Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014
Eftirfarandi fréttatilkynning fór frá borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins í gær eftir umræður um ályktunartillögu meirihlutans um að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB. Sjálfstæðismenn lögðu fram aðra eftirfarandi tillögu sem var felld.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeim vilja sem fram hefur komið að ná sem breiðastri sátt um næstu skref í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Með því getur Alþingi leitast við að vinna gegn þeirri tortryggni, sem einkennt hefur umræðuna um málið frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hóf aðildarviðræður á árinu 2009 án þess að vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Trúverðugleiki borgarfulltrúa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins er lítill þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum í ljósi þess m.a. að mótmæli 70.000 einstaklinga gegn því að Reykjavíkurflugvöllur yrði færður úr Vatnsmýrinni í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur voru höfð að engu fyrir fáeinum mánuðum. Eins var farið með mótmæli foreldra vegna sameiningar skóla í Reykjavík.
Ítrekuð er sú stefna borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins að vinna að niðurstöðum allra mála í góðri sátt við borgarbúa og að vísa ákvörðunum í mikilvægum málum til þeirra og er Alþingi hvatt til að kanna allar leiðir sem færar eru til að vinna í víðtæku samráði.
Tillagan var felld með 10 atkvæðum gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2014 | 18:14
Svigrúm óskast - "Hótel mamma" segir upp
Pólitísk töf
Lítið annað þarf en pólitískan vilja til þess að hætta að tefja uppbyggingu. Á einkamarkaðinum hafa fullskapaðar hugmyndir um góðar lausnir litið dagsins ljós. Lítið virðist ganga við endurskoðun byggingarreglugerðar og meirihlutinn í Reykjavík leggur áherslu á að miðstýra verkefni sem búið er að leysa í stað þess að einbeita sér að því að hleypa uppbyggingunni af stað. Uppbygging á kjörtímabilinu hefur verið kjánalega lítil auk þess sem algjörlega hefur verið vanmetið hversu margar íbúðir eru nú leigðar til ferðamanna og standa íbúum ekki lengur til boða. Talið er að hér sé um allt að 1500 íbúðir að ræða.
Hversu lengi á að bíða?
Til styttri tíma mætti til dæmis sjá fyrir bráðabirgðalausnir á borð við smáhýsalausn sem kynnt var fyrir nokkrum dögum eða þá að gefa hugmyndum þeirra sem unnið hafa að lausnum til að mæta eftirspurn eftir minni og ódýrari íbúðum byr undir báða vængi. Arkitektar, hönnuðir og byggingaraðilar hafa ekki setið aðgerðalausir heldur unnið að lausnum sem horfa ætti til.
Hægt væri að byggja upp slíkar íbúðir með stuttum fyrirvara fengjust lóðir við hæfi. Með slíkri innspýtingu gæti síðan fjöldi ungs fólks komið sér upp heimili í litlum og vistvænum íbúðum. Árangursríkast er að láta einkamarkaðinn um að anna eftirspurninni og einbeita sér að því að reglugerðir og tafir ríkis og borgar verði ekki til þess að gera vandamálið enn stærra. Einkaaðilar áætla að hægt væri að bjóða 35 fermetra stúdíóíbúðir á um 80 þúsund krónur á mánuði miðað við núverandi verðlag fái þeir sveigjanleika til þess að hefja uppbyggingu. Þess ber að geta að það er í raun ódýrt verð ef miðað er við það leiguverð sem Reykjavíkurborg innheimtir fyrir félagslegar íbúðir. En þar er leiguverð fyrir 40 fermetra á milli 60-100 þúsund krónur.
Einföldum málin
Nauðsynlegt er að stórauka lóðaframboð í Reykjavík. Til að auka fjölbreytileika bygginga á hinum nýju lóðum væri skynsamlegast að endurskoða núverandi fyrirkomulag lóðaverðs, falla frá þeirri stefnu sem nú gildir að lóðaverð miðast ekki einungis við fermetrafjölda fasteignar heldur fjölda íbúða í hverri fasteign. Verð lóðar hækkar þannig með hverri íbúð sem við bætist. Þetta hindrar í raun uppbyggingu minni íbúða. Þar að auki er mögulegt að skapa aukna hvata á fasteignamarkaði til minni tilkostnaðar við byggingu fasteigna, hagkvæmara söluverðs og lægra leiguverðs með því að lækka verulega lóðagjöld í Reykjavík. Með fyrrnefndum breytingum yrði dregið úr hindrunum sem eru nú í vegi þeirra sem vilja byggja ódýrari og minni íbúðir fyrir ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, fjölskyldur sem eru að koma upp sínu fyrsta heimili eða aðra hópa sem ekki finna húsnæði við hæfi.
Höfnum skammtastefnunni
Heilbrigð blanda af skammtíma og langtímaaðgerðum í húsnæðismálum ungra Reykvíkinga, þar sem lagt er upp með að leyfa einstaklingsframtakinu að blómstra og mynda þannig fjölbreytta og vistvæna byggð, er leiðin til árangurs. Höfnum húsnæðisskömmtunarstefnunni og setjum frekar fjölbreytileikann í forgang og veitum markaðnum svigrúm til að bregðast við nýrri eftirspurn.
Bloggar | Breytt 16.3.2014 kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2014 | 11:50
Ekki nóg að fara með fögru orðin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)