6.10.2009 | 17:19
Reykjavík hlýtur viðurkenningu fyrir nýsköpun í fjárhagsáætlunarvinnu
Frábær árangur Hönnu Birnu borgarstjóra og Óskars Bergsonar formanns borgarráðs kristallast í þessum verðlaunum. Þetta er eitthvað annað en það sem við sjáum ríkisstjórnina gera þrátt fyrir að þeim hafi ítrekað verið bent á að vinna á sömu leið.
Hér er fréttatilkynningin:
Ný vinnubrögð við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar tilnefnd til nýsköpunarverðlauna Eurocities samtakanna
Reykjavíkurborg hefur verið tilnefnd til verðlauna Eurocities fyrir nýbreytni við fjárhagsáætlunarvinnu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009. Verðlaun samtakanna eru í flokknum nýsköpun (Innovation) og er Reykjavíkurborg ein þriggja borga sem tilnefndar eru í þessum flokki.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri segir ánægjulegt fyrir Reykjavíkurborg að vera tilnefnd til verðlauna fyrir ný vinnubrögð. Þessi tilnefning Eurocites er mikil viðurkenning á þeim nýju vinnubrögðum sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir og veitir okkur hvatningu til áframhaldandi góðra verka.
Tilnefnt verkefni Reykjavíkurborgar var hluti af viðamikilli hagræðingarvinnu vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 þar sem leitað var til starfsfólks Reykjavíkurborgar um nýjar lausnir. Skipulagðar voru vinnustofur með starfsfólki þar sem staða borgarinnar var kynnt ítarlega og hvatt til nýrra lausna undir kjörorðinu; sparnaður án niðurskurðar. Alls tóku hátt í 3000 starfsmenn þátt í þessari vinnu og fram komu um 1500 tillögur til hagræðingar. Af þeim komu strax til framkvæmda um 300 þeirra og enn er verið að vinna úr fjölda hugmynda og verkefna.
Nýmæli er í íslenskri stjórnsýslu að leitað sé eftir svo víðtæku liðsinni starfsfólks vegna fjárhagsáætlunar og þeim sé um leið veitt tækifæri til að leggja sitt af mörkum við að gera borgarreksturinn sem hagkvæmastan. Tillögurnar sem bárust voru stórar og smáar en eiga það allar sameiginlegt að endurspegla þann mikla metnað sem starfsfólk hafði fyrir verkefninu. Leiðarljós starfsfólks við gerð hagræðingartillagnanna var að þær væru í samræmi við aðgerðaráætlun, sem samþykkt var einróma í borgarstjórn, og kæmu ekki niður á grunnþjónustu borgarinnar, störfum eða gjaldskrám.
Eurocities samtökin eru samtök Evrópuborga og á ári hverju eru veitt verðlaun sem nefnast Áskoranir í borgum sjálfbærar lausnir (Urban challenges sustainable solutions). Verðlaunin skiptast niður í þrjá flokka og eru þrjár borgir tilnefndar í hverjum. 32 verkefni frá 25 borgum fengu umfjöllun dómnefndar, sem tilnefndi níu borgir þar á meðal Reykjavíkurborg. Í flokki nýsköpunar eru auk Reykjavíkurborgar tilnefndar borgirnar Malaga á Spáni og Utrecht í Hollandi. Verðlaunin verða afhent á aðalfundi Eurocities samtakanna í Stokkhólmi þann 26. nóvember nk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.