27.2.2017 | 11:51
Betur má ef duga skal
Ljóst er að þéttingin í Reykjavík gengur hægar en áætlað var og aðeins komu 1557 fullbúnar íbúðir inn á markaðinn á bilinu 2010 -2015 eða um 260 á ári. Í áætlunum eru auðvitað mun betri töluleg gögn en ennþá eru það aðeins áætlanir. Tölur fyrir 2016 benda ekki til þess að fjölgun íbúða haldi áætlun heldur sé mun minni.
Talið er að uppsöfnuð þörf í Reykjavík sé um 4000 íbúðir og að eins verði að koma 1000 íbúðir inn á markaðinn á ári til að bregðast við fólksfjölguninni og uppsafnaða vandanum. Neyðarástand hefur skapast á húsnæðismarkaði og í ljósi þess hefði verið ástæða fyrir meirihlutann í Reykjavík að endurskoða áætlanir borgarinnar.
Í Úlfarsárdal má vinna að mun stærri byggð en áætlað er og það væri hægt að hraða uppbyggingu minni og meðalstórra íbúða verulega ef horft væri til þess svæðis. Nú er skipulögð 9 þúsund íbúða byggð þar en hún gæti verið mun stærri væri vilji væri til.
Meirihlutinn vill meina að slík "uppbygging upp til heiða" myndi kollvarpa öllum plönum um að minnka bílnotkun og að umferðarvandinn yrði verulega mikið verri en hann er í dag og því er engu tauti við hann komandi.
Nú eru hins vegar komin drög að borgarlínu. Borgarlínan verður veruleg umbylting í almenningssamgöngum meðal annars frá Reykjavík og upp í Mosfellsbæ. Borgarlínan getur orðið til þess að ferðum á bíl fækkar. Greinilegt er að meirihlutinn treystir sér ekki til að sjá það fyrir sér.
Þá vill meirihlutinn í Reykjavík ekki taka með í reikninginn alla þá fjölgun sem hefur orðið í sveitarfélögunum í kring sem að sjálfsögðu leiðir til enn frekari umferðarvanda í Reykjavík, sama vanda og þau eru að forðast með því að vilja ekki horfa til Úlfarsárdalsins. Og þá er ekki talið upp þá fjöglun sem fylgir ferðamönnum.
Þéttingaráformin í Reykjavík eru góð og gild, en þau duga ekki lengur ein og sér. Það er ábyrgðarleysi að vilja ekki bregðast við því neyðarástandi sem hefur myndast í borginni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.