Ekki nóg að fara með fögru orðin


Fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fór ég fyrir umræðu um aðgengismál á borgarstjórnarfundi í gær. Algjörlega er til skammar er að borgin sé ekki komin lengra í aðgengismálum og hægt er að gagnrýna seinagang meirihlutans við að skipa fólk í átakshóp umhverfis- og samgönguráðs sem einmitt átti að fjalla um áherslur og verkferla um bætt aðgengi en sú tillaga var samþykkt fyrir sex mánuðum síðan. 

Borgin hefur gefið skýringar og svör við gagnrýni hagsmunaaðila á frágang við Hverfisgötu og hluti skýringanna er að húseigendur hafi ekki beðið um að aðgengi að húsum yrði bætt - en slíkar beiðnir yrðu samþykktar ef þær skertu ekki gæði götunnar. 
 
Það gengur ekki upp að setja aðgengismál í stefnuskrár og fara um þau fögrum orðum en þegar kemur að framkvæmd þá beri einhverjir aðrir ábyrgðina á því að breytingar nái í gegn. Ég efast um að allir þeir sem við Hverfisgötuna búi eða stunda verslun viti hvaða loforð eða sáttmála borgarstjórn hefur samþykkt. Ekki er hægt að vísa ábyrgðinni til húseigenda. Þrátt fyrir að húseigendum beri að kosta ákveðin hlut framkvæmda samkvæmt núgildandi reglum getur borgin ekki komið sér hjá því að hún hefur það hlutverk að stuðla að því að þær framkvæmdir verði að veruleika. 
  

Nokkur umræða varð í borgarstjórn að skökku skyti að borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna vildu að Reykjavíkurborg kæmi að framkvæmdum hjá einstaka íbúum. Slíkt er útúrsnúningur, því hægt er að stuðla að og hvetja til aðgerða með kynningu og samráði, og einnig er mikil ástæða að ræða hið stóra grundvallarmál um forgangsröðun eða af hverju þyki eðlilegt að gefa afslátt af kröfum um aðgengi á meðan algjörlega sjálfsagt að setja snjóbræðslukerfi í götur. Þess má geta að kostnaðurinn við endurnýjun götunnar er um milljarður króna.

Bókun okkar: 
 „Mjög mikilvægt er að huga að aðstæðum allra þegar götur borgarinnar í eldri hverfum eru endurnýjaðar. Við endurgerð gatna skapast tækifæri til þess að færa ferlimál fatlaðra til nútímans. Það eru sjálfsagt og stórt mannréttindamál sem borgin á að beita sér fyrir og taka frumkvæði að. 
 
Sjálfsagt er að vinna með þeim sem eru fatlaðir, samtökum þeirra og félögum þegar leitað er leiða til að gera betur. Auk þess er nauðsynlegt að gera þeim sem vilja gera úrbætur á húsnæði sínu kleift að nýta tímann þegar framkvæmdir eiga sér stað að gera breytingar í leiðinni eða kynna fyrir aðilum hvaða leiðir eru færar. Við endurgerð Hverfisgötu virðist alveg hafa gleymst að leita eftir samráði.

Fyrir nokkrum mánuðum var tillaga um sérstakan átakshóp um aðgengi samþykkt í umhverfis og skipulagsráði, að frumkvæði Sjálfstæðismanna í því ráði en meirihlutinn hefur ekki séð sér fært að ákveða skipun hópsins þrátt fyrir að um það bil hálft ár sé liðið frá því tillagan var lögð fram.“
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband