Kjarkleysi meirihlutans

Borgarstjóri gerði fyrri bloggfærslu mína að umræðuefni í upphafsorðum sínum í seinni umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 og taldi um misskilning að ræða. Svo tel ég ekki vera og ástæðan er eftirfarandi. 

Ljóst er að markmið meirihlutans í Reykjavík með hagræðingaraðgerðum sínum fyrir þetta ár og næstu 2 voru að ná markmiðum um sjálfbærni í rekstri borgarsjóðs svo að tekjur og útgjöld héldust í hendur ná mætti upp fjármagni til fjárfestinga eða greiðslu skulda. 

Í 9 mánaða uppgjöri fyrir þetta ár er hvergi hægt að lesa um hvernig hagræðingarvinnan gekk en planið var að hagræða um 1.780 m.kr. á þessu ári, 1.150 á því næsta og tæpar 500 m.kr. árið 2018. Gagnrýnin beindist að því að hagræðingarkröfurnar hefðu verið afskrifaðar hver af annarri á árinu og eftir stæði aðeins brot. Þá að vinnubrögð meirihlutans að kasta fram hagræðingartillögum á óútfærðan hátt væru ótrúverðugar. Jafnframt var tekið fram að auðvitað væri árið ekki liðið og því þyrftum við að sjá hvernig fram horfir þegar það er liðið. 

Samkvæmt ábendingum fjármálaskrifstofu með 9 mánaða uppgjöri er 200 m.kr. halli á velferðarsviði á fyrstu 9 mánuðunum, 188 m.kr. halli á hjúkrunarheimilum, 169 m.kr á rekstri grunnskóla þrátt fyrir aðgerðir, 20 grunnskólar reknir með halla og 16 leikskólar. Þá muna allir að tekin var ákvörðun um að afskrifa um 678 m.kr. hagræðingarkröfu á grunnskólann í haust þegar ljóst var að hagræðingarkröfur meirihlutans gengu hreinlega ekki upp.  

Það er því ekki nema eðlilegt að efast um ágæti áætlanagerðar meirihlutans. Í uppgjörinu má hvergi sjá þess merki að verið sá að fást við verkefnin sem brýn þörf er á að endurskoða og skipuleggja. Þjónusta við aldraða og fatlaða verður að taka breytingum ef borgin á að sinna þörfum og grunnskólakerfið kallar á breytingar sem ekki fjármagna sig sjálfar. Aðferðirnar eru ótrúverðugar, þeim var slengt fram með óábyrgjum hætti, settar í nefnd þannig ekki þurfi að svara fyrir þær og svo er ekki útlit fyrir að þær standist markmið um sjálfbærni.

Nú þegar er búið að draga í land með hagræðinguna sem sett var á næsta ár og hún nú 870 milljónir í stað 1.150. Allt þetta hleður undir þá tilfinningu að þarna sé um einhvers konar undanhlaup að ræða. Andvaraleysi meirihlutans gagnvart því að fást við krefjandi breytingar á þjónustu borgarinnar er staðreynd.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram fjölda tillaga um hvernig mætti innleiða breytingar í velferðarþjónustunni á næsta ári til að takast á við fjölgun aldraðra og þjónustuþarfir þeirra og fatlaðs fólks. Við viljum taka mun sterkar á þeim málum en gert hefur verið. Ljóst er að ekki verður hægt að reka velferðarþjónustuna með sama hætti næstu áratugi og bregðast verður við strax með trúverðugum hætti. 

Merkilegt var að borgarstjóri gekk þá fram með þeim orðum að tillögurnar væru full kjarkaðar. Já, eflaust eru þær kjarkaðar sem betur fer og ekki fyrir þá sem forðast að taka á erfiðum málum, enda nóg komið af kjarkleysi meirihlutans.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband