Bloggfærslur mánaðarins, september 2015
27.9.2015 | 11:20
Eigum við ekki að gera betur? - svar til borgarstjóra
Í kjölfar föstudagsviðtals Fréttablaðsins við undirritaða hefur borgarstjóri farið mikinn til að verja velferðarþjónustu borgarinnar, þó hún hafi fengið falleinkunn hjá notendum þjónustunnar vegna stífra ramma, seinagangs og biðlista eins og má til dæmis sjá í þjónustukönnunum. Hann bendir ekki á nýjar lausnir. Hann virðist vilja reka kerfið óbreytt þrátt fyrir að ýmsir aðilar eins og hagsmunasamtök fatlaðra og aldraðra kalli ítrekað á breytingar.
Grunnþjónusta, eins og hún hefur verið skilgreind, til dæmis stuðningur inn á heimili og barnavernd, á að vera greidd úr borgarsjóði, um það er ekki ágreiningur. Í dag næst ekki að þjónusta alla og biðlistar eru einkennandi. Borgarfulltrúar ættu að geta verið sammála um að markmiðið sé að minnsta kosti að veita lögbundna þjónustu og helst að bæta hana.
Nýtt fjármagn verður um þessar mundir ekki sótt í borgarsjóð. Meirihlutinn rekur hann með stórfelldum halla. Ef Dagur vill bæta velferðarþjónustuna með hefðbundnum leiðum þarf hann að spara rækilega annars staðar. Þetta hefur honum ekki tekist. Eini kosturinn er því að leita nýrra leiða til að ná betri árangri, þjónusta fleiri og ná meiri hagkvæmni.
Útúrsnúningur í stað umræðu
Dagur grípur til þess gamalkunna ráðs að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og ráðast síðan á þær. Hann heldur því blákalt fram að hugmyndir Sjálfstæðisflokksins gangi út á að spara með því að takmarka þjónustuna. Fólk eigi von á verri þjónustu auk þess sem það muni þurfa að borga meira úr eigin vasa fyrir grunnþjónustuna. Hvorugt er rétt.
Við viljum þvert á móti finna lausnir til að fá meira fjármagn til velferðarmála almennt, og auka skilvirkni án þess að fólk greiði meira fyrir grunnþjónustuna en það gerir í dag. Enginn er að tala um að draga úr þjónustu. Hins vegar er hægt að auðvelda fólki að sækja sér viðbótarþjónustu. Þannig má draga úr álagi á núverandi velferðarkerfi og stytta bið.
Af hverju einkageirinn?
Góð reynsla er af sjálfstæðum rekstri grunnþjónustu annars staðar á Norðurlöndum. Þar þótti mikil ástæða til að leyfa fólki að njóta þeirra kosta sem sjálfstæðari og sveigjanlegri þjónustueiningar hafa upp á að bjóða. Það er ein ástæða þess að norræna velferðarkerfið, sem Dagur og flokkssystkini hans hafa nánast sem krossmark uppi á vegg, er það skilvirkasta í heimi. Einkarekstri í grunnþjónustu hefur verið tekið fagnandi bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu, eins og var til dæmis rakið í úttekt The Economist á norræna velferðarmódelinu fyrir nokkrum misserum. Fé fylgir þörf og þeir sem reka þjónustueiningar geta ekki valið sér viðskiptavini heldur velur viðskiptavinurinn þjónustuaðilann. Þannig má koma í veg fyrir að þeim efnameiri standi annað til boða en þeim efnaminni hvað grunnþjónustuna varðar.
Reynsla nágrannalandanna sýnir að einkaaðilar sýna alls ekki síðri þjónustulund en opinberir enda eiga þeir allt undir því að reksturinn fái hljómgrunn hjá notendum. Sveigjanleiki og skilvirkni er meiri í einkarekstri en opinberum. Staðreyndin er einnig sú að nýsköpun og þróun gengur mun hraðar fyrir sig hjá einkaaðilum.
Einkaframtak í velferð
Hér á landi eru líka dæmi þess að einkafyrirtæki hafi tekið að sér grunnþjónustu með góðum árangri. Hjúkrunarheimilið Sóltún, heimaþjónustan Sinnum ehf, heilsugæslan í Salahverfi og heimaþjónustufyrirtækið Karitas, sem sinnir langveikum, eru góð dæmi um einkarekstur í velferðarþjónustu, þar sem grunnþjónusta er greidd af almannafé. Þessi fyrirtæki eru ekki síðri hluti velferðarkerfisins en opinber þjónusta.
Útboð verkefna hvetur fyrirtæki til að sækja fram innan þessa geira. Þannig má styðja við þá þróun að fleiri velferðarfyrirtæki líti dagsins ljós. Hluti rekstursins getur verið að sinna grunnþjónustu en einnig verður til frelsi og hvati til að bæta við og þróa nýja þjónustu sem getur skilað okkur betri og hagkvæmari framtíðarlausnum.
Alvarleg staða í Reykjavík
Fyrir hverra hönd talar borgarstjórinn þegar hann útmálar hugmyndir um aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu sem einhvers konar mannvonsku? Slíkar hugmyndir hafa átt fylgi að fagna í hans eigin flokki; þegar Ágúst Ólafur Ágústsson var varaformaður Samfylkingarinnar talaði hann til dæmis fyrir útboðum í velferðarþjónustu og kallaði það kreddur að vilja ekki samþykkja slíkt ef það lækkaði kostnað og bætti jafnvel þjónustuna. Björt framtíð, sem situr í meirihluta með Degi, samþykkti á dögunum á landsfundi stefnu um fjölbreytt rekstrarform í velferðarmálum. Einn helsti talsmaður flokksins í þeim málum sagði þá að hún myndi ekki finna sig í flokki sem hafnaði einkaframtakinu. Og telur Dagur sig tala fyrir þann stóra hóp sem þarf þjónustu borgarinnar, fær hana seint eða ekki og myndi taka nýjum lausnum fagnandi?
Staðan í Reykjavík er alvarleg. Í fjármálunum stefnir í stórkostlegt óefni. Sá vandi mun hafa veruleg áhrif á þjónustu við borgarana. Það er sjálfsögð krafa að borgarstjóri skýri frá því hvernig hann vill bregðast við. Vonandi verður það með því hugarfari að taka nýrri hugmyndafræði vel í stað þess að verja stöðnun. Eða er hann búinn að gefast upp?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2015 | 09:02
Ný sýn á staðnaða þjónustu
Svona þegar borgarfulltrúar meirihlutans eru tilbúnir til að fara að sinna sínu hlutverki og ræða eigið fjármálaklúður þá eru hér mikilvæg málefni.
Velferðarþjónusta Reykjavíkurborgar hefur staðnað og fylgir ekki þörfum samtímans. Í dag er nauðsynlegt að fyrir hendi sé sveigjanleg þjónusta, sem er veitt á forsendum notenda. Í stað pappírsvinnu og biðlista þarf skjót viðbrögð og aðgerðir. Velferðarþjónustu borgarinnar stendur ógn af því hve lítinn áhuga meirihlutinn sýnir þessum mikilvæga þætti í starfi Reykjavíkurborgar.
Í stefnu og framkvæmd meirihlutans hefur ekki verið lögð áherslu á að aðstoða fólk til sjálfshjálpar. Afleiðingin lýsir sér meðal annars í svo kallaðri veikleikavæðingu. Stefnuleysi meirihlutans skilar lakari árangri og þjónustan er dýrari en ella.
Vísbendingar um að núverandi fyrirkomulag gangi ekki upp eru fjölmargar. Fjölgun aldraðra hefur verið staðreynd í fjöldamörg ár. Þörfum aldraðra og fatlaðra um sveigjanlegri og persónulegri þjónustu hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Stuðningsþjónusta er í uppnámi í mörgum tilfellum og biðlistar staðreynd. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að ekki hefur verið horft til nýsköpunar og fjárfestingar til að koma breytingum af stað. Og framundan eru blikur á lofti. Óvíst er hvort hæft starfsfólk fáist til að starfa á þessum vettvangi, laun eru lág og starfsumhverfi ábótavant. Vinna þarf að því að gera störfin eftirsóknarverðari.
Þrátt fyrir að meirihlutinn hafi nýtt sér heimildir til álagningar útsvars út í æsar er borgarsjóður rekinn með halla. Meirihlutinn sparar ekki gæluverkefnin en á sama tíma er lögbundnum verkefnum ekki sinnt sem skyldi. Augljóslega þarf að auka framlag til velferðarmála.
Ný nálgum nauðsynleg
Til að ná betri árangri þarf að breyta framkvæmd velferðarþjónustunnar í grundvallaratriðum. Það er misskilningur að borgarstarfsmenn einir geti veitt þá þjónustu sem þarf að vera fyrir hendi. Velferðarþjónusta á að vera almenn og sjálfsögð. Auðvelda þarf aðgengi að þjónustunni og hvetja þarf fólk til að nýta hana tímalega og koma þannig í veg fyrir að vandamálin hlaðist upp og verði lítt viðráðanleg og mun kostnaðarsamari. Til að auka fjölbreytni og faglega þjónustu má auðvelda fagfólki utan borgarkerfisins að bjóða upp á hana.
Kostirnir eru margir, meðal annars eftirfarandi:
1. Útboð. Bjóða þarf út þjónustu þannig að fyrirtæki geti tekið að sér að veita grunnþjónustu, að uppfylltum sambærilegum kröfum og gerðar eru innan borgarkerfisins. Greiðslur fyrir að sinna slíkri þjónustu kæmu úr borgarsjóði. Eins má sjá fyrir sér að hópar eða teymi fólks, jafnvel teymi innan borgarkerfisins geti tekið að sér verkefni með þessum hætti.
2. Nýsköpun. Nýir aðilar sem koma að þessum verkefnum eru mun líklegri til að aðlaga þjónustu að viðskiptavinum sínum og finna bestu leiðir að settu marki. Mun meiri líkur eru því á nýsköpun og betri lausnum.
3. Meira einkafjármagn. Fyrirtæki, sem taka að sér grunnþjónustu, eru líkleg til að fara í enn meiri þróun og bjóða upp á valkvæða þjónustu. Fjármagn til velferðarþjónustunnar eykst.
4. Eftirsóknarvert starfsumhverfi. Tækifæri skapast til að bæta starfsumhverfið, hækka laun og laða að sér gott starfsfólk. Minna fé fer í dýrar yfirbyggingar.
5. Aukin ánægja með þjónustuna. Sá sem vill þjónustu velur hvert hann leitar. Slíkt leiðir til meiri ánægju með þjónustuna, en eins og margir vita hefur Reykjavíkurborg komið einstaklega illa út úr þjónustukönnunum undanfarin ár.
6. Styttri bið og minni tímasóun. Með þessu fyrirkomulagi má sporna við þeirri þróun að langir biðlistar myndist. Notendur fá meira val. Því fleiri sem nálgast fyrr þá þjónustu sem hentar, þeim mun betra og skilvirkara verður velferðarkerfið.
7. Aukin vitund um velferð. Hverfa þarf frá þeirri stefnu að aðeins þeir sem verst eru staddir noti velferðarþjónustuna. Slík þjónusta á að vera jafn almenn og heilbrigðisþjónusta. Þörfinni er mætt fyrr, forvarnir virka betur og þeim fækkar sem komast í þá stöðu að geta ekki bjargað sér.
Ný nálgun er nauðsynleg. Breyting í framangreinda átt hefur verið gerð annars staðar til dæmis á Norðurlöndum. Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur meirihlutinn í Reykjavík ekki sýnt þessum lausnum áhuga. Spjótin standa á þjónustunni í Reykjavík. Fráfarandi borgarfulltrúi meirihlutans, formaður velferðarráðs til margra ára hefur skýrt frá því að hafa ekki verið sannfærður um gæði hennar. Hvenær, ef ekki þá, er kominn tími til skoða nýjar leiðir og lausnir? Ekki stendur á fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Við höfum undanförnum árum lagt fram fjölda tillagna til úrbóta. Hefjumst nú handa og göngum til verks.
Grein birtist í Morgunblaðinu 21.9.2015
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)