Laun í almannaþjónustu

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var laugardaginn 8. mars sl. og í því tilefni haldinn kvennafundur á Nasa, fundurinn var þverpólitískur og var Hvöt félag sjálfstæðiskvenna meðal þeirra sem tóku þátt í undirbúningi fundarins. Undir fundarboðið skrifaði hópur kvenna í almannaþjónustu.

Ég tek undir þau sjónarmið sem gagnrýna það hvernig verðmat ólíkra stétta eða geira virðist umönnunarstéttunum í óhag. Erfiðlega hefur gengið að færa mat á störfunum sem þarna eru unnin til jafns við vinnu þeirra sem sinna karllægari störfum. Fram kom hjá einum af mörgum konum sem höfðu framsögn á kvennafundinum á Nasa, að munurinn á milli grunnlauna ljósmóður og verkfræðings hjá sama atvinnurekandanum, ríkinu, væri 80 þúsund kr. á mánuði. Ég velti fyrir mér skýringunni á þessu.

Almannaþjónusta hér á landi er ekki rekin á gróðasjónarmiðum.  Ein skýringin á launamuninum er eflaust eftirfarandi. Verkfræðingurinn getur borið sig saman við verkfræðinga sem ekki semja við ríkið og þannig notið þess að til sé sá samanburðarhópur sem einmitt vinnur ekki hjá ríkinu. Þó að flestir séu sammála um að ljósmæður sinni jafnmikilvægum störfum og verkfræðingar þá skiptir samanburðurinn máli. Ljósmæðurnar hafa ekki slíkan samanburð og hafa því ekki þau rök sem verkfræðingurinn hefur.   

Jafnframt hlýtur það að skipta máli að um stórar stéttir er að ræða. Samningar hins opinbera við svo stóra hópa þýða svo stórar fjárhæðir að málin verða allt öðruvísi en ef um er að ræða minni hópa sem fást um laun starfsmanna sinna og þann hóp sem starfar að sama markmiði. Í minni hópum eru önnur sjónarmið uppi en gilda í stórum hópum. Þar er hægt að sýna fram á að aðrar breytur skipti verulegu máli, en þær sem fyrirfram er búið að semja um í kjarasamningum. Því er eflaust farsælla fyrir launaumslagið að semja um laun sín í minni hópum eða innan þrengra mengis en gengur og gerist í ýmsum umönnunarstéttum.

Ljóst er að konur velja sér gjarnan nám og störf sem tilheyra almannaþjónustu og þær eru af einhverjum völdum ólíklegri til að sjá tækifæri í einkarekstri innan almannaþjónustunnar en karlar. Sagan sýnir okkur að almannaþjónusta nú snýst mun frekar um umönnunarstörf og störf sem konur hafa valið sér heldur en störf sem karlar velja sér gjarnan frekar. Karlarnir sáu tækifærin í mun meira mæli en konur, tóku verkefnin að sér með einkarekstri, hófu rekstur fyrirtækja sem sinna verkefnum til hins opinbera sem annarra. Nú njóta karllægu fagstéttirnar þess að eiga samanburðinn við hópinn sinn sem ekki vinnur eingöngu hjá hinu opinbera og það færir launin þeirra upp. Einkareksturinn getur því skipt verulegu máli og nauðsynlegt er að fleiri konur sjái þau sjónarmið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Íbúasamtökin Betra Breiðholt

Sæl.  Íbúasamtökin Betra Breiðholt hefur óskað eftir að fá þig meðal bloggfélaga. Endilega komdu í hópinn.

kv

Kolbrún

f.h. stjórnar ÍBB 

Íbúasamtökin Betra Breiðholt, 17.3.2008 kl. 22:36

2 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

takk fyrir síðast

takk fyrir þetta blogg

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 18.3.2008 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband