Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Flóknara og dýrara kerfi

Seint í gærkvöldi var fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2014 samþykkt. Hér er bókun okkar sem fylgdi í kjölfarið. 

Of mikil skattheimta, skuldasöfnun og útþensla kerfisins á kostnað almennings er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokks og Samfylkingar á kjörtímabilinu. Enda þótt meirihlutinn hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að draga gjaldskrárhækkanir til baka er fjárhagsáætlun 2014 engin undantekning. Eitt fyrsta verk vinstri meirihlutans var að leggja hámarksútsvar á Reykvíkinga og hækka ýmsar aðrar álögur. Sú skattahækkun er nú fest enn frekar í sessi.

Sífellt vaxandi kostnaður sýnir að aðhald og ráðdeild skortir í rekstri Reykjavíkurborgar. Fjórar viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi borgarinnar frá árinu 2010, sem hafa leitt til flóknara og dýrara kerfis.

Á síðasta kjörtímabili var borgarsjóður rekinn með rekstrarafgangi þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar á síðari helmingi þess. Frá  því núverandi meirihluti tók við völdum í borgarstjórn, hefur borgarsjóður hins vegar verið rekinn með halla.

Það er áhyggjuefni fyrir alla borgarbúa að frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs tvöfaldast. Að meðaltali er skuldaaukning hreinna skulda 6,5 milljarðar á ári, eða 750 þúsund krónur á hverja klukkustund frá því að Samfylking og Besti flokkur mynduðu meirihluta í borgarstjórn.  Skuldir hafa aukist um meira en 26 milljarða eða 115% og enn hyggst meirihlutinn halda áfram á braut skuldasöfnunar. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2014 mun borgin auka enn frekar skuldir sínar og skuldbindingar á næsta ári.

Núverandi meirihluti hefur lagt mikla áherslu á að sækja stöðugt meira fé til borgarbúa og ganga á ráðstöfunartekjur þeirra, fremur en að líta sér nær og hagræða í kerfinu. Þessar miklu hækkanir á kjörtímabilinu hafa kostað meðalfjölskyldu í Reykjavík 403 þúsund krónur á ári.

Það frumvarp að fjárhagsáætlun, sem meirihlutinn lagði fram í lok október, byggðist á gjaldskrárhækkunum er áttu sér ekki hliðstæðu meðal annarra sveitarfélaga. Talsmenn launafólks bentu á að gjaldskrárhækkanirnar hefðu bitnað harðast á barnafjölskyldum, öryrkjum og einstæðum foreldrum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu gjaldskrárhækkanirnar og viðbrögð í samfélaginu við málflutningi þeirra voru mjög sterk. Í framhaldi af þessu hefur meirihluti borgarstjórnar dregið gjaldskrárhækkanir til baka. Í stað þess að bregðast við með því að hagræða í kerfinu vegna minni tekna, eru framlög til málaflokka aukin og afleiðingunum fleytt inn í framtíðina.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband