Aðalskipulagið afgreitt

Aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur rétt í þessu. Flestir voru jákvæðir og glaðir með að 7 ára vinnu væri loks lokið en aðrir voru með ýmsar efasemdir og tillögur um breytingar. Fjöldinn allur af athugasemdum barst vegna skipulagsins, langflestar að sjálfsögðu vegna flugvallarins. Sumar þeirra eru þess eðlis að við þurfum að fylgja þeim eftir inn í svæðis- og deiliskipulag og vert er að hafa varan á í ýmsu hvað varðar málið.

 

Samkvæmt lögum á borgarstjórn að taka ákvörðun um hvort endurskoða þurfi skipulagið strax við upphaf kjörtímabils. Það gefur svigrúm til að samþykkja skipulagið þrátt fyrir að ekki sé allt alveg nákvæmlega eins og maður vildi hafa það, meginlínurnar eru góðar og í raun voru margar athugasemdir þess eðlis að þær eiga meira erindi inn í umræður um hverfis- og deiliskipulagsvinnu. Við Hildur Sverrisdóttir vorum tvær fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem samþykktum aðalskipulagið þrátt fyrir að sjálfsögðu megi gagnrýna það líka.

 

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Friðriksdóttur og Hildar Sverrisdóttur vegna aðalskipulags til ársins 2030:

 

Þróun byggðar í Reykjavík er eitt mesta hagsmunamál allra Reykvíkinga. Hagkvæm skipulagsstefna nýtir sem best fjárfestingar sveitarfélags í grunnþjónustukerfum, svo sem götum, veitukerfum og skólastofnunum. Þétting byggðar er þjóðhagslega hagkvæm og hefur jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins sem og, og ekki síst, heimilanna í borginni. Fjárhæðir í þeim sparnaði geta numið hundruðum milljarða.  Aðalskipulagið sem nú er til samþykktar er hagkvæmt og leiðir til jákvæðra áhrifa.

 

Á næstu 16 árum er nauðsynlegt að taka afgerandi afstöðu með þéttingu byggðar og því að gefa fjölbreyttari samgöngukostum aukið vægi enda mun slík forgangsröðun koma jafnvægi á borgarumhverfið og veita borgarbúum fleiri valkosti. Það segir ekkert til um hver áherslan verður áratugina eftir það.

 

Þétting byggðar hefur nokkur atriði í för með sér sem verður að gaumgæfa. Í aðalskipulaginu er búinn til rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé það skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld. Í aðalskipulaginu er einnig gert ráð fyrir húsnæði sem ekki fylgja bílastæði. Með tilkomu slíkra hverfa verður að gera ráð fyrir því að íbúar sem hafa greitt fyrir rétt til bílastæða fái að njóta þeirra framyfir aðra. Mikilvægt er einnig að skoða hvernig innviðir grunnþjónustu fara saman við þörfina sem myndast þegar fleiri íbúar bætast við og bregðast við með raunhæfum áætlunum og framkvæmdum. Mikilvægt er að horfa til þess að einkaaðilar hafi aðkomu að rekstri grunnþjónustu s.s. leik- og grunnskóla á þéttingarsvæðum enda hafa þeir sýnt mikinn sveigjanleika með minni kostnaði. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með.

 

Þegar unnið er með grundvallar stefnumótun eins og aðalskipulag höfuðborgar koma margir við sögu. Ef helstu áherslur í þróun borgarinnar eiga einhvern tímann að komast til framkvæmda verða allir þeir sem koma að þeirri vinnu að láta undan einhverjum ítrustu kröfum og horfa til heildarmyndarinnar. Heildarmyndin í aðalskipulagi því sem er nú til samþykktar hefur verið í vinnslu frá 2006. Þverpólitísk samstaða hefur náðst að mestu í öll þau ár sem það hefur verið unnið.  Aðalskipulag markar sýn sem útfærist nánar þegar farið er í afmarkaðar hverfis- og deiliskipulagstillögur. Jafnframt er nýjum meirihluta gert að meta hvort endurskoða skuli aðalskipulag að loknum sveitarstjórnarkosningum samkvæmt lögum.

 

Undirritaðar samþykkja því aðalskipulag Reykjavíkur til ársins 2030 með tilliti til þess að niðurstaða mun ekki fást um flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu fyrr en árið 2022 og þar sem nægt svigrúm er fyrir borgarstjórn að takast á við breytingar og lagfæringar aðalskipulagsins á næstu kjörtímabilum. 

 

Bókun okkar fylgdu fjórar tillögur sjá hér fyrir neðan:

 

Lagt er til að gerð verði greining á aukinni þörf fyrir grunnþjónustu á þéttingarsvæðum og tryggja að innviðir beri fjölgun íbúa

Nauðsynlegt er að innviðir grunnþjónustu nái að sinna aukinni þéttingu á tímabilinu. Gera verður áætlanir um breytingar eða viðbætur t.d. hvað varðar  leikskóla, skóla, frístundir og heilsugæslu í takt við aukinn íbúafjölda á þéttustu svæðunum. Ekki liggur fyrir slík áætlun og því er lagt til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráð að kortleggja þörf fyrir þjónustu og útfæra framkvæmdaáætlun í samstarfi við önnur svið eftir þörfum.

 

Tillagan var samþykkt af öllum borgarfulltrúum.

 

 

Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði tryggð aðkoma að rekstri grunnþjónustu á þéttingarsvæðum

Þegar þétta á byggð þarf að koma þjónustu fyrir inn í hverfum með afar sveigjanlegum hætti. Ekki er hægt að horfa framhjá því að sjálfstæðum aðilum hefur farið þetta vel úr hendi. Yfirbygging hefur verið margfalt stærri þegar horft er til borgarrekinna þjónustueininga til dæmis hvað leikskóla- og skóla. Eins má sjá að fjölbreyttari þjónusta og enn meiri sveigjanleiki í þjónustu bjóðist íbúum þar með. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að umhverfis- og skipulagsráð fái það verkefni að skoða hvernig tryggja megi að sjálfstæðir aðilar fái að bjóða í byggingu og rekstur þjónustu á þéttingarreitum um leið og hverfisskipulag er unnið. 

 

Tillagan var felld af borgarfulltrúum meirihlutans og Vinstri grænna. 

 

 

Lagt er til að borgin gæti bílastæðaréttinda núverandi íbúa 

Áður en farið er í framkvæmdir við þéttingu í afmörkuðum hverfum er brýnt að borgin gæti að hagsmunum þeirra íbúa og fyrirtækja sem fyrir eru. Nauðsynlegt er að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða til að tryggja að þeir sem eiga réttmæta kröfu um að fá ekki skerta aðkomu að bílastæðum og hafa greitt gjöld vegna þess fái að njóta þeirra réttinda framyfir þá sem gera það ekki í sama mæli. Sérstaklega verði skoðað hvernig hægt er að nota gjaldskyldu, íbúakort eða önnur slík kerfi til þess. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að vísa því til umhverfis- og skipulagsráð að útfæra leiðir til að gera aðgerðaráætlun um hvernig er hægt að gæta þessara réttindi áður en framkvæmdir hefjast í viðkomandi þéttingarreitum. 

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

 

Lagt er til að tekið verði upp reglulegt samstarf borgar- og samkeppnisyfirvalda

Í aðalskipulaginu er dreginn rammi í kringum verslun í hverfum sem getur orðið til þess að hamla samkeppni ef ekki er vel að gætt. Þar er til dæmis gert ráð fyrir að stemma stigu við opnun nýrra matvöruverslana innan atvinnusvæða og öðrum svæðu fjarri íbúabyggð þrátt fyrir að margir einkaaðilar hafi hingað til byggt á slíkum svæðum. Ástæða er til þess að gæta sérstaklega að því að í byrjun hvers kjörtímabils sé skoðað í samráði við samkeppnisyfirvöld hvort endurskoða þurfi þessa stefnu. Lagt er til að tillögunni sé vísað inn í umhverfis- og skipulagsráð sem geri tillögur að því hvernig útfæra má slíkt samráð. 

 

 

Tillagan var felld af borgarfulltrúum meirihlutans og Vinstri grænna. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það hafa eflaust einhverjir glaðst yfir því að geta tekið af lífi 3 íþróttafélög með einni samþykkt, þ.e. Siglingafélögin Siglunes, Kópanes og Ými, sennilega sleppur Brokey þar sem aðalaðstaða þeirra er á Ingólfsgarði, ef hægt er að tala um aðstöðu í því tilviki. Uppeldissvæði siglingamanna Fossvogurinn verður gert að engu ef brú verður byggð yfir voginn eins og fram kemur í tillögum um aðalskipulag Reykjavíkur og Kópavogs.  Þangað til undið verður ofan af þessari vitleysu má segja að þessi þrjú félög séu á dauðaganginum

Kjartan Sigurgeirsson, 27.11.2013 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband