Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015
23.11.2015 | 10:21
Er sjálfsagt að borgarsjóður fái að njóta arðgreiðslna en heimilin bíða?
Á síðasta borgarstjórnarfundi lögðum við Sjálfstæðismenn til að borgarstjórn samþykkti að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hún skoði hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili.
Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Orkuveitunnar og ber ábyrgð á að koma skýrum skilaboðum til stjórnarinnar. Nauðsynlegt er að borgarstjórn fyrir hönd íbúa ræði hvaða stefnu skuli taka hvað fyrirtækið varðar. Þess vegna hefði verið gott ef meirihlutinn hefði samþykkt þessa tillögu. Í stað þess fóru þau í þann leiðinlega feluleik að vísa tillögunni inn í borgarráð án þess að taka afstöðu til hennar. Reyndar mátti meira greina í máli borgarstjóra að honum finnist jafnvel ekki ástæða til að lækka orkugjöld og hann efist jafnvel um að gjöldin hafi hækkað.
Borgarsjóður fær að njóta heimilin bíða
Meirihlutinn í Reykjavík gerir ráð fyrir því að árið 2018 verði arðgreiðslur Orkuveitunnar til borgarsjóðs 1 milljarður að lágmarki. Nú virðist því aftur vera að komin sú staða að arðgreiðslur Orkuveitunnar verði notaðar til að stoppa upp í göt borgarsjóðs enda Planið svokallaða að renna út. Sú ákvörðun að nota arðinn beinlínis í þeim tilgangi er einhliða og órædd tillaga meirihlutans í Reykjavík. Réttlátt og sanngjarnt er hins vegar að vilja ræða málið út frá fleiri hliðum. Eðlilegt er að skoða hvernig heimilin sem tóku á sig miklar hækkanir orkugjalda þegar illa áraði fái einnig að njóta þegar vel gengur. Fyrir þessu virtist því miður lítil sannfæring hjá borgarstjóra.
Orkuverð er húsnæðismál
Orkuverð er húsnæðismál. Lækkun orkugjalda lækkar húsnæðiskostnað. Borgastjórn virðist nokkuð sammála um að húsnæðismál séu mikilvægasta mál borgarinnar og með yfirlýst markmið að lækka húsnæðiskostnað . Húsnæðiskostnaður er allt of hár og oft hefur verið rætt um mikilvægi þess að fólki bjóðist húsnæði á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að þreytast ekki á að tala um vandann og meintar aðgerðir til að lækka húsnæðiskostnað þá virðist meirihlutinn í Reykjavík ekki vilja standa við þau loforð, alla vega ekki þegar greiðslur geta frekar runnið í borgarsjóð.
Vildi ekki taka ákvörðun á opnum fundi
Meirihlutinn í Reykjavík vildi frekar en að taka efnislega afstöðu með tillögunni vísa henni inn til borgarráðs. Það er óskiljanlegt nema að þau vilji ekki að almenningur viti hver afstaða þeirra er. Í borgarstjórn hafa 15 kjörnir fulltrúar aðgengi að málinu, fundir eru opnir borgarbúum og efni þeirra aðgengilegt. Hins vegar er borgarráð lokaður vettvangur, fundir eru lokaðir almenningi og aðeins fáir borgarfulltrúar eiga aðgengi að fundum. Tillagan var ekki til annars fallin en að senda skýr skilaboð og gefa stjórn Orkuveitunnar mikið svigrúm til að vinna greiningu.
En það var ekki hægt að samþykkja þá tillögu, sem líta má á sem staðfestingu á því að forgangsröðun meirihlutans er skýr hann er í fyrsta sæti, heimilin mega bíða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2015 | 12:40
Forgangsröðun meirihlutans er skýr - hann er í fyrsta sæti.
Mikill slaki er í rekstrinum í Reykjavík, langt umfram það sem er hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og því aumt að sjá meirihlutann útskýra erfiðleika sína með vísun til þess að launahækkunum sé um að kenna eða að ríkið skuldi sveitarfélögum fé til rekstursins. Vissulega hafa þeir þættir áhrif en vanda Reykjavíkur er ekki hægt að skýra svo auðveldlega. Slaki gagnvart alls kyns verkefnum af öllu tagi ógnar nú grunnþjónustu til dæmis þjónustu við aldraða og fatlaða.
Áhugavert er að fylgjast með því hvernig oddviti Bjartrar framtíðar reynir ítrekað að nota Orkuveituna og Planið góða til að flagga ímynduðu ágæti meirihlutans í rekstrarmálum og í þeirri von að halda á lofti þeim misskilningi að Sjálfstæðismenn beri þar meiri ábyrgð en aðrir. Oddviti Bjartrar framtíðar ætti frekar að veifa flagginu framan í borgarstjóra og aðra samstarfsmenn sína í meirihlutanum sem skipuðu eða studdu R-listann á sínum tíma. R-listinn leiddi nefnilega í 12 ár skulda og arðgreiðslustefnuna sem flestir fordæma nú og ber þess vegna meiri ábyrgð en aðrir. Sjálfstæðismenn geta tekið á sig að hafa ekki snúið strax frá þeirri stefnu um leið og færi gafst en langur vegur er þangað að hægt sé að halda því fram að hann beri meiri ábyrgð en aðrir á vanda Orkuveitunnar.
Nú eru flestir sammála um það að læra af þessum mistökum. Mest sammála hafa þó virst þeir sem helst studdu arðgreiðslustefnu OR og hreyktu sér af henni á sínum tíma. Flestir hefðu því haldið að þessi tími væri liðinn undir lok í Reykjavík. Það vakti því mikla furðu þegar annað kom á daginn, þegar meirihlutinn opinberaði fjárhagsáætlun og 5 ára áætlun borgarinnar. Nú treystir meirihlutinn í Reykjavík sér ekki til að gera rekstur grunnþjónustu sjálfbæra næstu árin nema með gamla leiknum sækja fé úr rekstri Orkuveitunnar. Forgangsröðunin er því augljós. Í stað þess að gera kröfur til sjálfs sín um hagræðingu, um að beita aðhaldi og greina grunnþjónustu frá verkefnum sem minni þörf er á, skal fjármagna stefnuleysið með arðgreiðslum.
Íbúar og greiðendur orkugjalda í Reykjavík hafa tekið á sig gjaldahækkanir Orkuveitunnar sem nauðsynlegar voru eftir hrun án þess að eiga mikið val. Hið sjálfsagða væri því að meirihlutinn tæki frekar þá ákvörðun að beina því til stjórnar Orkuveitunnar að lækka þessi gjöld, ef raunverulegt færi gefst til þess á næstunni, í stað þess að verja þeim í eigin óráðsíu.
Borgaryfirvöld ættu einnig að skilja að um áramót hækkar fasteignamat verulega og sérstaklega í Reykjavík. Í sumum hverfum um nærri 17%. Svo virðist sem skilningur meirihlutans í Reykjavík á því gjaldastreði sem Reykvíkingar glíma við sé enginn. Kaldhæðnin í því er að borgarstjóri hefur lofað gulli og grænum skógum í húsnæðismálum og meðal annars haldið því fram að hann vilji vinna ötullega að því að húsnæði bjóðist á viðráðanlegu verði. Hvoru tveggja hækkun orkugjalda og hækkun fasteignagjalda hefur þau áhrif að húsnæðisverð hækkar. Meirihlutinn sýnir því litla athygli, lækkar hvorki fasteignaskatta né hefur í hyggju að leyfa íbúum að njóta lægri orkugjalda.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um við hvaða verðbólguspá sveitarfélögin miða. Í ljós kemur að Reykjavíkurborg miðar við hærri verðbólguspá en Seðlabankinn og mun láta gjaldskrár hækka samkvæmt henni. Hér er að sjálfsögðu verið að leggja grunn að nýjum gjaldaálögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)