Reykjavíkurleiðin sýnir árangur - ríkið í rugli!

Í gær bókaði borgarráð eftirfarandi enda ekki nema von eftir yfirlýsingar ráðherra. Það góða er að borgarstjórnin í Reykjavík er að vinna saman en það slæma að ríkið er í rugli. Leggja þarf meira á sig en að segja upp störfum, borgin undir stjórn Hönnu Birnu hefur ekki sagt upp starfsfólki þrátt fyrir niðurskurð en hefur samt náð hagræðingarkröfum. Með nýjum aðferðum fékk borgarstjórn nýsköpunarverðlaun fyrir fjárhagsáætlunargerð. Borgin er að setja 26 milljarða í framkvæmdir sem að sjálfsögðu er grundvallarþáttur í að koma atvinnulífinu af stað á meðan ríkið setur 18 milljarða.

Hér er bókun borgarráðs: „Borgarráð lýsir yfir þungum áhyggjum vegna yfirlýsinga félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra í fjölmiðlum undanfarna daga um fyrirhugaðan niðurskurð og fækkun starfa í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og velferðar- og öldrunarþjónustu. Stærstu vinnustaðir fyrir þessa þjónustu eru í Reykjavík og geta aðgerðir ríkisstjórnarinnar því haft stórfelld áhrif á atvinnuástand í Reykjavík.

1. Hvernig verður niðurskurði háttað í velferðarkerfinu og með hvaða hætti má ætla að boðaður fyrirhugaður niðurskurður komi niður á þeim stóru sjúkra- og heilbrigðisstofnunum sem reknar eru í höfuðborginni og því starfsfólki sem þar vinnur? Einnig er nauðsynlegt að fá skýringar á því hvaða áhrif boðaður sparnaður mun hafa á þjónustu við sjúklinga og heilbrigðiskerfið í heild.

2. Hvernig verður niðurskurði háttað í menntakerfinu og með hvaða hætti má ætla að boðaður fyrirhugaður niðurskurður komi niður á framhaldsskólum og háskólum á höfuðborgarsvæðinu og því starfsfólki sem þar vinnur? Nauðsynlegt er að fá skýringar á því hvernig ríkisstjórnin hyggist ná fram þeim sparnaði án þess að útiloka fólk frá námi. 3. Með hvaða hætti verður dregið úr þjónustu við fatlaða og aldraða og hvaða áhrif mun það hafa á störf? Mun sveitarfélögunum verða bætt með einhverjum hætti sú augljósa útgjaldaaukning sem þau verða fyrir vegna fyrirhugaðrar yfirtöku þeirra á málefnum fatlaðra?“

Og hér er það sem Hanna Birna hafði að segja um þetta: Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir Reykjavíkurborg hafa fullan skilning á að við þær efnahagsaðstæður sem eru ríkjandi í íslensku samfélagi þurfi að hagræða í opinberum rekstri og draga úr útgjöldum. Borgarráð vilji hins vegar benda á að það sé ekki sama hvernig það sé gert og hvar sé borið niður. „Reykjavíkurborg hefur allt frá haustinu 2008 unnið eftir aðgerðaáætlun vegna efnahagsástandsins sem samþykkt var einróma í borgarstjórn. Í hagræðingaraðgerðum Reykjavíkurborgar hefur áhersla verið lögð á að standa vörð um grunnþjónustuna, störfin í borginni og gjaldskrár. Með bókun borgarráðs í dag er vakin athygli á nauðsyn þess að ríkisvaldið hugi að þessu í sínum hagræðingaraðgerðum og gæti sérstaklega að því að þær aðgerðir auki ekki á atvinnuleysi í borginni,“ segir Hanna Birna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það Þarf ekki að segja neinum upp í Hagræðingarskyni

Bara lækka laun

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 20:04

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Hvaða áhyggjur eru þetta af yfirlýsingum ráðherranna? Þetta er bara stefna ríkisstórnarinnar - og kemur engum á óvart.

Hvað varðar atvinnuleysi í borginni þá eru allar áhyggjur óþarfar -

Besti flokkurinn verður með meirihluta í borginni eftir kosningar og gerið Dag að  borgarstjóra.

Dagur ætlar að auka atvinnu á Hringbrautinni og auka hagvöxt á Laugaveginum þ.e. frá laugavegi 28 - og með nr 47.

Gangi þetta vel ætlar hann að bæta við svlðum.

Svo slakið bara á - þetta verður allt í góðum höndum  - eða þannig.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 22.5.2010 kl. 09:16

3 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Betur má ef duga skal..hver er staða t.d. Orkuveitunnar...sorglegt að enginn skuli minnast á sem var fyrir nokkrum árum..sterkasta fyrirtæki landsins..og var með gríðarlegt eigið fé..það er margt sem verður að laga.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 22.5.2010 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband