Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Skattpíndir íbúar Reykjavíkur

Ársreikningur fyrir árið 2016 hefur verið kynntur og er nú opinber. Eins og hjá öðrum sveitarfélögum eru tekjur sveitarfélaga nú mun meiri en áætlað var bæði skatttekjur og frá ríki.

Það virðist jákvætt að sjá tölur réttu megin við núllið en það segir einfaldlega ekki alla söguna. Það er lítill sigur að ná rekstrinum réttum megin við í því góðæri sem nú ríkir. Þá er skuldasöfnun enn á dagskrá þrátt fyrir góðæri.

"Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki seinna vænna að rekstur Reykjavíkurborgar, sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014, verði betri. Allt frá árinu 2010 hefur vandræðagangur verið á rekstrinum með of slöku rekstraraðhaldi því rekstrarvandræði borgarinnar hafa verið útgjaldavandi en ekki tekjuvandi.

Árið 2016 er gert upp með rekstrarafgangi og væri það ótrúlegt ef slíkt tækist ekki miðað við þá gríðarlegu tekjuaukningu sem orðin er í íslensku samfélagi og sjá má á jákvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga um land allt.

Þegar rekstur Reykjavíkurborgar, langstærsta sveitarfélags landsins er borinn saman við fjögur stærstu nágrannasveitarfélögin má sjá að rekstrarárangur borgarinnar er lakari en hjá þessum sveitarfélögum þrátt fyrir hærri tekjur af hverjum íbúa í borginni. Skatttekjur á hvern íbúa borgarinnar eru 624.000 kr. en meðaltal hinna sveitarfélaganna er 488.000 kr. á hvern íbúa þeirra. Þá er veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar 10,9% sem er til bóta frá alltof lágu veltufé árin á undan en meðaltal hinna sveitarfélaganna er 13,15%.


Skuldir borgarsjóðs (A-hluta) aukast um 3 milljarða á milli áranna 2015-2016 en skuldir hinna sveitarfélaganna standa í stað eða lækka.


Þá má nefna að Reykjavíkurborg leggur hámarksútsvar á íbúa sína en meðaltal hinna sveitarfélaganna er undir lögbundnu hámarksútsvari."

jantoocartoons

 

Mynd af vef Jantoo Cartoons.

 

 

 

 

 

 


Þreyttar áætlanir og lævís leikur

Nú er komið vel inn í seinni hluta kjörtímabils meirihluta Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna í borginni. Flestum er orðið ljóst að lítið hefur áunnist.

Menntun á að vera algjört forgangsmál
Gott samfélag býr að góðu menntakerfi. Matið er einfalt. Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja. Árangur íslenskra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í okkar samanburðarlöndum. Um þetta er enginn ágreiningur. Því hefði mátt halda að helsta áhersla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar til að gera betur. Því miður blasir annað við.

Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helst á dagskrá meirihlutans. Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti. Hvergi hefur orðið vart við að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri. Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna svo að þeir geti nota þær til að efla eigið starf.

Ljóst er að hér verður að gera betur. Vinna verður að því að fá fram breytingar í kennsluháttum og breytingum á aðbúnaði. Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu. Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn.

Velferðinni er ábótavant
Biðlistar eftir þjónustu eru einkenni Reykjavíkurborgar. Fötluðu fólki sem þörf hefur fyrir þjónustu vegna athafna daglegs lífs er vísað á biðlista. Árið 2017 getur slíkt ekki gengið upp, það vitum við öll. Það á að vera skylda þeirra sem stjórna borginni að forgangsraða betur í þágu þeirra sem minna mega sín.

Grunnþörfum eins og þessum ætti ekki að vera hægt að vísa á biðlista. Sérstaklega ekki ef ástæðan er sú að borgarkerfið getur ekki mannað í þjónustustörfin. Við blasir að skortur er á nauðsynlegri uppstokkun til að mæta þörfum og eðlilegum kröfum fatlaðra og aldraðra. Aldraðir og fatlaðir eiga að geta valið þjónustu á eigin forsendum í stað þess að vera þiggjendur fyrirfram ákveðinnar þjónustu. Viðurkenna þarf ákveðna þjónustuþarfir og forgangsraða svo í fjármálum borgarinnar svo að þeim megi mæta. Það er ekki nóg að bjóða upp á heimsendan mat en sleppa þjónustunni ef vitað er að viðkomandi þarf aðstoð við að matast.

Fyrir liggur að þjónustan verður að taka stakkaskiptum á næstu árum. Væri minnsti vilji fyrir hendi væri borgarkerfið á góðri leið með að innleiða slíkar breytingar þessa dagana. Meirihlutinn í Reykjavík stendur í vegi fyrir framþróun. Ekki tekst að fjármagna sjálfsögð verkefni og áhersla á að breyta stöðnuðum aðferðum til að koma betur til móts við þá sem þurfa á þjónustu að halda er ekki til staðar.

Grunnþjónusta og gjöld
Í stað þess að forgangsraða er leitað enn dýpra í vasa borgarbúa. Útsvarið í Reykjavík er í botni, það hæsta samkvæmt lögum. Tekjur borgarbúa hækka og tekjur borgarsjóðs hækka í hlutfalli af því. Fasteignagjöld hafa hækkað gríðarlega, sérstaklega á borgarbúa. Orkugjöldin hafa margfaldast á undanförnum árum og meirihluti borgarstjórnar þakkar Planinu, finnst í góðu lagi að taka út arðinn en hvergi minnst á borgarbúa sem tóku á sig gríðarlegar hækkanir. Nei, þeir skulu áfram borga sín gjöld. Sorphirðan hækkar gjöld en dregur úr hirðutíðni. Engin ástæða er talin til að bjóða þjónustuna út til að draga úr útgjöldum eins og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gera. Samgöngukerfið er í ólestri, ásýnd borgarinnar er farin að líkjast vanþróuðu samfélagi. Húsnæðisvandinn gríðarlegur, viðvarandi og ýtir undir fátækt og á honum axlar meirihlutinn enga ábyrgð.

Borgarstjóri er lævís í kynningarmálum. Hann svarar ekki gagnrýni heldur býr til nýjar áætlanir og kynnir þær með miklum látum þegar að fyrri áætlanir hafi ekki staðist. En hingað og ekki lengra. Borgarbúar hafa áttað sig þessum þreytta og síendurtekna talnaleik. Nú þarf að hvíla flugeldasýningarnar og hætta að hafa borgarbúa að fíflum.

 

Grein birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2017


Hvar er áherslan á breytingar?

Lítið hefur verið hlustað á áhyggjur okkar Sjálfstæðismanna í borginni um að þau þjónustukerfi sem borgin rekur þurfi að fara í gegnum talsverðar breytingar til að vera tilbúin til að takast á við breytingar á aldurssamsetningu og fjölda vinnandi fólks. Ef málunum er pakkað inn þýðir þetta að fást verður við að mæta því hvernig bjóða má upp á fullnægjandi þjónustu fyrir fleiri án þess að meiri tekjur fylgi. Við höfum lagt áherslu á að innleiða tækninýjungar í velferðarþjónustuna við lítinn hljómgrunn. Við lögðum til strax í upphafi kjörtímabils að árið 2015 yrði 40 milljónum veitt í að skipuleggja slíkt breytingarferli í velferðarþjónustunni. Sú tillaga var felld. Í dag skilst mér að hálft stöðugildi (af um 7 þúsund) sinni innleiðingu velferðartækni hjá Reykjavíkurborg. Sem sagt engin áhersla lögð á þessi mál.

Ég var rétt í þessu að glugga í skýrslu sem gefin er út af Brussel skrifstofu sambands íslenskra sveitarfélaga og tekur á helstu málum ESB og EFTA árið 2017. Óháð því hvað mér finnst um rekstur þeirrar skrifstofu þá er þetta ágætis samantekt. Finn þarna samhljóm við stefnu okkar Sjálfstæðismanna í borginni hvað velferðarmálin varðar og einmitt þau mál sem of lítil áhersla er lögð á. Svo er þarna fleira áhugavert sem ég deili með ykkur svona á þessum fyrsta degi sumars :-)

Þetta er sem sagt samantekt um framtíð Evrópu:

"Evrópuþingið rekur hugveitu til að greina framtíðaráskoranir og helstu mál á döfinni. Meðalaldur hækkar stöðugt um allan heim og ef ekkert er að gert mun þessi þróun grafa undan velferðarkerfum eins og við þekkjum þau í dag og fólk mun þurfa að vinna talsvert lengur fram eftir aldri en nú. Meðalaldur í Evrópu 2030 verður 44 ár og sá hæsti í öllum heimsálfum. Meðalaldur á heimsvísu verður 33 ár. Hækka verður framlög til heilbrigðiskerfa umtalsvert og viðskiptamódel munu gerbreytast. Innflytjendamál verða áfram ofarlega á döfinni; vegna skorts á vinnuafli vegna lágrar fæðingartíðni, vegna aukinnar misskiptingar og vopnaðra átaka og jafnvel vatnsskorts. Tækninýjungar munu umbreyta heiminum á öllum sviðum; t.d. fjölmiðlum, lýðræðismálum og heilbrigðisþjónustu, vélmenni munu vinna sífellt fleiri störf sem nú er sinnt af fólki og þorri mannkyns mun búa í þéttbýli í framtíðinni. Þá er uppgangur lýðskrumara og þjóðernissinna einnig áhyggjuefni. ESB telur brýnt að móta langtímastefnu til að bregðast við ofangreindum áskorunum."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband