Verklag velferðarráðherra ekki til sóma

Á undanförnum tveimur fundum velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafa verið lögð fram mál þar sem velferðarráðherra kemur við sögu. Annað varðar fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem verður að teljast smjörklípa í stærra lagi og hins vegar málefni fatlaðra þar sem ljóst er að ekki er tekið á eigin málum en sveitarfélögin látin um að fara í "óþægilegu" verkefnin.

Um daginn (4. janúar) komu tilmæli ráðherra í fjölmiðla undir fyrirsögninni "Vill að sveitarfélögin hækki fjárhagsaðstoð" með þessu klessir ráðherrann sínu eigin vandamáli á sveitarfélögin án þess að fjalla neitt um eigin ábyrgð. Við bókuðum að sjálfsögðu mótmæli við þessu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska að eftirfarandi tilmæli til velferðarráðherra séu bókuð. Ekki er ljóst í hvaða samhengi ráðherra velferðarmála lét þessi tilmæli falla til sveitarfélaganna, miðað við umfjöllun í fjölmiðlum mátti gefa sér að þau kæmu í kjölfar niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar HÍ meðal fólks sem leitar til hjálparsamtaka eftir matarúthlutunum.

Niðurstöður könnunarinnar eru meðal annars þær að skjólstæðingar ráðherrans en ekki sveitarfélaganna eru um 90 % þeirra sem hjálpina sækja en að aðeins 10% gesta séu skjólstæðingar sveitarfélaganna. Með tilmælum sínum beinir ráðherrann vandanum að sveitarfélögunum án þess að fjalla um sína eigin ábyrgð í málinu.

Því er þeim tilmælum beint til ráðherrans að hann byrja að gera sér grein fyrir því að hann er í bestu aðstöðu sem ráðherra í starfandi ríkisstjórn að aðstoða þennan hóp verulega með því að vinna að því að bæta umhverfi fyrirtækja á Íslandi þannig að þau geti tekið ákvörðun um frekari fjárfestingar og ráðið í fleiri störf. 37% gesta hjálparstofnana eru öryrkjar og þá verður að benda á það að það er á könnu ráðherrans að fjalla um kjör öryrkja en ekki sveitarfélaganna.

Seinna málið tengist yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Fyrir hefur legið að skv. búsetureglugerð hefur félagsmálaráðuneytið eða velferðarráðuneytið eins og það heitir nú haft heimild til að hækka leigu skv. vísitölu frá því árið 2003 en ekki gert það þrátt fyrir ábendingar. Nú þegar sveitarfélögin hafa tekið við er þeim látið eftir að fara í þetta mál sem ráðherra hefði átt að taka að sér sómans vegna. Við bókuðum því eftirfarandi:

"Fulltrúar sjálfstæðisflokksins telja ámælisvert að velferðarráðherra hafi ekki afgreitt hækkun vegna búsetureglugerðar áður en málaflokkurinn fluttist yfir til sveitarfélagana. Velferðarráðuneytið hefur haft nægan tíma til framfylgja ákvæði um hækkun en ekki sinnt því frá árinu 2003. Það kemur því í hlut velferðarráðs Reykjavíkurborgar að framfylgja þessari hækkun og svara þeirri óánægju sem eflaust á eftir að hljótast af henni. Mjög óheppilegt er að þessi afgreiðsla verði sú fyrsta sem ráðið fjallar um enda hefur sveitarfélagið unnið að kappi og miklum metnaði að undirbúningi yfirfærslunnar svo notendur upplifi hana á sem jákvæðaðstan hátt. Ekki verður hjá því komist að álykta svo að ráðherra sé hér að veigra sér við að taka á málum og láti aðra um að taka á sig erfið mál."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband