Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Borgarlínan og kostnaðarskipting

Í gær sá ég að gert er ráð fyrir að kostnaður vegna hönnunar- og greiningarvinnu Borgarlínu verði tvöfalt meiri á þessu ári en áætlað hafði verið. Í stað áætlaðra 20 milljóna yrði kostnaður líklega um 40 milljónir. Í framhaldi fékk ég upplýsingar um að ástæðan væri sú að gert hefði verið ráð fyrir kostnaðarþátttöku sveitarfélaganna í meira mæli hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðisins en vitað var hjá Reykjavíkurborg.  

Ok, auðvitað geta áætlanir alltaf breyst. En hér er samt ástæða til að staldra við og anda djúpt.

Í júní óskuðum við Sjálfstæðismenn eftir upplýsingum um hvernig viðræðum um kostnaðarskiptingu vegna borgarlínu væri háttað og hver samningsmarkmið væru. Við höfum ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn og engin umræða hefur átt sér stað á pólitískum vettvangi hvað það varðar. 

Eftir þessu óskuðum við vegna þess að það er alls ekki sjálfgefið hvernig eigi að skipta kostnaðinum. Á að fara eftir höfðatölu, kílómetrum, fjölda stoppistöðva, hvar fólk stígur inn og hversu langt notendur ferðast milli áfangastaða svo dæmi séu nefnd? Þessa umræðu þarf að taka áður en kostnaðurinn verður meiri. Og áður en aðilar geta farið að gefa sér að ákveðin hefð hafi skapast eða gert hafi verið ráð fyrir ákveðnum leiðum á fyrri stigum. 

 

borgarlinan

 

 

 

 

 

 

 Hvort er þetta strætó eða borgarlína?

 

Fyrirspurn okkar sjálfstæðismanna í borgarráði í morgun: 

"Í júní síðastliðinn lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn í umhverfis- og skipulagsráði þar sem meðal annars var óskað eftir því hvenær áætlað væri að viðræður hefjist um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga annars vegar og viðræður um kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga hins vegar. Spurt var um samningsmarkmið borgarinnar og hvernig umhverfis- og skipulagssvið teldi að skipta ætti kostnaði. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.

Í ljósi þess að nú liggur fyrir að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna hönnunar- og greiningarfasa borgarlínu sem fram fer á árinu 2017 er líklegur til að tvöfaldast úr 20 milljónum króna í 40 milljónir króna miðað við uppfærðar áætlanir óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir upplýsingum þann viðbótarkostnað, hvernig hann skiptist á milli sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu, eða ríkisins ef við á, og á hvaða vettvangi kostnaðarskiptingin var ákveðin."

 


Hvar er umferðarstjórnunin?

Það er eins og umferðarstjórnun sé ekki til í Reykjavík. Ákvarðanir um framkvæmdir virðast teknar algjörlega óháð því hvenær umferðarálag er mest. Í mörgum borgum er til eitthvað sem heitir umferðarstjórnunarstöð sem vinnur að því að kortleggja og stýra umferðinni til að bæta umferðarflæði en þetta virðist algjörlega vanta hér í borginni. Reyndar er það ekki svo skrítið þegar haft er í huga að aðgerðarleysi í umferðarmálum er eitt meginverkefni núverandi borgarstjórnar. 

Ekkert gert til að veita upplýsingar á aðgengilegan hátt til þeirra sem ferðast um í borginni. Nú þegar tæknin ætti einmitt að leyfa slíkt á einfaldari hátt en aldrei fyrr virðist lítill áhugi á því. Til eru upplýsingar sem mætti nota til þess til dæmis þær upplýsingar sem Google safnar. Gera ætti íbúum kleift að sjá fyrir hversu lengi þeir verða á leiðinni í gegnum borgina eftir því hvenær dags er farið svo að þeir sem hafi tækifæri til geti tekið ákvörðun um að fara fyrr eða seinna en þegar mesta álagið er.

Í síðustu viku lögðum við Sjálfstæðismenn í borginni fram tillögu um slíkar úrbætur og bíður hún afgreiðslu hjá umhverfis- og samgönguráði. Tillagan fjallar um að leggja til við umhverfis - og skipulagsráð að borgarbúum verði gert kleift að skoða lifandi upplýsingar um umferð á helstu stofnleiðum borgarinnar á vef borgarinnar eða í sérstöku smáforriti. Ferðatími á annatíma í borginni er gríðarlega misjafn og getur jafnvel tekið hátt í klukkutíma að fara frá Grafarvogi niður í miðbæ á mesta álagstíma. Sama kerfi getur skilað upplýsingum um tafir vegna viðgerða eða lokana. Mikilvægt er að aðstoða fólk við að sjá þessar upplýsingar á aðgengilegan hátt svo það í auknum mæli taki ákvarðanir um að forðast mesta álagstímann og nota ætti öll tiltæk ráð til þess.

bílaumferð 


2 milljarðar að óþörfu - getur það verið?

Fréttirnar af hrikalegu ástandi húss Orkuveitunnar eru sorglegar. Tjónið er gríðarlegt. Fram hefur komið að um verulegar fjárhæðir  er að ræða og að kostnaðurinn verði minnst um 1.700 milljónir. Ekki er víst hvort tjónið er að völdum byggingargalla eða skorts á viðhaldi en framundan er rannsókn málsins. 

Í því samhengi kemur upp annað athyglisvert mál. En það snýst um hvort að meirihlutinn í Reykjavík hafi vísvitandi skellt 2 milljarða króna kostnaði á borgarbúa án þess að láta reyna á aðrar og ódýrari leiðir. 

Málið snýst um hvernig staðið var að sölunni á Orkuveituhúsinu. Þar var á ferðinni algjör málamynda kaupsamningur. Varla er hægt að tala um kaupsamning því að gjörningurinn er miklu frekar lánasamningur, þó að það hafi ekki verið viðurkennt á sínum tíma. Og það afar óhagstæður lánasamningur. 

Þið munið Planið. Planið var neyðaráætlun í rekstri Orkuveitunnar. Planið var hinn heilagi kaleikur meirihlutans í Reykjavík sem meðlimir hans gripu jafnan til þegar þeir rökræddu um fjármálasnilli sína. Reyndar, var Planið í flesta staði alveg ágætis áætlun og eftir því var unnið, skuldir greiddar niður, hagrætt og sparað. Allt virtist ætla að ganga upp. Nema eitt. Og það var liðurinn "eignasala". Eignasalan gekk ekki nógu vel. Og þá kemur að því sem athygli ætti að beinast betur að en það eru samningarnir sjálfir. 

Spyrja verður hvort eðlilegt hafi verið að meirihlutinn samþykkti að leggja þann gríðarlegan kostnað á fyrirtækið og þar með borgarbúa þar sem lánasamningarnir voru það óhagstæðir í stað þess að leita leiða til að fjármagna áætlunina frekar með lánum á betri kjörum. En líklegt verður að teljast að lánakjör sem staðið hafi Reykjavíkurborg til boða á þessum tíma hafi verið um 3%. Leigusamningurinn felur í sér miklu meiri kostnað. En mismunurinn á láni með 3% vöxtum og leigusamningnum sem í gildi er nemur 2 milljörðum á samningstímanum. 

Og þá kemur aftur að þeirri grafalvarlegu spurningu um hvort meirihlutinn í Reykjavík hafi án þess að leita allra mögulegra annarra leiða, samþykkt að ganga til samninga um slíkan málamyndagjörning. Er hugsanlegt að orðspor Plansins hafi verið meirihlutanum það verðmætt að því var sleppt? 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband