Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
31.5.2011 | 23:25
Að takast á við félagslega vanda í Reykjavík
Fjöldi þeirra sem fær fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hefur aukist um 30% milli ára og um 70% ef bornar eru saman tölur fyrstu ársfjórðunga þessa árs og ársins 2010. Þeir sem njóta aðstoðarinnar eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hafa misst réttinn til bóta eða geta ekki verið á vinnumarkaði af einhverjum ástæðum. Margir eru síðar greindir sem öryrkjar og fá þá greiðslur úr almenna lífeyristryggingakerfinu. Þá eiga námsmenn, sem hafa ekki verið á vinnumarkaði, ekki heldur rétt á atvinnuleysisbótum. Nú njóta 1700 manns fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. U.þ.b. 70% þeirra eru 40 ára og yngri og þeim fjölgar mun hraðar en hinum eldri. Þetta er alvarleg þróun, sem krefst þess að við stöldrum við, rýnum ástandið og leitum nýrra leiða.
Hækkun bóta og skilyrði um virkni.
Grunnfjárhæð til framfærslu hækkaði um síðustu áramót í Reykjavík. Tekist var á um þessa hækkun. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hækkaði bætur án þess að skoða hvernig leggja mætti enn þyngri áherslu á virkniúrræði. Mun betri leið hefði verið að umbuna þeim, sem geta og vilja taka þátt í virkniverkefnum í stað þess að greiða bætur út skilyrðislaust. Með því hefði borgin mótað hvetjandi kerfi öllum til góðs.
Við sjálfstæðismenn höfum verið talsmenn þess að gera ætti kröfur til þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, á sama hátt og gerðar eru kröfur til þeirra sem njóta atvinnuleysisbóta en þeir þurfa að vera í virkri atvinnuleit og með því er fylgst. Engar slíkar kröfur eru gerðar til þeirra, sem fá fjárhagsaðstoð borgarinnar, fólki er boðin ráðgjöf og aðstoð sem margir þiggja ekki. Þennan hóp þarf að okkar mati að hvetja af meiri krafti til að hann öðlist reynslu og hæfni til að komast út á vinnumarkaðinn og verjast þeim doða og vonleysi, sem langvarandi aðgerðarleysi getur haft í för með sér. Annars staðar á Norðurlöndum hafa menn séð mikilvægi þess að forsenda bóta sé að vera virkur og taka þátt.
Breyttar aðstæður krefjast aðlögunar og nýrra úrræða.
Þegar félagslegir erfiðleikar eru til staðar hjá einstaklingum og fjölskyldum, opnast dyr að kerfi, sem bætir verulega fjárhagsstöðu þeirra og veitir aðgang að lausnum sem öðrum bjóðast ekki. Hér er t.d. um að ræða sérstakar húsaleigubætur, úthlutun félagslegs húsnæðis og aðgengi að heimildargreiðslum á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar.
Mikil ásókn er að komast yfir "félagslegu línuna" eða viðmiðin þ.e. að teljast vera í félagslegum vanda enda er eftir nokkru að slægjast. Svokallaðar sérstakar húsnæðisbætur eru 1.300 kr. fyrir hverjar 1.000 krónur, sem viðkomandi fær í húsaleigubætur og geta þær samanlagt orðið mest 70.000 kr. á mánuði eða 75% af leiguverði. Oft á tíðum gengur illa að finna leiguhúsnæði á almennum markaði, þannig að fólk leitar til sveitarfélagsins. Til þess að eiga rétt á félagslegu húsnæði er þörfin metin út frá aðstæðum hvers og eins, bæði félagslegum og fjárhagslegum. Dæmi eru til um að framtak og frumkvæði til öflunar húsnæðis komi í veg fyrir aukinn rétt til bóta. Og fljótt sér fólk að það borgar sig lítið að nota sjálfsbjargarviðleitnina.
Nauðsynlegt er að velferðarkerfið breytist í takt við þann vanda, sem því er ætlað að leysa. Vinnumarkaðurinn er gjörbreyttur, atvinnuleysi í borginni er u.þ.b. 10% (þegar atvinnulausir á fjárhagsaðstoð eru taldir með) og laun hafa lækkað verulega. Gæta þarf þess að sá hópur sem fær fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu vegna atvinnuleysis festist ekki í viðjum hins félagslega kerfis. Mikilvægt er að því fólki standi öflug vinnumarkaðsúrræði til boða og ríkið tryggi rétt þeirra til vinnumiðlunarúrræða. Breyta þarf fjárhagsaðstoðarreglunum Reykjavíkurborgar, þannig að hægt sé að umbuna þeim sem vilja taka þátt í samfélagsverkefnum eða öðrum virkniúrræðum og ekki ætti að teljast eðlilegt að krefjast einskis frá bótaþegum. Ekki er verið að tala um að allir fái launuð störf heldur að þeir finni sér verkefni sem hentar áhuga þeirra og hæfni. Þetta má gera í samstarfi við hjálparstofnanir, hagsmunafélög, skóla og aðra aðila. Slík þátttaka hvetur fólk til að koma sér út úr aðstæðum, sem það annars festist í til langs tíma. Aðalatriðið er að fólk sem getur bjargað sér sjálft festist ekki í viðjum félagslega kerfisins. Félagslega kerfið er byggt upp til þess að hjálpa þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir eða hafa lent tímabundið í áföllum og nú er nauðsynlegt að verja það vegna gjörbreyttra aðstæðna á vinnumarkaði.
Greinin hér að ofan birtist í morgunblaðinu mánudaginn 30. maí 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2011 | 08:34
Árangur Hönnu Birnu og fyrrverandi meirihluta
Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs fyrir árið 2010 var réttu megin við núllið eða skilaði 1.472 m.kr. hagnaði og sýnir svo ekki verður um villst að fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluti var á réttri braut.
Það sem er svo merkilegt við þetta er að meðan hvaðanæva að streyma ábendingar um hversu slæmt það er að skattpína fyrirtæki og almenning í því ástandi sem nú einkennir efnahagslífið þá hefur núverandi meirihluti hins vegar farið þá leið til hins ítrasta. Borgarsjóður skilar hagnaði á fyrra ári án skattahækkana og án þess að gjöld hafi hækkað, en hins vegar lagði nýji meirihlutinn áherslu á að nú yrði að skattapína til að vinna gegn slæmri stöðu borgarinnar, borgarsjóður skilar nú meira en skattahækkanirnar munu skila borgarsjóði á næsta ári. Á meðan störfin í einkageiranum þurfa að halda úti 2,5 manneskjum á þann hátt að með hverju starfi í einkageira gefst möguleiki á að halda úti 1,5 til viðbótar í opinbera geiranum (hvort sem um er að ræða launamenn eða þá sem þurfa að lifa á opinberum styrkjum) þá er þetta varhugaverð stefna. Velferðarkerfið byggir á atvinnurekstri - hvet ykkur til að lesa skoðun Viðskiptaráðs Íslands sem kom út nú fyrr í maí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)