Er sjálfsagt að borgarsjóður fái að njóta arðgreiðslna en heimilin bíða?

Á síðasta borgarstjórnarfundi lögðum við Sjálfstæðismenn til að borgarstjórn samþykkti að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hún skoði hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili.

Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Orkuveitunnar og ber ábyrgð á að koma skýrum skilaboðum til stjórnarinnar. Nauðsynlegt er að borgarstjórn fyrir hönd íbúa ræði hvaða stefnu skuli taka hvað fyrirtækið varðar. Þess vegna hefði verið gott ef meirihlutinn hefði samþykkt þessa tillögu. Í stað þess fóru þau í þann leiðinlega feluleik að vísa tillögunni inn í borgarráð án þess að taka afstöðu til hennar. Reyndar mátti meira greina í máli borgarstjóra að honum finnist jafnvel ekki ástæða til að lækka orkugjöld og hann efist jafnvel um að gjöldin hafi hækkað.


Borgarsjóður fær að njóta – heimilin bíða
Meirihlutinn í Reykjavík gerir ráð fyrir því að árið 2018 verði arðgreiðslur Orkuveitunnar til borgarsjóðs 1 milljarður að lágmarki. Nú virðist því aftur vera að komin sú staða að arðgreiðslur Orkuveitunnar verði notaðar til að stoppa upp í göt borgarsjóðs enda Planið svokallaða að renna út. Sú ákvörðun að nota arðinn beinlínis í þeim tilgangi er einhliða og órædd tillaga meirihlutans í Reykjavík. Réttlátt og sanngjarnt er hins vegar að vilja ræða málið út frá fleiri hliðum. Eðlilegt er að skoða hvernig heimilin sem tóku á sig miklar hækkanir orkugjalda þegar illa áraði fái einnig að njóta þegar vel gengur. Fyrir þessu virtist því miður lítil sannfæring hjá borgarstjóra.


Orkuverð er húsnæðismál
Orkuverð er húsnæðismál. Lækkun orkugjalda lækkar húsnæðiskostnað. Borgastjórn virðist nokkuð sammála um að húsnæðismál séu mikilvægasta mál borgarinnar og með yfirlýst markmið að lækka húsnæðiskostnað . Húsnæðiskostnaður er allt of hár og oft hefur verið rætt um mikilvægi þess að fólki bjóðist húsnæði á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að þreytast ekki á að tala um vandann og meintar aðgerðir til að lækka húsnæðiskostnað þá virðist meirihlutinn í Reykjavík ekki vilja standa við þau loforð, alla vega ekki þegar greiðslur geta frekar runnið í borgarsjóð.


Vildi ekki taka ákvörðun á opnum fundi
Meirihlutinn í Reykjavík vildi frekar en að taka efnislega afstöðu með tillögunni vísa henni inn til borgarráðs. Það er óskiljanlegt nema að þau vilji ekki að almenningur viti hver afstaða þeirra er. Í borgarstjórn hafa 15 kjörnir fulltrúar aðgengi að málinu, fundir eru opnir borgarbúum og efni þeirra aðgengilegt. Hins vegar er borgarráð lokaður vettvangur, fundir eru lokaðir almenningi og aðeins fáir borgarfulltrúar eiga aðgengi að fundum. Tillagan var ekki til annars fallin en að senda skýr skilaboð og gefa stjórn Orkuveitunnar mikið svigrúm til að vinna greiningu.

En það var ekki hægt að samþykkja þá tillögu, sem líta má á sem staðfestingu á því að forgangsröðun meirihlutans er skýr – hann er í fyrsta sæti, heimilin mega bíða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband