki að hvorki Orkuveitan né meirihlutinn í Reykjavík, hefði skilning á mikilvægi þess að fyrirtækið starfi í samræmi við góða stjórnsýslu og skyldur sínar sem fyrirtæki í almannaeigu.   Hún minnti á ítrekaðar samþykktir borgarráðs, borgarstjórnar og stjórnar OR um önnur vinnubrögð.  Hún minnti borgarstjórn einnig á ábendingar og athugasemdir umboðsmanns Alþingis, þar sem áform um sölu opinberra eigna án auglýsingar voru átalin og fylgt var eftir með einróma samþykkt borgarstjórnar um að slíkir starfshættir væru óásættanlegir.

    ,,Það sem nú hefur verið opinberað um þessa sölu er klárlega í algjöru ósamræmi við þetta allt.  Það er auðvitað með hreinum ólíkindum, eftir allt sem á undan er gengið í málefnum þessa fyrirtækis, að það skuli nú selja opinberar eigur almennings án auglýsingar. Ekki aðeins er það í ósamræmi við það jafnræði sem verður að gilda við sölu opinberra eigna, svo allir áhugasamir geti gert tilboð, heldur hlýtur það að vera í algjörri andstöðu við hagsmuni fyrirtækisins um að hámarka söluvirði eigna fyrirtækisins. ´´  


Hanna Birna vakti einnig athygli á því að málið hefði ekki verið formlega samþykkt af stjórn OR, undraðist að hvorki borgarstjóri né meirihlutinn hefði tekið á því með nokkrum hætti síðan það varð opinbert og krafði borgarstjóra um skýr svör.  ,,Á sínum tíma sakaði Dagur B. Eggertsson stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur um að það sem hann kallaði ,,brunaútsölu í bakherbergjum" þegar til stóð að selja eignir án opinberrar auglýsingar.   Núverandi meirihluti verður að svara því hvort síkt er á ferðinni nú.  Það er alfarið á ábyrgð borgarstjóra og núverandi meirihluta að fylgja eftir samþykktum og verklagsreglum.  Í þessu tilfelli var það ekki gert, sem krefst nákvæmrar skoðunar, skýrra svara og ábyrgðar. "


Sameiningar skóla í Reykjavík

Á síðasta borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn 7. febrúar urðu heitar umræður um sameiningarmálin í Reykjavík. Sjálfstæðismenn gagnrýndu vinnubrögð meirihlutans harðlega enda um algjört sýndarsamráð að ræða, hér hefur meirihlutinn verið að kynna sínar tillögur en ekki tekið tillit til þess sem foreldrar og fagfólk hefur að segja.

Þetta bréf sem barst okkur pólitískum fulltrúum í Reykjavík segir allt sem segja þarf. Bréfið sendi Guðmundur Sigurðsson og með hans leyfi birti ég bréfið hér.

"Ég sem kjósandi í Reykjavík, íbúi Hamrahverfis og jafnframt foreldri  barns í Hamraskóla óska eftir að þú hafir aðkomu að málum Hamraskóla varðandi sameiningarmál í sunnanverðum Grafarvogi.
 
Gífurleg óánægja ríkir meðal foreldra barna í skólanum með fyrirhugaðan flutning unglingadeildir yfir í Foldaskóla.

 Samkvæmt samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar varðandi lýðræði og þátttöku er talað um að samráð verði haft við íbúa og foreldra í skipulags-, umhverfis- og skólamálum, það gert markvissara og stutt við aðkomu þeirra að lykilákvörðunum.  Einnig var talað um að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis. Hvar eru efndirnar??????
Að mati foreldra hefur samráð algerlega skort, samtal er ekki sama og samráð!
 
Rökin fyrir sameiningunni eru að það eiga að sparast 28,5miljónir árið 2013.
Það eru samtals 139  nemendur sem áætlað er að flytjist í unglingadeild árið 2014 sem gerir 205 þúsund á hvern nemanda. Við fáum ekki sundurliðun á þessu og á fundi borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 7. febrúar 2012 gat Oddný Sturludóttir ekki frætt aðra borgarfulltrúa um það. En hafði mörg og fögur orð um hvað allir væru duglegir og jákvæðir en mættu að sjálfsögðu hafa aðra skoðun eins og alltaf er. Hafa aðra skoðun á hverju spyr ég??
 
Faglegu rökin eru að í safnskóla er hægt að bjóða upp á fleiri valgreinar fyrir nemendur og stuðla þar með að aukinni sérhæfingu kennara. Þannig má í auknum mæli koma til móts við þarfir sérhvers nemanda.


Sérdeild í Hamraskóla verður lögð niður með afleiðingum sem engin getur ímyndað sér hvaða afleiðingar hafa fyrir þessa mjög svo brothættu nemendur  sem aðrir nemendur í Hamraskóla hafa tekið í sinn hóp með góðum árangri. Í stýrihóp hafa kostir og gallar stórra unglingadeilda mikið verið ræddir og eins hvernig starfinu í Hamraskóla og Húsaskóla verði fram haldið án unglingadeilda. Við þessum hugleiðingum fáum við enginn svör einnig höfum við beðið um að fá að vita hvaða fagaðilar hafa mælt með þessu. Sumir foreldrar eru þá komnir með börn í tvo grunskóla með því óhagræði sem af því hlýst. Þá má búast við að þau 50-60 börn úr Hamrahverfi verði í auknu mæli keyrð í skólann með þeim ókosti sem það hefur í för með sér svo sem eldsneytiskostnaður umferðar þungi og ég tala nú ekki um mengun. Foreldrar hafa valið sér þetta hverfi með þeim kostum og göllum sem það býður uppá, og hefur lítill fámennur skóli verið talinn kostur.  Þá má nefna að Hamraskóli hefur komið mjög vel út í kennslu í samanburði við aðra skóla og tel ég það vera skylda ráðamanna að viðhalda þeim góða árangri sem þar hefur náðst.
 
Ég geri þá kröfu til Besta flokksins og Samfylkingarinnar að standa vörð um okkar ágæta skóla og tryggja velferð barna okkar með því  að fallið verði frá þeirri ákvörðun að flytja unglingadeild Hamraskóla í Foldaskóla.
 
NB: Það var sorglegt að hlusta á umræður á áðurnefndum fundi borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 7. febrúar 2012 ar sem borgarfulltrúar minnihlutans  spurðu spurninga og fulltrúar meirihlutans höfðu mörg og falleg orð um ekki neitt."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband