21.5.2010 | 11:21
Reykjavíkurleiðin sýnir árangur - ríkið í rugli!
Í gær bókaði borgarráð eftirfarandi enda ekki nema von eftir yfirlýsingar ráðherra. Það góða er að borgarstjórnin í Reykjavík er að vinna saman en það slæma að ríkið er í rugli. Leggja þarf meira á sig en að segja upp störfum, borgin undir stjórn Hönnu Birnu hefur ekki sagt upp starfsfólki þrátt fyrir niðurskurð en hefur samt náð hagræðingarkröfum. Með nýjum aðferðum fékk borgarstjórn nýsköpunarverðlaun fyrir fjárhagsáætlunargerð. Borgin er að setja 26 milljarða í framkvæmdir sem að sjálfsögðu er grundvallarþáttur í að koma atvinnulífinu af stað á meðan ríkið setur 18 milljarða.
Hér er bókun borgarráðs: Borgarráð lýsir yfir þungum áhyggjum vegna yfirlýsinga félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra í fjölmiðlum undanfarna daga um fyrirhugaðan niðurskurð og fækkun starfa í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðar- og öldrunarþjónustu. Stærstu vinnustaðir fyrir þessa þjónustu eru í Reykjavík og geta aðgerðir ríkisstjórnarinnar því haft stórfelld áhrif á atvinnuástand í Reykjavík.
1. Hvernig verður niðurskurði háttað í velferðarkerfinu og með hvaða hætti má ætla að boðaður fyrirhugaður niðurskurður komi niður á þeim stóru sjúkra- og heilbrigðisstofnunum sem reknar eru í höfuðborginni og því starfsfólki sem þar vinnur? Einnig er nauðsynlegt að fá skýringar á því hvaða áhrif boðaður sparnaður mun hafa á þjónustu við sjúklinga og heilbrigðiskerfið í heild.
2. Hvernig verður niðurskurði háttað í menntakerfinu og með hvaða hætti má ætla að boðaður fyrirhugaður niðurskurður komi niður á framhaldsskólum og háskólum á höfuðborgarsvæðinu og því starfsfólki sem þar vinnur? Nauðsynlegt er að fá skýringar á því hvernig ríkisstjórnin hyggist ná fram þeim sparnaði án þess að útiloka fólk frá námi. 3. Með hvaða hætti verður dregið úr þjónustu við fatlaða og aldraða og hvaða áhrif mun það hafa á störf? Mun sveitarfélögunum verða bætt með einhverjum hætti sú augljósa útgjaldaaukning sem þau verða fyrir vegna fyrirhugaðrar yfirtöku þeirra á málefnum fatlaðra?
Og hér er það sem Hanna Birna hafði að segja um þetta: Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir Reykjavíkurborg hafa fullan skilning á að við þær efnahagsaðstæður sem eru ríkjandi í íslensku samfélagi þurfi að hagræða í opinberum rekstri og draga úr útgjöldum. Borgarráð vilji hins vegar benda á að það sé ekki sama hvernig það sé gert og hvar sé borið niður. Reykjavíkurborg hefur allt frá haustinu 2008 unnið eftir aðgerðaáætlun vegna efnahagsástandsins sem samþykkt var einróma í borgarstjórn. Í hagræðingaraðgerðum Reykjavíkurborgar hefur áhersla verið lögð á að standa vörð um grunnþjónustuna, störfin í borginni og gjaldskrár. Með bókun borgarráðs í dag er vakin athygli á nauðsyn þess að ríkisvaldið hugi að þessu í sínum hagræðingaraðgerðum og gæti sérstaklega að því að þær aðgerðir auki ekki á atvinnuleysi í borginni, segir Hanna Birna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2010 | 14:51
Viggo Mortensen leggur hönd á plóg
Um leið og umfjöllun um gosið í Eyjafjallajökli komst í hámark komu í ljós áhyggjur af því að eitthvað yrði til bragðs að taka til að vernda ferðaþjónustuna. Eins og menn vita var 700 milljónum safnað til að verja til átaksins.
Ríkið leggur fram 350 milljónir, Reykjavíkurborg 100 milljónir, Icelandair 125 milljónir, Icelandexpress 50 milljónir, Útflutningsráð 30 milljónir og Samtök ferðaþjónustunnar 43 milljónir.
Markmið átaksins er að draga úr neikvæðum áhrifum á ferðaþjónustuna og ætlað að styrkja ímynd Íslands og skapa tækifæri úr þeirri umfjöllun sem landið hefur fengið vegna fjölmiðlaumfjöllunar. Strax var farið í að safna hugmyndum um hvaða aðgerðir mætti nýta. Það sem jákvætt er að nú á að nýta rafrænu miðlana til hins ítrasta bæði bloggfærslur, greinaskrif og samfélagsmiðlana til að ná eyrum fólks en ljóst er að erfiðara og erfiðara er að ná til þeirra í gegnum dagblöð og hinar hefðbundnari leiðir.
Þá hefur einnig verið rætt um að fá fólk sérstaklega þá sem eru vel kynntir og í þeirri stöðu að hafa mikil áhrif á aðra til að taka þátt í samstarfinu og nýta eigin sterku samskiptaleiðir til að leggja hönd á plóg.
Hér er skemmtilegt dæmi þar sem íslandsvinurinn Viggo Mortensen leggur okkur lið.
Viggo Mortensen is inspired by Iceland from Inspired By Iceland on Vimeo.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2010 | 18:42
Hestadagar í Reykjavík - gera Reykjavík ennþá skemmtilegri!
Á borgarstjórnarfundi í Reykjavík var áðan samþykkt tillaga um að einu sinni á ári yrði ákveðinn vettvangur eða viðburður tileinkaður íslenska hestinum og kallaður Hestadagar í Reykjavík. Þessi viðburður mun fyrst eiga sér stað í marsmánuði 2011.
Íslenski hesturinn hefur mikið aðdráttarafl og því afar jákvætt fyrir borgina að bjóða borgarbúum og ferðalöngum upp á þennan skemmtilega vettvang. Ekki síður getur þetta haft góð áhrif á ferðaþjónustuna eins og segir í fréttatilkynningunni sem hér fylgir:
Með Hestadögum í Reykjavík er stigið mikilvægt skref í kynningu á íslenska hestinum í vetrarbúningi. Að auki mun borgarbúum og gestum gefast einstakt tækifæri til að komast í nána snertingu við íslenska hestinn í borgarumhverfinu. Í kjölfar fyrsta viðburðarins í marsmánuði 2011 verður um árvissan viðburð að ræða.
Hestadagar í Reykjavík munu glæða borgina nýju lífi innan borgarmarkanna þar sem hesturinn verður í aðalhlutverki og mun honum bregða fyrir á óvenjulegum stöðum á Hestadögum, s.s. í miðborginni, við verslunarmiðstöðvar og skóla borgarinnar, auk þátttöku í sýningum og keppnum á félagssvæði Fáks á Víðivöllum.
Marsmánuður varð meðal annars fyrir valinu af þeirri ástæðu að þá eru flest hross í húsi og þjálfun. Skólarnir í borginni eru starfandi á þessum tíma og því góður tími til að kynna hestinn fyrir nemendum. Síðast en ekki síst má geta þess að marsmánuður er utan hefðbundins ferðamannatíma og því hagsmunir fyrir ferðaþjónustuna að draga til sín ferðamenn í tengslum við íslenska hestinn.
Reykjavíkurborg vonast til að eiga gott samstarf við hagsmunaaðila í hestamennskunni sem sjái tækifæri í því að markaðssetja starfsemi sína í höfuðborginni með tilkomu Hestadaga í Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2010 | 11:58
Menning, ferðaþjónusta og verðmætasköpun
Prófkjör okkar sjáflstæðismanna í Reykjavík er á laugardaginn. Ég sækist þar eftir 4. sæti.
Ég hef lagt áherslu á menningarmálin og talið að í þeim felist mikil tækifæri tengd ferðaþjónustunni. Hægt er að byggja hér upp sterka og kraftmikla viðburði allt árið um kring sem laða að sér ferðamenn og aðilar í ferðaþjónustunni geta gert út á. Verslun og þjónusta nýtur einnig góðs af.
Ferðaþjónustan er grein sem í getur falist mikill vaxtabroddur, þrátt fyrir kreppuna má ferðaþjónustan vel við una og aðeins lítill samdráttur hefur háð henni en það er mun betra en gengur og gerist í nágrannaríkjunum.
Verðmætasköpun er mikilvægasta mál allra íslendinga og í borginni þarf að alls staðar að horfa til þess hvernig auka má virkni fólks fá nýjar leiðir til að afla fjár án þess að borgin nýti skattstofna og hækkun útsvars.
Eg hef sett upp vefsíðuna www.aslaug.is þar sem nánari upplýsingar um mig og mín mál er að finn bæði í rituðu máli og í myndskeiðum.
Að gamni set ég hér fram stutt myndskeið sem stuðningsmenn mínir settu saman, XD
Bloggar | Breytt 21.1.2010 kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2009 | 09:38
Icesave - Vinnubrögð og pólitík
Ég hef áður fjallað um hversu vel hefur tekist til hjá borgarstjórn að taka upp ný vinnubrögð, vinna í mun meiri nánd en áður hefur verið með frábærum árangri. Þrátt fyrir að forsvarsmenn minnihlutans detti stundum í þann gamla farveg að telja sig ekki vera í neinu samráði þá er staðreyndin hins vegar sú að vinnubrögðin hafa breyst stórlega til batnaðar. Allir í borgarstjórn eru betur upplýstir og hafa betra aðgengi að málum en áður hefur nokkru sinni verið.
Ég var eins og mörg okkar frekar niðurdregin að horfa á hvernig tekið var á Icesave málinu. Mér finnst að ríkisstjórninni hafi mistekist að gera að sem til þurfti - að afgreiða málið í sátt og er þannig sammála Roberti Marshall nema að því leytinu til að mér finnst málið meira vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar heldur en allra alþingismanna. Til þess þurfti að hafa samráð, gefa öðrum færi á að velta upp fleiri steinum og hliðum mála á frjálsan og lýðræðislegan hátt. Ekki skilja aðra aðila málsins eftir sem verður til þess að þeir upplifa það að vera aðeins með hluta af gögnunum eða að einhver feluleikur sé í spilunum. Þetta tókst ekki og vandinn er stjórnandinn eða ríkisstjórnin í þessu tilfelli.
Þá er alveg stórmerkilegt að sjá hvernig Samfylkingin, hinn sérkennilegi trúarsöfnuður eins og Sigmundur Davíð kom að í gær, nær að fljóta áfram á því að öll okkar vandræði leysist með Evrópusambandsaðild. Ekkert annað hafa þau sagt í bráðum heilt ár. Til þess að kaupa sér nú aðgang að paradís eru þau tilbúin til að taka við skuldum sem við hin fáum aldrei að vita hvort sér réttmætt eða ekki og hjá þeim snýst málið um að borga fyrir mannorðið án þess að kanna það betur. Stjórnarandstaðan veit að við þurfum að borga, en telur ekki að alþjóðlegt mannorð okkar sé í hættu þó að við förum í samningaviðræður til að fá úr því skorið hvað er réttlátt að við borgum. Er eðlilegt og hollt að nokkrir einstaklingar ákveði að Icesave samningarnir setji svo mikla skömm á þjóðina að henni sé best borgið að greiða það sem aðrir setja upp refjalaust? Það finnst mér ekki.
Vinstri græn hafa nú opinberað að þau eru eins og þeir sem þau hafa mest gagnrýnt, svíkja loforð sín og þrátt fyrir mörg fróm orð um þjóðaratkvæðagreiðslur þá samþykkja þau ekki að málið fari til þjóðarinnar en spila undir á meðan Samfylkingin lætur sig dreyma um fyrirheitna landið Evrópubandalagið. Í gær samþykku Vinstri græn að almenningur á Íslandi tæki við skuldum þeirra sem þau hafa sjálf kallað ýmsum illum nöfnum s.s. "óreiðumenn", "fjárglæframenn" án þess að þjóðinn fengi nokkuð við því sagt. Hversu rotið getur þetta orðið?
Það er algjörlega ljóst að almenningur hefur fengið sig fullsaddan af svona vinnubrögðum. Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Borgarahreyfing hafa barist hetjulega með því að koma með ýmsar hugmyndir og tillögur til ríkisstjórnarinnar sem hins vegar lokar sig inni og neitar að taka þátt í opnum og frjálsum skoðanaskiptum þrátt fyrir að telja sig vera talsmenn þeirra vinnubragða.
En annars kæru bloggarar og blogglesendur þakka ég fyrir árið sem er að líða og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2009 | 17:19
Vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík
Ég er búin að vera varaborgarfulltrúi undanfarin 4 ár og hef setið í nefndum og ráðum s.s. leikskólaráði, umhverfis- og samgönguráði. Þegar Hanna Birna tók við sem leiðtogi okkar Sjálfstæðismanna í Reykjavík sumarið 2008 bað hún mig um að taka að mér formennsku í menningar - og ferðamálaráði sem ég gerði og hef sinnt því síðan. Ég var kjörin í miðstjórn fyrst á landsfundi 2007 og svo aftur á landsfundi 2009, ég var kjörin formaður Hvatar félags sjálfstæðiskvenna árið 2006 og er það enn. Auk þess hef ég tekið þátt í vinnu málefnanefnda innan flokksins.
Ég er með masterspróf í vinnusálfræði frá University of Hertfordshire 1995. Eftir námið hafði ég ýmsar hugmyndir um atvinnumiðlun og upplýsingatækni og fór til fundar við félagsmálaráðherra að kynna honum hugmynd sem ég og fleiri unnum að. Í kjölfarið var ég beðin að taka að mér sérstakt verkefni fyrir ráðuneytið sem fólst í að meta þjónustu fyrir fatlaða vegna fyrirhugaðs flutnings málaflokksins til sveitarfélaganna. Næstu ár á eftir starfaði ég hjá félagsmálaráðuneytinu og vann að málefnum fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga.
Upplýsingatæknin og möguleikar hennar blunduðu í mér og hugmyndirnar létu mig ekki í friði heldur ýttu mér út á einkamarkaðinn. Ég fór að vinna við vefsíðugerð og innri kerfi fyrir fyrirtæki, þetta var nýr geiri og allt að gerast þar þrátt fyrir netbólusprenginguna miklu en var þó enn mjög vanþróaður. Eftir afar áhugaverðan tíma í því starfi var kominn tími til að taka næsta skref og árið 2001 stofnaði ég fyrirtækið Sjá ehf. sem hefur verið leiðandi í rannsóknum á notendahegðun sem ég tel vera það mikilvægasta og nauðsynlegasta að skilja og byggja á, ef búa á til góðar vefsíður. Í fyrra starfi mínu sá ég hvernig sama módelinu var beitt á vefi ólíkra fyrirtækja óháð starfsemi og markhópum og þarna mátti bæta um betur og það gerði Sjá. Fyrirtækið gengur vel, þótt það sé ekki stórgróðafyrirtæki, við höfum mest verið 10 manns en annars virkar félagið eins og harmonikka og þenst út og dregst saman í takt við verkefnastöðuna. Að stofna sprotafyrirtæki, koma því á legg og sjá árangurinn er mér afar mikilvægt og mótar eflaust hvern þann sem fer í gegnum slíka vinnu. Algjör straumhvörf hafa orðið í því hvernig t.d. hvernig vefgeirinn hefur beitt sér í aðgengismálum að vefjum til hins betra, þarna tel ég skipta máli okkar áralanga áróður og kennslu hjá Sjá ehf. um aðgengi að upplýsingasamfélaginu.
Að reka eigið fyrirtæki kennir manni margt. Peningarnir vaxa ekki á trjánum. Maður þarf að leggja sig fram við að bæta við þann heim sem maður býr í til að auka verðmæti hans. Lykilatriði er að fólk leggi sig fram. Ef fólk hættir að leggja sig fram hætta tekjur að koma inn og allir tapa. Lítið fyrirtæki er á þennan hátt ekki ósvipað því sem kerfi hins opinbera fást við en það gefur engin grið, þú uppskerð eins og til er sáð. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf haldið frumkvæðinu og dugnaðinum á lofti og viljum að þeir sem leggja sig fram fá eitthvað fyrir sinn snúð. Við berum ábyrgð á því að kerfið sem við stýrum stuðli að því að fólk leggi sig fram. Margar þjóðir hafa setið uppi með ógnarstór vandamál vegna kerfisvilla sem látnar hafa verið óhreyfðar og þær hafa beinlínis viðhaldið vandanum langt umfram nauðsyn s.s. gert stóra hópa fólks langtíma atvinnulausa eða ekki fundið farveg fyrir krafta hvers og eins. Á okkar tímum er algjörlega nauðsynlegt að við gætum þess að þetta verði ekki landlægt hér.
Hin ósýnilegu verðmæti, gleðin, lífshamingjan og heilsan eru viðmið sem við eigum að nota í meira mæli. Hvernig innbyrðum við það í okkar pólitíska kerfi. Þetta eru í raun hlutir sem skipta öllu máli en okkur hefur stundum gengið illa að verðmerkja. Þetta þurfum við að ná utan um, við eigum grunninn og stefnuna og í borgarmálunum getum við einbeitt okkur af meiri krafti en verið hefur. Í mótun umhverfis þarf að taka tillit til þessara þátta, listir og menning gefa verulega af sér í þessa veru, fjölbreyttir kennsluhættir gera það líka, við eigum að vinna mun meira með ólíkar hugmyndir. Leyfa þarf aðferðum og hugmyndum að flæða á sveigjanlegan hátt í kerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2009 | 23:04
Mikilvægt skref í rafrænu lýðræði!
Nú hefur borgarstjóri Hanna Birna Kristjánsdóttir boðað íbúakosningu um smærri nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í hverfum borgarinnar - þetta er ákaflega mikilvægt skref og gott og telst til aðgerða sem falla undir rafrænt lýðræði.
Segja má að borgarahreyfingin hafi í vor verið fyrsta stjórnmálaflokkurinn sem lagði beinlínis áherslu á nýjar leiðir til að styrkja lýðræðið, og þrátt fyrir að ýmislegt væri gott í þeirra hugmyndafræði var kannski ekki trúverðugt að þau gætu komið þessum hugmyndum í framkvæmd. Það hefur meirihlutinn í borgarstjórn hins vegar gert og nú gefst íbúum Reykjavíkur tækifæri á að kjósa beint um það hvað verja skuli fjármunum í hverfinu til. Hér eru nánari upplýsingar:
Íbúakosning:
Þann 2. - 5. desember nk. mun Reykvíkingum á 16. aldursári og eldri gefast kostur á að organgsraða fjármunum til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í hverfunum í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010. Verður það gert með kosningu á vefnum undir slóðinni www.reykjavik.is/kjostu og verður niðurstaða kosningarinnar bindandi fyrir borgaryfirvöld. Um nýmæli er að ræða við fjárhagsáætlunargerð sem gerir íbúum kleift að hafa bein áhrif á nýtingu fjármuna í sínu nærumhverfi.
Kosið er á milli þriggja verkefnaflokka. Sá verkefnaflokkur sem flest atkvæði hlýtur í hverju hverfi verður settur á fjárhagsáætlun og framkvæmdur á árinu 2010.
Verkefnaflokkarnir eru: a) Leikur og afþreying b) Samgöngur c) Umhverfi og útivist.
Undir hvern verkefnaflokk heyra eitt til sex verkefni og fer fjöldi og umfang verkefnanna eftir kostnaði við þau og íbúafjölda hverfanna. Haft var náið samráð við hverfisráð í öllum verfum borgarinnar og íbúasamtök til að tryggja að verkefnin sem kosið er um séu í em bestu samræmi við væntingar íbúa.
Ef íbúar geta ekki kosið að heiman þá stendur þeim til boða að kjósa og fá aðstoð við að jósa á bókasöfnum eða þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Verkefnið er tilraunaverkefni og ef vel tekst til þá er vilji til að gera kosningu um
forgangsröðun verkefna í nærumhverfi að árlegum lið við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.
Kosningin og allar upplýsingar um verkefnið má finna á slóðinni www.reykjavik.is/kjostu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 14:32
Konur í prófkjör Sjálfstæðisflokksins
Opinn fundur Hvatar í Valhöll á fimmtudaginn nk. kl. 18:00
Opin fundur fyrir konur sem hafa hug á að fara í prófkjörsbaráttu eða vinna við slíka. Reynsluboltar munu miðla af þekkingu sinni, farið verður yfir öll helstu mál er snúa að prófkjörsbaráttunni og ýmis góð ráð gefin.
Dagskrá:
A-Ö um prófkjör: Sigríður Hallgrímsdóttir og Jarþrúður Ásmundsdóttir vanir kosningarstjórar
Reynslusaga frambjóðandans: Erla Ósk Ásgeirsdóttir, markaðssérfræðingur og varaþingmaður í Reykjavík.
Herfræði og tölfræði í prófkjörum: Pawel Bartoszek, stærðfræðingur
Fundarstjóri verður Áslaug Friðriksdóttir formaður Hvatar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 23:27
Menning og mælingar
Við deilum því flest að menningin er okkur mikilvæg, jafnvel þó að við útskýrum það með ólíkum hætti. Hugtakið menning er líka afar opið og breitt og getur innihaldið flest sem okkur dettur í hug. Menning tengist umhverfi okkar, sögu og hegðun fyrr og nú. Menning er þar af leiðandi einhvers konar sameiginleg meðvitund okkar um að við séum af sama uppruna eða í sama mengi og verður ákveðinn samnefnari milli fólks. Menningin er því forsenda samstöðunnar. Á erfiðum tímum eins og nú ganga í garð er samstaðan afar mikilvæg.
Menning hefur ekki verið hagfræðingum hugleikin. Leitun er að upplýsingum og tölum um áhrif menningarstarfsemi á samfélagið. Menningargeirinn hefur varla verið álitinn hluti af atvinnulífinu. Erfitt getur verið að skilja hvaða áhrif menningarviðburðir eða starfsemi leiðir af sér. Flestir skilja að þegar viðburðir draga að erlenda ferðamenn hljóta þeir að skila einhverju fjármagni inn í samfélagið með gjaldeyri í verslun og gistinóttum. Hvergi er þó slíkum viðburðum gerð nægilega góð skil hvað hagræn áhrif og tölulegar upplýsingar varðar.
Í upplýsingasamfélagi eins og okkar er allt mögulegt mælt. Alls kyns lykiltölur og mælingar. Allt frá því að vera hlutbundnar talningar í huglægar spár. Helsta viðfangsefnið er auðvitað að sjá í hverju skal fjárfesta. Oft hefur sýnin á það verið of þröng, aðeins er horft í bókhald þess sem fjárfestir í ákveðnu verkefni og skili fjárfestingin sér ekki aftur inn í bókhald sama fjárfestis þykir verkefnið ekki verðugt. Menningarverkefni hafa oft verið talin til góðgerðarstarfsemi sem gott er að fjárfesta í til að halda uppi jákvæðri ímynd og orðspori. Í minni mæli hefur verið horft til menningarverkefna sem lausna eða aðgerða sem gætu haft veruleg áhrif á efnahags- eða atvinnulífið.
Menningar- og ferðamálaráð hefur nú ákveðið að stíga upphafsskrefið til að reyna að bæta úr ofangreindu. Stofnaður hefur verið starfshópur sem hefur það hlutverk að koma með tillögur að úrbótum svo borgin fái betri yfirsýn yfir þau hagrænu áhrif sem menningarstarfsemi í Reykjavík leiðir af sér. Starfshópurinn mun kalla til sín ýmsa aðila á meðan á vinnunni stendur. Þeim sem telja sig hafa góðar hugmyndir er hér með bent á að hafa samband við undirritaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2009 | 13:47
Ályktun frá Landssambandi sjálfstæðiskvenna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)