Hjartans mál hægri feminista

Á hádegisverðarfundi Landssambands sjálfstæðiskvenna í gær á Nauthóli var rætt um framtíð og tækifæri í ferðamálum, með áherslu á að konur létu í auknu mæli til sín taka við stofnun nýrra fyrirtækja í greininni. Í erindum kom fram að áhersla og eftirsóknarverður vöxtur í ferðaþjónstu tengist helst heilsu- og menningartengdri þjónustu. Sú áhersla er í takt við rannsóknir Ferðamálastofu sem sýna að það sé einmitt sú upplifun sem gestir okkar eru tilbúnir til að borga fyrir og einnig kröfur okkar um að veita þjónustu sem skilar meiri virðisauka.
 
Á þessum fundi var ég með erindi um ferðaþjónustuna og konur. Þar fjallaði eg um þau  gríðarlega miklu tækifæri sem fólgin væru í þeim vexti sem hefur orðið í ferðaþjónustunni. Stefna Reykjavíkurborgar í ferðamálum hefur mikla skírskotun til áhugamála kvenna, s.s. heilsu og menningartengd ferðaþjónusta og ég tel að kvenfrumkvöðlar eigi sérstaklega mikil tækifæri þar. Mikilvægt er að fá konur til að takast á við frumkvöðlastarfið, öðlast reynslu og verðmæta innsýn í stjórnun. Þannig er raunhæfast að auka hlut kvenna í stjórnunarstörfum og þetta á við í ferðaþjónustu sem og í öðrum greinum! Þetta er hjartans mál okkar hægri feminista.
 
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, fór yfir hinn ævintýralega vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár. Það að fjöldi ferðamanna stefni í 1 milljón ferðamanna jafnvel á þessu ári eða því næsta er eitthvað sem var óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan. Minntist hún aðalfundar samtakanna frá árinu 2001 sem bar yfirskriftina: „Ein milljón ferðamanna árið 2015.“ Á þeim fundi var farið yfir hvað þyrfti að gera til að geta tekið á móti slíkum fjölda. Að byggja upp vegagerð var einn af þeim þáttum sem menn sáu strax að væri áríðandi að vinna að ásamt öðrum innviðum.
 
Því miður hefur uppbygging innviða ekki gengið eftir sem skyldi þó svo að aukning ferðamanna hafi vaxið ár frá ári. „Þá er áhersla á einföldun og endurskoðun regluverks, uppbygging innviða sem og aukin menntun og gæðavitund í greininni forgangsverkefni okkar hjá SAF næstu misserin ásamt því að vinna að farsælli lausn í gjaldtökumálum. Það er ljóst að það verður að byggja upp í kringum helstu náttúruperlur okkar ásamt því að búa til nýja segla. Langflestir ferðamenn koma út af náttúrunni, þessari takmörkuðu auðlind sem er á mörgum stöðum þegar komin að þolmörkum. Tækifæri landeiganda og ferðaþjónustunnar í heild sinni liggja ekki síst í því að byggja upp frekari virðisaukandi þjónustu á svæðunum,“ sagði Helga á fundinum.
 
Eva María Þórarinsdóttir Lange, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Pink Iceland sagði frá hugmyndafræði fyrirtækisins sem sérhæfir sig í upplifun og afþreyingu fyrir samkynhneigða sem aðra. Skýr stefna fyrirtækisins er grundvölluð á margra ára reynslu Evu og hugmyndavinnu sem er að skila sér í vel úthugsaðri stefnu og vali á viðskiptavinum.  Eva María sagði að “ör vöxtur og of mikil græðgi væri veikleiki okkar í dag og nauðsynlegt að horfa á gæðin, menntaða starfsmenn og að Íslendingar allir væru þátttakendur í að veita gestum okkar góðar móttökur”.
 
Landsamband sjálfstæðiskvenna leggur mikla áherslu á auka hlut kvenna í stofnun og rekstri fyrirtækja.  Næsti hádegisfundur sambandsins verður 20. maí á Nauthóli og fjallar um tækifæri í rekstri fyrirtækja í þjónustu sem nú er í höndum hins opinbera.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband