Færsluflokkur: Bloggar
15.3.2013 | 11:13
Eru kjarasamningar að leggja stein í götu þekkingarsamfélagsins?
Í dag er sveitarstjórnarþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ég var rétt í þessu að hlusta á Claus Mogensen sem kom hingað til að fjalla um stöðu sveitarfélaganna í Danmörku. Hann byrjaði á að fjalla um danska skólakerfið og umræðan var svo ótrúlega kunnugleg. Skemmst frá að segja telur hann að ekki sé hægt að reka skólakerfið áfram eins og það er nú. Árangurinn sé ekki nógu góður en 15% danskra barna uppfyullir ekki skilyrði um læsi og 17% ekki í stærðfræði.
Skólarnir henta vel meðalbarni en þróunin er sú að fleiri og fleiri foreldrar kjósa nú nám í einkaskólum enda gera þeir meiri kröfur um árangur. Nú standi sveitarfélögin í Danmörku bráðum frammi fyrir því að vera að nálgast það að skólakerfið sé að vera markaðsdrifið.
Kennsla er dýr og kennarar kenni aðeins 39% af vinnutímanum. Misræmi sé milli þess hversu mikið er eytt í skólana og árangurs barnanna, en fjármagn virðist ekki vera eina lausn vandans. Það sé algjörlega nauðsynlegt að auka árangur og skilvirkni.
Þær lausnir sem hann kynnti voru á þessa leið. Í fyrsta lagi sé lausnin sé lengri skóladagur, meiri kennsla í Dönsku og stræðfræði, hefðbundin kennsla er leyst af hólmi með leik, meiri æfingum í náminu og að gera heimavinnu. Setja þurfi fá og skýr markmið um hvaða árangri nemendur eigi að ná og vinna hart að þeim. Um leið þurfi meira frelsi fyrir kennara um hvernig á að haga kennslunni, meiri samkeppni milli kennara og skóla.
Í öðru lagi sé lausnin að endurskoða kjarasamningar kennara hjá sveitarfélögum sem nú takmarka mjög hvernig haga má kennslu í skólunum. Kröfur þurfi að gera um að skólastjórnendur fái meira frelsi og vinnutími kennara ætti ekki að fara eftir miðlægum kjarasamningum. Í þekkingarsamélag i er þetta fyrirkomulag engan veginn nóg og alls ekki nógu sveigjanlegt.
Ríkisstjórnin og sveitarfélögin þurfi nú að snúa bökum saman til að breyta þessu kerfi - nú séu allir að kenna kennurunum um að skemma kerfið sem sé ekki málið en hins vegar séu hindranir í að breyta þessu þar sem kjarasamningarnir haldi öllu í gíslingu. Nú þurfi betri nýtingu á tíma kennara, ríkið þarf að styrkja skólana betur, draga þarf úr regluverkinu og innleiða meiri sveiganleika í kennsluna.
Þessi umræða er nákvæmlega sú sama og þarf að fara í gang hér og af alvöru. Ríkisstjórnin hefur frestað upptöku laga sem einmitt fólu í sér að breytingar í þessa átt væri hægt að gera í skólakerfinu. Kjarasamningar mega ekki stýra skólastarfinu og takmarka til dæmis kennslutíma kennara og skólana þarf að reka til að ná árangri fyrir nemendur og þekkingarsamfélagið.
Fyrir nokkrum vikum skrifaði Hermundur Sigmundsson prófessor í Þrándheimi um skólastarf og benti á að við ættum að geta gert miklu betur hér á landi. En hann og samstarfsfólks hans hafa vakið mikla athygli og eru í samstarfi við vísindamenn í Harvard og Cambridge.
Hugmyndir Hermundar og hans félaga felast í því að lagt er til að skóladagurinn hefjist á líkamlegri hreyfingu í klukkustund. Að því búnu taki við þrjár kennslustundir, hver um sig 40 mínútna löng með hléi á milli. Þar sé kenndur lestur og stærðfræði. Eftir hádegi taki síðan við kennsla í öðrum námsgreinum þar sem nemendum er skipt í hópa og aðstoð við heimanám. Með því að einbeita okkur að grunnþáttunum fyrir hádegi sé hægt að bæta lestrarkunnáttu og draga þannig úr þörf fyrir.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mikið um þetta fjallað og stefnan um meira frelsi í skólum og kennslu og áherslan á að kjarasamningar stýri ekki skólastarfi kemur þar skýrt fram. Ljóst er því að umræðan í Danmörku virðist snúast nákvæmlega um þetta enda er framtíð þekkingarsamfélaga byggð á því að vel takist að sinna börnunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2013 | 22:45
Þjónusta fyrir utangarðsfólk
Í þessum stutta greinarbút er ég ekki að halda neinu fram bara velta vöngum.
Þjónusta við utangarðsfólk í Reykjavík er nú til umræðu í starfshópi sem velferðarráð í Reykjavík setti á fót. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem sinnir þessari þjónustu og ríkið hefur lítið skipt sér af þrátt fyrir að af stórum hluta sé um heilbrigðisvanda að ræða. Í Reykjavík eru allir pólitískir fulltrúar sammála um að þessi þjónusta sé mikilvæg og að henni verði að sinna en ennþá ræðum við um leiðir.
Hópurinn áðurnefndi hefur farið yfir stöðu mála, hitt fjölda fólks sem sinnir þjónustunni og þeim sem vel þekkja til þessara mála og ræddar hafa verið ýmsar nálganir. Mjög margt hefur komið til umræðu og á enn eftir að koma til umræðu.
Hugtakið "skaðaminnkandi" er nokkuð inni í umræðunni og er athyglisvert. Vísað er til þess að bjóða fólki sem hegðar sér á áhættusaman hátt, t.d. utangarðsmenn eða fólk í mikilli neyslu, upp á aðstæður sem hægja á skaðseminni eða gefa fólki færi á að búa við aðstæður sem geta dregið úr skaða. Ekki er gerð krafa á að fólk hætti neyslunni heldur að það fái samastað eða athvarf þrátt fyrir hana.
Þetta er nokkuð ný nálgun hér á landi en Reykjavíkurborg hefur rekið slík úrræði í nokkur ár. Engu að síður er hefðbundnara að vinna að því að fá þá sem eru í vanda til að fara í meðferð en samþykkja ekki neyslu eins og skaðaminnkandi nálgunin gerir. Skaðaminnkandi nálgunin getur líka vel stangast á við lög þar sem fólk er með undir höndum ólögleg fíkniefni og fleira slíkt sem hafa ekki samrýmist opinberri þjónustu nema að því leyti að gera slík efni upptæk. Engu að síður hefur þetta úrræði verið tekið upp og er rekið af opinberum aðilum til dæmis í Hollandi við ágætan árangur.
Mörgum finnst að um leið og neysla er samþykkt hafi átt sér stað ákveðin uppgjöf. Á meðan aðrir halda því fram að þegar neysla er samþykkt opnist tækifæri fyrir fíkla til að upplifa sjálfan sig á nýjan hátt sem geti leitt til þess að breytingar verði til hins betra.
Það sem allir vita er að okkur gengur alls ekki alveg nógu vel í þessari baráttu, best væri að geta tekið stórlega á forvörnum til að reyna að fækka í þeim hópi sem þarf að ganga í gegnum þetta. Ég held að nauðsynlegt sé að horft sé saman á grunnskóla og velferðarmálin því með öflugri samvinnu má hugsanlega ná betri árangri í skólanum, minnka brottfall, bjóða upp á fjölbreyttara nám og sveigjanlegri skóla. Þannig á endanum er vonandi hægt að fækka þeim sem þurfa á sérstækum úrræðum að halda.
Bara pælingar úr borginni :-)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2013 | 13:20
Stefnumótun - Menning, mannréttindi og jöfn tækifæri kvenna og karla
Áfram held ég að setja hér inn drög að stefnumótun Sjálfstæðisflokksins sem lögð verður fyrir landsfund nú seinna í febrúar. Þar munu að sjálfsögðu kom fram fjölmargar breytingartillögur sem kosið verður um. Þessi kafli er hluti af ályktun allsherjar og menntamálanefnd flokksins.
Menning
Mikilvægt er að halda áfram að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og standa vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.
Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, sé ævinlega gegnsær og byggður á traustum faglegum og fjárhagslegum forsendum. Lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði. Heiðurslistamannalaun verði lögð niður.
Fjölmiðlar eru snar þáttur í daglegu lífi fólks. Sjálfstæði þeirra og trúverðugleiki er mikilvægur til að tryggja lýðræðislega umræðu. Mikilvægt er að lög um fjölmiðla verði endurskoðuð og settar verði strangari reglur um gegnsæi varðandi eignarhald þeirra. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og RÚV verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna. Stefna skal að því að íslensk dagskrárgerð standi jafnfætis dagskrárgerð á Norðurlöndum. Menningararfur sá sem RÚV hefur umsjón með verði gerður aðgengilegur almenningi.
Mannréttindi
Mikilvægt er að draga úr og sporna gegn hvers kyns ofbeldi. Gegna þar forvarnir miklu máli. Jafnframt þarf að horfa sérstaklega til heimilisofbeldis, kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Styðja þarf félagasamtök og stofnanir sem sinna þessum málaflokki.
Sjálfstæðisflokkurinn vill búa vel að innflytjendum og sjá til þess að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra þjóðfélagsþegna og gera þeim þannig kleift að verða hluti að samfélaginu. Mikilvægt er að sjá til þess að innflytjendur verði ekki einangraður minnihluti samfélagsins, en hægt er að fyrirbyggja slíkt með markvissum aðgerðum. Stefnumótun stjórnvalda, upplýsingagjöf og fræðsla leika þar lykilhlutverk. Mikilvægt er að hvetja innflytjendur til að læra íslensku. Vald á tungumálinu og þekking á grunnstoðum þjóðfélagsins er mikilvægur þáttur í aðlögun að íslensku samfélagi.
Jöfn tækifæri kvenna og karla
Landsfundur vill tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launþega en ekki kyn. Þrátt fyrir ný jafnréttislög hefur óútskýrður launamunur karla og kvenna farið vaxandi á líðandi kjörtímabili. Á þessum vettvangi þurfa ríki og sveitarfélög að fara á undan með góðu fordæmi og tryggja að hvergi í hinu opinbera kerfi líðist óútskýrður launamunur kynjanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2013 | 15:03
Stefnumótun í málefnum aldraðra
Nú líður að landsfundi sjálfstæðismanna og fjöldi fólks hefur verið að störfum til að undirbúa fundinn. Fyrir fundinum liggja nokkrar ályktanir. Í ályktun um velferðarmál er fjallað um málefni aldraðra og ég læt þennan kafla fylgja hér fyrir neðan til upplýsinga og athugasemda.
Áherslur í málefnum aldraðra:
Landsfundur leggur áherslu á rétt aldraðra sem allra landsmanna til þess að njóta bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Í því felst, að hver einstakur fái þjónustu á því stigi, sem þarfir hans segja til um.
Mikil fjölgun aldraðra á komandi árum kallar á fleiri úrræði eins og skilgreindar öryggis- og þjónustuíbúðir, þar sem hjón geta verið undir sama þaki, þótt annað þeirra sé á hjúkrunardeild.
Landsfundur tekur undir kröfu kjaramálanefndar Landssambands eldri borgara um að vasapeningafyrirkomulagið verði afnumið og áréttar í því sambandi, að tafarlaust verði að hækka þær greiðslur, sem einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa til ráðstöfunar í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga.
Nauðsynlegt er að endurskoða bætur almannatrygginga í heild sinni út frá þeirri grunnforsendu, að um leið og öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis verði að gæta þess, að ekki sé dregið út hvatanum til sjálfsbjargar. Það er frumréttur einstaklingsins sem ekki má ganga gegn.
