Færsluflokkur: Bloggar

Dýrt spaug

Fréttatilkynning Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var send út áðan í kjölfar fyrri umræðu um frumvarp að fjárhagsáætlun 2015:

1veltufe_frarekstri_reykjavik

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dýrara með hverju árinu að búa í Reykjavík

- Aðalsjóður verður með 5 milljarða kr. halla árið 2015

- 25,5% dýrara en árið 2010 fyrir fimm manna fjölskyldu

- Endurhugsa þarf rekstur borgarsjóðs strax

- Veltufé frá rekstri ekki lægra í langan tíma

- Hindra nýsköpun í stærstu málaflokkunum

 

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, gagnrýndi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar í dag og hefur áhyggjur af rekstrarstöðu borgarinnar.

„Rekstur borgarsjóðs veldur mér verulegum áhyggjum. Þróun á rekstri borgarsjóðs, gefur tilefni til að hafa áhyggjur af framtíðarmöguleikum Reykjavíkurborgar til að veita þá þjónustu sem íbúarnir þurfa í dag og fram í tímann“, segir Halldór.

25,5% dýrara en árið 2010
Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar heldur meirihlutinn í Reykjavík áfram að reka sömu stefnu og frá síðasta kjörtímabili. Kostnaður meðalfjölskyldu í Reykjavík með þrjú börn er 2,2 milljónir sem hún greiðir til borgarinnar á ári að meðtöldu útsvari. Núverandi meirihluti ætlar að halda áfram að auka álögur á fjölskyldur borgarinnar líkt og síðasti meirihluti. Þriggja barna fjölskylda þarf nú að greiða 25,5% meira fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar en hún gerði árið 2010.* Fjölskyldan borgar 561.000 kr. meira á næsta ári 2015 en hún gerði árið 2010 eða nálægt 10% meira en hækkun vísitölu.

Veltufé frá rekstri sýnir alvarleika mála
Veltufé frá rekstri lýsir fjármunamyndun á rekstrartíma
bilinu og það segir til um getuna til þess að greiða afborganir lána og fjárfestingar eða hverju reksturinn skilar í peningum. Veltufé fer sífellt lækkandi í A-hluta. Í samanburði má sjá að Reykjavíkurborg er með lægsta veltufé frá rekstri í samanburði við önnur sveitarfélög.**

Hindra nýsköpun í stærstu málaflokkunum
Um 70% af útgjöldum borgarinnar fer í skóla- og velferðarmál. Í fjárhagsáætlunum borgarinnar er engin áhersla á nýsköpun í þessum málaflokkum. Með þessari þróun er meirihlutinn ekki að gera ráð fyrir innleiðingu nauðsynlegra breytinga og stuðla að nýsköpun sem er mikilvæg til þess að bæta þjónustu borgarbúa.


Þjónusta og þarfir eldri borgara

Í Reykjavík er fjöldi þeirra sem eru eldri en 70 ára um 11 þúsund manns. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands mun öldruðum fjölga verulega á næstu áratugum. Nauðsynlegt er því að byrja að endurhanna þjónustu við aldraða. Bæði vegna þess að hún er ekki nógu góð í dag og eins að mun fleiri munu þurfa á þjónustu að halda eftir nokkur ár. 

Margt er jákvætt í sambandi við málefni aldraða í Reykjavík. Undirrituð átti sæti í stefnumótunarhópi um málefni aldraðra þar sem margt var skoðað. Meðal annars rannsóknir sem gerðar hafa verið á högum og viðhorfum eldri borgara. Fram kemur að 70% telji að heilsufar sitt sé mjög eða frekar gott. Þá segjast 77% hreyfa sig einu sinni eða oftar í viku og 87% segjast sjaldan eða aldrei einmana. 66% taka þátt í félagsstarfi eldri borgara og 58% taka þátt í einhverju félagsstarfi öðru en félagsstarfi aldraðra. Aðeins 16% af þeim sem eru 80 ára og eldri eru  á dvalar- eða hjúkrunarrými en 84% búa enn heima. 

Stærsti hluti þeirra sem fær heimaþjónustu frá Reykjavíkurborg eru aldraðir (76% árið 2006, samkvæmt úttekt velferðarsviðs). Líklegt er að þetta séu um 2.300 manns í dag. Á biðlista eftir heimaþjónustu fjölgar nú milli ára um 30% sem sýnir að ekki hefur tekist að koma til móts við þær þarfir sem til staðar eru í borginni. Eins er það svo að þeir sem fá aðstoð inn á heimili sín fá lítið um það að segja hvernig sú aðstoð er veitt. Þeir sem fá aðstoð fá ekki að velja hver kemur, hvenær eða hvernig að þjónustunni er staðið. Hér er stuðst við þykkar reglugerðir og kvaðir opinberra starfsmanna um hvernig þeim beri að sinna þjónustu fram yfir það viðhorf að þjónustuna skuli veitt á forsendum þess sem hana fær. Auðvelt er að skilja að ekki ríkir ánægja með slíkt. 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í borginni hvað varðar þjónustu við aldraða er mjög skýr. Fólk á að hafa frelsi til að velja þá þjónustu sem þeim hentar best. Stefnan er að mæta þörf hratt og örugglega og gefa öldruðum tækifæri til að velja þá þjónustuaðila sem hentar þeim. Ef sá sem þarf þjónustu tekur ákvörðun um hvaðan hann sækir þá þjónustu og með hvaða hætti hefur hann í hendi sér það nauðsynlega tæki að geta valið. Um leið verður til heilbrigð samkeppni. Án hennar er ekki hvati til að mæta viðskiptavinum á þeirra forsendum. Mjög nauðsynlegt er að breyta þessu sem fyrst. Eins og staðan er í dag virðast innri reglur Reykjavíkurborgar hafa meiri áhrif á það hvernig þjónustu fólk fær og hversu hratt hún berst en ekki þörf viðskiptavinarins. 
 
Um þetta mál og önnur svipuð tökum við ákvörðun í kosningunum 31. maí næstkomandi.  Afar mikilvægt er að á næsta kjörtímabili komist að ný sjónarmið og breytt vinnubrögð í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um velferð aldraðra sem annarra og ráðast í þær breytingar sem nauðsynlegar eru samfélaginu til hagsbóta.


Listir og skipulag

Um daginn átti eg skemmtilegt spjall við nokkra félaga sem öll hafa áhuga á borgarskipulagi. Listamaðurinn í hópnum var að sýna okkur útlistaverk sem hafði í einfaldleika sínum ótrúega jákvæð áhrif á allt umhverfið í kringum sig. Og við vildum öll sjá meira af slíku bæði listum og mannvænni hönnun í hverfunum okkar. Við vorum algjörlega sammála um að slíkt gæti bætt svo miklu við og gert staði svo miklu meira spennandi  og aðlaðandi. Af hverju eru listirnar ekki stærri þáttur í borgarskipulaginu?
 

Styttur á stalli
Hægt var að greina í hópnum ákveðna þreytu á því að listin kæmi síðust inn. Styttu komið fyrir á stalli í almenningsgarði.  Svona eins og kökuskraut á rúgbrauði. Arkitektúr er listform sem setur svip sinn á hús og hverfi en einhvern veginn virðist sem lítið fari fyrir því að horft sé til möguleika annars konar listforms í upphafi skipulags. Sjá mætti fyrir sér að hægt væri að gera mögnuð verkefni ef við breyttum aðeins um vinnulag. Til dæmis með því að hafa listamenn með í ráðum á vel völdum stöðum  þegar byggja á hús, skipuleggja græn svæði, setja  upp nýjar götur, gatnamót, hringtorg, meira að segja mislæg gatnamót gætu orðið skemmtileg fyrirbæri.  
 
Stefnan er til staðar 
Menningarstefna Reykjavíkurborgar hefur síðan 2009 kveðið á um aðkomu listamanna að skipulagi og mannvirkjum en lítinn árangur er að greina. í dag var samþykkt endurskoðuð menningarstefna í borgarstjórn og nú verður enn fastar að orði kveðið um aðkomu listamanna að skipulagi ef eftirfarandi klausa sem tekin er úr drögum af menningarstefnu sem nú liggur fyrir menningar- og ferðamálaráði:

 „Mikilvægt er að ásýnd og ímynd Reykjavíkur endurspegli skapandi hugsun íbúa hennar og að mannlíf og mannvænt umhverfi sé haft í fyrirrúmi. Líta þarf á aðkomu listamanna að mótun opinberra bygginga og almannarýmis sem órjúfanlegan hluta af heildinni. Listaverk glæða opinber svæði lífi, veita þeim sérstöðu og bæta staðaranda, hvort sem um er að ræða stök verk eða verk sem mynda hluta af stærra samhengi, s.s. samgönguverkefnum, vegaframkvæmdum og við hönnun opinna svæða. „
 
Látum þetta gerast
Við sjálfstæðismenn í Reykjavík teljum að hægt sé að gera betur en verið hefur. Stefnunni fylgja aðgerðir sem nú í framhaldinu  er mikilvægt að forgangsraða svo við förum að ná markvissari árangri. Hér má sjá fyrir sér að hægt yrði að byrja með því að skilgreina ákveðna reiti sem til dæmis eru meira "almennings" en aðrir og ástæða til að gera skipulagið aðlaðandi og gott og gera tilraun með að koma listunum fyrr inn í ferlið. Margt annað má láta sér detta í hug sem gæti gert okkar góðu borg enn betri. Alla vega er tími til kominn að láta þetta gerast.


Reykvíkingar, hristum af okkur slenið

Reykjavíkurborg þarf að hrista af sér slenið. Við þurfum miklu skýrari stefnu og markvissari aðgerðir til að fólk sjái ástæðu til að búa áfram í borginni. Upp hefur safnast gríðarlegur velferðarvandi og vinnandi fólki fjölgar ekki í Reykjavík eins og í nágrannasveitarfélögunum. Í borgina vantar fleiri og jafnframt verðmætari störf og forsenda þess er að hér búi fólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að drífa áfram öflugan vinnumarkað. Nauðsynlegt er að beina sjónum að þessum hlutum, ef ekki á illa að fara.
 
Gagnrýna má margt. Við eigum ekki að sætta okkur við að námsárangur barna hér sé lakari árangri jafnaldranna í öðrum löndum. Það er merkilegt að fylgjast með borgarfulltrúum meirihlutans hamla gegn breytingum og skýla sér á bak við það, að börnum líði vel í skólunum. Auðvitað er gott að börnum líði vel en það er engin ástæða til að telja að ekki sé líka hægt að ná ásættanlegum árangri. Þegar skólakerfið stenst ekki samkeppni erum við illa stödd. Samkeppnishæfi þjóðarinnar allrar stendur og fellur með því.
 
Huga þarf að því að í borginni sé frjór jarðvegur fyrir atvinnulífið.
Sérstaklega þarf svo að huga að því hvernig borgaryfirvöld geta auðveldað frumkvöðlum eða nýjum fyrirtækjum að koma sér fyrir og hefja rekstur. Einfalda verður samskiptaleiðir við borgina og forgangsraða málum þannig að íbúar þurfi ekki að standa í biðröð og eilífu stappi til að fá niðurstöðu í einföldum afgreiðslumálum. Stundum virðast hlutirnir vera orðnir allt of flóknir og að stjórnkerfið standi í vegi fyrir umbótum.
 
Það sem aðgreinir frambjóðendur sjálfstæðismanna í borginni skýrt frá öðrum framboðum er að við viljum að fólk hafi athafnafrelsi á sem flestum sviðum. Hinir flokkarnir leggja allir áherslu á að grunnþjónustan þurfi í öllum tilfellum að vera á vegum borgarinnar og enginn geti rekið þá þjónustu nema borgarstarfsmenn. Þarfir viðskiptavinarins eru ekki í forgangi af því að samkeppnin um þjónustuna er engin. Viðskiptavinurinn á engra kosta völ og verður að bíða eftir að honum sé sinnt. Þetta ástand má bæta með meiri samkeppni.
 
Góð hugmynd er að gefa hæfu fólki tækifæri til að spreyta sig á rekstri grunnþjónustu. Hægt er að gera slíkt með samningum eins og ríkið hefur gert með afar góðum árangri í heilsugæslunni. Um leið gefst tækifæri til að innleiða nýja nálgun í rekstur þjónustunnar og viðskiptavinurinn verður aðalatriði. Þetta á við um velferð sem og menntun. Ungt fólk með reynslu af slíku fyrirkomulagi erlendis, t.d. annars staðar á Norðurlöndum, kallar eftir því að við hefjum slíkt breytingarferli hér. Og þetta skapar tækifæri og mun leiða af sér meiri nýsköpun.
 
Skapa þarf umhverfi sem fær fólk til að vilja setjast að. Við njótum öll kraftsins sem slíkir einstaklingar bera með sér. Undanfarin ár hefur Reykjavík verið að dragast aftur úr. Í stað þess að vera kraftmikil og skapandi er hún þreytt og þung. Stöðnun og hnignun er á næsta leiti. Afar mikilvægt er að á næsta kjörtímabili komist að ný sjónarmið og breytt vinnubrögð í Reykjavík. Þannig stöndum við vörð um velferðina og bætum lífsgæðin í framtíðinni. Hristum af okkur slenið, Reykvíkingar.





Skuldasöfnun ótrúleg á kjörtímabilinu

Það er ótrúlegt að ímynda sér skuldasöfnun borgarinnar. Skuldir borgarinnar hafa aukist um 625 þúsund á klukkustund allt kjörtímabilið! Um leið hafa tekjur aukist en borgarbúar fá ekki að njóta þeirra. Meirihlutinn hefur verið að keyra á sama "módeli" öll árin og lítið verið gefinn fyrir að hugsa um þær breytingar sem verður að fara að sinna. Í framtíðinni mun þetta módel ekki ganga til að sinna öllum þeim fjölda sem þurfa á þjónustu að halda. Ekki er fjárfest í neinum breytingum og lítið hlustað á þjónustuþega.    

 


Hjartans mál hægri feminista

Á hádegisverðarfundi Landssambands sjálfstæðiskvenna í gær á Nauthóli var rætt um framtíð og tækifæri í ferðamálum, með áherslu á að konur létu í auknu mæli til sín taka við stofnun nýrra fyrirtækja í greininni. Í erindum kom fram að áhersla og eftirsóknarverður vöxtur í ferðaþjónstu tengist helst heilsu- og menningartengdri þjónustu. Sú áhersla er í takt við rannsóknir Ferðamálastofu sem sýna að það sé einmitt sú upplifun sem gestir okkar eru tilbúnir til að borga fyrir og einnig kröfur okkar um að veita þjónustu sem skilar meiri virðisauka.
 
Á þessum fundi var ég með erindi um ferðaþjónustuna og konur. Þar fjallaði eg um þau  gríðarlega miklu tækifæri sem fólgin væru í þeim vexti sem hefur orðið í ferðaþjónustunni. Stefna Reykjavíkurborgar í ferðamálum hefur mikla skírskotun til áhugamála kvenna, s.s. heilsu og menningartengd ferðaþjónusta og ég tel að kvenfrumkvöðlar eigi sérstaklega mikil tækifæri þar. Mikilvægt er að fá konur til að takast á við frumkvöðlastarfið, öðlast reynslu og verðmæta innsýn í stjórnun. Þannig er raunhæfast að auka hlut kvenna í stjórnunarstörfum og þetta á við í ferðaþjónustu sem og í öðrum greinum! Þetta er hjartans mál okkar hægri feminista.
 
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, fór yfir hinn ævintýralega vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár. Það að fjöldi ferðamanna stefni í 1 milljón ferðamanna jafnvel á þessu ári eða því næsta er eitthvað sem var óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan. Minntist hún aðalfundar samtakanna frá árinu 2001 sem bar yfirskriftina: „Ein milljón ferðamanna árið 2015.“ Á þeim fundi var farið yfir hvað þyrfti að gera til að geta tekið á móti slíkum fjölda. Að byggja upp vegagerð var einn af þeim þáttum sem menn sáu strax að væri áríðandi að vinna að ásamt öðrum innviðum.
 
Því miður hefur uppbygging innviða ekki gengið eftir sem skyldi þó svo að aukning ferðamanna hafi vaxið ár frá ári. „Þá er áhersla á einföldun og endurskoðun regluverks, uppbygging innviða sem og aukin menntun og gæðavitund í greininni forgangsverkefni okkar hjá SAF næstu misserin ásamt því að vinna að farsælli lausn í gjaldtökumálum. Það er ljóst að það verður að byggja upp í kringum helstu náttúruperlur okkar ásamt því að búa til nýja segla. Langflestir ferðamenn koma út af náttúrunni, þessari takmörkuðu auðlind sem er á mörgum stöðum þegar komin að þolmörkum. Tækifæri landeiganda og ferðaþjónustunnar í heild sinni liggja ekki síst í því að byggja upp frekari virðisaukandi þjónustu á svæðunum,“ sagði Helga á fundinum.
 
Eva María Þórarinsdóttir Lange, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Pink Iceland sagði frá hugmyndafræði fyrirtækisins sem sérhæfir sig í upplifun og afþreyingu fyrir samkynhneigða sem aðra. Skýr stefna fyrirtækisins er grundvölluð á margra ára reynslu Evu og hugmyndavinnu sem er að skila sér í vel úthugsaðri stefnu og vali á viðskiptavinum.  Eva María sagði að “ör vöxtur og of mikil græðgi væri veikleiki okkar í dag og nauðsynlegt að horfa á gæðin, menntaða starfsmenn og að Íslendingar allir væru þátttakendur í að veita gestum okkar góðar móttökur”.
 
Landsamband sjálfstæðiskvenna leggur mikla áherslu á auka hlut kvenna í stofnun og rekstri fyrirtækja.  Næsti hádegisfundur sambandsins verður 20. maí á Nauthóli og fjallar um tækifæri í rekstri fyrirtækja í þjónustu sem nú er í höndum hins opinbera.
 

Listi án stefnu?

Framsóknarflokkurinn er loksins kominn með framboðslista í borginni. Því miður virðist engin stefna fylgja eða alla vega eru menn ekki með hana á hreinu. Þetta kom mér mjög á óvart við mín fyrstu kynni af nýja framboðinu þegar ég fylgdist með Sunnudagsmorgninum í dag. 

Í þættinum kom fram spurning um hvort stefna Framsóknarflokksins ætti miklu fylgi að fagna hjá borgarbúum. Því þar mætti til dæmis finna að fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eigi að borga hærri tekjuskatt en fólki úti á landi og barnabætur eigi að vera lægri ef þú býrð í borginni o.s.frv. Oddviti framboðsins var spurð út í það hvort hún styddi þessa stefnu og ef svo hvort hún gæti þá staðið vörð um hagsmuni borgarbúa. Hún var ekki búin að mynda sér skoðun á því.

Önnur tjáskipti um stefnumálin virtust frekar skoðanir einnar manneskju en úthugsaðar hugmyndir. Né virtust staðreyndir um aðalmál framboðsins, flugvöllinn liggja fyrir. Eitthvað ekki alveg nógu gott við þetta.

 

Já og talandi um stefnumálin - þá er Sjálfstæðisflokkurinn með sitt á hreinu hér: http://www.xdreykjavik.is

 


Smelltu á hverfið þitt

Á vef okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík er hægt að smella á hverfi og skoða ýmislegt skemmtilegt, endilega skoðið þetta!

www.xdreykjavik.is 

Íbúar Reykjavíkur eiga að geta treyst á að borgin þeirra sé hrein og fögur. Því miður hefur hreinsun borgarinnar verið í lamasessi alltof lengi en við viljum gera breytingu þar á. Strax í vor munum við sjá til þess að eðlileg þjónusta fari í gang í hverfum borgarinnar. Það er einnig mikilvægt að bæta umferðarflæði borgarinnar sem mun koma í veg fyrir að mengun sé yfir mörkum sem er afar brýnt mál. 

 


Ofbeldi í borgarstjórn

Rætt var um að hefja sérstakt átak gegn ofbeldi í borgarstjórn í gær. Tillaga Vinsti grænna um átakið var samþykkt samhljóða en við töldum rétt að taka málið lengra og lögðum fram viðbótartillögu um að nauðsynlegt sé að beina sjónum sérstaklega að minnihlutahópum í slíku átaki. Algjörlega nauðsynlegt er að horfa sérstaklega til  minnihlutahópa. Rannsóknir sýni til dæmis þær sláandi niðurstöður að þriðjungur fatlaðra kvenna verða fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. 
Þá sé það einnig staðreynd að fatlaðar konur búi við ofbeldi yfir lengri tíma en aðrir hópar. Mjög mikilvægt er að skoða hvernig hægt er að hafa virkara eftirlit með þeim sem veikast standa því þeir leiti sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum. Og ljóst er að nauðsynlegt er að nálgast lausnir fyrir þessa hópa  með öðrum hætti en almennt gerist. 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum felst í að auka valfrelsi, og að fólki gefist kostur á því að hafa frelsi til að velja hvernig þjónusta er veitt og af hverjum. Slíkt er nauðsynlegt því þannig fær notandi þjónustunnar stjórnunina og valdið til að stýra hvernig fram er komið við hann. Inn á opinberum heimilum og stofnunum er hætta á að sjálfræði íbúa sé minna og að hugmyndafræðin um sjálfstætt líf víki fyrir reglum sem starfsfólk og stofnanir setja. Þeir sem búa á heimilum og stofnunum hafa litla möguleika á að velja starfsfólk til að sinna sér enda lýtur það fólk ekki þeirra stjórn. Ef þeir sem þurfa þjónustuna eru hinir sömu og sem ráða fólkið mun þjónustan snúast meira um þarfir þess sem þarfnast hennar en ekki þarfir stofnunarinnar sem réði starfsmanninn. Mjög mikilvægt er að hraða og leggja áherslu á breytingar á velferðarkerfinu í átt til sjálfstæðis.

Trúverðugleiki meirihlutans lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum

Eftirfarandi fréttatilkynning fór frá borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins í gær eftir umræður um ályktunartillögu meirihlutans um að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB. Sjálfstæðismenn lögðu fram aðra eftirfarandi tillögu sem var felld.

 

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeim vilja sem fram hefur komið að ná sem breiðastri sátt um næstu skref í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Með því getur Alþingi leitast við að vinna gegn þeirri tortryggni, sem einkennt hefur umræðuna um málið frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hóf aðildarviðræður á árinu 2009 án þess að vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Trúverðugleiki borgarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins er lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum í ljósi þess m.a. að mótmæli 70.000 einstaklinga gegn því að Reykjavíkurflugvöllur yrði færður úr Vatnsmýrinni í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur voru höfð að engu fyrir fáeinum mánuðum. Eins var farið með mótmæli foreldra vegna sameiningar skóla í Reykjavík.

 

Ítrekuð er sú stefna borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins að vinna að niðurstöðum allra mála í góðri sátt við borgarbúa og að vísa ákvörðunum í mikilvægum málum til þeirra og er Alþingi hvatt til að kanna allar leiðir sem færar eru til að vinna í víðtæku samráði.“

 

Tillagan var felld með 10 atkvæðum gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband