Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017
3.11.2017 | 15:26
Rányrkjan í Reykjavík
Rányrkjan í Reykjavík tekur sífellt á sig nýja myndir. Útsvarið í botni þrátt fyrir að svo miklu hærri upphæðir renni nú frá íbúum inn í borgarsjóð. Fasteignagjöldin hækka auðvitað í samræmi við skortstefnuna í húsnæðismálum og skila nú mörgum sinnum því sem þau áður gerðu. Þetta er allt í boði meirihlutans í Reykjavík.
Nú liggur fyrir að skuldsetja á borgarsjóð um nokkra milljarða. Góða fólkið þarf auðvitað að fjármagna kosningaloforðin en það er gert með því að rúlla skuldunum inn í framtíðina, svona eitthvað fyrir unga fólkið.
Af tekjum og gjöldum íbúa rennur ekki nógu mikið til grunnþjónustunnar þar sem biðlistavæðingin hefur orðið einkennismerki borgarstjóra. Þetta finna þeir sem hana þurfa á sínu skinni, nema þeir auðvitað sem hafa þurft að flýja borgina vegna húsnæðisskortsins. Börn eru send heim úr leikskólum vegna manneklu, úrræðaleysis og svefninum mikla sem meirihlutinn í Reykjavík er orðinn uppvís að. Langtímalausnir eru engar, aðeins er um skammtímalausnir að ræða.
Viðhaldi eigna borgarbúa er ekki sinnt, rányrkjan er þar líka. Þrátt fyrir að búið sé að innheimta fyrir viðhaldi eignanna þá hafa þeir fjármunir ratað eitthvað annað. Hvert, er ekki nokkur leið að átta sig á. Jæja, jú stöðugildum hefur fjölgað gríðarlega frá árinu 2010 og þeim fylgir auka milljarður eða svo í launaútgjöldum, því miður er ekki hægt að svara því skýrt því ekkert verkbókhald er til.
Loforðin um húsnæðið eru orðin tóm, þrátt fyrir að kynnt hafi verið að nú sé stefnan að fjölga íbúðum um helming og ýta dagsetningunum inn í óráðna framtíð. Samtök iðnaðarins benda á að áætlanir standist ekki enn, en þau hafa bent á það hvað eftir annað að þær standist alls ekki. Á meðan flýja fjölskyldur borgina á kostnað okkar hinna sem búum þar.
Virðing fyrir fjármunum borgarbúa er ekki mælanleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)