30.11.2010 | 15:43
Aukin útgjöld barnafjölskyldna um 100 til 150 þúsund
Ekki hægt að finna neitt skapandi eða öðruvísi í fjárhagsáætlun Besta flokks og Samfylkingar - stenst engar væntingar, íbúar gjalda og kerfinu er hlíft!
Fréttatilkynning fór til fjölmiðla frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík dag hér eru glefsur úr henni:
Hækkanir á öllum sköttum og gjöldum í Reykjavík
Barnafjölskyldur þurfa að taka á sig 100 til 150 þúsund á ári í útgjaldaaukningu
Besti flokkurinn og Samfylkingin lögðu fram sína fyrstu fjárhagsáætlun á borgarstjórnarfundi í dag.
Því miður fer meirihlutinn þá leið að senda reikninginn á borgarbúa í stað þess að fara nýjar leiðir eins og Besti flokkurinn lagði áherslu á í kosningabaráttu sinni.
Allir skattar sem hægt er að hækka eru hækkaðir, öll gjöld sem hægt er að hækka eru hækkuð og engar nýjar leiðir eru farnar. Stuðst er við gamaldags aðferðir kerfisins á kostnað fólksins. Augljóst er að meirihlutann skortir yfirsýn yfir verkefnið, meginlínur eru óskýrar og framtíðarsýn og forgangsröðun er ábótavant.
Tilviljanakenndar gjaldskrárhækkanir og vannýtt tækifæri til samráðs við hagræðingu bera þessu glöggt merki. Er það þá besta leiðin að auka álögur, leita ekki samráðs við starfsmenn og borgarbúa og að skera lítið sem ekkert niður í miðlægri stjórnsýslu?
Skattahækkanirnar eru sögulega háar og sú lækkun sem fasteignaeigendur í borginni hefðu átt að njóta vegna lækkunar fasteignamats er þurrkuð út með hækkunum á fasteigna- og lóðasköttum.
Skattahækkanir eru eftirfarandi: · Útsvarsprósentan úr 13,03% í 13,20%, · Fasteignaskattar úr 0,214% í 0,240% · Lóðarleigaúr 0,08% í 0,2% Auk þess eru gjaldskrárhækkanir að jafnaði 5-40% á meðan hagræðing í miðlægri stjórnsýslu er eingöngu 4,5 %.
Kerfinu er því hlíft en borgarbúar látnir gjalda fyrir það.
Ekki má gleyma hækkunum Orkuveitunnar í haust þar sem reikningur meðalfjölskyldu í Reykjavík hækkaði um 30.000 kr. á ári.
Systkinaafsláttur á leikskólum er lækkaður úr 100% í 75% sem hefur veruleg áhrif á barnafjölskyldur og frístundagjöld eru hækkuð um 20% svo eitthvað sé nefnt.
Fyrir barnafjölskyldu í Reykjavík geta því aukin útgjöld 2011 numið allt frá 100 til 150 þúsund kr. á ári * Svo miklar hækkanir munu leiða til þess að enn meira þrengir að hjá fjölskyldufólki og einkaneysla og atvinnulíf í borginni dregst saman.
Leiðin sem farin er - er afleit og sú leið sem flest lönd í kringum okkur vilja ekki fara sökum þess að hún hægir enn frekar á umsvifum í samfélaginu og lengir kreppuna. Þau lönd sem eru að ná árangri hafa einbeitt sér að því að auka tekjur og minnka álögur á íbúa til þess að koma hagkerfinu af stað.
Ákvörðun hefur verið tekin í Reykjavík um að fara leið ríkisstjórnarinnar og reyna að skattleggja sig út úr kreppunni. Það er margsannað að við aukna skattheimtu breytir fólk neyslumynstri og lifnaðarháttum til þess að laga sig að breyttu umhverfi. Sú fjárhæð, sem áætlað er að ná með því að fara þá leið, næst því aldrei.
Borgarsjóður skilaði afgangi síðastliðin tvö ár og lausafjárstaða er gríðarlega sterkTölurnar tala sínu máli um góðan árangur fyrrverandi meirihluta síðastliðin tvö ár, borgarsjóður stendur betur en nokkru sinni fyrr og skilaði afgangi síðastliðin tvö ár og rekstur samstæðunnar mun skila um 20 milljörðum í hagnað 2010.
Lausafjárstaða er í sögulegu hámarki eða 17,1 milljarður sem er 145.000 kr. á hvern íbúa í Reykjavík á meðan hún er 75.000 kr. á íbúa í Garðabæ og 49.000 kr. í Kópavogi. Reykvíkingar hljóta að spyrja hvers vegna skattar á þá hækki á sama tíma. Það hefði verið hægt að hagræða töluvert meira í borgarkerfinu með því að halda áfram að nota þær nýstárlegu aðferðir sem innleiddar voru eftir hrun og fengu alþjóðlega viðurkenningu.
Hagræðingarkrafan nú er 5 milljarðar og einungis þriðjungur þess er vegna samdráttar í tekjum. Í stað þess að skera niður í kerfinu er farið í töluvert af nýjum verkefnum en 2/3 af hagræðingunni og niðurskurðinum er vegna kostnaðarauka.
Betra hefði verið að halda áfram með skýra forgangsröðun í þágu borgarbúa, draga enn frekar saman í miðlægri stjórnsýslu, fresta nýjum útgjaldaliðum og nýta reynslu og þekkingu starfsfólk og íbúa - tillögur þeirra spöruðu á síðasta ári umtalsvert meira fé en skattahækkanir meirihlutans nú. Slík forgangsröðun hefði verið fyrir fólkið en ekki kerfið.
*miðað er við 2-3 börn, fasteignamat 2010 íbúðar 24 milljónir kr. á húsnæði og laun á mánuði samtals 700 þúsund kr. Skattar og gjöld eru: Leikskólagjöld, skólamáltíð, sorphirða, fasteignaskattar, lóðagjöld, útsvar, gjödl frá Orkuvietunni, frístund, síðdegishressing, sund, fjölskyldu - og húsdýragarður, menningarkort og sumarnámskeið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.