Færsluflokkur: Bloggar

Er arðsemi af hinu illa?

Það vekur furðu hve vinstra fólki er illa við einkarekstur í almannaþjónustu. Því er beinlínis haldið fram, að einkarekstur í grunnþjónustu sé hættulegur, því að hann þurfi að skila eðlilegum tekjuafgangi. Að mati þessa fólks hlýtur arðsemiskrafa í slíkum rekstri að skila sér í verri þjónustu.
 
Nýlega hneykslaðist formaður Vinstri grænna á því að enn þrjóskuðust menn við að fjölga þjónustusamningum við einkaaðila. Eða eins og hún orðar það: » ... að færa æ stærri hluta af sameigninni - skóla, heilbrigðisstofnanir, veitukerfi - undir lögmál markaðarins með þjónustusamningum við einkaaðila sem eiga að græða á öllu en bera takmarkaða ábyrgð«.
 
Ástæða er til að staldra við slíka sleggjudóma. Gefið er í skyn að þeir, sem reka sjálfstæð fyrirtæki í opinberri þjónustu, hafi það eitt að markmiði að græða með því að kreista sem mest út úr rekstrinum á kostnað þeirra, sem njóta eiga þjónustunnar. Þessi ádeila formannsins er ekki síst sérkennileg í ljósi þess að í stjórnartíð Vinstri grænna var ekki dregið úr einkarekstri til dæmis í heilbrigðiskerfinu enda eru einkareknar einingar oft mjög hagkvæmar og skila betri árangri en þær, sem reknar eru af opinberum aðilum.
 
Það er athyglisvert að tala um »takmarkaða ábyrgð«þegar flestum er ljóst, að það er í raun aðstöðumunurinn milli hins opinbera og sjálfstæðra aðila sem veldur því að viðbrögð sjálfstæðra aðila við áföllum geta aldrei orðið eins víðtæk og viðbrögð hins opinbera gagnvart eigin einingum eins og staðan er í dag. Ástæðan er einmitt sú að vinstri menn streitast gegn því að veita sjálfstæðum aðilum nægan stuðning í þessu samhengi. Ef jafnt væri gefið mundi miðlægur stuðningur ná jafnt til allra þeirra sem reka grunnþjónustu hvort sem um opinbera eða sjálfstæða aðila er að ræða. Á slíkt vilja vinstri menn helst ekki minnast. Miðlægur stuðningur hins opinbera við eigin einingar ásamt fjármagni því sem veitt er í ýmsar stofnframkvæmdir er nefnilega langt umfram það sem sjálfstæðir aðilar njóta. Arðsemiskrafa hvetur rekstraraðila og starfsfólk til að finna leiðir til að sinna viðskiptavinum sem allra best með minni tilkostnaði. Aðalatriðið er að einkafyrirtæki, sem tekur að sér grunnþjónustu, verður að standa við þjónustusamninginn. Sjálfstæður rekstur hefur reynst vel hvað grunnþjónustu varðar og sýnt hefur verið fram á það að skólar reknir með ákveðinni arðsemiskröfu geta skilað betri árangri gagnvart þeim sem eiga í erfiðleikum með nám heldur en skólar sem ekki hafa arðsemiskröfu. Þetta kom m.a. fram í rannsókn, sem Harvard University gerði árið 2009.
 
Þá hefur ávísanakerfið, sú hugmynd að fé fylgi þörf, notið víðtæks stuðnings þar sem það hefur verið innleitt. Í Svíþjóð voru vinstri menn mjög á móti slíkri innleiðingu fyrir 20 árum en í dag nýtur þessi aðferð yfirgnæfandi fylgis fólks burtséð frá því hvort það stendur til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Þannig hafa margir vinstri menn annars staðar á Norðurlöndum áttað sig á kostum einkarekstrar á meðan vinstri menn á Íslandi halda áfram að berja höfðinu við steininn.
 
Arðsemiskrafa er ekki af hinu illa. Hún stuðlar að jákvæðum árangri. Ef félag skilar arði þá er líklegra að hægt sé að hækka laun starfsmanna og líklegra að félagið greiði meira til samfélagsins. Einnig er líklegra að félagið geti sótt fé til fjárfesta sem aftur mun auka getu þess til að sinna viðskiptavinum sínum enn betur. Látum ekki kreddur vinstri manna stöðva okkur í að ná enn betri árangri öllum til góðs.


Áhugaleysi meirihlutans í Reykjavík

Fé fylgi þörf – einnig til aldraðra og fatlaðra 

Meirihlutinn í Reykjavík er áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu þjónustunnar í Reykjavík til skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé algjörlega nauðsynlegt til þess að hægt verði veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð. Ljóst er að ánægja með þjónustuna stenst hvergi samanburð við önnur sveitarfélög og gagnrýni hagsmunaaðila er áberandi.

Óheillaþróun
Mikil skortur á þjónustu einkennir málefni fatlaðra, aldraðra og annarra sem þurfa aðstoð.  Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem er þess eðlis að  notandinn getur ákveðið hvar, hvernig og hvenær hún skuli veitt  í stað þess að hann sætti sig við það skipulag sem hannað er á skrifstofum borgarbatteríisins.  Fatlaðir með mikla þjónustuþörf hafa verið á biðlista eftir húsnæði vegna þess að  búseta í tilteknu húsnæði hefur virst eina leiðin til þess að þeim bjóðist nauðsynleg þjónusta. Þessi  óheillaþróun hefur þrýst á um að  útbúið sé sérstakt húsnæði þar sem þjónusta við einstaklinga fylgir eftir tilskildum reglum. Þetta kerfi krefst mikillar uppbyggingar, er svifaseint og mjög kostnaðarsamt og langir biðlistar myndast. Það sama á við um þjónustu á heimilum. Reykjavíkurborg hefur ekki verið í stakk búin til að mæta þeirri þörf af nægilega mikilli skilvirkni, biðlistar eru langir og notendur sem vilja búa í eigin húsnæði en engu að síður með þörf fyrir þjónustu geta ekki treyst því að borgin stígi inn þrátt fyrir mikla þörf. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða mánuðum saman eftir stuðningsþjónustu heim.

Burt með biðlistana
Ávísanakerfi eins og notað er í leikskólum borgarinnar þar sem fé fylgir barni hefur reynst vel. Fé fylgir þannig barni til þess skóla sem foreldrar velja. Slíkt kerfi þar sem fé fylgir þeim sem þurfa á þjónustu að halda er gott fyrirkomulag. Þannig geta notendur ákveðið sjálfir hvert skuli leita og velja þá þjónustuaðila sem þeir telja að sinni best þörfum þeirra. Þannig má einnig koma í veg fyrir að fólk sitji  fast á biðlistum eftir þjónustu. Reyndar hefur þetta verið notað í Reykjavík í ákveðnum tilvikum en umsókn að slíku er ekki aðgengileg né gilda um hana sérstakar reglur þetta er því frekar undantekning en hitt. Um leið og ávísanakerfi er innleitt þarf ekki lengur að bíða eftir því að umsetnar stofnanir borgarinnar geti séð um  viðkomandi heldur má leita til annarra þjónustuaðila sem hafa áhuga á því að sinna fólki á þeirra eigin forsendum. Þeir aðilar sem sinna slíkri þjónustu geta boðið fólki upp á fjölbreyttari þjjónustu og veitt notendum meira val.

Aukum skilvirkni þjónustunnar
Sumir trúa því að einkarekstur sé af hinu illa því að aðilar vilji græða í viðskiptum. Þeir trúa því að  aðeins hið opinbera geti veitt góða þjónustu.  Slíkar hugmyndir eiga ekki við rök að styðjast og nauðsynlegt er að láta þær ekki  koma í veg fyrir eðlilega framþróun.  Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi er rekinn af einkaaðilum. Víða hefur gengið vel í þeim efnum. Þrátt fyrir linnulausan hræðsluáróður gegn því að einkaaðilar taki að sér slíkan rekstur er athyglisvert að síðustu ríkisstjórn þótti engin ástæða til að draga úr því fyrirkomulagi. Í Svíþjóð hefur ávísunarkerfi reynst vel. Nú þrýsta hagsmunasamtök á um breytingar. Breytingar sem hafa í för með sér að lögð sér áhersla á sjálfsákvörðunarrétt fólks, ekki sé lögð áhersla á hópalausnir, dregið sé úr stofnanahugsun og miðstýringu. Lausnirnar eru til og hafa verið notaðar með góðum árangri.

 

Meirihlutinn í Reykjavík sýnir hins vegar  enga tilburði til að gera nauðsynlegar breytingar og virðist hræddur, hræddur við að breyta, hræddur við að útfæra þjónustu á annan hátt til að auka skilvirkni. Mjög nauðsynlegt er að fá þeirri afstöðu breytt. Hlusta þarf á kröfur notenda, gera breytingar svo hægt sé að koma til móts við þær og tryggja betri þjónustu í Reykjavík hratt og örugglega. 

Grein birtist í Morgunblaðinu í morgun 25. september 2013 


Aðalskipulagið

Í gær var samþykkt með 13 af 15 atkvæðum að auglýsa drög að aðalskipulagi Reykjavíkur. Ég, Gísli Marteinn Baldursson og Þorbjörg Helg Vigfúsdóttir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu skipulagið en aðrir fulltrúarsjálfstæðisflokksins sátu hjá. Við bókuðum jafnframt sérstaklega okkar afstöðu.

Hér er bókunin okkar:
Það er mikið fagnaðarefni að nú liggi fyrir drög að aðalskipulagi Reykjavíkur sem unnið hefur verið að síðan 2006. Mjög hefur verið vandað til skipulagsins sem unnið er af öllum flokkum i borgarstjórn, lengst af undir forystu Sjálfstæðisflokksins. 

Drögin byggja á nokkrum meginþáttum sem munu bæta borgarumhverfið og auka lífsgæði borgarbúa. Þéttari byggð er lykilþáttur. Með þéttingu byggðar verður hægt að nýta betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum auk þjónustu. Einnig mun samgöngukostnaður borgarbúa lækka þar sem vegalengdir milli vinnu, þjónustu og heimila styttast. Draga mun úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem mengun. Betri forsendur verða fyrir verslun og þjónustu í hverfunum og almenningssamgöngur og aðrir vistvænir ferðamátar eflast. Með skipulaginu er einnig verið að mæta eftirspurn eftir fleiri íbúðum miðsvæðis.

Eitt af þremur lykiluppbyggingarsvæðunum er Vatnsmýrin. Það er trú okkar að við lok aðalskipulagstímabilsins árið 2030 eigi í Vatnsmýrinni að vera blönduð byggð íbúða, háskóla- og atvinnustarfsemi, en ekki flugvöllur. Úttektir hlutlausra aðila sýna fram á að hagræn áhrif af því að nýta Vatnsmýrina undir blandaða byggð og finna flugvellinum nýjan stað eru of mikil til að horft sé framhjá þeim. Í aðalskipulagsdrögunum sem fyrir liggja hefur ekkert breyst varðandi flugvallarmálið frá fyrra skipulagi enda samráð ríkis og borgar engan árangur borið. Lykilatriði er að ríki og borg hefji markvissa vinnu málsins þegar í stað og setji fram verkefnaáætlun um tímaramma og staðsetningarkosti flugvallar út frá skipulagsóskum borgarinnar. Borgin á að okkar mati að ganga samningsfús og lausnamiðuð til þeirra viðræðna þar sem meðal annars dagsetningar á brottflutningi flugvallarins geta verið undir. Ljóst er að einnig opnast tækifæri til að vinna enn betur að framtíðarstaðsetningu flugvallar, og rýna betur staðsetningar eins og Hvassahraun, Löngusker, Bessastaðanes og fleiri, þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verður endurskoðað, en sú vinna hefst að lokinni aðalskipulagsvinnunni.

Nú fer aðalskipulag Reykjavíkur til umsagnar borgarbúa, hagsmunaaðila og allra þeirra sem láta sig framtíðarskipulag borgarinnar varða og við hlökkum til að fá viðbrögð þeirra og taka þátt í frjóum og skapandi umræðum um framtíð borgarinnar okkar. Í því ferli koma upp ýmsar athugasemdir sem nauðsynlegt verður að meta, greina og geta leitt til breytinga þegar lokatillaga verður lögð fram. Það er okkar trú að í meginatriðum sé sú stefna sem dregin er hér upp af aðalskipulagi verði heillaskref fyrir framtíð Reykjavíkur. Aðalskipulag horfir til langrar framtíðar og við teljum að lífsgæði borgarbúa aukist með þeim skrefum sem stigin eru í þessum drögum.


Skattar og gjöld hækka langt umfram þörf

Til fjölmiðla
Frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins

Taprekstur í borginni annað árið í röð
- þrátt fyrir skatta- og gjaldskrárhækkanir meirihlutans

 

Þetta er annað árið sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hefur haft tækifæri til þess að setja alfarið mark sitt á borgarreksturinn.  Og annað árið í röð er taprekstur í borginni sem gefur til kynna að aðhald í rekstri borgarinnar sé ábótavant.

 

Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2011 og 2012 í A- hluta ársreikningsins er neikvæð um 2,8 milljarða króna. En samanlögð rekstrarniðurstaða tveggja ára þar á undan þegar fyrrverandi meirihluti var við stjórn var jákvæð um 4,7 milljarða króna.  Á tímabili núverandi meirihluta hefur aðhaldið verið ófullnægjandi og kerfið vaxið á kostnað borgarbúa með skatta- og gjaldskrárhækkunum. Auk þess hækka skuldir borgarsjóðs um 2,8 milljarða.
 
Lítið sem ekkert hefur verið hagrætt í kerfinu, þvert á móti eykst kostnaður og ekkert hefur bólað á því átaki í hagræðingu sem meirihlutinn stefndi að við upphaf kjörtímabilsins. Hinsvegar hefur meirihlutinn hækkað skatta og gjöld langt umfram þörf en skattheimta var 2,1 milljarði hærri árið 2012 en upphaflega fjarhagsáætlun gerði ráð fyrir. 

 

Auknar álögur kosta fjölskyldu 800 þúsund á kjörtímabilinu

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið saman dæmi um 5 manna fjölskyldu með meðallaun sem á litla íbúð og þarf að greiða skatta og gjöld í Reykjavík. Þessi fjölskylda mun í lok ársins hafa greitt 800 þúsund krónur umfram það sem hún hefði gert án hækkana núverandi meirihluta frá árinu 2010.   Þess má geta að á árunum 2010 – 2013 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13% en hækkanir á þjónustu borgarinnar nema um 20% á sama tíma. Skattar og gjöld borgarinnar hafa því á þessu sama tímabili hækkað um 7% umfram vísitölu.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrú Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi stefnu meirihlutans í rekstri borgarinnar á borgarstjórnarfundi í dag:

 

„Það er auðvelt að stjórna með því að taka stöðugt fé af fjölskyldum og fyrirtækjum í borginni. Mun skynsamlegra, sanngjarnara og farsælla hefði verið að nýta það svigrúm sem til að hagræða í kerfinu og auðvelda almenningi að takast á við erfiða tíma.  Þannig á borgarstjórn Reykjavíkur ekki að nýta óvæntar skatttekjur upp á 2,1 milljarð til að þenja út eigið kerfi heldur til að lækka álögur á heimilin í borginni.”

Að skipta sköpum

Í heiðni var talið að skapanornir réðu því hvernig mönnum vegnaði í lífinu. Orðatiltækið að skipta sköpum þýðir að örlögum nornanna má breyta. Fjölmargar vísbendingar liggja nú fyrir og benda okkur á að gera eitthvað sem skiptir sköpum. Ef okkur tekst ekki vel upp þá siglum við inn í tímabil stöðnunar og hrakandi lífsgæða. Örlagavaldarnir sem við ættum því nú að biðla til eru menntun, nýsköpun og vísindi.

Hámarksnýting
Fjárveitingar til rannsókna og nýsköpunar verða að nýtast sem best. Samhæfa þarf umhverfi ríkisstofnana, þar á meðal háskólanna og ryðja þeim hindrunum úr vegi sem nú koma í veg fyrir sveigjanleika í stjórnun og verkefnum þeirra sem stunda rannsóknir og þróun. Mikilvægt er að ekkert í rekstrarumhverfinu hamli samstarfi.

Hraðari verðmætasköpun
Þrátt fyrir góðan afrakstur vísindastarfs og að meira fé sé varið til málaflokksins en í mörgum samanburðarlöndum er verðmætasköpun ekki eins hröð og ætla mætti hér á landi. Því er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum mun markvissar á markaðslegum forsendum til að stuðla að örari þróun.

Þá ber að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn vill að þeir sem stunda rannsóknir, háskólar, fyrirtæki og einstaklingar, fái að njóta sjálfsaflafjár á sambærilegan hátt og gerist annars staðar. Slíkt myndi gera íslensku rannsóknarumhverfi kleift að standa jafnfætis erlendri samkeppni og samstarfi.

Rétt stefna að góðri uppskeru

Fyrir rúmum áratug var mörkuð stefna í þessum málum einmitt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Afraksturinn varð samningur milli ríkis og háskólafólks. Þar var rétta stefnan tekin. Það mikilvæga er nú að vísbendingar eru um að áhugi fjárfesta sé vakinn og fjármagn vilji inn í landið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sér skýra stefnu hvað örlagavaldana: menntun, nýsköpun og vísindi, snertir og vill vinna áfram að góðri uppskeru. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn skiptir því sköpum.

Húmor í baráttuna :-)

Ungir sjálfstæðismenn hafa gefið út nokkur myndbönd til að útskýra fyrir öðru ungu fólki af hverju þeim finnst að aðrir eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Endilega kíkið á þetta þegar þið hafið tíma.

 

     


XD og Evrópa

Ég er ein af þeim sem held að það verði samþykkt að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir að ég haldi að niðurstaðan verði sú finnst mér ástæða til að fara í atkvæðagreiðsluna.  Verði það samþykkt skapast góður grunnur fyrir viðræðurnar annað en nú er til staðar.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að hann vilji að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram fyrr en seinna. Til dæmis megi miða við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ég er líka ein af þeim sem sjá að það er réttlætanlegt að stöðva viðræður áður en fullt umboð liggur fyrir frá þjóðinni. Samfylkingin lofaði í aðdraganda síðustu kosninga að við fengjum flýtimeðferð að þetta tæki bara nokkra mánuði og allt lægi fyrir, fyrr en seinna, hviss bamm búmm! Nú er ljóst að þetta getur tekið langan tíma, enn eru margir kaflar óopnaðir og því þarf að skoða hvaða staða er upp komin. Það er því óeðlilegt að við könnum ekki afstöðu þjóðarinnar áður.

Um daginn skrifaði Anna Guðrún Björnsdóttir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga grein þar sem hún tiltekur kostnaðinn sem bandalagið hefur lagt í að fá til sín sveitarstjórnarfólk, koma því til Brussel til að kynna fyrir þeim starfsemi og annað slíkt. Allt í boði bandalagsins ferðir og dagpeningar. Til viðbótar gefst sveitarfélögum kostur á að sækja um styrki til ýmissa verkefna. Þetta eru háar fjárhæðir og ljóst að um leið verða að sjálfsögðu hagsmunaárekstrar. Þeim sem eru algjörlega sannfærðir um að við munum og eigum aldrei að fara í bandalagið finnst á sér brotið, þarna sé um áróðursfé að ræða og telja stöðuna sem komin er upp mjög ósanngjarna.

Ég er á því að farsælast sé að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna um hvort klára eigi aðildarviðræðurnar sem fyrst annars verði aldrei næg sátt um málið.


Vondu og góðu krónurnar!

Fólk verður að átta sig á þessu. Það stenst ekki skoðun að munurinn á tillögunum milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gangi út á það að Framsókn vilji láta vogunarsjóði borga en Sjálfstæðismenn vilji láta fólk sjálft borga. Það eru ekki til neinar vondar krónur og góðar krónur, þetta kemur alltaf úr sama sjóði eða einfaldlega ríkissjóði.


Bjarni Benediktsson gerir góða grein fyrir þessu í útvarpi í gær sjá hér hvet ykkur til að hlusta á viðtalið sem er stutt og laggott.


Sjálfstæðisflokkurinn vill leiðrétta skuldastöðu í gegnum afslátt af skatti og það vill hann hefja strax að loknum kosningum ekki bíða eftir því að koma hugsanlegum eignum úr þrotabúum í verð og sjá hver staðan verður þá. Þetta getur tekið mörg ár. Augljóst er að koma þarf til móts við heimilin og það án þess að skilyrða þær endurgreiðslur við önnur viðskipti. 

Báðir flokkar vilja taka hart á samningum við kröfuhafa og vonandi verður sú eignamyndun sem þar fæðist til að koma til móts við heimilin og ekki síður til að rétta ríkissjóð af. 

 


Væntingar og vonleysi

Munurinn á tillögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn vill taka tillögurnar upp strax - ekki bíða eftir því að samið verði við vogunarsjóði sem enginn veit hversu langan tíma tekur.

Sjálfstæðisflokkurinn er með tillögur sem vitað er hvernig má framkvæma - Framsóknarflokkurinn fjallar um skuldir þeirra sem tóku lán á einhverju árabili án þess að nefna skýrt við hvað átt er. 

Sjálfstæðisflokkurinn notar hugtakið skattaafslátt sem að sjálfsögðu þýðir að minna verður til í ríkissjóði en er með sterka efnahagsstefnu sem mun koma atvinnulífinu af stað sem skilar tekjum til ríkissjóðs eða minnkar útgjöld ríkissjóðs að sama skapi. Framsóknarflokkurinn talar um að afsláttur af greiðslum til vogunarsjoða verði notaður til að leiðrétta stökkbreytt lán. Áður en að hægt er að nota þetta fé verður það að sjálfsögðu komið í ríkisssjóð. Þannig að um greiðslur úr ríkissjóði er alltaf að ræða.

Framsóknarflokkurinn skrúfar væntingavísitöluna upp úr öllu valdi og líklegt er að vonbrigðin verði á pari við væntingar og vonleysi það sem Skjaldborgarstjórnin skilaði. Vonandi er fólk að átta sig á þessu. 

 

Raunhæfar tillögur Sjálfstæðisflokksins eru hér.


52% í skatta og gjöld

Síðustu ár hafa ráðstöfunartekjur meðalfjölskyldu lækkað um eina milljón króna vegna ofur álagningar og skatta. Heimilin ráða ekki við þetta. Það sama á við í atvinnulífinu. Ljóst er að skattahækkanir á fjölskyldur og fyrirtæki hafa ekki skilað því sem til var ætlast og algjörlega nauðsynlegt er að snúa af þessari röngu braut. Hér er mynd sem ég leyfi mér að deila en ungir sjálfstæðismenn tóku þetta saman úr gögnum frá Hagstofu Íslands og Fjármálaeftirlitinu.

Myndin sýnir í hvað tekjur heimilanna fara að meðaltali og hvað það er sem er að sliga fólk - skattar og opinber gjöld eru 52% - Úff!

skattakakan.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband