22.1.2018 | 12:32
Eiga öll trúfélög að fá úthlutað lóðum án gjalda?
Þetta hefur verið umdeild spurning.
Samkvæmt lögum á Þjóðkirkjan rétt á að fá lóðum úthlutað án gjalda. Borgarstjórn tók svo á einhverjum tíma þá afstöðu að ekki mætti mismuna trúfélögum og því ættu öll trúfélög að fá sömu afgreiðslu.
Nú, þegar svo er komið að skráð hafa verið um 50 trú- eða lífsskoðunarfélög á Íslandi finnst mér ástæða til að staldra við og skoða málin aðeins betur. Þess vegna sat ég hjá um daginn þegar fyrir lá tillaga um að veita Hjálpræðishernum undanþágu. Reyndar kom mér þá á óvart að Hjálpræðisherinn væri skráð trúfélag en hann er það samt frá árinu 2012 og í félaginu eru 59 meðlimir.
Trú - og lífsskoðunarfélög eru af öllum stærðum og gerðum. Zúistar eru dæmi um eitt en þar gengur starfsemin út á að greiða meðlimum tilbaka sóknargjöld en en ekki gert ráð fyrir annarri starfsemi. Þar eru fleiri en 2000 manns skráðir.
Hugsunin með að auðvelda trúfélögum að koma sér fyrir í borgarsamfélaginu hefur eflaust verið sú að viðurkenna að þau leggi öll mikilvæga hluti til samfélagsins. En þegar ég lít yfir sviðið finnst mér þetta ekki svo einfalt lengur. Hjálpræðisherinn hefur svo sannarlega lagt mikið og gott til. Reykjavíkurborg hefur líka samið við Hjálpræðisherinn gegn greiðslu um að sinna mikilvægum verkefnum í gegnum tíðina og það verður örugglega áfram.
Jafnframt þarf að taka inn í umræðuna stöðu annarra félaga sem ekki eru skráð trúfélög en leggja mjög mikið til samfélagsins fá ekki sömu fyrirgreiðslu samkvæmt þessari reglu, til dæmis góðgerðasamtök og björgunarsveitirnar eða önnur slík félög.
Mér finnst nokkuð ljóst að það eitt og sér að vera skráð trú- eða lífsskoðunarfélag getur ekki verið nóg til að félag njóti afslátta af gjöldum. Þörf er á að horfa á þessa hluti á heildstæðari hátt.
17.1.2018 | 08:03
Borgarstjórn felur óþægileg gögn
Fjöldi sveitarfélaga er nú að rýna niðurstöður þjónustukönnunar Gallup. Sveitarstjórninar hafa keypt niðurgreindar niðurstöður fyrir sitt sveitarfélag til að fá upplýsingar um viðhorf íbúa til þjónustunnar og umhverfisins sem þeir búa við. Bæjarstjóri á höfuðborgarsvæðinu sem ég átti samtal við notar til dæmis niðurstöðurnar til að gera betur og hefur stofnað rýnihópa um hvernig má bæta og bregðast við. En sorglega staðreyndin er sú að það á þetta ekki við um stærsta sveitarfélagið, Reykjavík.
Fyrir 2 árum tók meirihlutinn í borginni þá skammarlegu ákvörðun að kaupa ekki lengur þessar niðurstöður. Niðurstöðurnar voru óþægilegar og neikvæðar og erfiðar fyrir meirihlutann. Niðurstöðurnar voru á þann veg að Reykvíkingar gáfu mikilvægri grunnþjónustu algjöra falleinkunn. Af 19 sveitarfélögum voru íbúar Reykjavíkur óánægðastir og ráku lestina hvað varðar ánægju með þjónustuna í skipulagsmálum, sorphirðu, grunnskóla, leikskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða og þjónustu til íþróttaiðkunar.
Meirihlutinn ákvað að skella við skollaeyrum, gera lítið úr viðhorfum borgarbúa og svo sem ekki í fyrsta sinn. Haldnar voru ræður sem gengu út á að gera lítið úr aðferðafræðinni sem sérfræðingar Gallup nota og meðal annars var því haldið fram að íbúar borgarinnar væru bara of kröfuharðir! Borgarbúar vita að það er ósanngjarn málflutningur. Staðreyndin er sú að ef viðhorf borgarbúa er að þjónustan sé svona léleg, þá er það einfaldlega vegna þess að hún er ekki eins góð og hún getur verið.
Meirihlutinn ákvað hins vegar að fara bara sínar eigin leiðir. Ákveðið var að fara í sérstakar mælingar með klæðskerasniðnum aðferðum. Margt er varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna. Í slíku mælingum er ekki leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast og marktækast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá auðvitað sleppt.
Það er eindregin skoðun mín að meirihlutinn í Reykjavík ætti að leggja af þessu vondu vinnubrögð og byrja í staðinn að vinna að hagsmunum borgarbúa. Það er ekki of seint að leggja af þann leiða sið að stinga upplýsingum undir teppið eða fara í einhvers konar feluleik um óþægileg gögn.
Á síðasta borgarstjórnarfundi lagði ég til að borgarstjórn tæki á dagskrá tillögu um kaup á þessum mikilvægu niðurstöðum fyrir Reykjavík. Málið er nefnilega svo að þó að ég eða aðrir myndu gjarnan vilja, megum við ekki kaupa þessar upplýsingar sem svo sannarlega eiga heima fyrir augum borgarbúa þar sem einungis meirihlutinn í Reykjavík hefur rétt til að ákveða þau kaup. Meirihlutinn þæfði þá tillögu mína eins og flestar ef ekki allar þær tillögur sem þau meta sem erfiðar. Auðvitað vita þau að þá er erfiðara fyrir okkur hin að koma afgreiðslu málsins í fjölmiðla.
Svona eru vinnubrögðin í Ráðhúsinu um þessar mundir og hafa verið um of langt skeið. Það hins vegar breytir því ekki að þó að meirihlutinn velji feluleikinn, finna borgarbúar á eigin skinni að grunnþjónusta borgarinnar er ekki nógu góð. Það er vond staðreynd en það er huggun harmi gegn að í næstu kosningum er hægt að breyta um forystu í borgarmálunum sem ætlar að leggja áherslu á þjónustu við borgarbúa í staðinn fyrir glimmerprýdda loftkastala á fallegum kynningarfundum. Þjónusta við borgarbúa á að vera forgangsatriði og þar er hægt að gera miklu betur.
Grein birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2018
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2018 | 07:58
Lausnir í stað loftkastala
Nú þegar vel viðrar í efnahagsmálum ættu borgarbúar að vera að njóta þess í einhverjum mæli. Svo er þó ekki. Áhersla á þjónustu við íbúa er engin en púðrið fer í að byggja loftkastala og tala í frösum um hvað allt verður frábært einhvern tíma seinna. Búið er að leysa húsnæðisvandann einhvern tíma seinna, búið er að leysa samgönguvandann einhverntíma seinna og allt verður svo frábært, bara einhvern tíma seinna.
Runnið er upp fyrir borgarbúum að viðhaldi á eignum, húsnæði, aðstöðu og götum er ekki sinnt. Barnafjölskyldum er ekki sinnt. Íbúar sem þurfa aðstoð fá ekki þjónustuna sem þeir þurfa. Biðlistar eftir húsnæði lengjast. Samgöngubætur eru ekki á dagskrá og lítið er gefið fyrir kvartanir þeirra sem sitja langdvölum í umferðarteppum. Það virðist ekki í verkahring meirihlutans í Reykjavík að hlusta á fólk frekar en að bera ábyrgð á því sem miður fer.
Sem betur fer styttist í kosningar. Þá gefst borgarbúum tækifæri til að senda skýr skilaboð. Forgangsraða þarf í rekstrinum þannig að þjónusta við íbúa sé í forgangi. Hefja verður sókn í leikskóla- og menntamálum, gera starfsumhverfið aðlaðandi, auka sjálfstæði rekstrareininga og tryggja íbúum mannsæmandi þjónustu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa staðið í ströngu við að leggja fram tillögur til breytinga. Tillögur til að minna á að þjónustan við borgarbúa hefur verið vanrækt. Tillögur um nýsköpun. Tillögur um aðgerðir til að draga úr veikindum. Tillögur um samgönguúrbætur. Tillögur um innleiðingu velferðartækni. Tillögum um umbætur í ólíkum hverfum. Flestum þeirra hefur verið ýtt út af borðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til breiðs hóps kjósenda til að fá umboð til leiða þetta mikilvæga umbótastarf. Til þess þarf forystan að hafa breiða skírskotun, góða reynslu og skilja fólkið sem borgarkerfið á að þjóna. Það er mitt hjartans mál að þessar umbætur nái fram að ganga. Því óska ég eftir stuðningi þínum.
Grein birtist í Fréttablaðinu 16. janúar 2018
3.11.2017 | 15:26
Rányrkjan í Reykjavík
Rányrkjan í Reykjavík tekur sífellt á sig nýja myndir. Útsvarið í botni þrátt fyrir að svo miklu hærri upphæðir renni nú frá íbúum inn í borgarsjóð. Fasteignagjöldin hækka auðvitað í samræmi við skortstefnuna í húsnæðismálum og skila nú mörgum sinnum því sem þau áður gerðu. Þetta er allt í boði meirihlutans í Reykjavík.
Nú liggur fyrir að skuldsetja á borgarsjóð um nokkra milljarða. Góða fólkið þarf auðvitað að fjármagna kosningaloforðin en það er gert með því að rúlla skuldunum inn í framtíðina, svona eitthvað fyrir unga fólkið.
Af tekjum og gjöldum íbúa rennur ekki nógu mikið til grunnþjónustunnar þar sem biðlistavæðingin hefur orðið einkennismerki borgarstjóra. Þetta finna þeir sem hana þurfa á sínu skinni, nema þeir auðvitað sem hafa þurft að flýja borgina vegna húsnæðisskortsins. Börn eru send heim úr leikskólum vegna manneklu, úrræðaleysis og svefninum mikla sem meirihlutinn í Reykjavík er orðinn uppvís að. Langtímalausnir eru engar, aðeins er um skammtímalausnir að ræða.
Viðhaldi eigna borgarbúa er ekki sinnt, rányrkjan er þar líka. Þrátt fyrir að búið sé að innheimta fyrir viðhaldi eignanna þá hafa þeir fjármunir ratað eitthvað annað. Hvert, er ekki nokkur leið að átta sig á. Jæja, jú stöðugildum hefur fjölgað gríðarlega frá árinu 2010 og þeim fylgir auka milljarður eða svo í launaútgjöldum, því miður er ekki hægt að svara því skýrt því ekkert verkbókhald er til.
Loforðin um húsnæðið eru orðin tóm, þrátt fyrir að kynnt hafi verið að nú sé stefnan að fjölga íbúðum um helming og ýta dagsetningunum inn í óráðna framtíð. Samtök iðnaðarins benda á að áætlanir standist ekki enn, en þau hafa bent á það hvað eftir annað að þær standist alls ekki. Á meðan flýja fjölskyldur borgina á kostnað okkar hinna sem búum þar.
Virðing fyrir fjármunum borgarbúa er ekki mælanleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2017 | 17:12
Borgarlínan og kostnaðarskipting
Í gær sá ég að gert er ráð fyrir að kostnaður vegna hönnunar- og greiningarvinnu Borgarlínu verði tvöfalt meiri á þessu ári en áætlað hafði verið. Í stað áætlaðra 20 milljóna yrði kostnaður líklega um 40 milljónir. Í framhaldi fékk ég upplýsingar um að ástæðan væri sú að gert hefði verið ráð fyrir kostnaðarþátttöku sveitarfélaganna í meira mæli hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðisins en vitað var hjá Reykjavíkurborg.
Ok, auðvitað geta áætlanir alltaf breyst. En hér er samt ástæða til að staldra við og anda djúpt.
Í júní óskuðum við Sjálfstæðismenn eftir upplýsingum um hvernig viðræðum um kostnaðarskiptingu vegna borgarlínu væri háttað og hver samningsmarkmið væru. Við höfum ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn og engin umræða hefur átt sér stað á pólitískum vettvangi hvað það varðar.
Eftir þessu óskuðum við vegna þess að það er alls ekki sjálfgefið hvernig eigi að skipta kostnaðinum. Á að fara eftir höfðatölu, kílómetrum, fjölda stoppistöðva, hvar fólk stígur inn og hversu langt notendur ferðast milli áfangastaða svo dæmi séu nefnd? Þessa umræðu þarf að taka áður en kostnaðurinn verður meiri. Og áður en aðilar geta farið að gefa sér að ákveðin hefð hafi skapast eða gert hafi verið ráð fyrir ákveðnum leiðum á fyrri stigum.
Hvort er þetta strætó eða borgarlína?
Fyrirspurn okkar sjálfstæðismanna í borgarráði í morgun:
"Í júní síðastliðinn lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn í umhverfis- og skipulagsráði þar sem meðal annars var óskað eftir því hvenær áætlað væri að viðræður hefjist um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga annars vegar og viðræður um kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga hins vegar. Spurt var um samningsmarkmið borgarinnar og hvernig umhverfis- og skipulagssvið teldi að skipta ætti kostnaði. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.
Í ljósi þess að nú liggur fyrir að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna hönnunar- og greiningarfasa borgarlínu sem fram fer á árinu 2017 er líklegur til að tvöfaldast úr 20 milljónum króna í 40 milljónir króna miðað við uppfærðar áætlanir óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum þann viðbótarkostnað, hvernig hann skiptist á milli sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu, eða ríkisins ef við á, og á hvaða vettvangi kostnaðarskiptingin var ákveðin."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2017 | 09:18
Hvar er umferðarstjórnunin?
Það er eins og umferðarstjórnun sé ekki til í Reykjavík. Ákvarðanir um framkvæmdir virðast teknar algjörlega óháð því hvenær umferðarálag er mest. Í mörgum borgum er til eitthvað sem heitir umferðarstjórnunarstöð sem vinnur að því að kortleggja og stýra umferðinni til að bæta umferðarflæði en þetta virðist algjörlega vanta hér í borginni. Reyndar er það ekki svo skrítið þegar haft er í huga að aðgerðarleysi í umferðarmálum er eitt meginverkefni núverandi borgarstjórnar.
Ekkert gert til að veita upplýsingar á aðgengilegan hátt til þeirra sem ferðast um í borginni. Nú þegar tæknin ætti einmitt að leyfa slíkt á einfaldari hátt en aldrei fyrr virðist lítill áhugi á því. Til eru upplýsingar sem mætti nota til þess til dæmis þær upplýsingar sem Google safnar. Gera ætti íbúum kleift að sjá fyrir hversu lengi þeir verða á leiðinni í gegnum borgina eftir því hvenær dags er farið svo að þeir sem hafi tækifæri til geti tekið ákvörðun um að fara fyrr eða seinna en þegar mesta álagið er.
