Kerfið verndað á kostnað íbúa - 5 ára skatta og gjaldastefna

Birti hér fjölmiðlatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn:

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar lagði í dag fram frumvarp að fimm ára fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg. Í umræðum um frumvarpið kom fram að ekki er um neina pólitíska stefnumótun að ræða heldur einungis framreikning fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar. Spurningunum um það hvert stefnt sé í Reykjavík næstu fimm árin, hvað við þurfum að gera til að ná því markmiði og hvenær okkur gæti tekist það, er í engu svarað i frumvarpinu. Þannig er borgarbúum ekki veitt sú framtíðarsýn og það sameiginlega markmið sem kallað hefur verið eftir.

Spurningum um það hver hafi leitt vinnu vegna frumvarpsins, hvort það sé unnið af kjörnum fulltrúum eða embættismönnum var svarað þannig að ,,fjármálastjóri hefði borið þessa vinnu á höfði sínu og herðum" og kjörnir fulltrúar lítið sem ekkert haft af því afskipti. Borgarstjóri sem ber ábyrgð á frumvarpinu sagðist þannig hafa gert það eitt að fylgjast með þessari vinnu og funda með fjármálastjóra vegna stöðu þess.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna harðlega þessi vinnubrögð og telja að vegna þeirra sé fimm ára áætlunin hvorki nægilega vel undirbúin né nægilega vel unnin. Alla pólitíska forystu, framtíðarsýn og ábyrgð skorti af hálfu meirihlutans, auk þess sem enginn borgarfulltrúi hafi séð plaggið fyrr en 2 dögum fyrir umræðuna þrátt fyrir að þessi vinna hafi skv. yfirlýsingum átt að liggja fyrir i lok september.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokksins sagði í dag að meirihlutinn virðist án nokkurrar umræðu færa sitt lýðræðislega umboð frá borgarbúum til embættismanna, sem sé enn eitt dæmið um það hvernig forgangsröðunin í Reykjavík er á kostnað fólksins en fyrir kerfið.

Við teljum að með forgangsröðun sinni sé Reykjavík að vernda kerfið á kostnað fólksins og okkur finnst það ekkert betri aðferð þegar henni er beitt fimm ár í röð, eins og í fyrirliggjandi áherslum, en þegar henni er beitt eitt ár í einu. Og í þessari áætlun er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurborg hyggist láta af slíkri skattheimtu eða stefni að því að bjóða íbúum sínum lægri skatta en í öðrum sveitarfélögum. Skilaboðin til almennings í þessu plaggi eru því nákvæmlega þau sömu og þau hafa verið allt þetta kjörtímabil – kerfið þenst út á kostnað ykkar og það stendur ekki til að breyta því


Hinn stefnulausi, kerfislægi einokunarmeirihluti.

Nú liggur fyrir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 hjá Besta og Samfylkingu í Reykjavík hér eru nokkur orð um það.

Hagræðing hefur ekki átt sér stað

Niðurstaðan er sú að enn skal hækka gjöld á íbúa í algjöru stefnuleysi. Útsvar var hækkað í botn og skatttekjur voru 1,6 milljarði hærri en áætlað var!! Ekkert liggur fyrir um af hverju meirihlutinn telur svona mikilvægt að halda áfram að safna fé frá íbúum - að vissu leyti má reyna að skilja þetta að því leyti að þau hafa ekki getað hagrætt eins og þau töldu sig geta. Í stað þess að lækka skatta og gjöld er þeim haldið í botni svo að hvatinn til að hagræða er hverfandi. 

Íbúar borga þegar fasteignamat hækkar en líka þegar fasteignamat lækkar

Fyrir ári síðan ákvað Sambesti flokkurinn að leyfa íbúum ekki að njóta þess að fasteignamat hafði lækkað og skattar á fólk í leiðinni. Mjög furðulegt samkomulag við íbúa að þeir borgi brúsan þegar fasteignamatið hækkar en fái engar lækkanir þegar fasteignamat lækkar. Í stað þess var ákveðið að skattar yrðu hækkaðar með þeim forsendum að þeir skiluðu enn inn sömu krónutölu og þeir höfðu áður skilað.  Þessi hugsunarháttur endurspeglar mjög hversu kerfislægt meirihlutinn vinnur.

Einokunargjaldskrár hækka mest

Einnig er athyglisvert að sjá að enn skal hækka gjaldskrá OR. Þrátt fyrir að þar skuli hagrætt verulega og fjárfestingum frestað skal nú hækka gjöldin á íbúa mest vegna þjónustu sem er ekki í samkeppni svo allir verði nú örugglega að borga. Hér sést best hversu mikilvæg samkeppni getur verið í þágu almennings.

 


Samfylking og Besti flokkur áhugalaus um atvinnumál í Reykjavík

Á borgarstjórnarfundi í gær kom glögglega í ljós að enginn áhugi er hjá Besta flokki og Samfylkingu að skoða hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu hafa á atvinnumál í borginni. Í tvo mánuði hefur legið fyrir tillaga um að borgin geri úttekt á þessum áhrifum sem meirihlutinn hefur alltaf verið frestað. Maður spyr sig hvort menn telji þetta ekki hagsmunamál borgarinnar eða fyrir hvern þeir eru að vinna?

Eftirfarnadi er fréttatilkynning frá sjálfstæðisfólki í borgarstjórn:

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag þar sem farið er fram á úttekt á áhrifum breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu á atvinnulif í Reykjavík.  Einnig er farið fram á það að Reykjavíkurborg veiti Alþingi umsögn sína um málið með hliðsjón af hagsmunum Reykjavíkur.

Í umræðunum í borgarstjórn í dag benti Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins á að tillaga um þessa úttekt hafi verið flutt í borgarráði í lok júní, en hafi nú verið í frestun á þeim vettvangi í rúmlega tvo mánuði.  Á sama tíma hafa hagsmunaaðilar og mörg sveitarfélög sent Alþingi umsagnir sínar, þar sem bent er á ýmsa vankanta frumvarpsins og áhrif þess á uppbyggingu í atvinnulífi og lífskjör í landinu, þ.m.t. Reykjavík.  Hanna Birna sagði þetta aðgerðar- og afstöðuleysi meirihlutans bera  vott um ,,algjört áhugaleysi meirihlutans á brýnu atvinnumáli í Reykjavík, auk þess að vekja upp spurningar um hvort borgaryfirvöld er uppteknari við að verja áherslur ríkisstjórnarinnar en hagsmuni borgarbúa."
 
Hanna Birna benti einnig á mikilvægi sjávarútvegs fyrir Reykjavík, en um 20 % aflaverðmætis kemur til hafnar í Reykjavík.  ,,Sjávarútvegurinn er einn af stoðum reykvísks atvinnulífs. Borgaryfirvöldum ber skylda til að skoða áhrif þeirra umfangsmiklu breytinga sem boðaðar hafa verið og greina hvernig betur verði á málinu haldið.  Sé meirihlutanum alvara með því að búa atvinnulífi hér góð skilyrði, hlýtur samþykkt slíkrar úttektar að vera sjálfsögð og mikilvæg.  Að það taki meirihlutann marga mánuði að afgreiða slíka tillögu vekur furðu, ber þess merki að meirihlutinn vill ekki ræða málið og skaðar með því hagsmuni borgarbúa."


Að takast á við félagslega vanda í Reykjavík

Fjöldi þeirra sem fær fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hefur aukist um 30% milli ára og um 70% ef bornar eru saman tölur fyrstu ársfjórðunga þessa árs og ársins 2010. Þeir sem  njóta aðstoðarinnar eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hafa misst réttinn til bóta eða geta ekki verið á vinnumarkaði af einhverjum ástæðum. Margir eru síðar greindir sem öryrkjar og fá þá greiðslur úr almenna lífeyristryggingakerfinu.  Þá eiga námsmenn, sem hafa ekki verið á vinnumarkaði, ekki heldur rétt á atvinnuleysisbótum.  Nú njóta 1700 manns fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar.  U.þ.b. 70% þeirra eru 40 ára og yngri og þeim fjölgar mun hraðar en hinum eldri.  Þetta er alvarleg þróun, sem krefst þess að við stöldrum við, rýnum ástandið og leitum nýrra leiða.

Hækkun bóta og skilyrði um virkni.
Grunnfjárhæð til framfærslu hækkaði um síðustu áramót í Reykjavík.  Tekist var á um þessa hækkun.  Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hækkaði bætur án þess að skoða hvernig  leggja mætti enn þyngri áherslu á virkniúrræði. Mun betri leið hefði verið að umbuna þeim, sem geta og vilja taka þátt í virkniverkefnum í stað þess að greiða bætur út skilyrðislaust. Með því hefði borgin mótað hvetjandi kerfi öllum til góðs.

Við sjálfstæðismenn höfum verið talsmenn þess að gera ætti kröfur til þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, á sama hátt og gerðar eru kröfur til þeirra sem njóta atvinnuleysisbóta en þeir þurfa að vera í virkri atvinnuleit og með því er fylgst.  Engar slíkar kröfur eru gerðar til þeirra, sem fá fjárhagsaðstoð borgarinnar, fólki er boðin ráðgjöf og aðstoð sem margir þiggja ekki.  Þennan hóp þarf að okkar mati að hvetja af meiri krafti til að hann öðlist reynslu og hæfni til að komast  út á vinnumarkaðinn og verjast þeim doða og vonleysi, sem langvarandi aðgerðarleysi getur haft í för með sér. Annars staðar á Norðurlöndum hafa menn séð mikilvægi þess að forsenda bóta sé að vera virkur og taka þátt.

Breyttar aðstæður krefjast aðlögunar og nýrra úrræða.
Þegar félagslegir erfiðleikar eru til staðar hjá einstaklingum og fjölskyldum, opnast dyr að kerfi, sem bætir verulega fjárhagsstöðu þeirra og veitir aðgang að lausnum sem öðrum bjóðast ekki. Hér er t.d. um að ræða sérstakar húsaleigubætur, úthlutun félagslegs húsnæðis og aðgengi að heimildargreiðslum á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar.

 

Mikil ásókn er að komast yfir "félagslegu línuna" eða viðmiðin þ.e. að teljast vera í félagslegum vanda enda er eftir nokkru að slægjast.  Svokallaðar sérstakar húsnæðisbætur eru 1.300 kr. fyrir hverjar 1.000 krónur, sem viðkomandi fær í húsaleigubætur og geta þær samanlagt orðið mest 70.000 kr. á mánuði eða 75% af leiguverði. Oft á tíðum gengur illa að finna leiguhúsnæði á almennum markaði, þannig að fólk leitar til sveitarfélagsins. Til þess að eiga rétt á félagslegu húsnæði er þörfin metin út frá aðstæðum hvers og eins, bæði félagslegum og fjárhagslegum.  Dæmi eru til um að framtak og frumkvæði til öflunar húsnæðis komi í veg fyrir aukinn rétt til bóta. Og fljótt sér fólk að það borgar sig lítið að nota sjálfsbjargarviðleitnina.

Nauðsynlegt er að velferðarkerfið breytist í takt við þann vanda, sem því er ætlað að leysa.  Vinnumarkaðurinn er gjörbreyttur, atvinnuleysi í borginni er u.þ.b. 10% (þegar atvinnulausir á fjárhagsaðstoð eru taldir með) og laun hafa lækkað verulega. Gæta þarf þess að sá hópur sem fær fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu vegna atvinnuleysis festist ekki í viðjum hins félagslega kerfis. Mikilvægt er að því fólki standi öflug vinnumarkaðsúrræði til boða og ríkið tryggi rétt þeirra til vinnumiðlunarúrræða. Breyta þarf fjárhagsaðstoðarreglunum Reykjavíkurborgar, þannig að hægt sé að umbuna þeim sem vilja taka þátt í samfélagsverkefnum eða öðrum virkniúrræðum og ekki ætti að teljast eðlilegt að krefjast einskis frá bótaþegum. Ekki er verið að tala um að allir fái launuð störf heldur að þeir finni sér verkefni sem hentar áhuga þeirra og hæfni.  Þetta má gera í samstarfi við  hjálparstofnanir, hagsmunafélög, skóla og aðra aðila.  Slík þátttaka hvetur fólk til að koma sér út úr aðstæðum, sem það annars festist í til langs tíma. Aðalatriðið er að fólk sem getur bjargað sér sjálft festist ekki í viðjum félagslega kerfisins. Félagslega kerfið er  byggt upp til þess að hjálpa þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir eða hafa lent tímabundið í áföllum og nú er nauðsynlegt að verja það vegna gjörbreyttra aðstæðna á vinnumarkaði.

Greinin hér að ofan birtist í morgunblaðinu mánudaginn 30. maí 2011.

Árangur Hönnu Birnu og fyrrverandi meirihluta

Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs fyrir árið 2010 var réttu megin við núllið eða skilaði 1.472 m.kr. hagnaði og sýnir svo ekki verður um villst að fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluti var á réttri braut.


Það sem er svo merkilegt við þetta er að meðan hvaðanæva að streyma ábendingar um hversu slæmt það er að skattpína fyrirtæki og almenning í því ástandi sem nú einkennir efnahagslífið þá hefur núverandi meirihluti hins vegar farið þá leið til hins ítrasta.  Borgarsjóður skilar hagnaði á fyrra ári án skattahækkana og án þess að gjöld hafi hækkað, en hins vegar lagði nýji meirihlutinn áherslu á að nú yrði að skattapína til að vinna gegn slæmri stöðu borgarinnar, borgarsjóður skilar nú meira en skattahækkanirnar munu skila borgarsjóði á næsta ári. Á meðan störfin í einkageiranum þurfa að halda úti 2,5 manneskjum á þann hátt að með hverju starfi í einkageira gefst möguleiki á að halda úti 1,5 til viðbótar í opinbera geiranum (hvort sem um er að ræða launamenn eða þá sem þurfa að lifa á opinberum styrkjum) þá er þetta varhugaverð stefna. Velferðarkerfið byggir á atvinnurekstri - hvet ykkur til að lesa skoðun Viðskiptaráðs Íslands  sem kom út nú fyrr í maí.

 

 


Í ágúst 2010 vildu Jóhanna og Steingrímur ekki kaupa hlut OR í HS orku í stað Magma

Í ágúst fyrir einu og hálfu ári, þurfti Orkuveita Reykjavíkur skv. samkeppnislögum að selja hlut sinn í HS orku. Eftir að hafa haft 6 mánuði til að gera tilboð í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku vildu Steingrímur og Jóhanna ekki kaupa hlutinn sem Magma falaðist eftir. Að frestinum liðnum fengu þau auka frest til að skoða málið en sáu ekki ástæðu til að kaupa bréfin og stöðva sölu til HS orku - en nú er þetta allt einhverjum öðrum að kenna, sjálfstæðisflokknum, Geir, Davíð og kannski Hæstarétti bara líka?


Hið norræna velferðarkerfi er farið að þvælast fyrir velferðarráðherra

Í Fréttablaðinu í dag eru birtir útreikningar Benedikts Jóhannessonar um hvaða ráðstöfunartekjur skila sér í vasa launamannsins eftir að hann hefur greitt skatta og launatengd gjöld.

Niðurstaðan sýnir að þriðjungur þess sem launamenn með 350 þúsund og 450 þúsund fara í þeirra vasa en annað taka ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir.

Sá sem hefur í mánaðarlaun 350.000,- kr. fær útborgaðar 147.627,- kr.
Sá sem hefur í mánaðarlaun 450.000,- kr. fær útborgaðar 178.997,- kr.

Til viðbótar við útreikningar Benedikts eru eftirfarandi tölur:

Fjárhagsaðstoð einstaklings (eftir skatta) sem býr sjálfstætt er 138.000,- á mánuði í Reykjavík
Atvinnuleysisbætur (eftir skatta)  eru um 138.000,- á mánuði
Fullar greiðslur almannatrygginga til einstaklinga eru 176.000,- á mánuði

Merkilegt er að skoða þetta í samhengi við það sem velferðarráðherra hefur verið að boða síðustu vikur en hann hefur beint þeim tilmælum til sveitarfélaganna að  þau eigi að hækka fjárhagsaðstoð og að bæta þurfi kjör þeirra sem minna mega sín.

Þeir sem hafa lægstu launin á vinnumarkaði fá minna í vasann en þeir sem eru á bótum - þannig er hið norræna velferðarkerfi orðið, þeir eiga ekki rétt á jafn mikilli viðbótar aðstoð og þeir sem eru á bótum. 

Ég held að hann ætti að beina þeim tilmælum til sjálfs sín að reyna að bæta kjör fólks á vinnumarkaði, viðhalda fjárhagslegum hvata svo fleiri haldi áfram að komast út í atvinnulífið. Gera þarf fyrirtækjum kleift að ráða fleira fólk í vinnu, draga úr sköttum væri leið til þess. Þannig stöndum við vörð um velferðarkerfið og getum áfram hjálpað þeim sem minnst mega sín.


 


Verklag velferðarráðherra ekki til sóma

Á undanförnum tveimur fundum velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafa verið lögð fram mál þar sem velferðarráðherra kemur við sögu. Annað varðar fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem verður að teljast smjörklípa í stærra lagi og hins vegar málefni fatlaðra þar sem ljóst er að ekki er tekið á eigin málum en sveitarfélögin látin um að fara í "óþægilegu" verkefnin.

Um daginn (4. janúar) komu tilmæli ráðherra í fjölmiðla undir fyrirsögninni "Vill að sveitarfélögin hækki fjárhagsaðstoð" með þessu klessir ráðherrann sínu eigin vandamáli á sveitarfélögin án þess að fjalla neitt um eigin ábyrgð. Við bókuðum að sjálfsögðu mótmæli við þessu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska að eftirfarandi tilmæli til velferðarráðherra séu bókuð. Ekki er ljóst í hvaða samhengi ráðherra velferðarmála lét þessi tilmæli falla til sveitarfélaganna, miðað við umfjöllun í fjölmiðlum mátti gefa sér að þau kæmu í kjölfar niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar HÍ meðal fólks sem leitar til hjálparsamtaka eftir matarúthlutunum.

Niðurstöður könnunarinnar eru meðal annars þær að skjólstæðingar ráðherrans en ekki sveitarfélaganna eru um 90 % þeirra sem hjálpina sækja en að aðeins 10% gesta séu skjólstæðingar sveitarfélaganna. Með tilmælum sínum beinir ráðherrann vandanum að sveitarfélögunum án þess að fjalla um sína eigin ábyrgð í málinu.

Því er þeim tilmælum beint til ráðherrans að hann byrja að gera sér grein fyrir því að hann er í bestu aðstöðu sem ráðherra í starfandi ríkisstjórn að aðstoða þennan hóp verulega með því að vinna að því að bæta umhverfi fyrirtækja á Íslandi þannig að þau geti tekið ákvörðun um frekari fjárfestingar og ráðið í fleiri störf. 37% gesta hjálparstofnana eru öryrkjar og þá verður að benda á það að það er á könnu ráðherrans að fjalla um kjör öryrkja en ekki sveitarfélaganna.

Seinna málið tengist yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Fyrir hefur legið að skv. búsetureglugerð hefur félagsmálaráðuneytið eða velferðarráðuneytið eins og það heitir nú haft heimild til að hækka leigu skv. vísitölu frá því árið 2003 en ekki gert það þrátt fyrir ábendingar. Nú þegar sveitarfélögin hafa tekið við er þeim látið eftir að fara í þetta mál sem ráðherra hefði átt að taka að sér sómans vegna. Við bókuðum því eftirfarandi:

"Fulltrúar sjálfstæðisflokksins telja ámælisvert að velferðarráðherra hafi ekki afgreitt hækkun vegna búsetureglugerðar áður en málaflokkurinn fluttist yfir til sveitarfélagana. Velferðarráðuneytið hefur haft nægan tíma til framfylgja ákvæði um hækkun en ekki sinnt því frá árinu 2003. Það kemur því í hlut velferðarráðs Reykjavíkurborgar að framfylgja þessari hækkun og svara þeirri óánægju sem eflaust á eftir að hljótast af henni. Mjög óheppilegt er að þessi afgreiðsla verði sú fyrsta sem ráðið fjallar um enda hefur sveitarfélagið unnið að kappi og miklum metnaði að undirbúningi yfirfærslunnar svo notendur upplifi hana á sem jákvæðaðstan hátt. Ekki verður hjá því komist að álykta svo að ráðherra sé hér að veigra sér við að taka á málum og láti aðra um að taka á sig erfið mál."

 


Ekki var nóg að hækka gjöldin í Strætó, einnig var ákveðið að draga úr þjónustu!

Nú eru Sambestu orðnir ósammála, meirihluti borgarráðs er ekki sammála því sem meirihluti umhverfis- og samgönguráðs samþykkti. 

Í tilefni af staðfestingu borgarráðs í morgun á þjónustuskerðingu og gjaldskrárhækkun hjá Strætó bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálstæðisflokksins með eftirfarandi hætti:

,,Með þessari samþykkt fer meirihluti borgarráðs algjörlega gegn meirihlutanum í umhverfis- og samgönguráði en fyrirliggjandi tillaga er fram komin vegna sameiginlegrar afstöðu umhverfis- og samgönguráðs um að taka skuli umrædda ákvörðun um þjónustuskerðingu til baka.  Í umræðum um málefni Strætó í borgarstjórn sl. þriðjudag axlaði enginn borgarfulltrúi meirihlutans ábyrgð á þeirri ákvörðun að ganga til þjónustuskerðingar og gjaldskrárhækkana hjá Strætó. Í þeim umræðum lýsti borgarstjóri því hins vegar yfir að endurskoða skyldi ákvörðunina í ljósi þess að hún virtist hafa verið tekin án formlegrar aðkomu Reykjavíkur. Nú hefur þeirri afstöðu algjörlega verið snúið við með yfirlýsingum um að meirihlutinn hafi í raun tekið þessa ákvörðun, þrátt fyrir að það liggi ekki fyrir hvar hún hafi verið tekin. Þetta er með hreinum ólíkindum og vekur upp spurningar um hver og hvað ráði raunverulega för hjá núverandi meirihluta. Rétt er einnig að minna á að allt umhverfis- og samgönguráð, sem í sitja 3 fulltrúar meirihlutans, bókaði gegn umræddri skerðingu, taldi hana til koma án vitundar þeirra og krafðist þess að hún yrði tekin til baka. Það er ljóst að með þessari ákvörðun svíkur meirihlutinn enn eitt loforðið við kjósendur, fer gegn augljósum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og staðfestir að ákvarðanir um svo mikilvæg mál eru tekin án þess að nokkur kannist við þær, hvað þá að nokkur tryggi að þær séu teknar með hliðsjón af hagsmunum Reykjavíkur.“

Veggjöld og tvöföld skattheimta Sambesta flokksins

Frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar hafnar ekki veggjöldum

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar treysti sér ekki til að mótmæla fyrirhuguðum vegtollum á höfuðborgarsvæðinu á fundi borgarstjórnar í dag.   Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu þess efnis og vildu að borgarstjórn sendi ríkisstjórn og Alþingi skýr skilaboð um að slík tvöföld skattheimta væri ekki sanngjörn gagnvart borgarbúum, en meirihlutinn kaus að vísa tillögunni óafgreiddri til skoðunar hjá umhverfis- og samgönguráði.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um ályktun borgarstjórnar vegna veggjalda er svohljóðandi:

Borgarstjórn skorar á ríkisstjórn og Alþingi að láta ekki verða af hugmyndum um að leggja á veggjald til viðbótar við þá skatta og gjöld sem íbúar greiða nú þegar. Borgarstjórn er ekki andsnúin því að veggjöld séu skoðuð sem fjármögnunarleið vegna samgöngumannvirkja, (t.d. í sérstökum tilvikum þegar íbúar hafa val um aðra akstursleið) en telur rangt að innheimta þann kostnað tvöfalt með hækkun skatta og sérstöku veggjaldi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sagði í ræðu sinni nauðsynlegt að borgarstjórn bregðist við þeirri umræðu sem undanfarið hefur verið um sérstök veggjöld til viðbótar stöðugt hækkandi sköttum og gjöldum.  Hún benti á höfuðborgarsvæðið hefði alltof lengi setið eftir við úthlutun fjármagns vegna samgöngubóta og að í vegaáætlun sem nær til ársins 2012 væri hlutfall höfuðborgarsvæðisins í þeirri úthlutun margfalt lægri en það sem eðlilegt gæti talist, þrátt fyrir að um 63% íbúa séu búsettir á þessu svæði. 

Hanna Birna benti á að það væri óásættanlegt að íbúar þurfi að greiða vegatolla til viðbótar við þau gjöld sem núþegar eru innheimt með bifreiðar- og bensíngjöldum.  ,,Það gengur einfaldlega ekki að ríkisvaldið komist upp með það að margskattleggja almenning í þessu landi, fyrst með því að hækka alla skatta og öll gjöld en síðan með því að bæta sérstöku veggjaldi ofaná.  Vilji menn skoða það að fjármagna samgöngubætur með sérstöku veggjaldi verður það að gerast þannig að aðrir skattar lækki á móti.  Núverandi ríkisstjórn virðist nú varla líkleg til þess.”


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband