1.12.2014 | 09:28
Fjárfestum í nýsköpun og velferðartækni
Eitt brýnasta mál Reykjavíkurborgar nú er fjárfesta í nýsköpun, rannsóknum og innleiðingu tækni í velferðarmálum í Reykjavík. Verkefnunum velferðarþjónustunnar fjölgar því fyrirséð er mikil fjölgun notenda og þar eru aldraðir stærsti hópurinn. Fyrirkomulagið sem rekið er í dag mun ekki geta mætt þörfum íbúa inn í næstu framtíð. Mikilvægt er að hefja óumflýjanlegt breytingaferli, búa til jarðveg fyrir nýsköpun í þjónustunni og fjárfesta í tæknilausnum og rannsóknum.
Við sjálfstæðismenn óskuðum eftir umræðu um þetta mál í borgarstjórn á dögunum enda teljum við að ástandið sé orðið þannig að ekki verði beðið lengur með að fara af stað með verkefni sem löngu eru tímabær og eru til þess fallin að skila okkur betri leiðum til að fást við aukna þjónustuþörf. Algjörlega ljóst er að við þurfum að fjárfesta í breytingarferlinu, það mun ekki gerast af sjálfu sér.
Nýsköpun í velferðarþjónustunni
Mikil þörf er á að fjárfesta í tilraunaverkefnum á nánast öllum sviðum velferðarþjónustunnar. Öll stefnumótun í málaflokknum er þess eðlis að verkefnið blasir við. Brjóta þarf upp þjónustu sem veitt er með stofnanalegum hætti . Horfa verður á þarfir einstaklinga í stað þess að bjóða upp á þjónustu sem fyrirfram er steypt í mót. Oft er það svo að þarfir kerfisins eru teknar fram fyrir þarfir einstaklingsins vegna þess að lítið er um leiðir til að mæta þeim sem ekki hentar þjónustan sem í boði er.
Af einhverjum völdum býr drifkraftur nýsköpunar frekar hjá einkaaðilum en hinu opinbera því miður. Í sjálfu sér ættu því opinberir aðilar að reyna að innleiða það umhverfi sem fýsilegast er til að ná fram meiri grósku. Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og breyta því sem fyrir er. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Við eigum ekki að sætta okkur við umhverfi sem hamlar eða hefur neikvæð áhrif á hana.
Undanfarin ár hafa ný stjórnunarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms. Markmiðið er að breyta umhverfi starfsfólks þannig að það sé meiri þátttakendur í þróun vinnunnar en áður því þannig megi ná mun betri árangri. Þessar nýju hugmyndir hafa farið sigurför um heiminn og fjöldi fyrirtækja hefur innleitt þau vinnubrögð með góðum árangri. Hugmyndin byggir á mun meira samstarfi fólks á vinnustað en gengur og gerist, byggir á að ná hraðar utan um betri ferla, koma hraðar auga á ýmis vandamál og úrbætur, byggir á mikilli teymisvinnu, allir í hópnum eru jafnfrjálsir til að leggja breytingar til málanna og allar hugmyndir eru velkomnar. Í slíku umhverfi er talið að mikil gróska muni eiga sér stað. Í stað þess að óbreyttir starfsmenn bíði eftir upplýsingum frá stjórnendum um verklag, fáist þeir sjálfir við að finna bestu lausnirnar. Þessir starfsmenn þekkja oft notendur betur og hafa betri innsýn inn í hvaða þjónustu þarf í raun og veru. Mjög mikilvægt er að fá einmitt þetta starfsfólk inn í umbreytingarferlið og breyta starfsumhverfi þeirra svo það geti gerst.
Velferðartækni
Rétt eins og nýsköpunarumhverfið getur breytt miklu fyrir Reykjavíkurborg mun velferðartækni einnig geta gert það. Með innleiðingu alls kyns tækja og búnaðar geta fatlaðir og aldraðir átt miklu meiri og betri möguleika til að lifa sjálfstæðu lífi.
Velferðatækni hefur verið skipt upp í fjögur meginsvið, öryggisbúnað, tæki til að bæta fyrir missi og styðja við bætta líðan, tækni til félagslegra samskipta og tæki til þjáfunar og umönnunar. Ástæða er til að gera sérstakt átak í innleiðingu ýmissrar nýrrar tækni. Dönsk stjórnvöld hafa til dæmis ákveðið að setja málið í algjöran forgang og tala um að þörf sé á byltingu í velferðartækni. Aðrar Norðurlandaþjóðir feta í þeirra fótspor, Ísland af litlum mætti. Í Danmörku er búið að ákveða að setja tugi milljarða í sjóði sem auðvelda eiga innleiðingu nýrrar tækni einmitt til að gera fólk sjálfstæðara en líka til að bæta ferla. Dæmi um alls kyns nýja velferðartækni sem er í notkun eru róbótar, sjálfhreinsandi salerni, ýmis tækni til að auðvelda eftirfylgd með sjúkum, hreyfiskynjarar til fylgjast með ferðum fólks t.d. þeirra sem eru með minnisglöp eða þeim sem kjósa það frekar en að hafa næturvakt á staðnum. Þá hefur fjöldi fyrirtækja verið að nýta hefðbundna samskiptatækni til að gera samskipti á milli fólks auðveldari t.d. smíðað sérstakt viðmót fyrir aldraða eða þá sem eiga við minnisglöp að etja. Þróun og smíði alls kyns smáforrita í snjallsíma getur einnig nýst afar vel. Eins og annars staðar á Norðurlöndum þarf tækni til að takast á við stærstu félagslegu áskorun sem okkar samfélög hafa staðið frammi fyrir. Án þess að aðhafast drögumst við ennþá meira afturúr eða það sem enn er verra, við siglum í þrot.
Eitt mikilvægasta mál samfélagsins í dag er að okkur takist að koma upp gróskumiklu umhverfi fyrir nýsköpun í velferðarmálunum og jafnframt styðja við þá nýsköpun með tækninni. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í breytingarferlinu sjálfu. Tillögur okkar sjálfstæðismanna liggja fyrir og nú er að sjá hvort meirihlutinn tekur undir.
Grein birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2014
Athugasemdir
Nýsköpun og velferðartækni eru mikilvægir hlutir og þurfa allan stuðning til að þróast. Þar er þýðingarmest að samgöngur séu sem bestar og til þess þarf flugvelli og fólk sem styður við flugvelli en ekki eins og þig sem kaust að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Mistök þín og fleiri Sjálfstæðismanna verða lengi munuð. Ykkar afstaða leiðir til þess að flokkurinn kemst alldrei yfir ca 30% fylgi. Hvernig ætlið þið að ná til flokksins fólki sem er 90% þjóðarinnar með þessari eindregnu andstöðu ykkar við skoðanir þessa hóps?
Örn Johnson, 1.12.2014 kl. 22:33
Það að vilja ekki skoða aðrar lausnir en til staðar eru getur ekki verið farsælt undir neinum kringumstæðum. Mikill ágreiningur er uppi um flugvallarmálið og því var Rögnunefndinni komið á fót. Hún leiðir í ljós hver staða mála er og hvort aðrir möguleikar eru til staðar.
Áslaug Friðriksdóttir, 2.12.2014 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.