Í síðustu viku lögðum við Sjálfstæðismenn í borginni fram tillögu um slíkar úrbætur og bíður hún afgreiðslu hjá umhverfis- og samgönguráði. Tillagan fjallar um að leggja til við umhverfis - og skipulagsráð að borgarbúum verði gert kleift að skoða lifandi upplýsingar um umferð á helstu stofnleiðum borgarinnar á vef borgarinnar eða í sérstöku smáforriti. Ferðatími á annatíma í borginni er gríðarlega misjafn og getur jafnvel tekið hátt í klukkutíma að fara frá Grafarvogi niður í miðbæ á mesta álagstíma. Sama kerfi getur skilað upplýsingum um tafir vegna viðgerða eða lokana. Mikilvægt er að aðstoða fólk við að sjá þessar upplýsingar á aðgengilegan hátt svo það í auknum mæli taki ákvarðanir um að forðast mesta álagstímann og nota ætti öll tiltæk ráð til þess.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2017 | 21:42
2 milljarðar að óþörfu - getur það verið?
Fréttirnar af hrikalegu ástandi húss Orkuveitunnar eru sorglegar. Tjónið er gríðarlegt. Fram hefur komið að um verulegar fjárhæðir er að ræða og að kostnaðurinn verði minnst um 1.700 milljónir. Ekki er víst hvort tjónið er að völdum byggingargalla eða skorts á viðhaldi en framundan er rannsókn málsins.
Í því samhengi kemur upp annað athyglisvert mál. En það snýst um hvort að meirihlutinn í Reykjavík hafi vísvitandi skellt 2 milljarða króna kostnaði á borgarbúa án þess að láta reyna á aðrar og ódýrari leiðir.
Málið snýst um hvernig staðið var að sölunni á Orkuveituhúsinu. Þar var á ferðinni algjör málamynda kaupsamningur. Varla er hægt að tala um kaupsamning því að gjörningurinn er miklu frekar lánasamningur, þó að það hafi ekki verið viðurkennt á sínum tíma. Og það afar óhagstæður lánasamningur.
Þið munið Planið. Planið var neyðaráætlun í rekstri Orkuveitunnar. Planið var hinn heilagi kaleikur meirihlutans í Reykjavík sem meðlimir hans gripu jafnan til þegar þeir rökræddu um fjármálasnilli sína. Reyndar, var Planið í flesta staði alveg ágætis áætlun og eftir því var unnið, skuldir greiddar niður, hagrætt og sparað. Allt virtist ætla að ganga upp. Nema eitt. Og það var liðurinn "eignasala". Eignasalan gekk ekki nógu vel. Og þá kemur að því sem athygli ætti að beinast betur að en það eru samningarnir sjálfir.
Spyrja verður hvort eðlilegt hafi verið að meirihlutinn samþykkti að leggja þann gríðarlegan kostnað á fyrirtækið og þar með borgarbúa þar sem lánasamningarnir voru það óhagstæðir í stað þess að leita leiða til að fjármagna áætlunina frekar með lánum á betri kjörum. En líklegt verður að teljast að lánakjör sem staðið hafi Reykjavíkurborg til boða á þessum tíma hafi verið um 3%. Leigusamningurinn felur í sér miklu meiri kostnað. En mismunurinn á láni með 3% vöxtum og leigusamningnum sem í gildi er nemur 2 milljörðum á samningstímanum.
Og þá kemur aftur að þeirri grafalvarlegu spurningu um hvort meirihlutinn í Reykjavík hafi án þess að leita allra mögulegra annarra leiða, samþykkt að ganga til samninga um slíkan málamyndagjörning. Er hugsanlegt að orðspor Plansins hafi verið meirihlutanum það verðmætt að því var sleppt?
8.7.2017 | 12:45
Aldraðir þurfa að leita annað
Borgin halar inn tekjum sem aldrei fyrr, útsvar er í botni og fasteignagjöldin í hæstu hæðum. En grunnþjónustan fær ekki að njóta þess í stað þess er haldið áfram að fara í alls kyns gæluverkefni. Svona er forgangsröðun Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.
Þjónusta við aldraða og fatlaða er reyndar aftarlega á lista þessa meirihluta sem ekki hefur sinnt þróun og nýsköpun að neinu ráði. Slíkt er nauðsynlegt til að fást við þann vanda sem við blasir. Manneklan er vaxandi vandamál og það er löngu vitað því hefði átt að vera löngu búið að bregðast við þessu.