Landsfundur vill að eftirfarandi verði skoðað ítarlega:
1. Aldraðir sem eru á dvalarheimilum, haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Þeir vilja halda reisn sinni en eins og kerfið er byggt upp er sjálfsvirðingu þeirra misboðið og þeir veigra sér við að þiggja þá þjónustu.
2. Sú kjaraskerðing, sem eldri borgarar urðu fyrir 1. júlí 2009 verði afturkölluð, sem m.a. felst í því að aldraðir haldi óskertum grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.
3. Að Tryggingastofnun ríkisins hætti tafarlaust að skerða ellilífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum krónu fyrir krónu. Slík háttsemi ríkisvaldsins heitir að fara ránshendi um eigur eldri borgara og er til þess fallin að draga úr trausti á lífeyrissjóðskerfinu. Við upphaf lífeyrissjóða var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir yrðu viðbót við almannatryggingar.
4. Þeir, sem náð hafa 70 ára aldri, geti aflað sér atvinnutekna án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist.
5. Ellilífeyrir sé leiðréttur til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.
6. Verðbótaþáttur vaxta valdi ekki skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins.
7. Lögum um almannatryggingar verði breytt á þann veg, að aldraðir geti selt eignir sínar án þess að andvirði þeirra skerði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það felur í sér að þeir greiða skatta og skyldur af eignasölunni en verður ekki íþyngt umfram aðra þegna þjóðfélagsins.
8. Í samvinnu við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að það sé mögulegt og eftirsóknarvert fyrir aldraða að vera lengur úti á vinnumarkaðnum. Með því móti verða lífsgæði þeirra meiri. Eftir vinstri stjórn verður þörf fyrir atvinnuþátttöku aldraðra í þjóðfélaginu.
Heimaþjónusta verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati frá heilsugæslustöð (þjónustumiðstöð) og eflist með auknum aldri. Hér er átt við hefðbundna heimilishjálp og heimahjúkrun, auk heilsueflingar til sálar og líkama. Einnig ráðgjöf um réttindi og hvaða þjónusta sé í boði. Heimilishjálp greiðist af notanda (a.m.k. að hluta) en heimahjúkrun af opinberu fé. Áhersla sé á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst og fái þar þá þjónustu sem þörf er á.
Ef aldraðir þurfa vegna heilsuleysis að flytjast af eigin heimili til hjúkrunar í þjónustuhúsnæði (dvalarheimili / hjúkrunarheimili), á að gera þjónustusamning þar sem allur kostnaður við upphald og umönnun komi fram, þ.m.t. allur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, lækningatækja og hjálpartækja.
Skilgreina þarf upp á nýtt hver kostnaðarskipting viðkomandi einstaklings/opinberra aðila á að vera. Þar ber að stefna að því að notandi beri kostnað af sérfræðiþjónustu, lyfjum, hjúkrunarvörum, lækninga- og hjálpartækjum með sama hætti og þegar búið var heima. Almenn heilbrigðisþjónusta verði kostuð af opinberu fé. Við ákvörðun kostnaðarskiptingar þarf að hafa í huga að ekki má ganga á lífeyrisréttindi einstaklinga til greiðslu þessarar þjónustu með sama hætti og tíðkað hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Boðið verði upp á fjölbreytt rekstrarform í heimaþjónustu og á dvalarheimilum / hjúkrunarheimilum sem byggist á þjónustusamningum við hið opinbera. Þjónustusamningar taki mið af þarfalýsingu með lágmarksviðmiðum um þjónustu, og húsnæði. Notendur geti keypt ýmsa þjónustu umfram lágmarksviðmiðin að eigin vali, þ.m.t. stærra húsnæði, valkosti í máltíðum og ýmsa persónubundna viðbótarþjónustu.
Þessi kafli var unnin í samráði við fjölda fólks og samtök eldri sjálfstæðismanna..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2012 | 13:53
Heilbrigð félagshyggja
Félagshyggjan hefur snúist upp í andhverfu sína. Stjórn Steingríms og Jóhönnu var stofnuð undir því yfirskini að standa vörð um heimilin. Hið þveröfuga hefur hins vegar átt sér stað. Ríkisstjórnin lofaði heimilunum umbótum og vernd. Hvorugt hefur skilað sér. Greiðsluvandinn er gífurlegur en fáar lausnir líta dagsins ljós. Félagshyggja sem byggð er á sandi leiðir til sundrungar og reiði og snýst upp í andhverfu sína. Við getum ekki haldið áfram á þeirri braut.
Fyrirhyggja er einskis metin.
Eldra fólkið fær ekki að njóta sparnaðar, sem er ávöxtur ævitekna þess, þegar bætur almannatrygginga eru harkalega skornar niður á móti greiðslum úr lífeyrissjóði. Þeir, sem unnið hafa fyrir sér, greitt skatta og iðgjöld í lífeyrissjóði, standa undir kostnaði við þjónustu fyrir þá sem ekkert hafa lagt til hliðar. Með þessari framkomu er unga fólkinu send þau skilaboð, að það skipti engu máli að greiða í lífeyrissjóði né sýna fyrirhyggju. Allir sjá hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér.
Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun.
Skattastefna ríkisstjórarinnar skapar ekki verðmæti. Á meðan ríkisstjórninni hefur tekist að snúa félagshyggjunni upp í andhverfu sína hefur tækifærum verið sóað. Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun. Hið undarlega hefur gerst á vakt núverandi ríkisstjórnar að henni hefur tekist að draga máttinn úr atvinnulífinu og efst á blaði virðist vera að kæfa grunnframleiðslu og koma í veg fyrir fjölgun starfa.
Stöndum vörð um velferðina.
Okkur ber að sjálfsögðu að hjálpa þeim sem minna mega sín og gæta þess að velferð þeirra verði ekki ógnað. Það gerum við með því að efla atvinnulífið og skapa verðmæti. Með því móti verða til fleiri störf, atvinnuleysi minnkar og ríkissjóður fær meiri tekjur til að halda úti heilbrigðu velferðarkerfi. Standa þarf vörð um velferðina með því að byggja hana á sterkum stoðum. Sjálfstæðismenn hafa ávallt gert það og munu gera það áfram. Verði andfélagshyggjan hins vegar áfram við völd er velferðarkerfið okkar í hættu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2012 | 14:42
Með bundið fyrir augu
Líklegt er að langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks skjóti rótum hér á landi ef ekki tekst að snúa vörn í sókn. Loforð um störf hafa verið svikin. Biðin eftir fleiri störfum er löng og safnast hefur upp gríðarlegur velferðarvandi. Háalvarlegt er hvernig ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur ákveðið að breiða yfir þennan vanda.
Að horfast ekki í augu við vandann er vont
Ríkisstjórnin hefur ítrekað haldið því fram að hér sé atvinnuleysi komið niður fyrir sársaukamörk. Því er haldið fram að allt sé að komast í eðlilegt horf enda sýni tölur að atvinnulausum fækki. Þegar nánar er að gáð er þetta alrangt því að eftir að atvinnulausir hverfa af skrá Vinnumálastofnunar fara þeir yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og eru jafn atvinnulausir eftir sem áður. Þetta dregur ekki úr atvinnuleysi eins og ríkisstjórnin lætur í veðri vaka.
Að leyfa honum að magnast er verra
Þrátt fyrir ábendingar frá sveitarstjórnarmönnum, forystumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum hafa stjórnvöld ekki brugðist við vandanum. Félagsþjónusta sveitarfélaga er ekki vinnumiðlun samkvæmt lögum. Vinnumiðlun er verkefni ríkisins. Þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hefur fjölgað gríðarlega. Ungu fólki langmest. Bæði þeim sem hafa ekki lengur rétt til bóta og eins ungu fólki sem aldrei hefur átt rétt á þeim því það finnur ekki starf að loknu námi eða hefur aldrei fengið tækifæri til að reyna sig á vinnumarkaði. Ríkissstjórnin heldur áfram feluleiknum og bendir á að tölur Vinnumálastofnunar sýni og sanni að dregið hafi úr atvinnuleysi.
Að taka ekki nauðsynlegar ákvarðanir er verst
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekki tekið á þessum vanda. Horft er framhjá honum. Þar er gert er ráð fyrir minni kostnaði ríkisins vegna atvinnuleysis en verið hefur. Hugmyndir um fjölgun starfa eru óraunhæfar. Í raun er líklegt að störfum fækki vegna aukinna skatta og álagna sem enn á að auka. En hvers er líka hægt að vænta af þeim sem ganga með bundið fyrir augu?
Grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. nóvember 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2012 | 16:01
Uppskerubrestur í jafnréttismálum
Ein af aðaláherslumálum ríkisstjórnarinnar eru jafnréttismál. Svo mikil áhersla var lögð á þau að ástæða þótti að færa þau undir forsætisráðuneytið svo vel skyldi nú gera. Ríkisstjórnin sem telur sig krossbera jafnréttis hefur keppst við að úttala sig um afrek sín. Staðreyndin er sú að það er algjör uppskerubrestur.
Norræna velferðarstjórnin hefur haft neikvæð áhrif á laun kvenna
Kynbundinn launamunur hefur vaxið í tíð ríkisstjórnarinnar. Hann hafði áður minnkað frá árinu 2000 en hefur nú aukist á ný og mest innan stjórnsýslunnar. Fram hefur komið að opinberir starfsmenn eru langþreyttir á aðgerðarleysi stjórnvalda og vilja aðgerðir en ekki fleiri fundi.
Ríkisstjórnin hefur ekki getað framfylgt sínum eigin jafnréttislögum
Samþykkt voru jafnréttislög. Því miður hafa tveir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar gerst sekir um að hafa brotið þessi lög. Í ályktun Femínistafélags Íslands sagði meðal annars »Úrskurðurinn hlýtur að teljast áfall fyrir ríkisstjórn sem hefur talað djarflega og af metnaði í jafnréttismálum.
Jafnrétti í fæðingarorlofi í stórhættu
Sjálfstæðisflokkurinn leiddi í gegn gífurlega miklar jafnréttisumbætur, og jafnvel þær mestu sem orðið hafa hérlendis á síðustu áratugum með fæðingarorlofslögunum sem samþykkt voru 2000. Lögin voru sett á til að koma til móts við breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla. Markmið var að konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis til jafns við karla og forsenda þess er að foreldrar skipti með sér umönnun barna sinna. Megintilgangur var einnig að færa feðrum rétt á meiri samvistum við börn sín. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur fæðingarorlofið verið skert fjórum sinnum. Körlum sem taka fæðingarorlof fækkar. Forgangsröðun þessa verkefnis er ekki meiri en svo.
Sjálfstæðisflokkurinn mun sinna jafnréttismálum komist hann að til þess. Hins vegar mun hann ekki nota þau sem skrautfjaðrir eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2012 | 17:56
Aukinn kraft í nýsköpun
Drifkraftur nýsköpunar á sér frekar stað hjá einkaaðilum en hinu opinbera. Hins vegar ætti nýsköpun að eiga jafn vel heima í opinberum rekstri. Hugtakið nýsköpun vísar til breytinga. Hægt er að tala um nýsköpun þegar verulegar breytingar verða á afurðum, aðferðum eða skipulagi. Markmiðin með nýsköpun geta verið ólík. Þau geta fjallað um nýjungar og viðbætur en eins sparnað í rekstri og skilvirkni í þjónustu.
Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að rekstrarumhverfi opinberra stofnana gefi rými til nýsköpunar.
Ekki er nægilegt rými fyrir nýsköpun innan opinberrar þjónustu. Þetta á sérstaklega við um velferðar- og menntageirann. Hugsjónafólk sem vill gera tilraunir til að reka öðruvísi þjónustu fer gjarnan út í einkarekstur enda hentar ríkisramminn illa eða alls ekki. Gott dæmi er Hjallastefnan. Þar hefur hugsjónafólk haldið út fyrir rammann til að reka þjónustu á annan hátt en hefðbundið er. Mörg dæmi eru um að einkaaðilar, sjálfseignarstofnanir eða samtök taki að sér að sjá um þjónustu á hendi ríkisins.
Nefna má Sóltún sem Öldungur hf. rekur og sinnir þjónustu við aldraða, en þar hefur mikið frumkvöðlastarf verið unnið við að innleiða nýja nálgun í þjónustu. Heilbrigðisþjónustan í Salahverfi í Kópavogi hefur einnig verið rekin af einkaaðila í nokkur ár með sóma og fyrirtækið Karitas sinnir sérhæfðri heimaþjónustu fyrir langveika með því markmiði að efla slíka þjónustu og styrkja.
Ákveðin stífni hefur einkennt viðbrögð við þessari þróun. Nú er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að bæði notendur og stjórnendur kalla á breytingar. Hagsmunasamtök fatlaðra eru á einu máli um að efla beri vald notenda. Notendur eigi að stjórna hvernig þjónusta er veitt í stað þess að opinberir starfsmenn hafi þau völd í hendi sér. Aldraðir hafa látið í sér heyra og telja á sér brotið af því að þeir hafa ekki tækifæri til að velja sjálfir um það hvernig, hvenær og hver veitir þeim þjónustu. Athyglisvert var einnig að sjá í fréttum um daginn að heimilislæknar telja að starfsumhverfið hér á landi sé ekki nógu aðlaðandi, of stíft og henti þeim illa. Þeir komi flestir frá Norðurlöndunum, þar sem þeir hafi mun meiri tækifæri til að hafa áhrif á eigið starfsumhverfi. Því sé hætta á flótta úr greininni. Allt í kringum okkur spretta upp vísbendingar um að það kerfi sem við nú rekum verði að taka meiri breytingum.
Aukinn sveigjanleiki í opinberum rekstri er nauðsynlegur og aðkallandi. Vald þarf að færast til stjórnenda og notenda og stífir rammar þurfa að heyra sögunni til. Höldum nýsköpuninni ekki í skefjum. Gefum henni aukinn kraft.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2012 | 10:42
Á réttri leið?
Því er haldið fram að jöfnuður náist í ríkisrekstrinum á yfirstandandi fjárlagaári í fyrsta skipti frá hruni. Það vekur bjartsýni hjá mörgum enda erum við öll orðin langeyg eftir betri tíð. Það veldur þess vegna miklum vonbrigðum að skyggnast ofan í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2013 og sjá að þessi jákvæða spá stendur á brauðfótum.
Í raun hafa tekjur ríkissjóðs verið meiri en áætlað var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tapið vegna endurreisnar bankana minna. Ríkisstjórnin nýtti það rými sem þannig myndaðist til að fresta umsömdum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Í stað þess að vinna að umbótunum eins og til stóð var ákveðið að setja þær á ís en hækka laun og bætur. Endurgreiðslu skulda er frestað að sama skapi og hlýtur það að vera mörgum hugsandi mönnum áhyggjuefni.
Vandanum ýtt á aðra.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir enn meiri tekjum með hækkun skatta og gjalda. Veiðigjaldinu hefur verið komið á, tryggingagjald mun hækka eins og fjársýsluskattur. Þá er gert ráð fyrir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og vörugjalds á bílaleigur. Áhrif skattahækkana á atvinnulífið eru sniðgengin þrátt fyrir viðvaranir sérfræðinga. Til viðbótar á að selja eignir og þar er horft til sölu banka.
Áætlað er að útgjöld aukist í heildina, sum muni minnka og önnur aukast. Hér vegur þungt að ríkisstjórnin byggir á því að kostnaður vegna atvinnuleysis muni minnka gríðarlega. Staðreyndin er hins vegar sú að kostnaðurinn vegna atvinnuleysis hverfur ekki, þótt honum sé ýtt alfarið yfir á sveitarfélögin. Miðað við viðbrögð sveitarfélaganna og Vinnumálastofnunnar er mjög líklegt að þessi sparnaður sé óraunsær og muni aldrei standast. Þá verðum við að horfast í augu við það að vegna afleiðinga hrunsins stöndum við frammi fyrir gífurlegum félagslegum vanda. Þúsundir eru á framfæri sveitarfélaganna og rannsóknir benda til þess að sá hópur sem engin tækifæri hefur fengið á vinnumarkaði glími við mikla félagslega og sálræna erfiðleika sem einhvern veginn þarf að mæta. Skattahækkanir á ferðaþjónustu hafa verið gagnrýndar stórlega og þykja ekki líklegar til að skila ríkisstjórninni þeim tekjum sem hún býst við. Þá er það einnig stór óvissuþáttur að samkvæmt frumvarpinu mun Íbúðalánasjóður ekki fá framlag vegna eiginfjárskorts þrátt fyrir neyðaróp stjórnenda sjóðsins.
Auka þarf fjárfestingar.
Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Bæði íbúðahúsnæðisfjárfestingar og fjárfestingar ríkisins eru á botninum þó enn logi á ljóstýru hjá atvinnuvegunum. Steingrímur er kampakátur með að fjárfestingarnar í Búðarhálsvirkjun og Álverinu í Straumsvík sem að sjálfsögðu eru að skila honum réttu tölunum inn í fjárfestingarhlutfallið og þakkar sér og ríkisstjóninni fyrir. Þessar framkvæmdir voru of langt á veg komnar svo að ekki var hægt að fella þær undir verndar- og orkunýtingaráætlun. Umhverfisráðherra náði því ekki að setja klærnar í þær. Steingrímur hefur gjarnan vísað í spá Íslandsbanka um hagvöxt á næsta ári. Spá Íslandsbanka gerir hins vegar ráð fyrir að framkvæmdir við Helguvík komi inn af fullum þunga og er engan veginn eins björt ef svo er ekki eins og greint er frá í fréttum helgarinnar. Fjárfestingar í öðrum atvinnugreininum eru mjög litlar. Þá vekur það ekki traust að gera ráð fyrir að stórum tekjuauka af sjávarútvegi þegar hlutlausir ráðgjafar sem ríkisstjórnin fékk til að meta áhrifin töldu að greinin myndi vart þola þær álögur. Það sama gildir um ferðaþjónustuna.
Við viljum öll að hér sé allt á réttri leið. Engan veginn er hins vegar hægt að sjá að áherslur þessarar ríkisstjórnar muni skila okkur í höfn. Ósanngjarnar skattahækkanir munu að sjálfsögðu skila tekjum í ríkissjóð um sinn, en mun líklegra er að þær tefji fyrir því að atvinnulífið nái sér á strik. Aukin skattheimta á atvinnulífið á að skila tekjum til að réttlæta aukin útgjöld í verkefni, sem ríkisstjórnin telur að henti henni vel kosningabaráttunni. Sem betur fer gera flestir sér grein fyrir því að framundan eru óvissutímar hér á landi sem annars staðar. Þess vegna er nauðsynlegt að vinna af mun meiri krafti að hagræðingu í ríkisrekstri og létta byrðum af atvinnulífinu til að skapa grundvöll fyrir varanlegar framfarir Takist það erum við fyrst á réttri leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2012 | 17:18
Þjóðinn fær að ráða - eða hvað?
Niðurstaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir. Meirihluti vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Túlka má þessa niðurstöður sem stuðning við að lagðar séu fram tillögur eins og stjórnlagaráðið hefur gert. Engan veginn er þó hægt að segja að niðurstöðurnar séu skýr skilaboð um að allar greinar eigi að vera samkvæmt tillögunum sérstaklega í ljósi þess að ein tillagan var felld eða tillagan um þjóðkirkju. Þjóðin er því á heildina með en gefur sér greinilega rétt til að vera ósammála einstaka greinum.
Í því ljósi held ég að það sé undarlegt að þingmenn Samfylkingar ætli að túlka niðurstöðuna á þá leið að fyrir utan það eina atriði sem ekki var samþykkt eigi að fylgja tillögum stjórnlagaráðs efnislega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)