Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017
27.2.2017 | 11:51
Betur má ef duga skal
Ljóst er að þéttingin í Reykjavík gengur hægar en áætlað var og aðeins komu 1557 fullbúnar íbúðir inn á markaðinn á bilinu 2010 -2015 eða um 260 á ári. Í áætlunum eru auðvitað mun betri töluleg gögn en ennþá eru það aðeins áætlanir. Tölur fyrir 2016 benda ekki til þess að fjölgun íbúða haldi áætlun heldur sé mun minni.
Talið er að uppsöfnuð þörf í Reykjavík sé um 4000 íbúðir og að eins verði að koma 1000 íbúðir inn á markaðinn á ári til að bregðast við fólksfjölguninni og uppsafnaða vandanum. Neyðarástand hefur skapast á húsnæðismarkaði og í ljósi þess hefði verið ástæða fyrir meirihlutann í Reykjavík að endurskoða áætlanir borgarinnar.
Í Úlfarsárdal má vinna að mun stærri byggð en áætlað er og það væri hægt að hraða uppbyggingu minni og meðalstórra íbúða verulega ef horft væri til þess svæðis. Nú er skipulögð 9 þúsund íbúða byggð þar en hún gæti verið mun stærri væri vilji væri til.
Meirihlutinn vill meina að slík "uppbygging upp til heiða" myndi kollvarpa öllum plönum um að minnka bílnotkun og að umferðarvandinn yrði verulega mikið verri en hann er í dag og því er engu tauti við hann komandi.
Nú eru hins vegar komin drög að borgarlínu. Borgarlínan verður veruleg umbylting í almenningssamgöngum meðal annars frá Reykjavík og upp í Mosfellsbæ. Borgarlínan getur orðið til þess að ferðum á bíl fækkar. Greinilegt er að meirihlutinn treystir sér ekki til að sjá það fyrir sér.
Þá vill meirihlutinn í Reykjavík ekki taka með í reikninginn alla þá fjölgun sem hefur orðið í sveitarfélögunum í kring sem að sjálfsögðu leiðir til enn frekari umferðarvanda í Reykjavík, sama vanda og þau eru að forðast með því að vilja ekki horfa til Úlfarsárdalsins. Og þá er ekki talið upp þá fjöglun sem fylgir ferðamönnum.
Þéttingaráformin í Reykjavík eru góð og gild, en þau duga ekki lengur ein og sér. Það er ábyrgðarleysi að vilja ekki bregðast við því neyðarástandi sem hefur myndast í borginni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2017 | 14:33
Ruslið í Reykjavík
Meirihlutinn í Reykjavík er lítið fyrir að gæta hagsmuna borgarbúa. Tekjur borgarinnar hækka gríðarlega í gegnum útsvar og fasteignagjöld en meirihlutinn sér enga ástæðu til að reyna á sig í að leyfa borgarbúum að njóta þess.
Hér er ein staðfestingin af mörgum.
Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem ekki hefur boðið út sorphirðu frá heimilum. Augljóst er að mögulegur ávinningur borgarinnar af því að nýta samkeppnisútboð er mikill.
Þetta og fleira áhugavert segir í bréfi til okkar borgarfulltrúa frá Íslenska gámafélaginu sem meirihlutinn í Reykjavík heldur úti í kuldanum ásamt öðrum þeim sem hugsanlega myndu í bjóða í sorphirðuna í Reykjavík gæfist færi á því. Þetta hefur margoft verið lagt til af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins en viðbrögðin meirihlutans engin.
"Taflan sýnir fjórar mismunandi útfærslur á sorpgjöldum fyrir Reykjavík. Í þremur tilvikum reyndust sorpgjöld í borginni vera á bilinu 30% til 95% hærri en í hinum sveitarfélögunum. Í einu tilviki, þar sem miðað er við að heimili sé með minni gráa tunnu og sleppi blárri endurvinnslutunnu, reyndist gjaldið vera 4% lægra en hjá hinum sveitarfélögunum." segir með myndinni, í ofangreindu bréfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2017 | 11:58
Úr 50 í 40 - fyrir hvern?
Hæga umferðin sem skapast á álagstímum til dæmis á Hringbraut og Miklubraut er gríðarlega mikið mengunarvandamál og er skiljanlega óbærileg fyrir íbúa. Á þeim stöðum og tíma er umferðin frá 0-30 km/klst (ekki vísindalegt mat en raunsætt held ég).
Lækkun í 40 km/klst hámarkshraða kemur því vandamáli þá lítið við. Nema auðvitað til að hægja á umferð þegar ekki er álag og færri eru á ferli. Í hvers þágu er þá tillaga meirihlutans?
Yfirlitsmyndin er úr skipulagsvefsjánni þar sem hægt er að fletta upp öllu mögulegu meðal annars vegum og hvað má keyra hratt hvar. Þessi mynd sýnir þjóðvegi þar sem keyra má á 50+.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)