Skólarnir eru annað dæmi en það má hafa miklar áhyggjur af þeim. Nú í lok kjörtímabils er verið að móta menntastefnu vegna þess að stefna meirihlutans var komin í algjört þrot. Það eru ekki ný vinnubrögð að sjá breitt yfir ýmis mál með því að taka upp "stefnumótun". Þannig má fresta verkefninu um óákveðinn tíma. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr stefnumótun en hún á að alltaf að vera í gangi og hana á ekki að misnota með þessum hætti.
Synd og skömm!
Aldraðir þurfa að leita annað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.6.2017 | 18:35
Vildu ekki senda skýr skilaboð um þjónustu við aldraða
Stundum verður maður orðlaus í borgarstjórn. Eins og í dag.
Eftir að okkur fulltrúum velferðarráðs barst tilkynning um að notendum mötuneytis fyrir aldraðra í Hæðargarði ættu von á því að því yrði lokað vegna sparnaðar með ófyrirséðum alvarlegum afleiðingum fyrir þá ákváðum við Sjálfstæðismenn að taka málið á dagskrá borgarstjórnar.
Ástæðan var sú að gefa skýr skilaboð um að ekki yrði af sumarlokunum í sumar og að skýrt væri að mötuneytisþjónusta við aldraðra væri forgangsþjónusta í huga allrar borgarstjórnar. Mér til mikillar undrunar var meirihlutinn ekki á því að samþykkja þessa tillögu. En það liggur þá ljóst fyrir. Þau sjá ekki þörfina á því að taka af allan vafa um að matarþjónusta sé algjör grunnþjónusta sem ætti að njóta forgangs.
Tillaga okkar Sjálfstæðismanna hljóðaði svona: "Borgarstjórn samþykkir að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar." En eins og áður sagði gat meirihlutinn ekki tekið undir hana.
Greinargerð fylgdi tillögunni:
"Tilkynning hefur borist öldruðum einstaklingum sem borða í mötuneyti félagsmiðstöðvarinnar í Hæðargarði að mötuneytinu verði lokað í júlí vegna sparnaðar Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að borgarstjórn leggist gegn sumarlokunum á grunnþjónustu sem þessari í ljósi þess að afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Aðgangur að mötuneyti tryggir fjölbreytni í matarræði og næringu, stuðlar að sjálfstæði, sjálfsvirðingu og gerir mörgum kleift að búa í eigin húsnæði. Ferðir í mötuneyti gefa mörgum öldruðum ástæðu til að fara út úr húsi, stuðlar að virkni og því að eiga félagslegt samneyti við aðra. Erfitt er fyrir marga að fást við breytingar og það að geta áfram sótt þjónustu í umhverfi sem fólk þekkir veitir fólki öryggi."
Eftir óheyrilegt stapp og japl í borgarstjórn með einhverjum arfavitlausum útúrsnúningum var ljóst að tillagan yrði ekki samþykkt. Þvílík vitleysa.
Við bókuðum eftirfarandi vegna málsins: "Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að mötuneytisþjónusta við eldri borgara skerðist ekki vegna sumarlokana nú í sumar. Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þótti mjög mikilvægt að borgarstjórn gæfi með slíku samþykki einföld og skýr skilaboð um að þjónusta vegna mötuneyta eldri borgara sé grunnþjónusta sem meðhöndla eigi sem forgangsverkefni. Þetta töldu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að yrði auðsótt.
Svo var hins vegar ekki og fyrirstaðan sú að ekki lægi fyrir hvað verkefnið kostar og að velferðarráð yrði að fjalla nánar um verkefnið. Slík röksemdarfærsla á sér enga stoð enda er það borgarstjórn sem ber endanlega ábyrgð á því að fjármunir renni til þjónustunar og algjörlega er ljóst að ekki yrði um neinar stórar fjárhæðir að ræða. Velferðarráð gæti hins vegar í kjölfar slíkrar samþykktar unnið mun hraðar að því að koma í veg fyrir sumarlokanir því skammur tími er til stefnu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurfa vart að vekja athygli borgarbúa á því að kostnaðarvitund meirihlutans hefur ekki látið mikið á sér kræla á kjörtímabilinu. Afgreiðsla málsins sýnir að meirihlutinn á í erfiðleikum með að taka skýra afstöðu til þess hvort grunnþjónusta við aldraða eigi að vera í forgangi eða ekki á meðan hvergi var hikað þegar samþykktar voru ferjusiglingar milli Reykjavíkur og Akraness án þess að kostnaðarmat lægi fyrir."
24.5.2017 | 14:44
Gjaldheimta á nagladekk?
Tillaga um heimild sveitarfélaga til gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja var til umræðu a fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum að mjög mikilvægt sé að reyna að takmarka notkun nagladekkja en ef að eigi að fara í gjaldtöku þurfi að ríkja um það verulega mikil sátt. Slíkri sátt megi vinna að með íbúakosningum.
Því lögðum við fram breytingartillögu um að heimild til gjaldtöku yrði aðeins virkjuð ef helmingur samþykkti slíkt í ibúakosningum sem gætu farið fram rafrænt. Slík kosning yrði einnig til þess að auka fræðslu um skaðsemi nagladekkja í leiðinni og jafnvel þó að ekki náist að samþykkja gjaldheimtu muni umræðan um skaðsemina eflaust fá ennþá fleiri til að hætta notkun nagladekkja. Málið er mikið umhverfismál en hins vegar eru margir til sem telja öryggi sínu ógnað nema keyra um á nagladekkjum og auðvitað eru aðstæður fólks ærið misjafnar. En i þessu tilfelli er kannski mikilvægast að tryggja það að samráði við íbúa sé sinnt og tekið alvarlega.
Lögð var fram tillaga um að á eftir 60. gr. laganna í VIII. kafla umferðarlaga (Um ökutæki) bætist við ný grein 60. gr. a, er orðast svo: Gjaldtaka af hjólbörðum með nöglum Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald af notkun hjólbarða með nöglum á nánar tilteknum svæðum. Sveitarstjórn skal ákveða gjaldtöku að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Með gjaldtöku er átt við gjald sem eigandi eða ökumaður ökutækis skal greiða fyrir heimild til að aka á hjólbörðum með nöglum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð.
Þetta vildi meirihlutinn samþykkja en við vildum breytingar á tillögunni, þannig að við hana bættist aftan við fyrirliggjandi tillögu þetta hér:
"Heimild um gjaldtöku vegna nagladekkja verði aldrei samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu í sveitarfélaginu þar sem að minnsta kosti helmingur íbúa styðji gjaldtöku. Slík kosning gæti verið rafræn."
Með því viljum við taka undir mikilvægi fræðsluátaks í því skyni að takmarka notkun nagladekkja. Notkun nagladekkja er talin gríðarlega neikvæð fyrir umhverfið, heilsu og lífsskilyrði og allar tilraunir til að minnka notkun þeirra eru mikilvægar. Notkun nagladekkja hefur tengst umferðaröryggi frekar í hugum margra en umhverfismálum og það um langa hríð. Slíka viðhorfsbreytingu þarf því að undirbúa í miklu samráði við íbúa. Eins þarf að skoða hvort íbúar geti treyst á mokstur og vetrarþjónustu í sveitarfélaginu og að hvaða marki. Því telja fulltrúar Sjálfstæðislokkisins að við fyrirliggjandi tillögu þurfi að bæta við ákvæði um að heimild um gjaldtöku verði aldrei samþykkt nema að helmingur íbúa hafi samþykkt það í undangenginni íbúakosningu. Slík kosning geti að sjálfsögðu verið rafræn. Íbúakosning af því tagi myndi einnig leiða af sér gríðarlega sterkt kynningarátak um skaðsemi nagladekkja og skilað miklum árangri.
Málinu var svo frestað.