12.9.2017 | 09:18
Hvar er umferðarstjórnunin?
Það er eins og umferðarstjórnun sé ekki til í Reykjavík. Ákvarðanir um framkvæmdir virðast teknar algjörlega óháð því hvenær umferðarálag er mest. Í mörgum borgum er til eitthvað sem heitir umferðarstjórnunarstöð sem vinnur að því að kortleggja og stýra umferðinni til að bæta umferðarflæði en þetta virðist algjörlega vanta hér í borginni. Reyndar er það ekki svo skrítið þegar haft er í huga að aðgerðarleysi í umferðarmálum er eitt meginverkefni núverandi borgarstjórnar.
Ekkert gert til að veita upplýsingar á aðgengilegan hátt til þeirra sem ferðast um í borginni. Nú þegar tæknin ætti einmitt að leyfa slíkt á einfaldari hátt en aldrei fyrr virðist lítill áhugi á því. Til eru upplýsingar sem mætti nota til þess til dæmis þær upplýsingar sem Google safnar. Gera ætti íbúum kleift að sjá fyrir hversu lengi þeir verða á leiðinni í gegnum borgina eftir því hvenær dags er farið svo að þeir sem hafi tækifæri til geti tekið ákvörðun um að fara fyrr eða seinna en þegar mesta álagið er.
Í síðustu viku lögðum við Sjálfstæðismenn í borginni fram tillögu um slíkar úrbætur og bíður hún afgreiðslu hjá umhverfis- og samgönguráði. Tillagan fjallar um að leggja til við umhverfis - og skipulagsráð að borgarbúum verði gert kleift að skoða lifandi upplýsingar um umferð á helstu stofnleiðum borgarinnar á vef borgarinnar eða í sérstöku smáforriti. Ferðatími á annatíma í borginni er gríðarlega misjafn og getur jafnvel tekið hátt í klukkutíma að fara frá Grafarvogi niður í miðbæ á mesta álagstíma. Sama kerfi getur skilað upplýsingum um tafir vegna viðgerða eða lokana. Mikilvægt er að aðstoða fólk við að sjá þessar upplýsingar á aðgengilegan hátt svo það í auknum mæli taki ákvarðanir um að forðast mesta álagstímann og nota ætti öll tiltæk ráð til þess.
Athugasemdir
Hérna, ágæti borgarfulltrúi, veit að það styttist í prófkjör og svo kosningar.
Situr þú ekki sjálf, þá sem annar tveggja pólitískra stjórnarmanna í stjórn OR, sem einmitt á Veitur ( bara minnihlutinn sem lætur sína borgarfulltrúa í stjórn á meðan meirihlutinn fær til þess utanaðkomandi aðila, jafnvel færari, hver veit) ?
Var ekki tilkynnt á stjórnarfundi eða mögulega hægt að fá upplýsingar um hversvegna nú boðaðar framkvæmdir á Kringlumýrarbraut væru að frestast fram í erfiðan umferðarmánuð ?
Kom það ekki skýrt fram líka í fréttum í gær ?
Er kappið alveg að fara með ykkur í minnihlutanum ?
Sigfús Ómar Höskuldsson, 12.9.2017 kl. 13:43
jú mikið rétt ég sit í stjórn OR en það kemur málinu einfaldlega ekkert við. Hvorki OR né Veitur hafa neitt með umferðarmál í Reykjavík að gera. Veitur hafa reyndar sér stjórn, svona til upplýsinga.
Tillaga okkar fjallar um að borgin ætti að beita sér fyrir því að draga fram betri upplýsingar um umferð. Þegar um stórar og fyrirferðamiklar framkvæmdir er að ræða eins og til dæmis þá sem nú er í gangi við Kringlumýrarbraut ætti að sjálfsögðu að reyna að stýra henni inn á minni álagstíma. Framkvæmdir geta einnig verið ófyrirséðar og þá væri það sjálfsagt hlutverk Reykjavíkurborgar að koma upplýsingum um hvernig best væri að ferðast og á hvaða tímum til almennings.
Áslaug Friðriksdóttir, 12.9.2017 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.