15.3.2014 | 18:14
Svigrúm óskast - "Hótel mamma" segir upp
Pólitísk töf
Lítið annað þarf en pólitískan vilja til þess að hætta að tefja uppbyggingu. Á einkamarkaðinum hafa fullskapaðar hugmyndir um góðar lausnir litið dagsins ljós. Lítið virðist ganga við endurskoðun byggingarreglugerðar og meirihlutinn í Reykjavík leggur áherslu á að miðstýra verkefni sem búið er að leysa í stað þess að einbeita sér að því að hleypa uppbyggingunni af stað. Uppbygging á kjörtímabilinu hefur verið kjánalega lítil auk þess sem algjörlega hefur verið vanmetið hversu margar íbúðir eru nú leigðar til ferðamanna og standa íbúum ekki lengur til boða. Talið er að hér sé um allt að 1500 íbúðir að ræða.
Hversu lengi á að bíða?
Til styttri tíma mætti til dæmis sjá fyrir bráðabirgðalausnir á borð við smáhýsalausn sem kynnt var fyrir nokkrum dögum eða þá að gefa hugmyndum þeirra sem unnið hafa að lausnum til að mæta eftirspurn eftir minni og ódýrari íbúðum byr undir báða vængi. Arkitektar, hönnuðir og byggingaraðilar hafa ekki setið aðgerðalausir heldur unnið að lausnum sem horfa ætti til.
Hægt væri að byggja upp slíkar íbúðir með stuttum fyrirvara fengjust lóðir við hæfi. Með slíkri innspýtingu gæti síðan fjöldi ungs fólks komið sér upp heimili í litlum og vistvænum íbúðum. Árangursríkast er að láta einkamarkaðinn um að anna eftirspurninni og einbeita sér að því að reglugerðir og tafir ríkis og borgar verði ekki til þess að gera vandamálið enn stærra. Einkaaðilar áætla að hægt væri að bjóða 35 fermetra stúdíóíbúðir á um 80 þúsund krónur á mánuði miðað við núverandi verðlag fái þeir sveigjanleika til þess að hefja uppbyggingu. Þess ber að geta að það er í raun ódýrt verð ef miðað er við það leiguverð sem Reykjavíkurborg innheimtir fyrir félagslegar íbúðir. En þar er leiguverð fyrir 40 fermetra á milli 60-100 þúsund krónur.
Einföldum málin
Nauðsynlegt er að stórauka lóðaframboð í Reykjavík. Til að auka fjölbreytileika bygginga á hinum nýju lóðum væri skynsamlegast að endurskoða núverandi fyrirkomulag lóðaverðs, falla frá þeirri stefnu sem nú gildir að lóðaverð miðast ekki einungis við fermetrafjölda fasteignar heldur fjölda íbúða í hverri fasteign. Verð lóðar hækkar þannig með hverri íbúð sem við bætist. Þetta hindrar í raun uppbyggingu minni íbúða. Þar að auki er mögulegt að skapa aukna hvata á fasteignamarkaði til minni tilkostnaðar við byggingu fasteigna, hagkvæmara söluverðs og lægra leiguverðs með því að lækka verulega lóðagjöld í Reykjavík. Með fyrrnefndum breytingum yrði dregið úr hindrunum sem eru nú í vegi þeirra sem vilja byggja ódýrari og minni íbúðir fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, fjölskyldur sem eru að koma upp sínu fyrsta heimili eða aðra hópa sem ekki finna húsnæði við hæfi.
Höfnum skammtastefnunni
Heilbrigð blanda af skammtíma og langtímaaðgerðum í húsnæðismálum ungra Reykvíkinga, þar sem lagt er upp með að leyfa einstaklingsframtakinu að blómstra og mynda þannig fjölbreytta og vistvæna byggð, er leiðin til árangurs. Höfnum húsnæðisskömmtunarstefnunni og setjum frekar fjölbreytileikann í forgang og veitum markaðnum svigrúm til að bregðast við nýrri eftirspurn.
Bloggar | Breytt 16.3.2014 kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2014 | 11:50
Ekki nóg að fara með fögru orðin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2013 | 12:02
Flóknara og dýrara kerfi
Seint í gærkvöldi var fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2014 samþykkt. Hér er bókun okkar sem fylgdi í kjölfarið.
Of mikil skattheimta, skuldasöfnun og útþensla kerfisins á kostnað almennings er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokks og Samfylkingar á kjörtímabilinu. Enda þótt meirihlutinn hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að draga gjaldskrárhækkanir til baka er fjárhagsáætlun 2014 engin undantekning. Eitt fyrsta verk vinstri meirihlutans var að leggja hámarksútsvar á Reykvíkinga og hækka ýmsar aðrar álögur. Sú skattahækkun er nú fest enn frekar í sessi.
Sífellt vaxandi kostnaður sýnir að aðhald og ráðdeild skortir í rekstri Reykjavíkurborgar. Fjórar viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi borgarinnar frá árinu 2010, sem hafa leitt til flóknara og dýrara kerfis.
Á síðasta kjörtímabili var borgarsjóður rekinn með rekstrarafgangi þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar á síðari helmingi þess. Frá því núverandi meirihluti tók við völdum í borgarstjórn, hefur borgarsjóður hins vegar verið rekinn með halla.
Það er áhyggjuefni fyrir alla borgarbúa að frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs tvöfaldast. Að meðaltali er skuldaaukning hreinna skulda 6,5 milljarðar á ári, eða 750 þúsund krónur á hverja klukkustund frá því að Samfylking og Besti flokkur mynduðu meirihluta í borgarstjórn. Skuldir hafa aukist um meira en 26 milljarða eða 115% og enn hyggst meirihlutinn halda áfram á braut skuldasöfnunar. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2014 mun borgin auka enn frekar skuldir sínar og skuldbindingar á næsta ári.
Núverandi meirihluti hefur lagt mikla áherslu á að sækja stöðugt meira fé til borgarbúa og ganga á ráðstöfunartekjur þeirra, fremur en að líta sér nær og hagræða í kerfinu. Þessar miklu hækkanir á kjörtímabilinu hafa kostað meðalfjölskyldu í Reykjavík 403 þúsund krónur á ári.
Það frumvarp að fjárhagsáætlun, sem meirihlutinn lagði fram í lok október, byggðist á gjaldskrárhækkunum er áttu sér ekki hliðstæðu meðal annarra sveitarfélaga. Talsmenn launafólks bentu á að gjaldskrárhækkanirnar hefðu bitnað harðast á barnafjölskyldum, öryrkjum og einstæðum foreldrum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu gjaldskrárhækkanirnar og viðbrögð í samfélaginu við málflutningi þeirra voru mjög sterk. Í framhaldi af þessu hefur meirihluti borgarstjórnar dregið gjaldskrárhækkanir til baka. Í stað þess að bregðast við með því að hagræða í kerfinu vegna minni tekna, eru framlög til málaflokka aukin og afleiðingunum fleytt inn í framtíðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2013 | 20:17
Aðalskipulagið afgreitt
Aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur rétt í þessu. Flestir voru jákvæðir og glaðir með að 7 ára vinnu væri loks lokið en aðrir voru með ýmsar efasemdir og tillögur um breytingar. Fjöldinn allur af athugasemdum barst vegna skipulagsins, langflestar að sjálfsögðu vegna flugvallarins. Sumar þeirra eru þess eðlis að við þurfum að fylgja þeim eftir inn í svæðis- og deiliskipulag og vert er að hafa varan á í ýmsu hvað varðar málið.
Samkvæmt lögum á borgarstjórn að taka ákvörðun um hvort endurskoða þurfi skipulagið strax við upphaf kjörtímabils. Það gefur svigrúm til að samþykkja skipulagið þrátt fyrir að ekki sé allt alveg nákvæmlega eins og maður vildi hafa það, meginlínurnar eru góðar og í raun voru margar athugasemdir þess eðlis að þær eiga meira erindi inn í umræður um hverfis- og deiliskipulagsvinnu. Við Hildur Sverrisdóttir vorum tvær fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem samþykktum aðalskipulagið þrátt fyrir að sjálfsögðu megi gagnrýna það líka.
Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Friðriksdóttur og Hildar Sverrisdóttur vegna aðalskipulags til ársins 2030:
Þróun byggðar í Reykjavík er eitt mesta hagsmunamál allra Reykvíkinga. Hagkvæm skipulagsstefna nýtir sem best fjárfestingar sveitarfélags í grunnþjónustukerfum, svo sem götum, veitukerfum og skólastofnunum. Þétting byggðar er þjóðhagslega hagkvæm og hefur jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins sem og, og ekki síst, heimilanna í borginni. Fjárhæðir í þeim sparnaði geta numið hundruðum milljarða. Aðalskipulagið sem nú er til samþykktar er hagkvæmt og leiðir til jákvæðra áhrifa.
Á næstu 16 árum er nauðsynlegt að taka afgerandi afstöðu með þéttingu byggðar og því að gefa fjölbreyttari samgöngukostum aukið vægi enda mun slík forgangsröðun koma jafnvægi á borgarumhverfið og veita borgarbúum fleiri valkosti. Það segir ekkert til um hver áherslan verður áratugina eftir það.
Þétting byggðar hefur nokkur atriði í för með sér sem verður að gaumgæfa. Í aðalskipulaginu er búinn til rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé það skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld. Í aðalskipulaginu er einnig gert ráð fyrir húsnæði sem ekki fylgja bílastæði. Með tilkomu slíkra hverfa verður að gera ráð fyrir því að íbúar sem hafa greitt fyrir rétt til bílastæða fái að njóta þeirra framyfir aðra. Mikilvægt er einnig að skoða hvernig innviðir grunnþjónustu fara saman við þörfina sem myndast þegar fleiri íbúar bætast við og bregðast við með raunhæfum áætlunum og framkvæmdum. Mikilvægt er að horfa til þess að einkaaðilar hafi aðkomu að rekstri grunnþjónustu s.s. leik- og grunnskóla á þéttingarsvæðum enda hafa þeir sýnt mikinn sveigjanleika með minni kostnaði. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með.
Þegar unnið er með grundvallar stefnumótun eins og aðalskipulag höfuðborgar koma margir við sögu. Ef helstu áherslur í þróun borgarinnar eiga einhvern tímann að komast til framkvæmda verða allir þeir sem koma að þeirri vinnu að láta undan einhverjum ítrustu kröfum og horfa til heildarmyndarinnar. Heildarmyndin í aðalskipulagi því sem er nú til samþykktar hefur verið í vinnslu frá 2006. Þverpólitísk samstaða hefur náðst að mestu í öll þau ár sem það hefur verið unnið. Aðalskipulag markar sýn sem útfærist nánar þegar farið er í afmarkaðar hverfis- og deiliskipulagstillögur. Jafnframt er nýjum meirihluta gert að meta hvort endurskoða skuli aðalskipulag að loknum sveitarstjórnarkosningum samkvæmt lögum.
Undirritaðar samþykkja því aðalskipulag Reykjavíkur til ársins 2030 með tilliti til þess að niðurstaða mun ekki fást um flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu fyrr en árið 2022 og þar sem nægt svigrúm er fyrir borgarstjórn að takast á við breytingar og lagfæringar aðalskipulagsins á næstu kjörtímabilum.
Bókun okkar fylgdu fjórar tillögur sjá hér fyrir neðan:
Lagt er til að gerð verði greining á aukinni þörf fyrir grunnþjónustu á þéttingarsvæðum og tryggja að innviðir beri fjölgun íbúa
Nauðsynlegt er að innviðir grunnþjónustu nái að sinna aukinni þéttingu á tímabilinu. Gera verður áætlanir um breytingar eða viðbætur t.d. hvað varðar leikskóla, skóla, frístundir og heilsugæslu í takt við aukinn íbúafjölda á þéttustu svæðunum. Ekki liggur fyrir slík áætlun og því er lagt til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráð að kortleggja þörf fyrir þjónustu og útfæra framkvæmdaáætlun í samstarfi við önnur svið eftir þörfum.
Tillagan var samþykkt af öllum borgarfulltrúum.
Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði tryggð aðkoma að rekstri grunnþjónustu á þéttingarsvæðum
Þegar þétta á byggð þarf að koma þjónustu fyrir inn í hverfum með afar sveigjanlegum hætti. Ekki er hægt að horfa framhjá því að sjálfstæðum aðilum hefur farið þetta vel úr hendi. Yfirbygging hefur verið margfalt stærri þegar horft er til borgarrekinna þjónustueininga til dæmis hvað leikskóla- og skóla. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að umhverfis- og skipulagsráð fái það verkefni að skoða hvernig tryggja megi að sjálfstæðir aðilar fái að bjóða í byggingu og rekstur þjónustu á þéttingarreitum um leið og hverfisskipulag er unnið.
Tillagan var felld af borgarfulltrúum meirihlutans og Vinstri grænna.
Lagt er til að borgin gæti bílastæðaréttinda núverandi íbúa
Áður en farið er í framkvæmdir við þéttingu í afmörkuðum hverfum er brýnt að borgin gæti að hagsmunum þeirra íbúa og fyrirtækja sem fyrir eru. Nauðsynlegt er að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða til að tryggja að þeir sem eiga réttmæta kröfu um að fá ekki skerta aðkomu að bílastæðum og hafa greitt gjöld vegna þess fái að njóta þeirra réttinda framyfir þá sem gera það ekki í sama mæli. Sérstaklega verði skoðað hvernig hægt er að nota gjaldskyldu, íbúakort eða önnur slík kerfi til þess. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráð að útfæra leiðir til að gera aðgerðaráætlun um hvernig er hægt að gæta þessara réttindi áður en framkvæmdir hefjast í viðkomandi þéttingarreitum.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Lagt er til að tekið verði upp reglulegt samstarf borgar- og samkeppnisyfirvalda
Í aðalskipulaginu er dreginn rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Þar er til dæmis gert ráð fyrir að stemma stigu við opnun nýrra matvöruverslana innan atvinnusvæða og öðrum svæðu fjarri íbúabyggð þrátt fyrir að margir einkaaðilar hafi hingað til byggt á slíkum svæðum. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld hvort endurskoða þurfi þessa stefnu. Lagt er til að tillögunni sé vísað inn í umhverfis- og skipulagsráð sem geri tillögur að því hvernig útfæra má slíkt samráð.
Tillagan var felld af borgarfulltrúum meirihlutans og Vinstri grænna.
Bloggar | Breytt 27.11.2013 kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2013 | 18:52
Sjálfhelda forræðishyggjunnar?
Nú í nóvember gengu í gildi lög um neytendalán. Markmið laganna er að vernda neytendur og eflaust er í þeim margt gott sem bætt getur viðskiptahætti á Íslandi neytendum í hag. Eitt verður þó að skoða sérstaklega. Á vanskilaskrá eru um 28 þúsund einstaklingar. Með tilkomu laganna má gera ráð fyrir að þessi hópur stækki og að fleiri einstaklingar og fjölskyldur lendi í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum.
Langtímavandamál í stað tímabundinnna vandræða
Algengt hefur verið að fá yfirdrátt í banka eða gera lánasamninga til að dreifa þyngri byrði yfir á fleiri mánuði og fjölmargir hafa þannig náð að bjarga sér. Ný lög um neytendalán gera ráð fyrir að lánastofnanir setji sér lánshæfismörk og veiti ekki fyrirgreiðslu nema að viðskiptavinir uppfylli þær kröfur. Afleiðingin er sú að vegna óhagstæðrar viðskiptasögu verður fjölmörgum nú meinað um úrræði til að brúa tímabundna fjárhagsörðugleika sem eykur líkur á að þeir lendi í vanskilum. Viðskiptasaga hefur svo aftur áhrif á lánshæfismatið en það gerir þeim sem lent hafa á vanskilaskrá eða átt í tímabundnum vandamálum ennþá erfiðara fyrir að bæta stöðu sína. Einstaklingum á vanskilaskrá gæti þannig fjölgað. Þeir sem að ná því takmarki að komast af vanskilaskrá eru nú engan veginn sloppnir úr klemmunni því viðskiptasagan heldur þeim undir lánshæfismati og þannig í sjálfheldu. Nauðsynlegt er að skoða hvort áhrifin af lagasetningunni geti verið þau að það sem áður gat flokkast til tímabundinna vandræða verði nú í meira mæli langtímavandamál.
Aðlögunartími er nauðsynlegur
Göfugt er að reyna að koma í veg fyrir að fjölskyldur geti lent í þeim aðstæðum eins og hér sköpuðust eftir hrun. Einnig að lántakendur hafi meiri rétt gagnvart lánveitendum með alls kyns upplýsingagjöf og annað slíkt.
Hins vegar er ekki hægt að horfa framhjá því að við of mörgum einstaklingum blasir nú, að staða þeirra verður verri eftir að ný lög tóku gildi. Til að takast á við breyttar aðstæður þarf góðan undirbúningstíma. Þegar löggjöf hefur jafn mikil áhrif á afkomu fjölskyldna og lög um neytendalán er nauðsynlegt að vanda kynningu þeirra vel. Því miður er staðan sú að margir gera sér enga grein fyrir áhrifum laganna. Um leið leita á mann spurningar um hvort farið hafi verið of langt í foræðishyggjunni við setningu þeirra eða hvort frekar sé verið að vernda lánafyrirtækin frá því að lána fólki sem ekki á sér slétta og fellda viðskiptasögu eins og algengt er. Eða gleymdu menn þessum hópi?
Þeir sem ekki fá bankalán til að fleyta sér yfir tímabundna erfiðleika eiga í fá hús að venda. Viðskiptabankarnir hafa ekki sömu möguleika að koma til móts við þá og áður. Þeir munu því í vaxandi mæli leita aðstoðar hjá opinberum aðilum. Full ástæða er til að meta áhrif laganna á samfélagið allt. Mestu máli skiptir að hjálpa fólki til sjáfsbjargar fremur en að fjölga í flokki þeirra, sem ekki geta bjargað sér sjálfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.11.2013 | 12:22
Menning eða ekki menning
Egill Helgason fer fram á í blog færslu að við tökum til máls um menningarmál. Auðvitað - skárra væri það nú þegar menningin er annars vegar. Hann reyndar vísar í hugtakið borgaralega menningu en ég ætla ekki að fjalla um það. Almennt lít ég ekki á menningu sem annars vegar borgaralega- og hins vegar einhvern veginn öðruvísi.
Mér sjálfri þykir margir of gjarnir á að benda á menninguna sem eitthvað gagnslaust fyrirbæri sem auðvelt er að skera niður til að bjarga einhverju öðru. Auðvitað er þó alltaf sjálfsagt að skoða hvort hægt er að hagræða eða samreka stofanir sem jafnvel starfa oft í nágrenni hvort við aðra en önnur rekin af ríki og hin af sveitarfélögum. Alltaf má bæta úr því hvernig við förum að því að styrkja. Í Reykjavíkurborg er þetta vel gert að mínu mati, þar byggjum við á verkefnastyrkjum að frumkvæði þeirra sem eitthvað vilja gera fyrir borgina og er í anda menningarstefnunnar okkar.
Útgerðin hefur verið okkar lifibrauð í gegnum tíðina. En það var líka svo að hafnirnar voru byggðar úr sameiginlegum sjóðum og þær leiddu til þess að til varð grunnur fyrir ennþá meiri verðmætasköpun. Það sama sé ég þegar kemur að rekstri mikilvægra safna eða styrkja til verkefna. Söfnin, bókasöfn og listasöfn eru mikilvægur grunnur og þau ýta undir enn meiri grósku í grasrótinni í kring. Stuðningur við menningu hefur leitt margt gott af sér. Stuðningur við menningarverkefni í Reykjavík er hrein og klár fjárfesting að mínu mati, sem líta má á sem lið í því að gera borgina aðlaðandi og spennandi. Hvða ríkið varðar er þetta aðeins flóknara.
Markalínan - listamenn gegn landsbyggðinni verður harðari þegar gengdarlaust er skorið niður til dæmis til heilbrigðismála á landsbyggðinni þar sem bæjarfélögin að sjálfsögðu finna strax fyrir slíku mun meira en þeir sem búa í þéttari kjörnum. Auðvitað kemur þá upp spurningin um hvort ekki væri nær að sleppa því að greiða til reksturs sem ekki nýtist fólki sem býr við þær aðstæður, vildi ekki missa þjónustu úr bæjarfélaginu og getur hvort sem er ekki notið menningarstarfseminnar sem rekin er annars staðar. Þetta geta allir vel skilið og hugsanlega er kominn tími til að ræða þetta með öðrum hætti. Ég get samt ekki tekið undir það að það þurfi að þýða að teboðshreyfingin sé að hösla sér völl innan Sjálfstæðisflokksins.
Þá verður hins vegar aftur að fara í gegnum það að menningarstarfsemi er ekki bara kostnaður heldur uppbygging tækifæra og okkur hefur oft á tíðum tekist að nýta þau. Ekki væri hægt að reka kvikmyndaiðnað hér á landi nema einhverjir kynnu til verka, ekki er hægt að halda uppi faginu nema að nóg sé að gera. Til að mynda má segja að það hafi borgað sig að veita í sjóði sem styrkja kvikmyndagerð því þeirra vegna gátum við tekið á móti þeim vexti sem nýverið varð. Margt annað svona má ræða. Svo eru aðrir þættir eins og til dæmis gróskan í tónlistarlífinu. Það má alveg deila um hvort að opinberir styrkir hafi haft eitthvað að segja um velgengni tónlistarmanna, hins vegar er ljóst að sú list er orðin mjög mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og mikil landkynning.
Fyrirtækjarekstur miðast við að gera hluti sem skila auðsýnilegum verðmætum eða umbótum og fjármagnið hefur ekki tíma til að taka mikinn sjéns á að eitthvað skili sér eða ekki. Opinber rekstur hefur ekki verið alveg eins hreinn hvað það varðar og að sjálfsögðu er um þolinmóðara fjármagn að ræða. Margar greinar eiga langt í land með að geta bent á afrakstur sinn með tölulegum hætti og því er tekist á um þau mál. Einfalt er að sjá að þegar ekki er læknishjálp er sá sem þarf á henni að halda ekki í góðri stöðu, erfiðara getur verið að sjá hvort niðurgreiðsla til tónlistarnáms skili okkur hæfari einstaklingum til framtíðar.
Hef þetta ekki lengra að sinni en gæti svo sem setið hér endalaust.
Bloggar | Breytt 14.11.2013 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2013 | 13:47
Byggjum á sjálfsvirðingu og sjálfstæði
Fyrir rúmum 100 árum voru viðhorfin til þeirrar félagsþjónustu sem við þekkjum í dag að mótast í Reykjavík sem annars staðar. Konur fóru að kveðja sér hljóðs og standa saman að því að aðstoða þá sem ekki gátu björg sér veitt. Ein þessara kvenna var Ólafía Jóhannsdóttir, en í síðasta mánuði voru liðin 150 frá fæðingu hennar. Ólafía var stórmerk kona og ein að forvígiskonum íslenskrar kvennabaráttu. Síðar var hún vegna mildi sinnar og hjálparstarfa þekkt í Noregi og er þar í hávegum höfð.
Skilaboð Ólafíu
Margt af því sem mótaðist þarna er enn í fullu gildi. Greinar Ólafíu eru áhugaverðar yfirlestrar. Í kvennablaðinu Framsókn árið 1899 skrifar Ólafía grein sem ber heitið "Góðgerðasemi" og lýsir vel um hvers konar starf var að ræða. Í greininni kemur eftirfarandi fram:
"Allir sem einhvern tíma hafa reynt það að vera upp á aðra komnir, vita hvað það er hart aðgöngu. Og allir, sem veitt hafa lífinu nokkra eptirtekt, vita líka, að sá sem ekki er efnalega sjálfbjarga, missir optast nær smámsaman sjálfstæði sitt og siðferðislegt manngildi. Það er því afar mikill vandi að gefa öðrum, því það þarf að taka tillit til allra þarfa þeirra, ekki síður andlegra en efnalegra."
Og síðar í greininni: "Engin hjálp er eins mikils virði eins og sú, sem gerir manninn færan um að vinna sjálfur fyrir nauðþurftum sínum."
Hvetjum til sjálfshjálpar
Sterkt kemur fram hversu mikilvægt það er að veita hjálpina á þann hátt að það byggi fólki upp og stuðli að sjálfsvirðingu og sjálfstæði. Ekki er nóg unnið í þessa veru í Reykjavík þegar horft er til þeirra sem hafa fulla getu til þess að taka að sér verkefni. Í Reykjavík hefur fjárhagsaðstoð miðað við að greiða út bætur en skyldur á móti hins vegar litlar sem engar. Hvers konar skilaboð eru það? Að ekki sé þörf á þátttöku viðkomandi eða að samfélagið þurfi ekki lengur á viðkomandi að halda? Slíkt getur ekki verið til þess fallið að viðhalda sjálfsvirðingu. Hér verður að gera betur. Of mikil áhersla hefur verið lögð á dýrar og flóknar lausnir í stað þess að nýta til dæmis frumkvæði fólksins sjálfs. Ekki má vera erfiðara að vera á vinnumarkaði en þiggja fjárhagsaðstoð. Ef betra er að sitja heima en að taka starf á lægstu launum eins og vísbendingar eru um er ekki verið að hjálpa fólki á uppbyggilegan hátt.
Frumkvæði og sveigjanlegar lausnir
Allt frá upphafi kjörtímabilsins höfum við Sjálfstæðismenn gagnrýnt þetta viðhorf meirihlutans harðlega. Framan af var talið að Reykjavíkurborg ætti ekki að vera vinnumiðlun og því var seint brugðist við. Svo var farið af stað á skjaldbökuhraða að byggja upp afar flókið samstarf við ríkið um að skapa ný störf. Náðst hefur árangur, en of lítill og of seint. Lausnirnar sem vantar verða að vera miklu sveigjanlegri, unnar á forsendum þeirra sem eiga að taka þátt. Dýr yfirbygging er ekki svarið heldur þarf að ýta undir frumkvæði til að skapa og taka að sér verkefni. Stefna okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík er skýr. Byggjum á sjálfsvirðingu og sjálfstæði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2013 | 22:37
Breytt nálgun - betri þjónusta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2013 | 14:40
Prófkjör 16. nóvember - kominn tími á partý.
Við Sjálfstæðismenn í Reykjavík erum nú á kafi í prófkjörsbaráttu. Nú eru rétt rúmar tvær vikur í prófkjör og því kominn tími til að bretta upp ermar og hefja baráttuna. Það er mikilvægt að hafa gaman, hittast, spjalla og eiga góðar stundir saman. Ég býð því öllum Sjálfstæðismönnum, vinum og vandamönnum í prófkjörsgleði laugardaginn 2. nóvember milli 17:30 og 19:00.
Fagnaðurinn er haldin á Bast að Hverfisgötu 20. Bast er nýtt kaffihús og veitingastaður, staðsett í sama húsi og bílastæðahúsið Traðarkot (gengið inn hægra megin þar sem áður var verslunin Exodus).
Léttar veitingar og skemmtilegheit verða í boði. Skúli mennski tekur lagið og DJ Daníel Ágúst Haraldsson velur tónlistina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2013 | 17:46
Reykvíkingar fá reikninginn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)