Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Af fundi OR og afstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Set hér inn fréttatilkynningu Sjálfstæðisflokksins eftir fund stjórnar OR á föstudaginn:

Á stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag ákvað meirihluti stjórnar að hækka gjaldskrá á íbúa um 28,5 prósent í einu lagi.  Á sama fundi  var afgreidd tillaga um 25% niðurskurð hjá fyrirtækinu, auk þess sem á fundinum var lagður fram árshlutareikningur fyrirtækisins sem staðfestir batnandi afkomu þess í samræmi við áætlanir.

Eins og komið hefur fram telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að tækifæri til hagræðingar hjá Orkuveitunni séu til staðar, þrátt fyrir að nú þegar hafi tekist að hagræða um 850 milljónir a ársgrundvelli. Vegna þess styðja fulltrúar flokksins tillögur meirihlutans um hagræðingu, en ítreka mikilvægi þess að útfærsla þess liggi fyrir sem fyrst.

Frá september 2008 hafa gjaldskrár OR haldist óbreyttar í samræmi við sameiginlegan vilja borgarstjórnar um að standa vörð um hagsmuni almennings við erfiðar og óvissar aðstæður í íslensku efnahagsumhverfi og láta ekki allan vanda fyrirækisins bitna á íbúum.  Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir því að þannig yrði það áfram út þetta ár, en að því loknu tæki gildi áætlun um hófsamar og áfangaskiptar gjaldskrárhækkanir til næstu 3-5 ára.  Með þvi móti væri hægt að endurskoða árlega hvort þörf væri á gjaldskrárhækkunum.  Slík áætlun hefði þjónað íbúum og fyrirtækinu, enda lá fyrir að slík áætlun fullnægði óskum lánveitenda og þeir hefðu skilning á þeirri afstöðu eigenda að íbúar gætu ekki einir og sér tekið að sér að leysa skammtímavanda fyrirtækisins með hækkun um tugi prósentna sem öll tæki gildi á sama tíma.

Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins hefur verið skýr og í samræmi við það greiða fulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn tillögu meirihlutans um afar harkalega gjaldskrárhækkun sem öll tekur gildi strax, enda gengur sú aðgerð gegn hagsmunum almennings og mun hækka reikning meðalfjölskyldu um tugi þúsunda á ári.  

Úr bókun Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag:


Eftir bankahrun var ákveðið að hækka ekki gjaldskrár í Reykjavík vegna yfirvofandi erfiðleika fjölskyldna heldur að ná niður kostnaði með hagræðingu og gilti sú stefnumótun einnig um Orkuveituna. Umrætt hagræðingarátak hefur skilað um 850 milljónum króna  innan OR og á grundvelli þess hefur m.a. verið hægt að standa við samþykktir borgarstjórnar um frystingu gjaldskrár. Það hefur hins vegar ætíð verið ljóst að slík gjaldskrárfrysting gæti aðeins varað tímabundið og að fyrr eða síðar þyrfti að hækka gjaldskrár að nýju. Ekki skal dregið í efa að hækka þarf gjaldskrá Orkuveitu verulega en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja þunga áherslu á að slíkri hækkun sé stillt í hóf eins og kostur er í því skyni að verja hagsmuni heimila Reykjavík ásamt því að nýta batnandi rekstrarárangur OR í þessu skyni, eins og fram kemur í fyrirliggjandi árshlutauppgjöri.

Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að hækka gjaldskrána í áföngum, t.d. á 3-5 árum með það að markmiði að tryggja áframhaldandi greiðsluhæfi Orkuveitunnar en tryggja um leið að almenningur taki ekki á sig of mikla hækkun í einu. Meðan á slíku hækkunarferli stæði, ætti um leið að leita allra leiða til að hækka orkuverð til almennings sem minnst með því að halda áfram þeirri hagræðingu sem staðið hefur innan fyrirtækisins og leita leiða til að losa Orkuveituna undan einhverjum af þeim fjárskuldbindingum, sem á henni hvíla, t.d. með verkefnafjármögnun einstakra virkjana og/eða virkjanaáfanga.


Ný aðgerðaráætlun kallar á alvöru samvinnu

Jón Gnarr efast um hæfni sína til að vinna með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna telur að það hljóti að vera eðlilegt að fá að tjá afstöðu sína í ýmsum málum án þess að því sé tekið persónulega.

Borgarstjóri er í nýju starfi sem felst í því að vinna með hópi fólks. Hópurinn skiptist í tvennt. Þeir sem telja sig kjörna vegna þeirra pólitísku málefna og leiða sem þeir lofuðu að fylgja næðu þeir kjöri og hinna sem taka ekki jafn alvarlega þau málefni eða loforð sem notuð voru í kosningabaráttunni og voru frekar kjörnir persónukjöri í einhverri mynd. Auðvelt er að sjá að hér geta menn lent í ýmsum árekstum.

Til þess að komast yfir þessa erfiðleika er tímabært að reyna að ná pólitískri/ persónulegri sátt um hvaða stefnu eigi að taka á næstunni. Þetta var gert á síðasta kjörtímabili með frábærum árangri og þar náðist að skila borgarsjóði hallalausum án þess að skerða grunnþjónustu, án þess að hækka verðskrár og án þess að segja upp fólki.

Nú þarf nýja aðgerðaáætlun. Sumir segja að fitan í kerfinu hafi þá verið næg en það sé nú orðið magurt og því gangi ekki að fylgja línunum í fyrri aðgerðaáætlun. Aðrir telja enn af nógu að taka. Nú er verkefnið að ná sátt um þessar stóru línur með alvöru samvinnu.

 


OR - Súrar einhliða hækkanir á íbúa

Orkuveitan er skuldsett, langmest stafar sú skuldsetning af því að fyrirtækið skuldar erlend lán en hefur ekki erlendar tekjur á móti. En einnig vegna þess að á sínum tíma tóku stjórnendur fyrirtækisins þá stefnu að fara út fyrir kjarnastarfsemi sína og taka upp mun víðtækari fjárfestingarstefnu sem leiddi til þess að farið var út í ýmsar misvitrar fjárfestingar sem ekki hafa skilað nægu tilbaka. Sú stefna hefur nú verið leiðrétt og sátt  er um að Orkuveitan haldi sig við þá kjarnastarfsemi að veita vatni og rafmagni til notenda. Enn blasir þó við að stjórnendur Orkuveitunnar þurfa að hagræða gríðarlega til að koma fyrirtækinu í gegnum þetta erfiða tímabil. En hvernig er réttlátt og sanngjarnt að gera það? Minnka umsvif og skera niður í starfseminni eða senda reikninginn til íbúa?

Einhliða hækkanir á íbúa - súr lausn

Hanna Birna skrifar góða grein í Morgunblaðið í morgun sem ég hvet fólk að lesa. Eins og hún segir þar var afstaða til þessara mála algjörlega skýr. Hvað Orkuveituna varðaði þurfti að skoða hvernig draga mætti úr umsvifum fyrirtækisins og hagræða í rekstrinum og samhliða því að hækka verðskrár hóflega. Þar sem öllum hækkunum var frestað á tímabilinu 2008 - 2010 er ljóst að það þurfti að minnsta kosti að taka tillit til verðlagshækkana en það yrði aldrei gert eitt og sér heldur yrðu hagræðingaraðgerðir í rekstrinum skoðaðar samhliða. Það er engin sanngirni í því að íbúar fái ekki að heyra hvaða aðrar hagræðingartillögur eru til umræðu ef þeir eiga að greiða reikninginn.

Aðgerðaráætlun í pólitískri sátt skilaði hallalausum borgarsjóði

Frá því 2008 var aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sáttaplagg um það hvernig borgaryrirvöld sáu fyrir sér að vinna sig út úr bankahruninu. Þar var ákveðið í pólitískri sátt að leysa ekki fjárhagsvandræði borgarinnar eða fyrirtækja hennar með því að seilast í vasa íbúa heldur leita annarra leiða. Þessi vinna gekk vonum framar eins og þjóð veit og borgarsjóður rekin hallalaus síðan þá.

Aðgerðaráætlunin - Hver er afstaða Samfylkingar og Besta flokks? 

Þrátt fyrir samvinnuvilja liggur ekkert fyrir um hver afstaða meirihlutans er til aðgerðaráætlunarinnar sem allir flokkar stóðu að baki fyrir kosningar. Sú sátt sem þar náðist er því í uppnámi. Borgarbúar eiga heimtingu á að fá skýr svör. Væri ekki ágætt að fara að taka á þessu - það er september í næstu viku!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband