10.11.2008 | 22:20
Blekkingar?
Sumir halda því fram að augljóst sé að stjórnmálafólk í æðstu stöðum hafi í raun vitað miklu meira en látið var uppi í fyrstu um vanda bankanna og hversu afdrifaríkar afleiðingar hann gæti haft. Þetta er svo aftur notað sem rök fyrir því að þau hafi verið að blekkja fólk og draga það á asnaeyrum. Mig langar aðeins að leggja nokkur orð í belg.
Setjum okkur í spor þessara kjörnu fulltrúa. Á skömmum tíma varð vandi bankana gífurlega mikill vegna lánsfjársskorts, sem átti uppruna sinn í húsnæðislánakerfi Bandaríkjanna. Ljóst er að bankarnir höfðu siðast liðið ár unnið að því að selja eignir og hagræða en lítið dugði. Að sama skapi höfðu aðgerðir til að efla gjaldeyrisforðann ekki verið nærri því eins miklar og þurft hefði til að verja bankanna, sem höfðu stækkað mjög mikið á undanförnum árum. Þegar stjórnmálamenn voru beinlínis kallaðir að borðinu var vandamálið orðið slíkt að ríkisstjórn og Alþingi fengu ekki rönd við reist.
Við slíkar aðstæður skiptir máli að meta umfang vandans og ná tökum á honum í stað þess að bera hann á torg og vekja ótta með ótímabærum yfirlýsingum. Slíkt hefði einungis leitt af sér frekari erfiðleika. Menn trúðu að hægt væri að sigla framhjá ísjakanum og áttu alls ekki von á þeim áföllum sem alþjóðakreppan hefur kallað yfir bankakerfið.
Þegar rýnt er í þessa stöðu af sanngirni er auðveldara að skilja viðbrögð ráðamanna sem löngum héldu því fram að bankarnir stæðu vel. Að undanförnu hafa myndskeið og tilvitnanir ítrekað verið endurspiluð og rifjuð upp í fjölmiðlum að því er virðist beinlínis í þeim eina tilgangi að grafa undan trúverðugleika stjórnamálamanna og annarra og má nefna í því sambandi Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu, Þórð Friðjónsson o.fl. Minna hefur að sjálfsögðu farið fyrir því, að fréttamiðlarnir rifji upp eigin sýn á ágæti bankanna og útrásarinnar, þegar allt lék í lyndi.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Það sem við getum lært af atburðarásinni er að ekkert okkar hafði nægilegar upplýsingar til að sjá þessa hluti fyrir. Vandamálið var til skamms tíma ósýnilegt stjórnvöldum, alþingismönnum, fjölmiðlum og hvað þá almenningi. Ekki var hægt að lesa hættumerkin úr uppgjörum eða niðurstöðum neins eins félags eða fyrirtækis og allt leik í lyndi í ríkisfjármálunum. Eftirlitsstofnanir fylgdust með og töldu reksturinn í eðlilegum skorðum. Annað kom svo í ljós þegar á reyndi.
Við þurfum að læra af því sem hefur gerst og bregðast við til að sagan endurtaki sig ekki.
Mikilvægi þess að byggja á góðum upplýsingum er gríðarlegt. Mikilvægt er að stjórnvöld hugi að því hvernig bæta megi úr þessum vanda í framtíðinni. Sífellt þarf að vera að endurskoða upplýsingastreymi til ráðamanna, fjölmiðla og almennings. Upplýsingar þurfa að vera til staðar, aðgengilegar á einum stað á skiljanlegan hátt, ekki bara fyrir fáa útvalda heldur fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér þær. Á upplýsingaöld ætti slíkt að vera gerlegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.11.2008 | 17:40
Miðborgin og miðborgarkortin
Mjög mikilvægt er að við Reykvíkingar hugum að miðborginni. Miðborgin er aðdráttarafl fyrir ferðamenn og við hljótum öll að eiga það sameiginlegt að vilja halda því afli eins sterku og á verður kosið. Oft heyrast raddir um að nóg sé komið að því að huga að miðborginni og meira þurfi að gera fyrir önnur hverfi í borginni sem á eflaust oft rétt á sér en engu að síður eru það hagsmunir allra sem hér búa að miðborgin sé þannig að sómi sé að því að fá ferðamenn heim.
Í þessum töluðu/skrifuðu orðum vinna aðilar í ferðaþjónustu þar á meðal Reykjavíkurborg að því að auka ferðamannastrauminn. Fyrir liggur að mikill áhugi hefur verið á því að sækja landið heim en margir hafa gefið þá skýringu að of dýrt sé að dvelja hér og því sæki þeir frekar annað í ferðalög. Nú er auðvitað lag að fá þennan hóp til að nýta tækifærið og koma á meðan gengið er þeim hagstætt.
Flestar miðborgir eru þess eðlis að þar er að finna helstu menningarverðmæti viðkomandi svæðis sem vekur athygli þeirra sem koma til að skoða land og þjóð. Afar brýnt er því að sinna þessum verðmætum, vekja athygli á hvar þau er að finna og auðvelda aðgengi að þeim. Engu að síður er verslun og þjónusta í miðborgum ekki síður nauðsynleg til að viðhalda því mannlífi sem þarf til að auka krafta aðdráttaraflsins. Eins brýnt er því að sinna því verkefni að hlúa að verslun í miðborginni.
Langar svo að vekja athygli á miðborgarkortunum sem hægt er að lesa um á þessum vef www.midborgin.is
Aðilum verslunar- og þjónustu í miðborginni sem vilja taka þátt í að vinna að sameiginlegum hagsmunum er bent á að hafa samband við Miðborg Reykjavíkur, sjá nánar á vef.
Bloggar | Breytt 19.11.2008 kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2008 | 23:26
Smugan - Samfélag Sprotafyrirtækja fær samkeppni ;-)
Í blöðunum í dag las ég um að nýtt vefrit "Smugan" væri á leiðinni í útgáfu, varð smá hugsi því Smugan er heitið á félagsskap sprotafyrirtækja sem hafa deilt saman húsnæði við Klapparstíg og verið þar sl. eina og hálfa árið. Við vorum einmitt að fara að hanna merkið okkar (logo-ið) en höfðum ekki verið með sérstakt logo hingað til og hugmyndakassinn verður opnaður á morgun. Gaman verður að sjá hvort merkin verða eitthvað svipuð, það er að segja okkar og vefritsins.
Svona til upplýsinga þá eru eftirfarandi aðilar í Smugunni að Klapparstíg:
Sjá - vefráðgjöf og prófanir, Marimo forritun og lausnir, OS-Studio Arkitektar, Gjörningaklúbburinn, Tónlistarmenn, Enna ehf, Sprettur - þjálfarar í Agile og Scrum aðferðinni (bara nerdar vita hvað þetta er :-), Design group Italia - hönnuðir, Nordic, Nyt - o.fl. aðilar.
En við í Smugunni óskum vefritinu Smugunni til hamingju með framtakið og nafnið!
Bloggar | Breytt 7.11.2008 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2008 | 23:00
Nútímaleg vinnubrögð
Hanna Birna, borgarstjóri, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík eru að gera góða hluti í borginni. Í haust var settur á fót aðgerðahópur sem hafði það að markmiði að skoða hvernig nýta mætti fjármagn í borginni betur og í því skyni var mikil áhersla lögð á samráð. Samráðið fólst í því að við borðið sátu fulltrúar minnihluta og meirihluta, og einnig var lögð áhersla á samráð og hugmyndavinnu með sviðstjórum og helstu stjórnendum í borginni. Þegar góð vinnubrögð fá að njóta sín láta niðurstöðurnar oft ekki á sér standa. Þegar kreppan reið yfir stóð borgin eins tilbúin og hægt var, búið var að skoða hvern krók og kima í fjármálunum og fyrir lágu tillögur í svokallaðra aðgerðaáætlun sem kynnt hefur verið í fjölmiðlum undanfarið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2008 | 12:46
Eru ljón á veginum? Reynslusögur frumkvöðla
Hlutur kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi er mun minni en karla, þetta er merkilegt og ekki get ég ímyndað mér að hugmyndir eða sköpunarkraftur kvenna sé nokkuð lakari en gengur og gerist meðal karla. En hvaða ljón eru á veginum? Athyglisvert er að fá innsýn inn í sögu þeirra kvenna sem fetað hafa braut einkaframtaksins og fylgt sýnum hugmyndum og sýn. Hvaðan kom krafturinn til að fylgja sýninni, hverjir eru kostir þess að starfa í þessum fyrirtækjum miðað við það að starfa t.d. hjá ríki eða bæ að sambærilegum störfum. Endilega komið og heyrið þessar sögur.
Hádegisverðarfundur Hvatar, laugardaginn, 24. maí kl. 12:00 14:00 í Víkingasal Hótel Loftleiða allir velkomnir. Aðgangseyrir 2000,- hádegisverður innifalinn. Skráning í síma 5151700 eða í netföngin aslaug@sja.is eða xd@xd.is - Allir velkomnir.
Dagskrá
12:15 Setning Áslaug Friðriksdóttir, formaður Hvatar
12:20 Ávarp Guðfinna S. Bjarnadóttir
12:30 Reynslusaga - Valgerður Hjartardóttir - Karitas
12:45 Reynslusaga Unnur Stefánsdóttir, leikskólar heilsustefnunnar
13:00 Reynslusaga Halla Margrét Jóhannesdóttir og
Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkonur
13:15 Reynslusaga Rúna Magnúsdóttir Tengjumst
13:30 Látum verkin tala, Þóranna Jónsdóttir, Auði Capital
13:45 Umræður
14:00 Fundi slitið
Fundarstjóri verður Hafdís Jónsdóttir í World Class.
Á meðan á fundi stendur verður borinn fram hádegisverður: Sítrusmarineruð kjúklinga- og grænmetisspjót með kryddsalati, ítölsk ostakaka og kaffi. Aðgangseyrir er kr. 2.000,- og er maturinn innifalinn í verðinu.
Fundurinn er öllum opinn. Vinsamlega tilkynnið komu í síma 515 1700 eða sendið tilkynningu um þátttöku á netfangið aslaug@sja.is eða á xd@xd.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 15:13
Árangur í áföngum - ný tækifæri í rafrænni stjórnsýslu
Langar að vekja athygli þessum fundi. Miðvikudaginn 14. maí nk standa sprotafyrirtækin Sjá og Marimo fyrir hádegisverðarfundi um tækifæri í rafrænni stjórnsýslu á Grand Hótel, fundurinn hefst kl. 12:00 og stendur til kl. 14:00.
Ljóst er að hið opinbera þarf að bæta vefþjónustu og vefsamskipti við íbúa
landsins verulega ef ná skal markmiðum ríkisstjórnarinnar um Netríkið
Ísland, sem nýlega voru kynnt. Einnig er Ísland að koma illa út úr
alþjóðlegum samanburði. Á fundinum verður farið yfir vefútfærslur sem falla
undir hugtökin rafræn stjórnsýsla, rafræn þjónusta og rafrænt lýðræði.
Fjallað verður um aðgengi að opinberum upplýsingum og hvaða tækifæri eru
falin í að auðvelda og opna aðkomu einkaaðila að þeim. Farið verður yfir
hvernig má nota opinn hugbúnað eða vera hluti af slíkri þróun og hvort til
eru hagkvæmar leiðir til að ná miklum árangri á skömmum tíma.
Verð: 7.900.- kr - Skráning hefst kl. 11:45
Á dagskrá eru eftirfarandi erindi:
Ávarp - Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður
Hvað gera þeir bestu í rafrænni stjórnsýslu?
- Áslaug Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Sjá ehf.
Opið flæði upplýsinga með þjónustumiðaðri högun
- Ari V. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Marimo ehf.
Gögn og gaman: Opinn aðgangur að opinberum gögnum
- Hjálmar Gíslason, tæknistjóri Já
Útfærsla á vef Veðurstofunnar, hvernig býr maður til verðlaunavef?
- Helgi Borg, verkefnastjóri hjá Veðurstofu Íslands
Raunnotkun ríkisgagna
- Hugi Þórðarson, verkefnastjóri hugbúnaðarþróunar hjá Umferðarstofu
Fundarstjóri er Helgi Pétursson,
vef- og útgáfumál - almannatengsl OR
Fundi slitið kl. 14:00.
Skráning fer fram á vef Sjá - www.sja.is
<http://www.sja.is/rafraen_stjornsysla> /rafraen_stjornsysla eða í gegnum netfangið sja@sja.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2008 | 13:56
Fjöldi heimsókna á vef - hvað er það?
Ég lendi oft í samtölum um hvernig eigi að meta gæði vefja. Langflestir myndu hér nefna að best væri að horfa til þess hversu margir komi inn á vefinn sem er í fæstum tilfellum rétt.
Auðvitað vilja flestir auglýsendur koma auglýsingunum sínum fyrir á fjölförnum stöðum. Fjöldi heimsókna segir hins vegar lítið um hverjir það eru í raun og veru sem heimsækja vefina, mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að stór hluti heimsókna er oft leitarvélaheimsóknir. En leitarvélarnar fara í gegnum vefina reglulega og nóg er til af þeim.
Þá taka vænan skerf þeir sem álpast inn á síðuna án þess að hafa nokkurn áhuga á að skoða það sem þar er og velja að fara beinustu leið út aftur (mælt með hugtakinu bounce rate). Þetta er oftast ekki sá hópur sem eigendur vefjanna eru í raun og veru að reyna að ná í og því er óskiljanlegt að svo margir vilji koma heimsóknartölum sínum upp úr öllu valdi án þess að kafa aðeins dýpra í hegðun notendanna eða í markmið eigin vefja.
Það sem skiptir öllu máli er að vefurinn sé að skila eigendum sínum því sem þeir vilja fá, markmiðin þurfa að liggja fyrir. Markmið með vef geta verið mjög misjöfn, gæði vefjarins felast í því hversu vel hann uppfyllir markmiðin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2008 | 10:17
Vefmál yfir kaffisopa (e. open coffee)
Þessi skemmtilega hugmynd er víða annars staðar notuð og nú kominn tími til að prófa hana hér á skerinu. Open Coffee events eru reglulegir óformlegir kaffisopar fyrir frumkvöðla, framkvæmdaglaða, pælara, fjárfesta og alla sem hafa áhuga á að hitta aðra sem hafa áhuga á sömu málum og ræða eða deila hugmyndum. Bæði til skemmtunar og fróðleiks, http://www.sja.is/opencoffee
Nú ætla starfsmenn Sjá og vinir þeirra að hefja slíkan hóp um vefmál. Allir velkomnir næstu fimmtudagsmorgna kl. 8 á Kaffitár í Bankastræti, byrjum á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.4.2008 | 11:55
Borgarbörn í góðum höndum
Á miðvikudaginn var kynnt aðgerðaráætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Frálslyndra í Reykjavíkurborg til næstu fjögurra ára. Áætlunin lýsir því hvernig meirihlutinn sér fyrir sér að byggja upp þjónustu við yngstu börnin í Reykjavík frá því að fæðingarorlofi lýkur.
Í meginatriðum má lýsa áherslunum svona:
- Áframhaldandi uppbygging borgarrekinna skóla með fjölgun deilda og nýjum skólum
- Fleiri nýir sjálfstætt starfandi leikskólar
- Greiðslur til sjálfstætt starfandi skóla leiðréttar
- Ungbarnaskólar hefja starfsemi
- Dagforeldraþjónusta aukin og fjölbreyttari
- Dagforeldrum fjölgað
- Þjónustutrygging frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær þjónustu
- Rafræn innritun í leikskóla og upplýsingavefur um dagvistunarmöguleika
Og hvað vinnst svo með þessu? Með þessu móti teljum við okkur geta komið til móts við sem flesta. Á fjórum árum sjáum við að raunhæft er að telja að við getum sinnt öllum börnum í borginni, þangað til er ljóst að ekki verða nógu mörg úrræði í boði. Við viljum hjálpa þeim sem þurfa að hjálpa sér sjálfir, reyna á fjölbreytt og ólík úrræði, fjölga jafnframt úrræðum sem vel eru þekkt og rótgróin.
Bloggar | Breytt 12.4.2008 kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2008 | 17:20
Laun í almannaþjónustu
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var laugardaginn 8. mars sl. og í því tilefni haldinn kvennafundur á Nasa, fundurinn var þverpólitískur og var Hvöt félag sjálfstæðiskvenna meðal þeirra sem tóku þátt í undirbúningi fundarins. Undir fundarboðið skrifaði hópur kvenna í almannaþjónustu.
Ég tek undir þau sjónarmið sem gagnrýna það hvernig verðmat ólíkra stétta eða geira virðist umönnunarstéttunum í óhag. Erfiðlega hefur gengið að færa mat á störfunum sem þarna eru unnin til jafns við vinnu þeirra sem sinna karllægari störfum. Fram kom hjá einum af mörgum konum sem höfðu framsögn á kvennafundinum á Nasa, að munurinn á milli grunnlauna ljósmóður og verkfræðings hjá sama atvinnurekandanum, ríkinu, væri 80 þúsund kr. á mánuði. Ég velti fyrir mér skýringunni á þessu.
Almannaþjónusta hér á landi er ekki rekin á gróðasjónarmiðum. Ein skýringin á launamuninum er eflaust eftirfarandi. Verkfræðingurinn getur borið sig saman við verkfræðinga sem ekki semja við ríkið og þannig notið þess að til sé sá samanburðarhópur sem einmitt vinnur ekki hjá ríkinu. Þó að flestir séu sammála um að ljósmæður sinni jafnmikilvægum störfum og verkfræðingar þá skiptir samanburðurinn máli. Ljósmæðurnar hafa ekki slíkan samanburð og hafa því ekki þau rök sem verkfræðingurinn hefur.
Jafnframt hlýtur það að skipta máli að um stórar stéttir er að ræða. Samningar hins opinbera við svo stóra hópa þýða svo stórar fjárhæðir að málin verða allt öðruvísi en ef um er að ræða minni hópa sem fást um laun starfsmanna sinna og þann hóp sem starfar að sama markmiði. Í minni hópum eru önnur sjónarmið uppi en gilda í stórum hópum. Þar er hægt að sýna fram á að aðrar breytur skipti verulegu máli, en þær sem fyrirfram er búið að semja um í kjarasamningum. Því er eflaust farsælla fyrir launaumslagið að semja um laun sín í minni hópum eða innan þrengra mengis en gengur og gerist í ýmsum umönnunarstéttum.
Ljóst er að konur velja sér gjarnan nám og störf sem tilheyra almannaþjónustu og þær eru af einhverjum völdum ólíklegri til að sjá tækifæri í einkarekstri innan almannaþjónustunnar en karlar. Sagan sýnir okkur að almannaþjónusta nú snýst mun frekar um umönnunarstörf og störf sem konur hafa valið sér heldur en störf sem karlar velja sér gjarnan frekar. Karlarnir sáu tækifærin í mun meira mæli en konur, tóku verkefnin að sér með einkarekstri, hófu rekstur fyrirtækja sem sinna verkefnum til hins opinbera sem annarra. Nú njóta karllægu fagstéttirnar þess að eiga samanburðinn við hópinn sinn sem ekki vinnur eingöngu hjá hinu opinbera og það færir launin þeirra upp. Einkareksturinn getur því skipt verulegu máli og nauðsynlegt er að fleiri konur sjái þau sjónarmið.
Bloggar | Breytt 18.3.2008 kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)