Færsluflokkur: Bloggar
23.1.2017 | 10:35
Langt í loforðin
Húsnæðisvandinn í Reykjavík er orðinn alvarlegur og ekki á förum. Illgjörningur er að finna húsnæði á almennum leigumarkaði og nánast ógjörningur að finna húsnæði til langtímaleigu. Fólk býr oft á tíðum við slæmar aðstæður og kröpp kjör því ekkert annað er í boði. Einmitt þegar efnahagsástandið og atvinnuástandið blómstra sem aldrei fyrr.
Skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegra íbúða. Ekkert gengur að stuðla hratt og örugglega að framboði minni og ódýrra íbúða þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð borgarstjóra. Skorturinn leiðir til þess að húsnæðisverð og þar með leiguverð þrýstist upp og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði. Sérstaklega er vandinn ungs fólks og tekjulægra.
Biðlistar eftir félagslegu húsnæði lengjast. Nú bíða tæplega 900 manns eftir félagslegu húsnæði. Biðlistinn endurspeglar alvarleika ástandsins. Langt er í land með að uppfylla markmið um að fjölga félagslegum íbúðum um 100 á ári.
Meirihlutinn í Reykjavík virðist meiri áhuga hafa á öðrum verkefnum en að bæta ástandið á húsnæðismarkaði. Til dæmis hefur honum lengi verið hugleikið að skilgreina nýjan félagslegan hóp; efnaminni, sem er hópur sem telst ekki til þeirra efnaminnstu. Úr þeim hópi munu svo fáir heppnir fá húsnæði í gegnum leigufélög á niðurgreiddu verði, því félögin fá í staðinn lóð í meðgjöf frá Reykjavík. Þetta er sérstaklega gagnrýnivert þegar á sama tíma er verið að vanrækja uppbyggingu fyrir þá efnaminnstu.
Aðalskipulag Reykjavíkur sem samþykkt var haustið 2014 ætti að endurskoða. Uppbygging er ekki að þróast með þeim hætti sem þar er kveðið á um og íbúðum fjölgar ekki samkvæmt áætlunum. Þéttingin vestast í borginni gengur einfaldlega of hægt.
Nauðsynlegt er að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfa og skipulags. Einnig hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við sérstök innviðagjöld og afgreiðslugjöld sem Reykjavíkurborg hefur innheimt af þeim sem eru í framkvæmdahug. Slíkt er síst til þess fallið til að auðvelda uppbyggingu í Reykjavík.
Núverandi meirihluta er hugleikið að ræða mikilvægi þess að stuðla að jöfnuði og mannréttindum. Lítið fer þó fyrir því þegar kemur að húsnæðismálum. Að búa við óvissu á húsnæðismarkaði er það versta sem komið getur fyrir fólk og snertir bæði hugtökin jöfnuð og mannréttindi. Eilífir flutningar og rask getur leitt til ástands þar sem skólagöngu og vinatengslum barna er ógnað, slíkt ástand reynir verulega á fjölskyldur, og tekjuminnsti hópurinn verður verst úti. Ástandið leiðir þá sem minnst hafa til enn meiri fátæktar.
Af hverju einbeitir borgarstjóri sér ekki að því sem hann getur lagt af mörkum til að bæta húsnæðisástandið í Reykjavík í stað þess að fara með hverja ræðuna á fætur annarri um glæsilega uppbyggingu einkaaðila og fasteignafélaga í borginni með tilheyrandi glimmersýningum.
Það er eiginlega orðið of vandræðalegt að hlusta.
Grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2017
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2017 | 20:56
Frítt í sund?
Meirihlutinn í velferðarráði samþykkti í dag tillögu um að frítt verði í sund fyrir atvinnulausa og þá sem eru á fjárhagsaðstoð og búið var að kostnaðargreina þá tillögu í bak og fyrir. Upphæðin svo sem ekki svo há.
Slíkar frí tillögur eru vinsælar og hafa verið lagðar fram af öllum flokkum þvers og kruss en oftast höfum við XD liðar í velferðarráði verið á móti þeim. Ekki af því að okkur er illa við að fólk fari í sund eða hafi eitthvað við að vera heldur vegna þess að þá kemur spurningin hvar á að draga mörkin? Af hverju eiga slíkar tillögur þá ekki að ganga yfir fleiri hópa, t.d. aldraða, öryrkja, og einhvern tíma kemur svo að þeim sem eru tekjulægstir og hverjir eru það?
Í þeim hugleiðingum kom í ljós að starfsmenn borgarinnar fá frítt í sund. Okkur fannst því liggja beinna við að leggja fram tillögu um að borgin hætti að niðurgreiða sundferðir starfsmanna áður en haldið er lengra með frí-mörkin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2017 | 18:17
Tími er kominn á varnarleikinn
Nu er orðið tímabært að fara að skilgreina varnarleikinn. Reykjavíkurborg hefur sett sér ferðamálastefnu sem gilda á til 2020. Strax fljótlega eftir að hún var samþykkt var ljóst að stefnan var sprungin því fjölgun ferðamanna var orðin margfalt meiri en gert var ráð fyrir. Vorið 2014 lögðum við Sjálfstæðismenn fram tillögu um að stefnan yrði endurskoðuð með hliðsjón af þessari miklu fjölgun. Nú liggur brátt fyrir endurskoðuð aðgerðaráætlun menningar- og ferðamálasviðs vegna þessa sem er hið jákvæðasta mál. Stefnan byggir þó mest á sóknarleiknum, enda byggir hún í grunninn á að skapa tækifæri í ferðaþjónustu sem auðvitað var gríðarlega mikilvægt.
Engu að síður er ýmislegt í farvatninu sem kallar á að nú sé tímabært að farið verði í að skilgreina varnarleikinn. Hvernig gætum við þess að fjölgun ferðamannanna hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa. Hingað til hefur mest verið bent á að enn vanti hótelherbergi, ferðamenn séu ánægðir, íbúar njóti þess að búa við betri þjónustu og fjölbreyttara framboð veitingahúsa.
Hins vegar má merkja margt annað sem er síður jákvætt. Húsnæðisvandinn er viðverandi og alvarlegur skortur er á húsnæði í Reykjavík. Þetta er rauði þráðurinn meðal annars í skýrslu Rauða Krossins: "Fólkið í skugganum", og ljóst er að hefur gríðarlega neikvæð áhrif á lífsgæði. Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu er tilkominn meðal annars vegna skammtímaleigu sem aftur er m.a. vegna skorts á hótelrýmum og því að tekjumöguleikar þeirra sem leigja íbúðir er meiri í skammtímaleigu en gengur og gerist á almennum leigumarkaði. Auðvitað er hann einnig til kominn vegna þess að skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegs húsnæðis, né því að stuðla að framboði ódýrra íbúðá þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð. Skorturinn leiðir til þess að leiguverð verður gríðarlega hátt og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra. Svo stór þáttur eins og húsnæðisþátturinn getur haft gríðarleg áhrif á upplifun notenda gagnvart ferðaþjónustu. Margt fleira má nefna eins og samgöngur og álag vegna ferðamanna, rútuumferð, umferð gesta á öllum tímum sólarhrings og mörg önnur atriði sem berast okkur borgarfulltrúum frá íbúum. Nú síðast mátti merkja óánægju bæði ferðamanna og íbúa með gríðarlegt álag á þeirri fábreyttu þjónustu sem í boði var til dæmis nú yfir hátíðarnar þar sem algjört misræmi virtist vera milli ásóknar og þess sem var í boði.
Mikið og vel hefur verið fjallað um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar. Og það má vel viðurkenna það að þau eru jákvæð og góð. En þrátt fyrir það má ekki gleyma að tala um það sem neikvætt er og gæti skaðað samfélagið ef ekkert er að gert. Algjörlega er orðið tímabært að fara að horfa á og skilgreina hvaða þættir það eru í ferðaþjónustunni sem hafa neikvæð áhrif á sambýlið við íbúa og skilgreina þolmörkin, gæta þess að sambýlið haldist á jákvæðum nótum og leyfa íbúum að njóta þess að ferðaþjónustan blómstrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2016 | 22:42
Kjarkleysi meirihlutans
Borgarstjóri gerði fyrri bloggfærslu mína að umræðuefni í upphafsorðum sínum í seinni umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og taldi um misskilning að ræða. Svo tel ég ekki vera og ástæðan er eftirfarandi.
Ljóst er að markmið meirihlutans í Reykjavík með hagræðingaraðgerðum sínum fyrir þetta ár og næstu 2 voru að ná markmiðum um sjálfbærni í rekstri borgarsjóðs svo að tekjur og útgjöld héldust í hendur ná mætti upp fjármagni til fjárfestinga eða greiðslu skulda.
Í 9 mánaða uppgjöri fyrir þetta ár er hvergi hægt að lesa um hvernig hagræðingarvinnan gekk en planið var að hagræða um 1.780 m.kr. á þessu ári, 1.150 á því næsta og tæpar 500 m.kr. árið 2018. Gagnrýnin beindist að því að hagræðingarkröfurnar hefðu verið afskrifaðar hver af annarri á árinu og eftir stæði aðeins brot. Þá að vinnubrögð meirihlutans að kasta fram hagræðingartillögum á óútfærðan hátt væru ótrúverðugar. Jafnframt var tekið fram að auðvitað væri árið ekki liðið og því þyrftum við að sjá hvernig fram horfir þegar það er liðið.
Samkvæmt ábendingum fjármálaskrifstofu með 9 mánaða uppgjöri er 200 m.kr. halli á velferðarsviði á fyrstu 9 mánuðunum, 188 m.kr. halli á hjúkrunarheimilum, 169 m.kr á rekstri grunnskóla þrátt fyrir aðgerðir, 20 grunnskólar reknir með halla og 16 leikskólar. Þá muna allir að tekin var ákvörðun um að afskrifa um 678 m.kr. hagræðingarkröfu á grunnskólann í haust þegar ljóst var að hagræðingarkröfur meirihlutans gengu hreinlega ekki upp.
Það er því ekki nema eðlilegt að efast um ágæti áætlanagerðar meirihlutans. Í uppgjörinu má hvergi sjá þess merki að verið sá að fást við verkefnin sem brýn þörf er á að endurskoða og skipuleggja. Þjónusta við aldraða og fatlaða verður að taka breytingum ef borgin á að sinna þörfum og grunnskólakerfið kallar á breytingar sem ekki fjármagna sig sjálfar. Aðferðirnar eru ótrúverðugar, þeim var slengt fram með óábyrgjum hætti, settar í nefnd þannig ekki þurfi að svara fyrir þær og svo er ekki útlit fyrir að þær standist markmið um sjálfbærni.
Nú þegar er búið að draga í land með hagræðinguna sem sett var á næsta ár og hún nú 870 milljónir í stað 1.150. Allt þetta hleður undir þá tilfinningu að þarna sé um einhvers konar undanhlaup að ræða. Andvaraleysi meirihlutans gagnvart því að fást við krefjandi breytingar á þjónustu borgarinnar er staðreynd.
Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram fjölda tillaga um hvernig mætti innleiða breytingar í velferðarþjónustunni á næsta ári til að takast á við fjölgun aldraðra og þjónustuþarfir þeirra og fatlaðs fólks. Við viljum taka mun sterkar á þeim málum en gert hefur verið. Ljóst er að ekki verður hægt að reka velferðarþjónustuna með sama hætti næstu áratugi og bregðast verður við strax með trúverðugum hætti.
Merkilegt var að borgarstjóri gekk þá fram með þeim orðum að tillögurnar væru full kjarkaðar. Já, eflaust eru þær kjarkaðar sem betur fer og ekki fyrir þá sem forðast að taka á erfiðum málum, enda nóg komið af kjarkleysi meirihlutans.
Bloggar | Breytt 7.12.2016 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2016 | 15:20
Er ekki komið gott?
Meirihlutinn í Reykjavík setti miklar hagræðingaraðgerðir á dagskrá fyrir ári síðan til að bjarga A-hluta borgarsjóðs en þá stóð til að hagræða um 1.780 milljónir króna á þessu ári, og fyrir árið 2017 átti hagræðingin að vera 1.155 milljónir.
Nú þegar árið er í þann mund að líða og litið er yfir farinn veg þá má sjá þessa klausu í 9 mánaða uppgjöri þessa árs "Rekstrargjöld voru án afskrifta 69.014 mkr eða um 181 mkr undir fjárhagsáætlun.". Nú eru auðvitað ekki öll kurl komin til grafar því enn á eftir að taka allt árið saman en ekki er hægt að segja að þetta líti sérstaklega vel út. Á fyrstu 9 mánuðunum er hagræðingin brot af áætlun.
Á morgun er til umfjöllunar fjárhagsáætlun næsta árs. Þar er búið að draga verulega niður í hagræðingunni eða frá 1.155 milljónir og niður í 870 milljónir þannig að ljóst er að lítið mark má taka af þessari ótrúverðugu áætlunargerð meirihlutans í Reykjavík.
Verklagið er með ólíkindum í herbúðum borgarstjóra sem er orðin sérfræðingur að rúlla boltanum inn í framtíðina en takast ekki á við þau mál sem brýnust eru. Stofnaðar eru nefndir sem hægt er að vísa á að séu að störfum í stað þess að að þurfa að svara þessum "óþægilegu" málum sjálfur.
Andvaraleysið gagnvart því hvernig þjónusta við íbúa þarf að þróast á næstu árum til að mæta þörfum íbúa er alvarlegt og óþolandi. Ráðast þarf í gagngerar breytingar á velferðar og skólakerfi en borgarstjóri virðist engar skoðanir hafa á þeim, né öðru því sem óþægilegt er að svara fyrir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2016 | 15:49
Kafbátastjórnun par excellence
Ótal hagræðingarhópar en engin svör
Rætt er um skólamálin í borgarstjórn. Borgarstjórnarmeirihlutinn telur að vitlaust sé gefið milli ríkis og sveitarfélaga og telur það upp sem helstu skýringuna á því þegar kemur að neyðarástandi því sem skapast hefur í skólum landsins. Vísað er í að ríkið hafi ekki komið að borðinu með hinar og þessar leiðréttingar en hvergi er minnst á þær tekjur sem borgin hefur fengið í því bjarta efnahagsástandi sem nú ríkir. Hvergi er heldur minnst á þær tekjur sem borgin fær langt fram yfir önnur sveitarfélög af fasteignagjöldum hótela og tekjur af annarri ferðaþjónustu.
Fyrir einu ári síðan var ljóst að meirihlutinn gat ekki svarað hvernig hann vildi fara í nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir. Eina svarið var að málið yrði skoðað og sett í nefnd en ítrekað var lofað að grunnþjónusta yrði ekki skert. Við umræður í borgarstjórn kemur sárlega skýrt í ljós að úrræðaleysi borgarstjórnarmeirihlutans er mikið.
Ég get ekki séð betur en að þessir starfshópar hafi verið stofnaðir á tímabilinu:
Stýrihópur Reykjavíkurborgar um hagræðingaraðgerðir (2016)
Hagræðingarhópur miðlægrar þjónustu (2016)
Hagræðingarhópur Skóla- og frístundasviðs (2016)
Hagræðingarhópar - fyrir öll önnur svið (líka 2016))
Áhættustýringarhópur vegna fjármálalegrar áhættu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í innri þjónustu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í ytri þjónustu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í fjármálaþjónustu (2016)
Þessir voru að störfum frá fyrra tímabili:
Starfshópur um gjaldskrárstefnu (2014)
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar (2014)
Starfhópur um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar (2015)
Starfshópur um rýningu á innri leigu hjá Reykjavíkurborg (2015)
Fyrir utan þessa hópa hafa 43 hópar verið stofnaðir sérstaklega vegna Skóla- og frístundasviðs frá 2014. Þeir sem snúa að hagræðingarmálum eru þessir:
Starfshópur um fjármála skóla- og frístundasviðs (2014)
Starfshópur um hagræðingu vegna orkusparnaðar á starfsstörfum Skóla- og frístundasviðs (2016)
Starfshópur um húsnæðismál og húsnæðiskostnað (2016)
Starfshópur um eftirfylgd með umbótum í leikskólum - grunnskólum og frístundastarfi í kjölfar niðurstaðna ytra mats (2016)
Jú það má segja að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur staðið sig vel í að setja málin í nefnd. Ég leyfi mér að kalla þetta kafbátastjórnun par excellence. Öllu dembt í nefndir svo hægt sé að segja að einhver annar beri ábyrgð á málinu. Á meðan er lallað um og því hávært haldið fram að ekki sé verið að skerða grunnþjónustu. Jæja en nú er tjaldið fallið. Skólastjórnendurnir drógu frá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2016 | 15:54
Ekkert afgangs og gríðarleg skuldasöfnun.
Að hlusta á málflutning borgarstjóra og fleiri úr meirihlutanum í Reykjavík er kómískt. Þar er skorað á minnihlutann að vera ekki að gera Grýlu úr lífeyrissjóðsskuldbindingum heldur viðurkenna að allt sé í hinu stakasta.
Sannleikurinn er sá að meirihlutinn felur sig á bak við flækjuna sem reiknaðar stærðir eins og lífeyrisskuldbindingarnar eru. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa hins vegar haft uppi málefnalegar umræður og horft á reksturinn án þessara stærða en í því liggur kjarni málsins og þá má svo glöggt sjá að skatttekjur duga ekki fyrir rekstri þjónustunnar við íbúa. Ekkert er afgangs og gríðarleg skuldasöfnun á sér stað. Íbúar sjá og finna þetta á eigin skinni. Auðvitað er sárt fyrir meirihlutann að gangast við því.
Fráleitt að tala um lögbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2016 | 15:21
Viðhorf eru mikils virði - hvernig væri að vinna með þau í stað þess að reyna að fela þau.
Mikilvægt er að þjónustan í Reykjavík sé eins góð og kostur er og jafn mikilvægt er að viðhorf til hennar séu góð. Viðhorf geta haft áhrif á það hvar fólk sækir um vinnu eða starfar, hvar það býr, hvar það ákveður að framkvæma hluti, hvar það ákveður að búa. Ef að það er einlæg trú meirihlutans í Reykjavík að þjónustan sé mjög góð, þá virðist eitthvað mjög ábótavant í kynningarmálum. Og þá ætti að sjálfsögðu að fara í að skoða það í stað þess að gera lítið úr niðurstöðum og losa sig við óþægilegar upplýsingar.
Ég skrifaði stúf um þetta mál sjá hér:
Kæru borgarbúar, ykkar viðhorf eru einskis virði!
Mælir ímynd frekar en þjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2016 | 14:29
Kæru borgarbúar, ykkar viðhorf eru einskis virði!
Talið er að viðhorf fólks geti spáð fyrir um viðbrögð. Einhvern veginn svona er sambandið: Því sterkara sem viðhorf til einhvers hlutar eða málefnis er því líklegra er að viðkomandi sýni meiri viðbrögð við hlutnum eða málefninu.
Viðhorf eru hins vegar þannig að ekki er hægt að gefa sér á einfaldan hátt hverju þau stýra. Ræður til dæmis slæmt viðhorf til þjónustu það að ég noti hana ekki? Tja, kannski ekki alltaf. En ef val er um að velja þjónustu þar sem viðhorf til annarrar er gott en til hinnar slæmt, þá er mjög liklegt að sú fyrri verði fyrir valinu séu þessar þjónustur að öðru leyti frekar jafnar. Víst er að um mjög tilfinningalegt mat er að ræða og það byggir ekki endilega á þekkingu um fyrirbærið sem metið er. Mjög margt er jafnframt hægt að gera til að snúa viðhorfum fólks, þarna geta til dæmis kynning og fræðsla verið alveg gríðarlega mikilvægir þættir.
Viðhorf til þjónustu í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum hafa verið mæld í nokkur ár. Niðurstöðurnar hafa verið erfiðar fyrir Reykjavík. Viðhorfið mælist á nærri öllum víddum mjög lágt miðað við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að Reykjavík reki miklu víðfemari þjónustu, með miklu meiri kostnaði virðist viðhorf til þjónustunnar í Reykjavík ítrekað skrapa botninn.
Meirihlutinn í Reykjavík hefur lítið viljað gera með viðhorf borgarbúa í Reykjavík. Alls kyns afsakanir og skýringar hafa verið gefnar, allt frá því að þetta skipti engu máli yfir í að borgarbúar séu of kröfuharðir.
Nú vill meirihlutinn fara að nota sínar eigin aðferðir og mæla sína eigin hópa eða notendur þjónustunnar í Reykjavík. Það er kannski skiljanlegt því í þeim könnunum fær þjónustan mun betri einkunn. Ýmislegt er hins vegar varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru líklega ánægðari en þeir sem ekki njóta hennar, þeir eru örugglega síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna, ekki er leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá sleppt. :-(
Svona að þessu öllu saman sögðu er það eindregin skoðun mín að meirihlutinn í Reykjavík ætti að byrja að vinna að sínum málum í stað þess að stinga þeim undir teppið.
Mikilvægt er að þjónustan í Reykjavík sé eins góð og kostur er og jafn mikilvægt er að viðhorf til hennar séu góð. Viðhorf geta haft áhrif á það hvar fólk sækir um vinnu eða starfar, hvar það býr, hvar það ákveður að framkvæma hluti, hvar það ákveður að búa. Ef að það er einlæg trú meirihlutans í Reykjavík að þjónustan sé mjög góð, þá virðist eitthvað mjög ábótavant í kynningarmálum. Og þá ætti að sjálfsögðu að fara í að skoða það í stað þess að gera lítið úr niðurstöðum og losa sig við óþægilegar upplýsingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2016 | 11:48
Eru brotalamir í málefnum aldraðra?
Í gildi er stefna um málefni eldri borgara í Reykjavík frá því árið 2013 sem gildir út árið 1017. Hér má lesa stefnuna ef einhver vill. Þessari stefnu fylgir svo aðgerðaráætlun þar sem talið er upp hvað skuli gera til að dæma megi svo að stefnunni hafi verið fylgt. Auðvitað er gott að hafa góða stefnu - en það skiptir nákvæmlega engu máli ef ekkert er gert til að fylgja henni.
Á síðasta fundi velferðarráðs var fjallað um málefni eldri borgara. Ljóst var í byrjun árs 2015 að mjög vantaði upp á að stefnunni hefði verið fylgt ekki lá hins vegar hvað hafði gerst frá því í janúar 2015 og þar til í dag ári síðar. Í ljósi þess ákváðum við að leggja fram nokkrar tillögur og bíðum nú eftir svörum.
1) Einn hluti stefnunnar er að gera reglubundnar kannanir á högum og viðhorfum aldraðra. Gerir fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 ráð fyrir því fjármagni?
2) Mikilvægt þykir að efla upplýsingaflæði til aldraðra og efla ráðgjafarþjónustu. Lagðar voru fram tillögur þess efnis í ágúst 2014 og boðað var í byrjun árs 2015 að teknar yrðu ákvarðanir til að bæta úr þessum málum. Ekkert hefur til þeirra frést. Spurt er, voru einhverjar teknar, og hvaða aðgerðir á að ráðast í fyrir árið 2016.
3) Eitt atriði stefnunnar var að borgin myndi setja upp rafrænt ábendingakerfi fyrir þjónustu heimahjúkrunar. Í janúar 2015 hafði þessi vinna ekki hafist. Er gert ráð fyrir henni á árinu 2016?
4) Mikið er lagt upp úr nærþjónustu og samráði. Í janúar 2015 kom fram að mjög mismunandi er hvernig samráði er háttað og eins og dæmin sýna virðist samráð oft mjög takmarkað. Verkferli lá ekki fyrir í janúar 2015. Liggur þetta verkferli fyrir nú eða er gert ráð fyrir að það verði unnið 2016.
5) Um búsetumöguleika er fjallað í stefnunni meðal annars um þjónustuíbúðir og hvernig skuli vinna að því að brúa bilið milli búsetu á eigin heimili og búsetu á hjúkrunarheimili. Árið 2013 var stofnaður hópur til að skoða og kortleggja þarfir þessa hóps og undirbúa næstu skref. Í janúar 2015 lá ekkert fyrir um framkvæmdir en boðað var að vinna við tillögur hæfist í mars 2015. Var farið í þá vinnu, liggur eitthvað fyrir eða er gert ráð fyrir fjármagni til á árinu 2016.
6) Gríðarleg áhersla er lögð á að gera öldruðum kleift að búa sem lengst heima. Einn liður þess er að auðvelda fólki að gera breytingar á heimilum sínum, t.d. hvað varðar aðgengi. Ekkert lá fyrir í þessum efnum í byrjun árs 2015. Gerðist eitthvað á árinu 2015 eða er gert ráð fyrir að eitthvað gerist árið 2016?
7) Áhersla var lögð á að efla stuðning við aðstandendur. Gert var ráð fyrir að fundur yrði haldinn í byrjun síðasta árs sem átti að leiða til þess að aðgerðir og tillögur að framkvæmd yrðu til. Gerðist það? Hvar er sú vinna og verður henni haldið áfram árið 2016.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)