Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Er ríkisstjórninni í nöp við atvinnulífið?

Í myndbandinu sem vísað er á hér fyrir neðan kristallast árangursleysi ríkisstjórnarinnar - störfum á Íslandi hefur fækkað um 9.900 frá 2007 og fækkunin í Reykjavík er talin um 8.400 eða um 85% af heildarfækkun. Reykjavík er að kikna undir álagi vegna atvinnuleysis og þörf á fjárhagsaðstoð. Ríkisstjórnin virðist ekki geta staðið við neitt eða hafa engan vilja til þess. Slóðin á myndbandið er http://www.youtube.com/watch?v=KGHCVbJN_R8&feature=plcp


Er öll vitleysan eins?

Í morgun hélt KPMG opinn fund um skattaumhverfi í ferðaþjónustu. Greint var frá könnun sem fyrirtækið gerði hjá um 35 hótelum sem saman sinna í um 80% af hótelrekstri á landinu.

Athyglisvert var að sjá að rekstrarafkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu er mun minni en hótelanna úti á landi. Talið er að sterk samkeppni bæði milli hótela og einnig hótelanna við gistingu af öðru tagi hafi þar mikið um að segja. Þá var einnig nefnt að einnig gæti þetta tengst því að laun væru lægri a landsbyggðinni og að þar hefðu menn sveigjanlegra umhverfi t.d. væri auðveldara að loka yfir ákveðið tímabil þegar minnst væri um ferðamenn.

Könnun KPMG sýnir að hækkun virðisaukans yrði hrein og klár aðför að ferðaþjónustunni!

Niðurstaða fundar KPMG var afar skýr. Verði hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkanir á virðisaukaskatti að veruleika  er ekki grundvöllur fyrir óbreyttum rekstri hótelanna sem munu þá skila tapi. 

Horft var til þriggja mögulegra dæma um hvernig brugðist yrði við hækkunum. Allar leiðirnar sýna skýrt og greinilega að virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustuna er enginn kostur og getur jafnvel leitt til þess að ríkissjóður verður af meiri tekjum en því sem nemur tekjum af hærri virðisaukaskatti.

 

Hvað gera borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta?

Nú stendur yfir fundur í borgarráði Reykjavíkurborgar þar sem ræða á um áhrif þessara fyrirhuguðu hækkana á störfin í borginni. Helsti ráðgjafi borgarráðs er fulltrúi fjármálaráðuneytisins og fróðlegt verður að heyra hvernig menn líta á málin þar á bæ. Munu borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta í borginni ekki mótmæla því að þessari vitleysu verði komið á. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bíðum eftir því að heyra þau svör. Í ljósi þess að störfum í Reykjavík hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum - mun meira en annars staðar á landinu ættu fulltrúar meirihlutans ekki að þurfa að vera að velkjast í vafa um svona mál.

 

Atvinnustefna Reykjavíkur í gíslingu

Á borgarráðsfundi sl. fimmtudag þann 16. ágúst lögðu félagar mínir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að borgarráð samþykkti eftirfarandi tillögu. Tillögunni var frestað og fróðlegt verður að sjá hvernig því mun lykta. Meirihlutaflokkarnir bóka á þá leið að mikilvægt sé að ríki og borg vinni saman að því að skapa ákjósanlegt rekstrarumhverfi í Reykjavík - nokkuð vel gert! Atvinnustefnan var nú líka samþykkt í fyrra. Nú er spurning hvort að Jóhanna hlusti á varaformann sinn úr borginni þegar hún tekur ákvarðanir, Besti bíður bara rólegur og vatnsgreiddur á meðan.

Tillagan:

"Borgarráð hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að endurskoða áform um skattahækkanir sem augljóslega munu hafa mjög alvarleg áhrif á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og bitna sérstaklega hart á reykvísku atvinnulífi. Reykjavíkurborg er ferðamannaborg og stefnir að því að auka þátt ferðaþjónustunnar. Í höfuðborginni eru staðsett flest hótel og gistihús landsins og
fjölmörg fyrirtæki byggja afkomu sína á annars konar þjónustu við ferðamenn. Áhugi á uppbyggingu nýrra hótelrýma hefur gefið góða von og endurspeglað trú á bjarta framtíð greinarinnar en hækkun virðisaukaskatts á gistingu úr 7% í 25,5% mun augljóslega setja mörg slík áform í uppnám. Hótel og gistihús starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og hafa takmarkað svigrúm til þess að fleyta
hækkunum sem þessum út í verðlagið.

Auk þess er verð gistinátta gefið út með löngum fyrirvara og verður ekki breytt eftir á. Borgarráð hvetur til samráðs við samtök ferðaþjónustunnar og bendir á mikilvægi upplýsingaöflunar en á það
hefur skort.

Fjármálaráðuneytið hefur þess vegna ekki haft nægilegar forsendur, að því er virðist, til þess að meta víðtæk áhrif hækkunar virðisaukaskatts en skattahækkun upp á 17,3% á eina skilgreinda atvinnustarfsemi á sér vart fordæmi. Fyrirhugaðar skattahækkanir munu leiða til lækkunar tekjuskattsgreiðslna í greininni og veruleg hætta er á að þær muni leiða til aukinna undanskota og skila sér þannig í óheilbrigðara viðskiptaumhverfi. Borgarráð bendir sérstaklega á þann fjölda fólks sem byggir framfærslu sína og fjölskyldna á störfum sem skapast hafa  ferðaþjónustu en augljóslega mun hækkun virðisaukaskatts leiða til samdráttar og uppsagna starfsfólks. "


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband