Langt í loforðin

Húsnæðisvandinn í Reykjavík er orðinn alvarlegur og ekki á förum. Illgjörningur er að finna húsnæði á almennum leigumarkaði og nánast ógjörningur að finna húsnæði til langtímaleigu. Fólk býr oft á tíðum við slæmar aðstæður og kröpp kjör því ekkert annað er í boði. Einmitt þegar efnahagsástandið og atvinnuástandið blómstra sem aldrei fyrr.

Skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegra íbúða. Ekkert gengur að stuðla hratt og örugglega að framboði minni og ódýrra íbúða þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð borgarstjóra. Skorturinn leiðir til þess að húsnæðisverð og þar með leiguverð þrýstist upp og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði. Sérstaklega er vandinn ungs fólks og tekjulægra.

Biðlistar eftir félagslegu húsnæði lengjast. Nú bíða tæplega 900 manns eftir félagslegu húsnæði. Biðlistinn endurspeglar alvarleika ástandsins. Langt er í land með að uppfylla markmið um að fjölga félagslegum íbúðum um 100 á ári.

Meirihlutinn í Reykjavík virðist meiri áhuga hafa á öðrum verkefnum en að bæta ástandið á húsnæðismarkaði. Til dæmis hefur honum lengi verið hugleikið að skilgreina nýjan félagslegan hóp; “efnaminni”, sem er hópur sem telst ekki til þeirra efnaminnstu. Úr þeim hópi munu svo fáir heppnir fá húsnæði í gegnum leigufélög á niðurgreiddu verði, því félögin fá í staðinn lóð í meðgjöf frá Reykjavík. Þetta er sérstaklega gagnrýnivert þegar á sama tíma er verið að vanrækja uppbyggingu fyrir þá efnaminnstu.

Aðalskipulag Reykjavíkur sem samþykkt var haustið 2014 ætti að endurskoða. Uppbygging er ekki að þróast með þeim hætti sem þar er kveðið á um og íbúðum fjölgar ekki samkvæmt áætlunum. Þéttingin vestast í borginni gengur einfaldlega of hægt.

Nauðsynlegt er að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfa og skipulags. Einnig hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við sérstök innviðagjöld og afgreiðslugjöld sem Reykjavíkurborg hefur innheimt af þeim sem eru í framkvæmdahug. Slíkt er síst til þess fallið til að auðvelda uppbyggingu í Reykjavík.

Núverandi meirihluta er hugleikið að ræða mikilvægi þess að stuðla að jöfnuði og mannréttindum. Lítið fer þó fyrir því þegar kemur að húsnæðismálum. Að búa við óvissu á húsnæðismarkaði er það versta sem komið getur fyrir fólk og snertir bæði hugtökin jöfnuð og mannréttindi. Eilífir flutningar og rask getur leitt til ástands þar sem skólagöngu og vinatengslum barna er ógnað, slíkt ástand reynir verulega á fjölskyldur, og tekjuminnsti hópurinn verður verst úti. Ástandið leiðir þá sem minnst hafa til enn meiri fátæktar.

Af hverju einbeitir borgarstjóri sér ekki að því sem hann getur lagt af mörkum til að bæta húsnæðisástandið í Reykjavík í stað þess að fara með hverja ræðuna á fætur annarri um glæsilega uppbyggingu einkaaðila og fasteignafélaga í borginni með tilheyrandi glimmersýningum.

Það er eiginlega orðið of vandræðalegt að hlusta.

 

Grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2017


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband