Bloggfærslur mánaðarins, september 2016
6.9.2016 | 15:49
Kafbátastjórnun par excellence
Ótal hagræðingarhópar en engin svör
Rætt er um skólamálin í borgarstjórn. Borgarstjórnarmeirihlutinn telur að vitlaust sé gefið milli ríkis og sveitarfélaga og telur það upp sem helstu skýringuna á því þegar kemur að neyðarástandi því sem skapast hefur í skólum landsins. Vísað er í að ríkið hafi ekki komið að borðinu með hinar og þessar leiðréttingar en hvergi er minnst á þær tekjur sem borgin hefur fengið í því bjarta efnahagsástandi sem nú ríkir. Hvergi er heldur minnst á þær tekjur sem borgin fær langt fram yfir önnur sveitarfélög af fasteignagjöldum hótela og tekjur af annarri ferðaþjónustu.
Fyrir einu ári síðan var ljóst að meirihlutinn gat ekki svarað hvernig hann vildi fara í nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir. Eina svarið var að málið yrði skoðað og sett í nefnd en ítrekað var lofað að grunnþjónusta yrði ekki skert. Við umræður í borgarstjórn kemur sárlega skýrt í ljós að úrræðaleysi borgarstjórnarmeirihlutans er mikið.
Ég get ekki séð betur en að þessir starfshópar hafi verið stofnaðir á tímabilinu:
Stýrihópur Reykjavíkurborgar um hagræðingaraðgerðir (2016)
Hagræðingarhópur miðlægrar þjónustu (2016)
Hagræðingarhópur Skóla- og frístundasviðs (2016)
Hagræðingarhópar - fyrir öll önnur svið (líka 2016))
Áhættustýringarhópur vegna fjármálalegrar áhættu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í innri þjónustu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í ytri þjónustu (2016)
Starfshópur um hagræðingaráherslur í fjármálaþjónustu (2016)
Þessir voru að störfum frá fyrra tímabili:
Starfshópur um gjaldskrárstefnu (2014)
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar (2014)
Starfhópur um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar (2015)
Starfshópur um rýningu á innri leigu hjá Reykjavíkurborg (2015)
Fyrir utan þessa hópa hafa 43 hópar verið stofnaðir sérstaklega vegna Skóla- og frístundasviðs frá 2014. Þeir sem snúa að hagræðingarmálum eru þessir:
Starfshópur um fjármála skóla- og frístundasviðs (2014)
Starfshópur um hagræðingu vegna orkusparnaðar á starfsstörfum Skóla- og frístundasviðs (2016)
Starfshópur um húsnæðismál og húsnæðiskostnað (2016)
Starfshópur um eftirfylgd með umbótum í leikskólum - grunnskólum og frístundastarfi í kjölfar niðurstaðna ytra mats (2016)
Jú það má segja að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur staðið sig vel í að setja málin í nefnd. Ég leyfi mér að kalla þetta kafbátastjórnun par excellence. Öllu dembt í nefndir svo hægt sé að segja að einhver annar beri ábyrgð á málinu. Á meðan er lallað um og því hávært haldið fram að ekki sé verið að skerða grunnþjónustu. Jæja en nú er tjaldið fallið. Skólastjórnendurnir drógu frá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)