Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Áhugaleysi meirihlutans í Reykjavík

Fé fylgi þörf – einnig til aldraðra og fatlaðra 

Meirihlutinn í Reykjavík er áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu þjónustunnar í Reykjavík til skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé algjörlega nauðsynlegt til þess að hægt verði veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð. Ljóst er að ánægja með þjónustuna stenst hvergi samanburð við önnur sveitarfélög og gagnrýni hagsmunaaðila er áberandi.

Óheillaþróun
Mikil skortur á þjónustu einkennir málefni fatlaðra, aldraðra og annarra sem þurfa aðstoð.  Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem er þess eðlis að  notandinn getur ákveðið hvar, hvernig og hvenær hún skuli veitt  í stað þess að hann sætti sig við það skipulag sem hannað er á skrifstofum borgarbatteríisins.  Fatlaðir með mikla þjónustuþörf hafa verið á biðlista eftir húsnæði vegna þess að  búseta í tilteknu húsnæði hefur virst eina leiðin til þess að þeim bjóðist nauðsynleg þjónusta. Þessi  óheillaþróun hefur þrýst á um að  útbúið sé sérstakt húsnæði þar sem þjónusta við einstaklinga fylgir eftir tilskildum reglum. Þetta kerfi krefst mikillar uppbyggingar, er svifaseint og mjög kostnaðarsamt og langir biðlistar myndast. Það sama á við um þjónustu á heimilum. Reykjavíkurborg hefur ekki verið í stakk búin til að mæta þeirri þörf af nægilega mikilli skilvirkni, biðlistar eru langir og notendur sem vilja búa í eigin húsnæði en engu að síður með þörf fyrir þjónustu geta ekki treyst því að borgin stígi inn þrátt fyrir mikla þörf. Dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða mánuðum saman eftir stuðningsþjónustu heim.

Burt með biðlistana
Ávísanakerfi eins og notað er í leikskólum borgarinnar þar sem fé fylgir barni hefur reynst vel. Fé fylgir þannig barni til þess skóla sem foreldrar velja. Slíkt kerfi þar sem fé fylgir þeim sem þurfa á þjónustu að halda er gott fyrirkomulag. Þannig geta notendur ákveðið sjálfir hvert skuli leita og velja þá þjónustuaðila sem þeir telja að sinni best þörfum þeirra. Þannig má einnig koma í veg fyrir að fólk sitji  fast á biðlistum eftir þjónustu. Reyndar hefur þetta verið notað í Reykjavík í ákveðnum tilvikum en umsókn að slíku er ekki aðgengileg né gilda um hana sérstakar reglur þetta er því frekar undantekning en hitt. Um leið og ávísanakerfi er innleitt þarf ekki lengur að bíða eftir því að umsetnar stofnanir borgarinnar geti séð um  viðkomandi heldur má leita til annarra þjónustuaðila sem hafa áhuga á því að sinna fólki á þeirra eigin forsendum. Þeir aðilar sem sinna slíkri þjónustu geta boðið fólki upp á fjölbreyttari þjjónustu og veitt notendum meira val.

Aukum skilvirkni þjónustunnar
Sumir trúa því að einkarekstur sé af hinu illa því að aðilar vilji græða í viðskiptum. Þeir trúa því að  aðeins hið opinbera geti veitt góða þjónustu.  Slíkar hugmyndir eiga ekki við rök að styðjast og nauðsynlegt er að láta þær ekki  koma í veg fyrir eðlilega framþróun.  Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi er rekinn af einkaaðilum. Víða hefur gengið vel í þeim efnum. Þrátt fyrir linnulausan hræðsluáróður gegn því að einkaaðilar taki að sér slíkan rekstur er athyglisvert að síðustu ríkisstjórn þótti engin ástæða til að draga úr því fyrirkomulagi. Í Svíþjóð hefur ávísunarkerfi reynst vel. Nú þrýsta hagsmunasamtök á um breytingar. Breytingar sem hafa í för með sér að lögð sér áhersla á sjálfsákvörðunarrétt fólks, ekki sé lögð áhersla á hópalausnir, dregið sé úr stofnanahugsun og miðstýringu. Lausnirnar eru til og hafa verið notaðar með góðum árangri.

 

Meirihlutinn í Reykjavík sýnir hins vegar  enga tilburði til að gera nauðsynlegar breytingar og virðist hræddur, hræddur við að breyta, hræddur við að útfæra þjónustu á annan hátt til að auka skilvirkni. Mjög nauðsynlegt er að fá þeirri afstöðu breytt. Hlusta þarf á kröfur notenda, gera breytingar svo hægt sé að koma til móts við þær og tryggja betri þjónustu í Reykjavík hratt og örugglega. 

Grein birtist í Morgunblaðinu í morgun 25. september 2013 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband