Reykvíkingar, hristum af okkur slenið

Reykjavíkurborg þarf að hrista af sér slenið. Við þurfum miklu skýrari stefnu og markvissari aðgerðir til að fólk sjái ástæðu til að búa áfram í borginni. Upp hefur safnast gríðarlegur velferðarvandi og vinnandi fólki fjölgar ekki í Reykjavík eins og í nágrannasveitarfélögunum. Í borgina vantar fleiri og jafnframt verðmætari störf og forsenda þess er að hér búi fólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að drífa áfram öflugan vinnumarkað. Nauðsynlegt er að beina sjónum að þessum hlutum, ef ekki á illa að fara.
 
Gagnrýna má margt. Við eigum ekki að sætta okkur við að námsárangur barna hér sé lakari árangri jafnaldranna í öðrum löndum. Það er merkilegt að fylgjast með borgarfulltrúum meirihlutans hamla gegn breytingum og skýla sér á bak við það, að börnum líði vel í skólunum. Auðvitað er gott að börnum líði vel en það er engin ástæða til að telja að ekki sé líka hægt að ná ásættanlegum árangri. Þegar skólakerfið stenst ekki samkeppni erum við illa stödd. Samkeppnishæfi þjóðarinnar allrar stendur og fellur með því.
 
Huga þarf að því að í borginni sé frjór jarðvegur fyrir atvinnulífið.
Sérstaklega þarf svo að huga að því hvernig borgaryfirvöld geta auðveldað frumkvöðlum eða nýjum fyrirtækjum að koma sér fyrir og hefja rekstur. Einfalda verður samskiptaleiðir við borgina og forgangsraða málum þannig að íbúar þurfi ekki að standa í biðröð og eilífu stappi til að fá niðurstöðu í einföldum afgreiðslumálum. Stundum virðast hlutirnir vera orðnir allt of flóknir og að stjórnkerfið standi í vegi fyrir umbótum.
 
Það sem aðgreinir frambjóðendur sjálfstæðismanna í borginni skýrt frá öðrum framboðum er að við viljum að fólk hafi athafnafrelsi á sem flestum sviðum. Hinir flokkarnir leggja allir áherslu á að grunnþjónustan þurfi í öllum tilfellum að vera á vegum borgarinnar og enginn geti rekið þá þjónustu nema borgarstarfsmenn. Þarfir viðskiptavinarins eru ekki í forgangi af því að samkeppnin um þjónustuna er engin. Viðskiptavinurinn á engra kosta völ og verður að bíða eftir að honum sé sinnt. Þetta ástand má bæta með meiri samkeppni.
 
Góð hugmynd er að gefa hæfu fólki tækifæri til að spreyta sig á rekstri grunnþjónustu. Hægt er að gera slíkt með samningum eins og ríkið hefur gert með afar góðum árangri í heilsugæslunni. Um leið gefst tækifæri til að innleiða nýja nálgun í rekstur þjónustunnar og viðskiptavinurinn verður aðalatriði. Þetta á við um velferð sem og menntun. Ungt fólk með reynslu af slíku fyrirkomulagi erlendis, t.d. annars staðar á Norðurlöndum, kallar eftir því að við hefjum slíkt breytingarferli hér. Og þetta skapar tækifæri og mun leiða af sér meiri nýsköpun.
 
Skapa þarf umhverfi sem fær fólk til að vilja setjast að. Við njótum öll kraftsins sem slíkir einstaklingar bera með sér. Undanfarin ár hefur Reykjavík verið að dragast aftur úr. Í stað þess að vera kraftmikil og skapandi er hún þreytt og þung. Stöðnun og hnignun er á næsta leiti. Afar mikilvægt er að á næsta kjörtímabili komist að ný sjónarmið og breytt vinnubrögð í Reykjavík. Þannig stöndum við vörð um velferðina og bætum lífsgæðin í framtíðinni. Hristum af okkur slenið, Reykvíkingar.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Því fyrr sem þið látið af GíslaMarteinskunni því betra. Miðjumoð og andstæðingaskjall hefur kostað okkur mikið fylgi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.5.2014 kl. 23:00

2 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Margir sem þurfa á framfærslu að halda og aukinni heilbrigðisþjónustu flytjast til höfuðborgarinnar. Fleira í þessum dúr kostar borgarbúa hlutfallslega mikið. Á móti kemur að borgin er hagkvæm eining m.v. önnur sveitarfélög. En borgarbúar þurfa að huga að eigin hag. Sterk borg kemur öllum vel þegar upp er staðið. Það sem myndi bæta hag borgarbúa mest er opnun á innflutning landbúnaðarafurða tollfrjálst, Evra í stað krónu og losun hafta sem myndi fjölga góðum atvinnutækifærum. Auðvitað þarf svo að huga að samgöngum,skólum og fleiru. En það er allt í lagi að þeir sem eru í framboði til bogarstjórnar tjái sig um stóru línurnar.

Guðjón Sigurbjartsson, 17.5.2014 kl. 07:06

3 Smámynd: Elle_

Það sem myndi bæta hag borgarbúa mest er opnun á innflutning landbúnaðarafurða tollfrjálst - -  Það er fjarstæða að þetta myndi bæta hag borgarbúa mest, Guðjón.  Það kæmi hag borgarbúa ekki einu sinni við.

Elle_, 17.5.2014 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband