Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Langt í loforðin

Húsnæðisvandinn í Reykjavík er orðinn alvarlegur og ekki á förum. Illgjörningur er að finna húsnæði á almennum leigumarkaði og nánast ógjörningur að finna húsnæði til langtímaleigu. Fólk býr oft á tíðum við slæmar aðstæður og kröpp kjör því ekkert annað er í boði. Einmitt þegar efnahagsástandið og atvinnuástandið blómstra sem aldrei fyrr.

Skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegra íbúða. Ekkert gengur að stuðla hratt og örugglega að framboði minni og ódýrra íbúða þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð borgarstjóra. Skorturinn leiðir til þess að húsnæðisverð og þar með leiguverð þrýstist upp og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði. Sérstaklega er vandinn ungs fólks og tekjulægra.

Biðlistar eftir félagslegu húsnæði lengjast. Nú bíða tæplega 900 manns eftir félagslegu húsnæði. Biðlistinn endurspeglar alvarleika ástandsins. Langt er í land með að uppfylla markmið um að fjölga félagslegum íbúðum um 100 á ári.

Meirihlutinn í Reykjavík virðist meiri áhuga hafa á öðrum verkefnum en að bæta ástandið á húsnæðismarkaði. Til dæmis hefur honum lengi verið hugleikið að skilgreina nýjan félagslegan hóp; “efnaminni”, sem er hópur sem telst ekki til þeirra efnaminnstu. Úr þeim hópi munu svo fáir heppnir fá húsnæði í gegnum leigufélög á niðurgreiddu verði, því félögin fá í staðinn lóð í meðgjöf frá Reykjavík. Þetta er sérstaklega gagnrýnivert þegar á sama tíma er verið að vanrækja uppbyggingu fyrir þá efnaminnstu.

Aðalskipulag Reykjavíkur sem samþykkt var haustið 2014 ætti að endurskoða. Uppbygging er ekki að þróast með þeim hætti sem þar er kveðið á um og íbúðum fjölgar ekki samkvæmt áætlunum. Þéttingin vestast í borginni gengur einfaldlega of hægt.

Nauðsynlegt er að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfa og skipulags. Einnig hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við sérstök innviðagjöld og afgreiðslugjöld sem Reykjavíkurborg hefur innheimt af þeim sem eru í framkvæmdahug. Slíkt er síst til þess fallið til að auðvelda uppbyggingu í Reykjavík.

Núverandi meirihluta er hugleikið að ræða mikilvægi þess að stuðla að jöfnuði og mannréttindum. Lítið fer þó fyrir því þegar kemur að húsnæðismálum. Að búa við óvissu á húsnæðismarkaði er það versta sem komið getur fyrir fólk og snertir bæði hugtökin jöfnuð og mannréttindi. Eilífir flutningar og rask getur leitt til ástands þar sem skólagöngu og vinatengslum barna er ógnað, slíkt ástand reynir verulega á fjölskyldur, og tekjuminnsti hópurinn verður verst úti. Ástandið leiðir þá sem minnst hafa til enn meiri fátæktar.

Af hverju einbeitir borgarstjóri sér ekki að því sem hann getur lagt af mörkum til að bæta húsnæðisástandið í Reykjavík í stað þess að fara með hverja ræðuna á fætur annarri um glæsilega uppbyggingu einkaaðila og fasteignafélaga í borginni með tilheyrandi glimmersýningum.

Það er eiginlega orðið of vandræðalegt að hlusta.

 

Grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2017


Frítt í sund?

Meirihlutinn í velferðarráði samþykkti í dag tillögu um að frítt verði í sund fyrir atvinnulausa og þá sem eru á fjárhagsaðstoð og búið var að kostnaðargreina þá tillögu í bak og fyrir. Upphæðin svo sem ekki svo há.

Slíkar frí tillögur eru vinsælar og hafa verið lagðar fram af öllum flokkum þvers og kruss en oftast höfum við XD liðar í velferðarráði verið á móti þeim. Ekki af því að okkur er illa við að fólk fari í sund eða hafi eitthvað við að vera heldur vegna þess að þá kemur spurningin hvar á að draga mörkin? Af hverju eiga slíkar tillögur þá ekki að ganga yfir fleiri hópa, t.d. aldraða, öryrkja, og einhvern tíma kemur svo að þeim sem eru tekjulægstir og hverjir eru það?

Í þeim hugleiðingum kom í ljós að starfsmenn borgarinnar fá frítt í sund. Okkur fannst því liggja beinna við að leggja fram tillögu um að borgin hætti að niðurgreiða sundferðir starfsmanna áður en haldið er lengra með frí-mörkin.


Tími er kominn á varnarleikinn

Nu er orðið tímabært að fara að skilgreina varnarleikinn. Reykjavíkurborg hefur sett sér ferðamálastefnu sem gilda á til 2020. Strax fljótlega eftir að hún var samþykkt var ljóst að stefnan var sprungin því fjölgun ferðamanna var orðin margfalt meiri en gert var ráð fyrir. Vorið 2014 lögðum við Sjálfstæðismenn fram tillögu um að stefnan yrði endurskoðuð með hliðsjón af þessari miklu fjölgun. Nú liggur brátt fyrir endurskoðuð aðgerðaráætlun menningar- og ferðamálasviðs vegna þessa sem er hið jákvæðasta mál. Stefnan byggir þó mest á sóknarleiknum, enda byggir hún í grunninn á að skapa tækifæri í ferðaþjónustu sem auðvitað var gríðarlega mikilvægt.

Engu að síður er ýmislegt í farvatninu sem kallar á að nú sé tímabært að farið verði í að skilgreina varnarleikinn. Hvernig gætum við þess að fjölgun ferðamannanna hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa. Hingað til hefur mest verið bent á að enn vanti hótelherbergi, ferðamenn séu ánægðir, íbúar njóti þess að búa við betri þjónustu og fjölbreyttara framboð veitingahúsa.

Hins vegar má merkja margt annað sem er síður jákvætt. Húsnæðisvandinn er viðverandi og alvarlegur skortur er á húsnæði í Reykjavík. Þetta er rauði þráðurinn meðal annars í skýrslu Rauða Krossins: "Fólkið í skugganum", og ljóst er að hefur gríðarlega neikvæð áhrif á lífsgæði. Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu er tilkominn meðal annars vegna skammtímaleigu sem aftur er m.a. vegna skorts á hótelrýmum og því að tekjumöguleikar þeirra sem leigja íbúðir er meiri í skammtímaleigu en gengur og gerist á almennum leigumarkaði. Auðvitað er hann einnig til kominn vegna þess að skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegs húsnæðis, né því að stuðla að framboði ódýrra íbúðá þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð. Skorturinn leiðir til þess að leiguverð verður gríðarlega hátt og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra. Svo stór þáttur eins og húsnæðisþátturinn getur haft gríðarleg áhrif á upplifun notenda gagnvart ferðaþjónustu. Margt fleira má nefna eins og samgöngur og álag vegna ferðamanna, rútuumferð, umferð gesta á öllum tímum sólarhrings og mörg önnur atriði sem berast okkur borgarfulltrúum frá íbúum. Nú síðast mátti merkja óánægju bæði ferðamanna og íbúa með gríðarlegt álag á þeirri fábreyttu þjónustu sem í boði var til dæmis nú yfir hátíðarnar þar sem algjört misræmi virtist vera milli ásóknar og þess sem var í boði.  

Mikið og vel hefur verið fjallað um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar. Og það má vel viðurkenna það að þau eru jákvæð og góð. En þrátt fyrir það má ekki gleyma að tala um það sem neikvætt er og gæti skaðað samfélagið ef ekkert er að gert. Algjörlega er orðið tímabært að fara að horfa á og skilgreina hvaða þættir það eru í ferðaþjónustunni sem hafa neikvæð áhrif á sambýlið við íbúa og skilgreina þolmörkin, gæta þess að sambýlið haldist á jákvæðum nótum og leyfa íbúum að njóta þess að ferðaþjónustan blómstrar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband