Þjónusta fyrir utangarðsfólk

Í þessum stutta greinarbút er ég ekki að halda neinu fram bara velta vöngum. 

Þjónusta við utangarðsfólk í Reykjavík er nú til umræðu í starfshópi sem velferðarráð í Reykjavík setti á fót. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem sinnir þessari þjónustu og ríkið hefur lítið skipt sér af þrátt fyrir að af stórum hluta sé um heilbrigðisvanda að ræða. Í Reykjavík eru allir pólitískir fulltrúar sammála um að þessi þjónusta sé mikilvæg og að henni verði að sinna en ennþá ræðum við um leiðir.

Hópurinn áðurnefndi hefur farið yfir stöðu mála, hitt fjölda fólks sem sinnir þjónustunni og þeim sem vel þekkja til þessara mála og ræddar hafa verið ýmsar nálganir. Mjög margt hefur komið til umræðu og á enn eftir að koma til umræðu. 

Hugtakið "skaðaminnkandi" er nokkuð inni í umræðunni og er athyglisvert. Vísað er til þess að bjóða fólki sem hegðar sér á áhættusaman hátt, t.d. utangarðsmenn eða fólk í mikilli neyslu,  upp á aðstæður sem hægja á skaðseminni eða gefa fólki færi á að búa við aðstæður sem geta dregið úr skaða. Ekki er gerð krafa á að fólk hætti neyslunni heldur að það fái samastað eða athvarf þrátt fyrir hana.

Þetta er nokkuð ný nálgun hér á landi en Reykjavíkurborg hefur rekið slík úrræði í nokkur ár. Engu að síður er hefðbundnara að vinna að því að fá þá sem eru í vanda til að fara í meðferð en samþykkja ekki neyslu eins og skaðaminnkandi nálgunin gerir. Skaðaminnkandi nálgunin getur líka vel stangast á við lög þar sem fólk er með undir höndum ólögleg fíkniefni og fleira slíkt sem hafa ekki samrýmist opinberri þjónustu nema að því leyti að gera slík efni upptæk. Engu að síður hefur þetta úrræði verið tekið upp og er rekið af opinberum aðilum til dæmis í Hollandi við ágætan árangur.

Mörgum finnst að um leið og neysla er samþykkt hafi átt sér stað ákveðin uppgjöf. Á meðan aðrir halda því fram að þegar neysla er samþykkt opnist tækifæri fyrir fíkla til að upplifa sjálfan sig á nýjan hátt sem geti leitt til þess að breytingar verði til hins betra.

Það sem allir vita er að okkur gengur alls ekki alveg nógu vel í þessari baráttu, best væri að geta tekið stórlega á forvörnum til að reyna að fækka í þeim hópi sem þarf að ganga í gegnum þetta. Ég held að nauðsynlegt sé að horft sé saman á grunnskóla og velferðarmálin því með öflugri samvinnu má hugsanlega ná betri árangri í skólanum, minnka brottfall, bjóða upp á fjölbreyttara nám og sveigjanlegri skóla. Þannig á endanum er vonandi hægt að fækka þeim sem þurfa á sérstækum úrræðum að halda.

Bara pælingar úr borginni :-) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband