Færsluflokkur: Bloggar

"Ha! ég að skera niður grunnþjónustu?"

Mikið ferlega er illa komið í Reykjavík, í annars góðri tíð. Auðvitað setja kjarasamningar strik í reikninginn en það er aðeins hluti vandans. Hinn hlutinn er arfaslök forgangsröðun og það að taka það ekki alvarlega að skatttekjur dugi ekki fyrir því sem það kostar að reka þjónustu fyrir íbúa. 

Nú hafa borgarstjóri og fylgdarsveinar hans reynt að mótmæla því að þeir hafi nokkuð með þessi mál að gera, allt séu þetta utanaðkomandi þættir sem ekkert hafi verið hægt að eiga við. Því miður eru það hin mestu ósannindi. Ítrekað hefur hópnum verið bent á að þjónustuhlutinn sé rekinn í tapi, ítrekað hefur honum verið bent á að Reykjavíkurborg hafi "bólgnað" nokkuð ískyggilega og hratt án þess að hægt sé að skýra það til hlítar. Ítrekað hefur honum verið bent á að verið sé að sóa fé almennings með slakri stefnu og lítilli eftirfylgni. Ítrekað hefur meirihlutanum verið bent á að þetta leiði til skuldasöfnunar sem á endanum muni leiða til skerðingar á grunnþjónustu og það í nokkur ár.

Eitt megineinkenni meirihlutans í borginni er að útfæra lítið af því sem þau hafa í hyggju. Þannig var um 1,8 milljarða niðurskurður útskýrður í fjárhagsáætlun með skýringunum - óútfærð hagræðing. Svo þegar útskýringarnar komu löngu síðar þá fjölluðu þær um að "leitað yrði lausna", "starfsfólki yrði falið" og fleira í þeim dúr.  Með því móti þurfa aðrir að taka erfiðu ákvarðanirnar. Það er gott að vera hvítþveginn og koma alltaf að fjöllum þegar talið berst að skerðingu grunnþjónustu.

Tilefni þessa greinarstúfs er einmitt það að nú berast alvarlegar athugasemdir og áhyggjur frá skólastjórnendum, kennurum og foreldrum til borgarfulltrúa. Sá hópur talar alveg skýrt - niðurskurðurinn eins og honum hefur verið stillt upp er skerðing á grunnþjónustu. 

Sýningum á leikritinu - Ha! ég að skera niður grunnþjónustu? má alveg fara að linna.

 

 


Ennþá óútfært

Engan veginn er hægt að fullyrða um hagræðingu sem er að stórum hluta ennþá óútfærð. Ef menn lesa í gegnum skjölin má sjá það. Mikið er talað um endurskipulagningu, samþættingu, betri nýtingu og að starfsfólki verði falið að vinna að lausnum. Sem sagt - þetta er enn allt saman frekar óskýrt og óútfært. 

Aðeins meira um það hér.

 


mbl.is Hagræða um 1.780 milljónir í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já það væri of óþægilegt

Í dag er kominn febrúar.  Ennþá leggur borgarstjóri fram óútfærðar tillögur inn í fjárhagsáætlunarvinnu þessa árs, sem átti að leggja fram fyrir nokkrum mánuðum síðan. Nú liggja sem sagt fyrir óútfærðar tillögur að óútfærðu tillögunum í fjárhagsáætlun sem voru ekki nema um tæpar tvöþúsund milljónir.

Á meðan verið var að skrifa niður óútfærðu tillögurnar í annað sinn sat meirihlutinn ekki aðgerðarlaus í fjármálastjórninni. Ákveðið að fjárfesta í heyrnartólum fyrir eina og hálfa milljón, eitthvað sem má gera fyrir mun minna fé. Jú reyndar var ákveðið að spara líka, skera niður matarþjónustu aldraðra og ákveðið að sleppa því að fá upplýsingar um þjónustuna í borginni,í árlegri þjónustukönnun sveitarfélaga, sem undanfarin ár hefur fengið falleinkunn hjá íbúum, enda óþægilegt að fá svona óþægilegar upplýsingar þegar álagið er svo mikið við að reyna að átta sig á hvernig á að útfæra óútfærðu tillögurnar áður en árið er á enda. já það væri allt of óþægilegt! Betra að bíða bara eftir að einhverjir fari að hjóla Grensásveginn.

Ómálefnalegt? Uuuuu..nei.

 

 

 

 


Gegnsæið í vinnslu hjá nefnd

Í fjögur ár hefur tillaga Sjálfstæðismanna í Reykjavík um að vinna að auknu gegnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar verið í "vinnslu" hjá meirihlutanum í borginni. Það er því ekki skrítið að við undrumst um hvernig hlutunum er stýrt á bak við tjöldin í borgarstjórn.

Eitt helsta áhugamál meirihlutans þegar kemur að gagnsæis- og lýðræðismálum hefur verið að vísa málunum í "nefnd" eða í  Pírataráðið svokallaða. Lýðræðis- og gegnsæisráð...nei Stjórnkerfis og lýðræðisráð heitir það víst,  hefur sem sagt tekið við ýmsum málum og sett í vinnslu þar sem klukkan virðist ganga afturábak og lítið er að frétta eins og sagt er. Aukið gegnsæi er hins vegar eins og alþjóð veit besta leiðin til að veita aðhald og eftirlit. 

Nú þegar fréttist af því að fjármálaráðuneytið hafi unnið að sömu málum á nokkrum vikum og ætli að opna fyrir fyrstu upplýsingarnar á þessu ári er heilmikil ástæða til að spyrja hvert tíminn fór í "nefndinni". Er stjórnun ábótavant eða er helsta ástæðan lítill áhugi meirihlutans á því að auka aðgengi íbúa að tómum sjóðum og "skemmtilegum" reikningum?

 


Er sjálfsagt að borgarsjóður fái að njóta arðgreiðslna en heimilin bíða?

Á síðasta borgarstjórnarfundi lögðum við Sjálfstæðismenn til að borgarstjórn samþykkti að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hún skoði hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili.

Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Orkuveitunnar og ber ábyrgð á að koma skýrum skilaboðum til stjórnarinnar. Nauðsynlegt er að borgarstjórn fyrir hönd íbúa ræði hvaða stefnu skuli taka hvað fyrirtækið varðar. Þess vegna hefði verið gott ef meirihlutinn hefði samþykkt þessa tillögu. Í stað þess fóru þau í þann leiðinlega feluleik að vísa tillögunni inn í borgarráð án þess að taka afstöðu til hennar. Reyndar mátti meira greina í máli borgarstjóra að honum finnist jafnvel ekki ástæða til að lækka orkugjöld og hann efist jafnvel um að gjöldin hafi hækkað.


Borgarsjóður fær að njóta – heimilin bíða
Meirihlutinn í Reykjavík gerir ráð fyrir því að árið 2018 verði arðgreiðslur Orkuveitunnar til borgarsjóðs 1 milljarður að lágmarki. Nú virðist því aftur vera að komin sú staða að arðgreiðslur Orkuveitunnar verði notaðar til að stoppa upp í göt borgarsjóðs enda Planið svokallaða að renna út. Sú ákvörðun að nota arðinn beinlínis í þeim tilgangi er einhliða og órædd tillaga meirihlutans í Reykjavík. Réttlátt og sanngjarnt er hins vegar að vilja ræða málið út frá fleiri hliðum. Eðlilegt er að skoða hvernig heimilin sem tóku á sig miklar hækkanir orkugjalda þegar illa áraði fái einnig að njóta þegar vel gengur. Fyrir þessu virtist því miður lítil sannfæring hjá borgarstjóra.


Orkuverð er húsnæðismál
Orkuverð er húsnæðismál. Lækkun orkugjalda lækkar húsnæðiskostnað. Borgastjórn virðist nokkuð sammála um að húsnæðismál séu mikilvægasta mál borgarinnar og með yfirlýst markmið að lækka húsnæðiskostnað . Húsnæðiskostnaður er allt of hár og oft hefur verið rætt um mikilvægi þess að fólki bjóðist húsnæði á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að þreytast ekki á að tala um vandann og meintar aðgerðir til að lækka húsnæðiskostnað þá virðist meirihlutinn í Reykjavík ekki vilja standa við þau loforð, alla vega ekki þegar greiðslur geta frekar runnið í borgarsjóð.


Vildi ekki taka ákvörðun á opnum fundi
Meirihlutinn í Reykjavík vildi frekar en að taka efnislega afstöðu með tillögunni vísa henni inn til borgarráðs. Það er óskiljanlegt nema að þau vilji ekki að almenningur viti hver afstaða þeirra er. Í borgarstjórn hafa 15 kjörnir fulltrúar aðgengi að málinu, fundir eru opnir borgarbúum og efni þeirra aðgengilegt. Hins vegar er borgarráð lokaður vettvangur, fundir eru lokaðir almenningi og aðeins fáir borgarfulltrúar eiga aðgengi að fundum. Tillagan var ekki til annars fallin en að senda skýr skilaboð og gefa stjórn Orkuveitunnar mikið svigrúm til að vinna greiningu.

En það var ekki hægt að samþykkja þá tillögu, sem líta má á sem staðfestingu á því að forgangsröðun meirihlutans er skýr – hann er í fyrsta sæti, heimilin mega bíða.


Forgangsröðun meirihlutans er skýr - hann er í fyrsta sæti.

Mikill slaki er í rekstrinum í Reykjavík, langt umfram það sem er hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og því aumt að sjá meirihlutann útskýra erfiðleika sína með vísun til þess að launahækkunum sé um að kenna eða að ríkið skuldi sveitarfélögum fé til rekstursins. Vissulega hafa þeir þættir áhrif en vanda Reykjavíkur er ekki hægt að skýra svo auðveldlega. Slaki gagnvart alls kyns verkefnum af öllu tagi ógnar nú grunnþjónustu til dæmis þjónustu við aldraða og fatlaða.

Áhugavert er að fylgjast með því hvernig oddviti Bjartrar framtíðar reynir ítrekað að nota Orkuveituna og Planið góða til að flagga ímynduðu ágæti meirihlutans í rekstrarmálum og í þeirri von að halda á lofti þeim misskilningi að Sjálfstæðismenn beri þar meiri ábyrgð en aðrir. Oddviti Bjartrar framtíðar ætti frekar að veifa flagginu framan í borgarstjóra og aðra samstarfsmenn sína í meirihlutanum sem skipuðu eða studdu R-listann á sínum tíma. R-listinn leiddi nefnilega í 12 ár skulda og arðgreiðslustefnuna sem flestir fordæma nú og ber þess vegna meiri ábyrgð en aðrir. Sjálfstæðismenn geta tekið á sig að hafa ekki snúið strax frá þeirri stefnu um leið og færi gafst en langur vegur er þangað að hægt sé að halda því fram að hann beri meiri ábyrgð en aðrir á vanda Orkuveitunnar.

Nú eru flestir sammála um það að læra af þessum mistökum. Mest sammála hafa þó virst þeir sem helst studdu arðgreiðslustefnu OR og hreyktu sér af henni á sínum tíma. Flestir hefðu því haldið að þessi tími væri liðinn undir lok í Reykjavík. Það vakti því mikla furðu þegar annað kom á daginn, þegar meirihlutinn opinberaði fjárhagsáætlun og 5 ára áætlun borgarinnar. Nú treystir meirihlutinn í Reykjavík sér ekki til að gera rekstur grunnþjónustu sjálfbæra næstu árin nema með gamla leiknum – sækja fé úr rekstri Orkuveitunnar. Forgangsröðunin er því augljós. Í stað þess að gera kröfur til sjálfs sín um hagræðingu, um að beita aðhaldi og greina grunnþjónustu frá verkefnum sem minni þörf er á, skal fjármagna stefnuleysið með arðgreiðslum.

Íbúar og greiðendur orkugjalda í Reykjavík hafa tekið á sig gjaldahækkanir Orkuveitunnar sem nauðsynlegar voru eftir hrun án þess að eiga mikið val. Hið sjálfsagða væri því að meirihlutinn tæki frekar þá ákvörðun að beina því til stjórnar Orkuveitunnar að lækka þessi gjöld, ef raunverulegt færi gefst til þess á næstunni, í stað þess að verja þeim í eigin óráðsíu.

Borgaryfirvöld ættu einnig að skilja að um áramót hækkar fasteignamat verulega og sérstaklega í Reykjavík. Í sumum hverfum um nærri 17%. Svo virðist sem skilningur meirihlutans í Reykjavík á því gjaldastreði sem Reykvíkingar glíma við sé enginn. Kaldhæðnin í því er að borgarstjóri hefur lofað gulli og grænum skógum í húsnæðismálum og meðal annars haldið því fram að hann vilji vinna ötullega að því að húsnæði bjóðist á viðráðanlegu verði. Hvoru tveggja hækkun orkugjalda og hækkun fasteignagjalda hefur þau áhrif að húsnæðisverð hækkar. Meirihlutinn sýnir því litla athygli, lækkar hvorki fasteignaskatta né hefur í hyggju að leyfa íbúum að njóta lægri orkugjalda.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um við hvaða verðbólguspá sveitarfélögin miða. Í ljós kemur að Reykjavíkurborg miðar við hærri verðbólguspá en Seðlabankinn og mun láta gjaldskrár hækka samkvæmt henni. Hér er að sjálfsögðu verið að leggja grunn að nýjum gjaldaálögum. 

 


Eigum við ekki að gera betur? - svar til borgarstjóra

Í kjölfar föstudagsviðtals Fréttablaðsins við undirritaða hefur borgarstjóri farið mikinn til að verja velferðarþjónustu borgarinnar, þó hún hafi fengið falleinkunn hjá notendum þjónustunnar vegna stífra ramma, seinagangs og biðlista eins og má til dæmis sjá í þjónustukönnunum. Hann bendir ekki á nýjar lausnir. Hann virðist vilja reka kerfið óbreytt þrátt fyrir að ýmsir aðilar eins og hagsmunasamtök fatlaðra og aldraðra kalli ítrekað á breytingar.

Grunnþjónusta, eins og hún hefur verið skilgreind, til dæmis stuðningur inn á heimili og barnavernd, á að vera greidd úr borgarsjóði, um það er ekki ágreiningur. Í dag næst ekki að þjónusta alla og biðlistar eru einkennandi. Borgarfulltrúar ættu að geta verið sammála um að markmiðið sé að minnsta kosti að veita lögbundna þjónustu og helst að bæta hana.

Nýtt fjármagn verður um þessar mundir ekki sótt í borgarsjóð. Meirihlutinn rekur hann með stórfelldum halla. Ef Dagur vill bæta velferðarþjónustuna með hefðbundnum leiðum þarf hann að spara rækilega annars staðar. Þetta hefur honum ekki tekist. Eini kosturinn er því að leita nýrra leiða til að ná betri árangri, þjónusta fleiri og ná meiri hagkvæmni.

Útúrsnúningur í stað umræðu
Dagur grípur til þess gamalkunna ráðs að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og ráðast síðan á þær. Hann heldur því blákalt fram að hugmyndir Sjálfstæðisflokksins gangi út á að spara með því að „takmarka þjónustuna“. Fólk eigi von á verri þjónustu auk þess sem það muni þurfa að borga meira úr eigin vasa fyrir grunnþjónustuna. Hvorugt er rétt.

Við viljum þvert á móti finna lausnir til að fá meira fjármagn til velferðarmála almennt, og auka skilvirkni án þess að fólk greiði meira fyrir grunnþjónustuna en það gerir í dag. Enginn er að tala um að draga úr þjónustu. Hins vegar er hægt að auðvelda fólki að sækja sér viðbótarþjónustu. Þannig má draga úr álagi á núverandi velferðarkerfi og stytta bið.

Af hverju einkageirinn?
Góð reynsla er af sjálfstæðum rekstri grunnþjónustu annars staðar á Norðurlöndum. Þar þótti mikil ástæða til að leyfa fólki að njóta þeirra kosta sem sjálfstæðari og sveigjanlegri þjónustueiningar hafa upp á að bjóða. Það er ein ástæða þess að norræna velferðarkerfið, sem Dagur og flokkssystkini hans hafa nánast sem krossmark uppi á vegg, er það skilvirkasta í heimi. Einkarekstri í grunnþjónustu hefur verið tekið fagnandi bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu, eins og var til dæmis rakið í úttekt The Economist á norræna velferðarmódelinu fyrir nokkrum misserum. Fé fylgir þörf og þeir sem reka þjónustueiningar geta ekki valið sér viðskiptavini heldur velur viðskiptavinurinn þjónustuaðilann. Þannig má koma í veg fyrir að þeim efnameiri standi annað til boða en þeim efnaminni hvað grunnþjónustuna varðar.

Reynsla nágrannalandanna sýnir að einkaaðilar sýna alls ekki síðri þjónustulund en opinberir enda eiga þeir allt undir því að reksturinn fái hljómgrunn hjá notendum. Sveigjanleiki og skilvirkni er meiri í einkarekstri en opinberum. Staðreyndin er einnig sú að nýsköpun og þróun gengur mun hraðar fyrir sig hjá einkaaðilum.

Einkaframtak í velferð
Hér á landi eru líka dæmi þess að einkafyrirtæki hafi tekið að sér grunnþjónustu með góðum árangri. Hjúkrunarheimilið Sóltún, heimaþjónustan Sinnum ehf, heilsugæslan í Salahverfi og heimaþjónustufyrirtækið Karitas, sem sinnir langveikum, eru góð dæmi um einkarekstur í velferðarþjónustu, þar sem grunnþjónusta er greidd af almannafé. Þessi fyrirtæki eru ekki síðri hluti velferðarkerfisins en opinber þjónusta.

Útboð verkefna hvetur fyrirtæki til að sækja fram innan þessa geira. Þannig má styðja við þá þróun að fleiri velferðarfyrirtæki líti dagsins ljós. Hluti rekstursins getur verið að sinna grunnþjónustu en einnig verður til frelsi og hvati til að bæta við og þróa nýja þjónustu sem getur skilað okkur betri og hagkvæmari framtíðarlausnum.

Alvarleg staða í Reykjavík
Fyrir hverra hönd talar borgarstjórinn þegar hann útmálar hugmyndir um aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu sem einhvers konar mannvonsku? Slíkar hugmyndir hafa átt fylgi að fagna í hans eigin flokki; þegar Ágúst Ólafur Ágústsson var varaformaður Samfylkingarinnar talaði hann til dæmis fyrir útboðum í velferðarþjónustu og kallaði það kreddur að vilja ekki samþykkja slíkt ef það lækkaði kostnað og bætti jafnvel þjónustuna. Björt framtíð, sem situr í meirihluta með Degi, samþykkti á dögunum á landsfundi stefnu um fjölbreytt rekstrarform í velferðarmálum. Einn helsti talsmaður flokksins í þeim málum sagði þá að hún myndi ekki finna sig í flokki sem hafnaði einkaframtakinu. Og telur Dagur sig tala fyrir þann stóra hóp sem þarf þjónustu borgarinnar, fær hana seint eða ekki og myndi taka nýjum lausnum fagnandi?

Staðan í Reykjavík er alvarleg. Í fjármálunum stefnir í stórkostlegt óefni. Sá vandi mun hafa veruleg áhrif á þjónustu við borgarana. Það er sjálfsögð krafa að borgarstjóri skýri frá því hvernig hann vill bregðast við. Vonandi verður það með því hugarfari að taka nýrri hugmyndafræði vel í stað þess að verja stöðnun. Eða er hann búinn að gefast upp?

 

 

 

 


Ný sýn á staðnaða þjónustu

Svona þegar borgarfulltrúar meirihlutans eru tilbúnir til að fara að sinna sínu hlutverki og ræða eigið fjármálaklúður þá eru hér mikilvæg málefni.

Velferðarþjónusta Reykjavíkurborgar hefur staðnað og fylgir ekki þörfum samtímans. Í dag er nauðsynlegt að fyrir hendi sé sveigjanleg þjónusta, sem er veitt á forsendum notenda. Í stað pappírsvinnu og biðlista þarf skjót viðbrögð og aðgerðir. Velferðarþjónustu borgarinnar stendur ógn af því hve lítinn áhuga meirihlutinn sýnir þessum mikilvæga þætti í starfi Reykjavíkurborgar.

Í stefnu og framkvæmd meirihlutans hefur ekki verið lögð áherslu á að aðstoða fólk til sjálfshjálpar. Afleiðingin lýsir sér meðal annars í svo kallaðri veikleikavæðingu. Stefnuleysi meirihlutans skilar lakari árangri og þjónustan er dýrari en ella.

Vísbendingar um að núverandi fyrirkomulag gangi ekki upp eru fjölmargar. Fjölgun aldraðra hefur verið staðreynd í fjöldamörg ár. Þörfum aldraðra og fatlaðra um sveigjanlegri og persónulegri þjónustu hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Stuðningsþjónusta er í uppnámi í mörgum tilfellum og biðlistar staðreynd. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að ekki hefur verið horft til nýsköpunar og fjárfestingar til að koma breytingum af stað. Og framundan eru blikur á lofti. Óvíst er hvort hæft starfsfólk fáist til að starfa á þessum vettvangi, laun eru lág og starfsumhverfi ábótavant. Vinna þarf að því að gera störfin eftirsóknarverðari.

Þrátt fyrir að meirihlutinn hafi nýtt sér heimildir til álagningar útsvars út í æsar er borgarsjóður rekinn með halla. Meirihlutinn sparar ekki gæluverkefnin en á sama tíma er lögbundnum verkefnum ekki sinnt sem skyldi. Augljóslega þarf að auka framlag til velferðarmála.

Ný nálgum nauðsynleg
Til að ná betri árangri þarf að breyta framkvæmd velferðarþjónustunnar í grundvallaratriðum. Það er misskilningur að borgarstarfsmenn einir geti veitt þá þjónustu sem þarf að vera fyrir hendi. Velferðarþjónusta á að vera almenn og sjálfsögð. Auðvelda þarf aðgengi að þjónustunni og hvetja þarf fólk til að nýta hana tímalega og koma þannig í veg fyrir að vandamálin hlaðist upp og verði lítt viðráðanleg og mun kostnaðarsamari. Til að auka fjölbreytni og faglega þjónustu má auðvelda fagfólki utan borgarkerfisins að bjóða upp á hana.

Kostirnir eru margir, meðal annars eftirfarandi:

1. Útboð. Bjóða þarf út þjónustu þannig að fyrirtæki geti tekið að sér að veita grunnþjónustu, að uppfylltum sambærilegum kröfum og gerðar eru innan borgarkerfisins. Greiðslur fyrir að sinna slíkri þjónustu kæmu úr borgarsjóði. Eins má sjá fyrir sér að hópar eða teymi fólks, jafnvel teymi innan borgarkerfisins geti tekið að sér verkefni með þessum hætti.

2. Nýsköpun. Nýir aðilar sem koma að þessum verkefnum eru mun líklegri til að aðlaga þjónustu að viðskiptavinum sínum og finna bestu leiðir að settu marki. Mun meiri líkur eru því á nýsköpun og betri lausnum.

3. Meira einkafjármagn. Fyrirtæki, sem taka að sér grunnþjónustu, eru líkleg til að fara í enn meiri þróun og bjóða upp á valkvæða þjónustu. Fjármagn til velferðarþjónustunnar eykst.

4. Eftirsóknarvert starfsumhverfi. Tækifæri skapast til að bæta starfsumhverfið, hækka laun og laða að sér gott starfsfólk. Minna fé fer í dýrar yfirbyggingar.

5. Aukin ánægja með þjónustuna. Sá sem vill þjónustu velur hvert hann leitar. Slíkt leiðir til meiri ánægju með þjónustuna, en eins og margir vita hefur Reykjavíkurborg komið einstaklega illa út úr þjónustukönnunum undanfarin ár.

6. Styttri bið og minni tímasóun. Með þessu fyrirkomulagi má sporna við þeirri þróun að langir biðlistar myndist. Notendur fá meira val. Því fleiri sem nálgast fyrr þá þjónustu sem hentar, þeim mun betra og skilvirkara verður velferðarkerfið.

7. Aukin vitund um velferð. Hverfa þarf frá þeirri stefnu að aðeins þeir sem verst eru staddir noti velferðarþjónustuna. Slík þjónusta á að vera jafn almenn og heilbrigðisþjónusta. Þörfinni er mætt fyrr, forvarnir virka betur og þeim fækkar sem komast í þá stöðu að geta ekki bjargað sér.

Ný nálgun er nauðsynleg. Breyting í framangreinda átt hefur verið gerð annars staðar til dæmis á Norðurlöndum. Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur meirihlutinn í Reykjavík ekki sýnt þessum lausnum áhuga. Spjótin standa á þjónustunni í Reykjavík. Fráfarandi borgarfulltrúi meirihlutans, formaður velferðarráðs til margra ára hefur skýrt frá því að hafa ekki verið sannfærður um gæði hennar. Hvenær, ef ekki þá, er kominn tími til skoða nýjar leiðir og lausnir? Ekki stendur á fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Við höfum undanförnum árum lagt fram fjölda tillagna til úrbóta. Hefjumst nú handa og göngum til verks.

Grein birtist í Morgunblaðinu 21.9.2015

 


Velferðartorg á þvælingi

Velferðarþjónusta getur verið mjög sértæk, til dæmis ráðgjöf sérfræðinga eða sértæk meðferð, en einnig almenn s.s. námskeið og fræðsla. Til mikils er að vinna að upplýsa fólk um þá velferðarþjónustu sem stendur til boða. Slíkt getur stytt verulega þann tíma sem líður frá því að tiltekið vandamál kemur upp og að fjölskyldur fái aðstoð og ráðgjöf um hvernig má bregðast við. Einnig má með þessum hætti aðstoða fólk við að ná enn frekar markmiðum um bætta líðan og hvetja það til að fjárfesta í velferð.

Þrautalending á biðlistum
Því miður er staðan oft sú að fólk leitar ekki aðstoðar fyrr en í öngstræti er komið. Mjög einkennandi er ráðaleysi um hvert skuli leita og lítil þekking á því hvaða aðstoð sé í boði. Oft verður því þrautalending á biðlista hjá opinberri stofnun, sem eru í herkví langra biðraða. Þá er einnig algengt að fólk telji sig ekki í hópi þeirra sem þurfa meðferð enda erfitt að gera sér grein fyrir því hvenær ráð væri að leita hjálpar.

Því miður hefur þróunin verið sú að biðlistar myndast eftir þjónustu eða greiningu. Biðin getur verið löng og á meðan tapast dýrmætur tími og aðstæður og líðan versna. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að biðlistarnir myndist og koma fólki fyrr í skilning um hvenær tímabært er að leita sér aðstoðar. Til þess verður að leiðbeina fólki mun betur hvar hægt er að fá ráðgjöf. Þannig má sporna við þeirri þróun að langir biðlistar myndist hjá umsetnum opinberum stofnunum enda geta fleiri aðilar veitt nauðsynlega aðstoð. Þeir sem sinna slíkri þjónustu auka fjölbreytni þjónustunnar og veita notendum meira val. Því fleiri sem nálgast fyrr þá þjónustu sem hentar þeim mun betra og skilvirkara verður velferðarkerfið.

Tillaga um Velferðartorg
Í því skyni að bæta úr núverandi ástandi lögðum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn fram tillögu um að bjóða út verkefni sem kalla mætti »Velferðartorg«. Markmiðið er að kynna fyrir íbúum hvaða velferðarþjónusta býðst í borginni. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg stuðli að því að allir geti fundið sér þjónustu við hæfi óháð rekstraraðila. Lagt var til að haldin yrði hugmyndasamkeppni um hvernig hægt væri að byggja upp sjálfbært og rafrænt markaðstorg til þess að ná þessu markmiði. Hvernig tengjum við þjónustuframboð við þjónustuþörf, hvernig auðveldum við fólki að nálgast þjónustuaðila, hvernig auðveldum við fólki að velja þjónustuaðila og hvernig aðstoðum við fólk við að leita sér hjálpar á sem skemmstum tíma? Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sá ekki ástæðu til að vinna að þessu verkefni og felldi tillöguna með þeim orðum að unnið væri að aukinni upplýsingagjöf og miðlun á velferðarsviði. Hvergi sér þess stað að unnið sé að þessu verkefni á velferðarsviði og ekki sést það í starfsáætlun sviðsins.

Óttinn við einkaaðila
Eflaust hefur það eitthvað haft að segja að í tillögunni var sérstaklega nefnt að mikilvægt væri að auglýsa þjónustu einkaaðila eins og opinberra aðila. Það er svo sem ekkert nýtt að fulltrúar sumra flokka í borgarstjórn megi ekki heyra á það minnst að einkaaðilar komi nálægt velferðarmálum. Oft á tíðum hafa samt sömu fulltrúar vísað til Norðurlanda til að fá skoðanir sínar staðfestar. Þróunin er hins vegar sú að æ erfiðara er að vísa til Norðurlandanna máli þeirra til stuðnings enda er þjónusta einkaaðila mun velkomnari þar en hér og hefur verið nýtt mun markvissar sem eðlilegur og æskilegur hluti af velferðarkerfinu. Bæði í Danmörku og Noregi auglýsa sveitarfélög þjónustu einkaaðila eins og þjónustu opinberra aðila enda er unnið að því að auka fjölbreytileika í þjónustunni og bæta þannig við valkostum öllum til hagsbóta.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sannfærðir um gildi tillögu um Velferðartorg og að árangur léti ekki á sér standa. Þá er hugmyndin í mjög góðu samræmi við bæði forvarnarstefnu borgarinnar og áherslur í velferðarmálum. Hér er um að ræða gott dæmi um verkefni sem nýst getur fjölda fólks og styttir verulega þann tíma sem það tekur að finna ráðgjöf eða meðferð við hæfi. Verkefninu er sérstaklega ætlað að sporna gegn fjölgun á biðlistum eftir úrræðum. Með markvissu framboði velferðarúrræða, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, er hægt að kynna fyrir fólki þá þekkingu og aðferðir sem því býðst í borginni.


Við sjálfstæðismenn lögðum því tillöguna aftur fram í aðeins breyttri mynd og þá í velferðarráði og þar var samþykkt að vísa málinu til stjórnkerfis og lýðræðisráðs, vonandi var það ekki gert bara til að "losna" við góða hugmynd. Óttinn við starfsemi einkaaðila í velferðarþjónustunni má ekki koma í veg fyrir nýjungar og úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki.

Grein birtist í Morgunblaðinu 30. apríl 2015.

 


Fjárfestum í nýsköpun og velferðartækni

Eitt brýnasta mál Reykjavíkurborgar nú er fjárfesta í nýsköpun, rannsóknum og innleiðingu tækni í velferðarmálum í Reykjavík.  Verkefnunum velferðarþjónustunnar fjölgar því fyrirséð er mikil fjölgun notenda og þar eru aldraðir stærsti hópurinn.  Fyrirkomulagið sem rekið er í dag mun ekki geta mætt þörfum íbúa inn í næstu framtíð. Mikilvægt er að hefja óumflýjanlegt breytingaferli, búa til jarðveg fyrir nýsköpun í þjónustunni og fjárfesta í tæknilausnum og rannsóknum.

Við sjálfstæðismenn óskuðum eftir umræðu um þetta mál í borgarstjórn á dögunum enda teljum við að ástandið sé orðið þannig að ekki verði  beðið lengur með að fara af stað með verkefni sem löngu eru tímabær og eru til þess fallin að skila okkur betri leiðum til að fást við aukna þjónustuþörf. Algjörlega ljóst er að við þurfum að fjárfesta í breytingarferlinu, það mun ekki gerast af sjálfu sér.

Nýsköpun í velferðarþjónustunni
Mikil þörf er á að fjárfesta í tilraunaverkefnum á nánast öllum sviðum velferðarþjónustunnar. Öll stefnumótun í málaflokknum er þess eðlis að verkefnið blasir við. Brjóta þarf upp þjónustu sem veitt er með stofnanalegum hætti . Horfa verður á þarfir einstaklinga í stað þess að bjóða upp á þjónustu sem fyrirfram er steypt í mót. Oft er það svo að þarfir kerfisins eru teknar fram fyrir þarfir einstaklingsins vegna þess að lítið er um leiðir til að mæta þeim sem ekki hentar þjónustan sem í boði er.

Af einhverjum völdum býr drifkraftur nýsköpunar frekar hjá einkaaðilum en hinu opinbera því miður. Í sjálfu sér ættu því opinberir aðilar að reyna að innleiða það umhverfi sem fýsilegast er til að ná fram meiri grósku. Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og breyta því sem fyrir er. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Við eigum ekki að sætta okkur við umhverfi sem hamlar eða hefur neikvæð áhrif á hana.

Undanfarin ár hafa ný stjórnunarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms. Markmiðið er að breyta umhverfi starfsfólks þannig að það sé meiri þátttakendur í þróun vinnunnar en áður því þannig megi ná mun betri árangri. Þessar nýju hugmyndir hafa farið sigurför um heiminn og fjöldi fyrirtækja hefur innleitt þau vinnubrögð með góðum árangri. Hugmyndin byggir á mun meira samstarfi fólks á vinnustað en gengur og gerist, byggir á að ná hraðar utan um betri ferla, koma hraðar auga á ýmis vandamál og úrbætur, byggir á mikilli teymisvinnu, allir í hópnum eru jafnfrjálsir til að leggja breytingar til málanna og allar hugmyndir eru velkomnar. Í slíku umhverfi er talið að mikil gróska muni eiga sér stað. Í stað þess að óbreyttir starfsmenn bíði eftir upplýsingum frá stjórnendum um verklag, fáist þeir sjálfir við að finna bestu lausnirnar. Þessir starfsmenn þekkja oft notendur betur og hafa betri innsýn inn í hvaða þjónustu þarf í raun og veru. Mjög mikilvægt er að fá einmitt þetta starfsfólk inn í umbreytingarferlið og breyta starfsumhverfi þeirra svo það geti gerst.

Velferðartækni
Rétt eins og nýsköpunarumhverfið getur breytt miklu fyrir Reykjavíkurborg mun velferðartækni einnig geta gert það. Með innleiðingu alls kyns tækja og búnaðar geta fatlaðir og aldraðir átt miklu meiri og betri möguleika til að lifa sjálfstæðu lífi.

Velferðatækni hefur verið skipt upp í fjögur meginsvið, öryggisbúnað, tæki til að bæta fyrir missi og styðja við bætta líðan, tækni til félagslegra samskipta og tæki til þjáfunar og umönnunar. Ástæða er til að gera sérstakt átak í innleiðingu ýmissrar nýrrar tækni. Dönsk stjórnvöld hafa til dæmis ákveðið að setja málið í algjöran forgang og tala um að þörf sé á byltingu í velferðartækni. Aðrar Norðurlandaþjóðir feta í þeirra fótspor, Ísland af litlum mætti. Í Danmörku er búið að ákveða að setja tugi milljarða í sjóði sem auðvelda eiga innleiðingu nýrrar tækni einmitt til að gera fólk sjálfstæðara en líka til að bæta ferla. Dæmi um alls kyns nýja velferðartækni sem er í notkun eru róbótar, sjálfhreinsandi salerni, ýmis tækni til að auðvelda eftirfylgd með sjúkum, hreyfiskynjarar til fylgjast með ferðum fólks t.d. þeirra sem eru með minnisglöp eða þeim sem kjósa það frekar en að hafa næturvakt á staðnum. Þá hefur fjöldi fyrirtækja verið að nýta hefðbundna samskiptatækni til að gera samskipti á milli fólks auðveldari t.d. smíðað sérstakt viðmót fyrir aldraða eða þá sem eiga við minnisglöp að etja. Þróun og smíði alls kyns smáforrita í snjallsíma getur einnig nýst afar vel. Eins og annars staðar á Norðurlöndum þarf tækni til að takast á við stærstu félagslegu áskorun sem okkar samfélög hafa staðið frammi fyrir. Án þess að aðhafast drögumst við ennþá meira afturúr eða það sem enn er verra, við siglum í þrot.

Eitt mikilvægasta mál samfélagsins í dag er að okkur takist að koma upp gróskumiklu umhverfi fyrir nýsköpun í velferðarmálunum og jafnframt styðja við þá nýsköpun með tækninni. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í breytingarferlinu sjálfu. Tillögur okkar sjálfstæðismanna liggja fyrir og nú er að sjá hvort meirihlutinn tekur undir.

Grein birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2014


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband