Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Á réttri leið?

Því er haldið fram að jöfnuður náist í ríkisrekstrinum á yfirstandandi fjárlagaári í fyrsta skipti frá hruni. Það vekur bjartsýni hjá mörgum enda erum við öll orðin langeyg eftir betri tíð. Það veldur þess vegna miklum vonbrigðum að skyggnast ofan í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2013 og sjá að þessi jákvæða spá stendur á brauðfótum.

Í raun hafa tekjur ríkissjóðs verið meiri en áætlað var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tapið vegna endurreisnar bankana minna. Ríkisstjórnin nýtti það rými sem þannig myndaðist til að fresta umsömdum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Í stað þess að vinna að umbótunum eins og til stóð var ákveðið að setja þær á ís en hækka laun og bætur. Endurgreiðslu skulda er frestað að sama skapi og hlýtur það að vera mörgum hugsandi mönnum áhyggjuefni.

Vandanum ýtt á aðra.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir enn meiri tekjum með hækkun skatta og gjalda. Veiðigjaldinu hefur verið komið á, tryggingagjald mun hækka eins og fjársýsluskattur. Þá er gert ráð fyrir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og vörugjalds á bílaleigur. Áhrif skattahækkana á atvinnulífið eru sniðgengin þrátt fyrir viðvaranir sérfræðinga. Til viðbótar á að selja eignir og þar er horft til sölu banka.

Áætlað er að útgjöld aukist í heildina, sum muni minnka og önnur aukast. Hér vegur þungt að ríkisstjórnin byggir á því að kostnaður vegna atvinnuleysis muni minnka gríðarlega. Staðreyndin er hins vegar sú að kostnaðurinn vegna atvinnuleysis hverfur ekki, þótt honum sé ýtt alfarið yfir á sveitarfélögin. Miðað við viðbrögð sveitarfélaganna og Vinnumálastofnunnar er mjög líklegt að þessi sparnaður sé óraunsær og muni aldrei standast. Þá verðum við að horfast í augu við það að vegna afleiðinga hrunsins stöndum við frammi fyrir gífurlegum félagslegum vanda. Þúsundir eru á framfæri sveitarfélaganna og rannsóknir benda til þess að sá hópur sem engin tækifæri hefur fengið á vinnumarkaði glími við mikla félagslega og sálræna erfiðleika sem einhvern veginn þarf að mæta. Skattahækkanir á ferðaþjónustu hafa verið gagnrýndar stórlega og þykja ekki líklegar til að skila ríkisstjórninni þeim tekjum sem hún býst við. Þá er það einnig stór óvissuþáttur að samkvæmt frumvarpinu mun Íbúðalánasjóður ekki fá framlag vegna eiginfjárskorts þrátt fyrir neyðaróp stjórnenda sjóðsins.

Auka þarf fjárfestingar.

Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Bæði íbúðahúsnæðisfjárfestingar og fjárfestingar ríkisins eru á botninum þó enn logi á ljóstýru hjá atvinnuvegunum. Steingrímur er kampakátur með að fjárfestingarnar í Búðarhálsvirkjun og Álverinu í Straumsvík sem að sjálfsögðu eru að skila honum „réttu“ tölunum inn í fjárfestingarhlutfallið og þakkar sér og ríkisstjóninni fyrir. Þessar framkvæmdir voru of langt á veg komnar svo að ekki var hægt að fella þær undir verndar- og orkunýtingaráætlun. Umhverfisráðherra náði því ekki að setja klærnar í þær. Steingrímur hefur gjarnan vísað í spá Íslandsbanka um hagvöxt á næsta ári. Spá Íslandsbanka gerir hins vegar ráð fyrir að framkvæmdir við Helguvík komi inn af fullum þunga og er engan veginn eins björt ef svo er ekki eins og greint er frá í fréttum helgarinnar. Fjárfestingar í öðrum atvinnugreininum eru mjög litlar. Þá vekur það ekki traust að gera ráð fyrir að stórum tekjuauka af sjávarútvegi þegar hlutlausir ráðgjafar sem ríkisstjórnin fékk til að meta áhrifin töldu að greinin myndi vart þola þær álögur. Það sama gildir um ferðaþjónustuna.

Við viljum öll að hér sé allt á réttri leið. Engan veginn er hins vegar hægt að sjá að áherslur þessarar ríkisstjórnar muni skila okkur í höfn. Ósanngjarnar skattahækkanir munu að sjálfsögðu skila tekjum í ríkissjóð um sinn, en mun líklegra er að þær tefji fyrir því að atvinnulífið nái sér á strik. Aukin skattheimta á atvinnulífið á að skila tekjum til að réttlæta aukin útgjöld í verkefni, sem ríkisstjórnin telur að henti henni vel kosningabaráttunni. Sem betur fer gera flestir sér grein fyrir því að framundan eru óvissutímar hér á landi sem annars staðar. Þess vegna er nauðsynlegt að vinna af mun meiri krafti að hagræðingu í ríkisrekstri og létta byrðum af atvinnulífinu til að skapa grundvöll fyrir varanlegar framfarir Takist það erum við fyrst á réttri leið.


Þjóðinn fær að ráða - eða hvað?

Niðurstaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir. Meirihluti vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Túlka má þessa niðurstöður sem stuðning við að lagðar séu fram tillögur eins og stjórnlagaráðið hefur gert. Engan veginn er þó hægt að segja að niðurstöðurnar séu skýr skilaboð um að allar greinar eigi að vera samkvæmt tillögunum sérstaklega í ljósi þess að ein tillagan var felld eða tillagan um þjóðkirkju. Þjóðin er því á heildina með en gefur sér greinilega rétt til að vera ósammála einstaka greinum.

Í því ljósi held ég að það sé undarlegt að þingmenn Samfylkingar ætli að túlka niðurstöðuna á þá leið að fyrir utan það eina atriði sem ekki var samþykkt eigi að fylgja tillögum stjórnlagaráðs efnislega.


Er lýðræði klikkun?

Í gær birti DV frétt með fyrirsögninni "þetta er ekkert annað en þöggun". Stórkostleg fyrirsögn eins og þeim er lagið.

Tilefnið var að Margréti nokkurri Tryggvadóttur þingmanni Hreyfingarinnar fannst ótækt og klikkað að fulltrúar í menningar - og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar legðu fram fyrirspurn um ástæðu þess að útfærð hafði verið fundarröð um kosningarnar 20. október þar sem þau Eiríkur Bergmann og Sigríður Ólafsdóttir svöruðu spurningum fundarmanna.

Fyrir liggur og þekkt er að bæði Eiríkur og Sigríður eru á þeirri skoðun að þeim finnst að samþykkja eigi tillögur stjórnlagaráðsins. Fyrir liggur einnig að fjölmörgum þykir það ekki góð hugmynd. Af þeim ástæðum fannst fulltrúum í menningar- og ferðamálaráði eðlilegt að leita skýringa á þessu og um leið koma á framfæri þeirri skoðun sinni að mikilvægt væri að ólík sjónarmið hefðu talsmann á fundum sem opinberar stofnanir halda. 

Maður myndi ætla að slíkt ætti ekkert skylt við þöggun heldur frekar lýðræði.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband