Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
17.3.2008 | 17:20
Laun í almannaþjónustu
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var laugardaginn 8. mars sl. og í því tilefni haldinn kvennafundur á Nasa, fundurinn var þverpólitískur og var Hvöt félag sjálfstæðiskvenna meðal þeirra sem tóku þátt í undirbúningi fundarins. Undir fundarboðið skrifaði hópur kvenna í almannaþjónustu.
Ég tek undir þau sjónarmið sem gagnrýna það hvernig verðmat ólíkra stétta eða geira virðist umönnunarstéttunum í óhag. Erfiðlega hefur gengið að færa mat á störfunum sem þarna eru unnin til jafns við vinnu þeirra sem sinna karllægari störfum. Fram kom hjá einum af mörgum konum sem höfðu framsögn á kvennafundinum á Nasa, að munurinn á milli grunnlauna ljósmóður og verkfræðings hjá sama atvinnurekandanum, ríkinu, væri 80 þúsund kr. á mánuði. Ég velti fyrir mér skýringunni á þessu.
Almannaþjónusta hér á landi er ekki rekin á gróðasjónarmiðum. Ein skýringin á launamuninum er eflaust eftirfarandi. Verkfræðingurinn getur borið sig saman við verkfræðinga sem ekki semja við ríkið og þannig notið þess að til sé sá samanburðarhópur sem einmitt vinnur ekki hjá ríkinu. Þó að flestir séu sammála um að ljósmæður sinni jafnmikilvægum störfum og verkfræðingar þá skiptir samanburðurinn máli. Ljósmæðurnar hafa ekki slíkan samanburð og hafa því ekki þau rök sem verkfræðingurinn hefur.
Jafnframt hlýtur það að skipta máli að um stórar stéttir er að ræða. Samningar hins opinbera við svo stóra hópa þýða svo stórar fjárhæðir að málin verða allt öðruvísi en ef um er að ræða minni hópa sem fást um laun starfsmanna sinna og þann hóp sem starfar að sama markmiði. Í minni hópum eru önnur sjónarmið uppi en gilda í stórum hópum. Þar er hægt að sýna fram á að aðrar breytur skipti verulegu máli, en þær sem fyrirfram er búið að semja um í kjarasamningum. Því er eflaust farsælla fyrir launaumslagið að semja um laun sín í minni hópum eða innan þrengra mengis en gengur og gerist í ýmsum umönnunarstéttum.
Ljóst er að konur velja sér gjarnan nám og störf sem tilheyra almannaþjónustu og þær eru af einhverjum völdum ólíklegri til að sjá tækifæri í einkarekstri innan almannaþjónustunnar en karlar. Sagan sýnir okkur að almannaþjónusta nú snýst mun frekar um umönnunarstörf og störf sem konur hafa valið sér heldur en störf sem karlar velja sér gjarnan frekar. Karlarnir sáu tækifærin í mun meira mæli en konur, tóku verkefnin að sér með einkarekstri, hófu rekstur fyrirtækja sem sinna verkefnum til hins opinbera sem annarra. Nú njóta karllægu fagstéttirnar þess að eiga samanburðinn við hópinn sinn sem ekki vinnur eingöngu hjá hinu opinbera og það færir launin þeirra upp. Einkareksturinn getur því skipt verulegu máli og nauðsynlegt er að fleiri konur sjái þau sjónarmið.
Bloggar | Breytt 18.3.2008 kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 10:34
Greiðslur til foreldra
Af því að málið hefur verið svo mikið í fréttum langar mig aðeins að bæta við í umræðuna. Rétt er að taka það fram að endanleg útfærsla á þjónustugreiðslum til þeirra foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín liggur ekki fyrir og verið er að skoða málið.
Hugmyndir eru uppi um að greiðslan verði svipuð og niðurgreiðsla til dagforeldra, eða rúm 30 þúsund á mánuði fyrir 8 tíma vistun og greitt verði til foreldra barna 18 mánaða og eldri sem komast ekki inn á leikskóla. Þetta eru hugmyndir sem leikskólaráð á eftir að fjalla um og samþykkja. Fleiri hugmyndir að þjónustu verða einnig skoðaðar t.d. einhvers konar tilbrigði við dagforeldraþjónustu og hvernig fjölga má leikskólaplássum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 17:55
Að taka hlutina úr samhengi - heimgreiðslur vs. biðgreiðslur
Í gær kynnti borgarstjóri að von væri á nýrri þjónustu fyrir borgarbúa sem eiga börn sem bíða eftir þjónustu á leikskóla eða í önnur niðurgreidd úrræði. Nú hefur fulltrúum í minnihluta í borgarstjórn enn og aftur tekist að taka hluti úr samhengi dustað rykið af gamalli umræðu um "heimgreiðslur"og fengið fagfólk til að halda því fram að þær séu til þess fallnar að koma konum út af vinnumarkaði. Hér eru hlutirnir teknir alvarlega úr samhengi.
Foreldragreiðslurnar sem borgarstjóri kynnti eru frekar eins konar málamiðlun frá borginni. Þær gefa til kynna að við viljum og teljum það skyldu okkar veita þessum börnum þjónustu. Á meðan við getum ekki boðið þjónustuna þá viljum við koma til móts við foreldrana sem bíða - enda teljum við ásamt þeim að lítið jafnræði sé í því að sumir fái pláss og niðurgreiðslur en aðrir hvorugt. Foreldrar sem bíða eftir þjónustu fyrir börn sín eru á leið út á vinnumarkað eða til annarra starfa sem þeir kjósa sér. Vonandi getum við með þessu móti auðveldað þessum fjölskyldum að gera ráðstafanir þar til barnið kemst inn. Nær væri að kalla þessar greiðslur þjónustutryggingu eða biðgreiðslur.
Nú er haldið fram að með þessu værum við að taka skref aftur á bak í kynjabaráttu! Það er ekki rétt! Konur og karlar þurfa að koma börnum sínum fyrir til að komast út á vinnumarkaðinn. Í dag standa margir í þeim sporum að komast hvergi, foreldrar þurfa að skiptast á að mæta í vinnuna, hafa fengið fjölskyldu og vini til aðstoða sig, þeir sem geta taka vinnuna með heim eða vinna á kvöldin til að sinna störfum sínum. Þetta vandamál slær einstæða foreldra illa og sérstaklega þá sem ekki hafa háar tekjur. Greiðslurnar eru til þess fallnar að greiða fyrir þessum hópi foreldra að auðvelda þeim að takast á við biðina eftir þjónustu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 14:09
Rafræn þjónusta - Ísland í fallsæti
Í gær var haldinn fundur á vegum Ský sem bar heitið "Ísland í fallsæti?". Þarna var verið að vísa til samanburðar á rafrænni þjónustu hins opinbera milli ríkja. Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar sem Eggert Ólafsson, MPA, kynnti eru engan veginn ásættanlegar og opinberar stofnanir á Íslandi verða að taka sig á til að standa þann samanburð. Í sögulegu samhengi hafi Norðurlönd og þar á meðal Ísland dregist aftur úr öðrum ríkjum á tímabili en þau hafi hins vegar tekið sig á og verma nú sæti ofar á listunum en Ísland sem situr með ríkjum sem ekki eru þekkt fyrir sömu lífsgæði og hér má finna.
Fundurinn var afar fróðlegur og fyrirlesarar með góðar kynningar. Fram kom hjá fulltrúa Reykjavíkurborgar, Álfheiði Eymarsdóttur að þrátt fyrir að samanburðurinn við önnur ríki gæfi ekki betri niðurstöður væri ýmislegt unnið. Erfiðara væri að koma rafrænni þjónustu upp þar sem um geysimikla samhæfingu milli innri kerfanna er að ræða. Áður en hægt væri að koma upp rafrænu þjónustuferli þurfi að aðlaga kerfin og um mismikið flækjustig getur verið að ræða. Þá mætti einnig segja að fámennið hefði nokkuð að segja um hægfara þróun rafrænnar þjónustu og í okkar "físíska" heimi væri svo mikil nálægð við þjónustu að ekki væri sami þörf á að bæta úr þessu og annars staðar.
Þá kynnti Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismönnum, vinnu við stefnumótun ríkisstjórnarinnar sem nú er í vinnslu.
Ég hef unnið lengi í "rafræna geiranum" og oft velt því fyrir mér af hverju þetta taki svona langan tíma að koma upp rafrænni þjónustu og/eða að bæta þá þjónustu sem komin er upp. Að mínu mati hefur þar mikið að segja fyrirbærið "dauði tíminn". "Dauði tíminn" lýsir sér þannig að þeir sem eiga að vera að gera eitthvað eru að bíða. Í þessu samhengi lýsir þetta sér svona ríkisstofnanir bíða eftir ráðuneytunum, ráðuneytin eftir því hvað hin ráðuneytin ætla að gera, hin ráðuneytin eftir því hvað erlend ráðuneyti ætla að gera, litlu sveitarfélögin eftir þeim stóru, stóru eftir hver öðru eða eru of upptekin af annarri vinnu sem hinir þurfa ekkert að vera að bíða eftir.
Bloggar | Breytt 6.3.2008 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 12:44
Yngstu börnin í forgang
Nýr meirihluti í borginni setur þjónustu við yngstu börnin í forgang. Starfsmannavelta hefur hrjáð leikskólana síðustu 3 ár og komið niður á hversu mikla þjónustu hefur verið hægt að bjóða fjölskyldum. Þetta hefur haft áhrif á vinnuumhverfi starfsfólks sem hefur engu að síður af dugnaði og jákvæðni tekist á við vandann. Meðalaldur barna sem boðið er komast að hefur hækkað og sumar fjölskyldur hafa þurft að mæta skertri þjónustu og þurft að hverfa af vinnumarkaði sem því nemur. Nýr meiri hluti mun bregðast við þessu ástandi til hins betra.
Áætlun nýs meirihluta er þríþætt:
Í fyrsta lagi verður unnið að fjölgun rýma í borgarreknu leikskólum í eldri hverfum borgarinnar og fjölgun deilda til að koma til móts við kröfur um aukinn dvalartíma barna og fjölgun yngri barna í leikskólum borgarinnar.
Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að taka í notkun glæsilega nýja leikskóla í nýbyggingarhverfum borgarinnar við Árvað í Norðlingaholti, í Úlfarsárdal og á Vatnsmýrarsvæði. Vel heppnuð hugmyndasamkeppni um hönnun leikskóla skilaði borginni þremur glæsilegum teikningum af leikskólum framtíðarinnar þar sem tekið var mið af þörfum barna og starfsmanna á 21. öld.
Í þriðja lagi munu áætlanir leikskólasviðs gera ráð fyrir að auka val foreldra á þjónustu fyrir allra yngstu börnin þannig að í boði sé fjölbreytt og traust þjónusta við foreldra með börn frá eins árs aldri. Í þessu felst að styrkja annars vegar eftirsótta þjónustu sem nú er í boði en af skornum skammti, líkt og dagforeldraþjónustu og þjónustu einkarekinna leikskóla fyrir yngstu börnin en bjóða um leið upp á fleiri úrræði til að fjölga valmöguleikum á þjónustu fyrir foreldra sem byggjast á ólíkum þörfum barna. Gert er ráð fyrir verulegum fjármunum í þessa þjónustu á næstum þremur árum en teknar hafa verið frá stighækkandi fjárhæðir á tímabilinu allt að 400 milljónum króna til að mæta auknum útgjöldum vegna þessa. Útfærslur á þessum hugmyndum verða kynntar betur á næstunni þegar leikskólaráð Reykjavíkurborgar hefur um þær fjallað.
Til viðbótar við þessa þrjá liði eru fjölmörg verkefni framundan á næstu þremur árum til að byggja upp betri og faglegri starfsemi í leikskólum borgarinnar. Stefnt er að fleiri verkefnum til að fjölga fagfólki í skólana og í stéttina almennt og að nýta sveigjanleika sem er boðaður í frumvarpi til laga um leikskóla sem nú liggur fyrir á þingi. Unnið er að endurskoðaðri stefnu um sérkennslu fyrir leikskólana og í kjölfarið verða sett markmið um framkvæmd hennar. Samræmd innritun fyrir alla þjónustu sem borgin kostar eða niðurgreiðir er forgangsverkefni á næstu misserum. Með samræmdri innritun verður aðgengi foreldra að þjónustu og upplýsingaflæði til foreldra bætt verulega. Þá má nefna spennandi verkefni eins og barnahátíð í samstarfi við menningar- og ferðamálasvið og nýja hugsun í gæsluvallarmálum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 12:21
Leikskólastefna síðasta áratugs leiddi ekki af sér nógu fjölbreytt né sveigjanlegt kerfi.
Á umræðum í borgarstjórn kom fram stefna meirihlutans í þjónustu við yngstu börnin. Fram kom að þörf er á að hverfa frá R-lista stefnu í þjónustu við yngri börnin í Reykjavík.
Aðalvandamálið sem höfum átt við að eiga í þenslunni sem hefur leitt af sér manneklu og mikla starfsmannaveltu í leikskólum í borginni er hversu lítill sveigjanleiki er í þjónustu við yngstu börnin. Stefna R-listans var sú að einblína á að koma öllum börnum í borginni í þjónustu hjá leikskólum borgarinnar og það kerfi var byggt upp með sóma en önnur látin lönd og leið og lítið gert í því að byggja þau kerfi upp hvað þá að reyna að halda þeim við.
Þegar meirihlutaskipti urðu í borginni vorið 2006 var dagforeldrakerfið á undanhaldi og dagforeldrum hafði fækkaði ört þrátt fyrir að foreldrar væru mjög ánægðir með þjónustuna. Það fagfólk sem kaus frekar einkarekstur þurfti að berjast fyrir daufum eyrum að umbótum og sanngjörnum greiðslur til rekstursins sem nú hafa verið leiðréttar að nokkru leyti. Enn þarf að vinna að umbótum. Á næstunni mun meirihlutinn í borginni kynna til hvaða aðgerða verður gripið á kjörtímabilinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)