Borgarstjóri gerir skrifstofustjóra borgarstjóra að æðsta embættismanni

Á borgarráðsfundi í dag var tillaga borgarstjóra samþykkt um að gera skrifstofustjóra borgarstjóra að æðsta embættismenni stjórnkerfis Reykjavíkurborgar að borgarstjóra undanskildum. Undir sviðstjóra heyra nú öll fagsviðin og stoðsviðin.

Eftirfarandi heyra þá ekki lengur beint undir borgarstjóra: sviðsstjórar framkvæmda- og eignasviðs, menningar- og ferðamálasviðs, leikskólasviðs, menntasviðs, ÍTR, skipulagssviðs, umhverfis- og samgöngusviðs og velferðarsviðs. Ennfremur borgarhagfræðingur, fjármálastjóri, forstöðumaður upplýsingatæknimiðstöðvar, innkaupastjóri, mannauðsstjóri, mannréttindastjóri og þjónustustjóri.

Sjálfstæðismenn í stjórnkerfisnefnd borgarinnar óskuðu eftir því að leitað yrði eftir umsögnum þeirra embættismanna sem nú heyra beint undir borgarstjóra, um fyrirliggjandi tillögu um umfangsmikla breytingu á ábyrgðarsviði borgarstjóra og samskiptum þeirra við hann en heyrst hefur að þar séu menn ekki sáttir. Þá vildu Sjálfstæðismenn einnig að nýja staða yrði auglýst, enda um æðstu stöðuna í borgarkerfinu að ræða, að undanskildum borgarstjóra.

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins felld með 4 atkvæðum gegn 3.

Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Eitt af helsta kosningaloforði Samfylkingar var að auglýsa allar stöður - en það var auðvitað bara kosningaloforð eða hvað?

 

Hér fyrir neðan eru fleiri bókanir um þetta mál af fundinum í dag:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óska bókað:

Sú tillaga sem hér liggur fyrir felur í sér miklar breytingar á skipan æðstu embætta borgarinnar, auk þess sem hér er raunverulega um að ræða nýtt starf sem ætlað er að minnka ábyrgðarsvið borgarstjóra.

Það er augljóst að auglýsa þarf umrætt starf, enda segir í tillögunni að viðkomandi embættismaður skuli verða ,,æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að borgarstjóra undanskildum.

Það vekur því mikla furðu að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar skuli hafa fellt tillögu um slíkt og má telja víst að í því felst brot á samþykktum borgarinnar, auk þess sem það er brot á því loforði sem umræddir flokkar gáfu borgarbúum í samstarfsyfirlýsingu sinni, þar sem sagt var að allar stöður yrðu auglýstar.

Á þeim stutta tíma sem þessir flokkar hafa verið við völd hefur hins vegar í þrígang verið ráðið í viðamiklar stjórnunarstöður án auglýsingar og alltaf með þeim sömu skýringum að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða.

Það er einfaldlega ekki viðunandi að við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi, þar sem stór hópur hæfileikaríks fólks gengur um án atvinnu, skuli meirihlutinn í Reykjavík ganga fram með þessum hætti.

Þessi aðgerð, sem felur í sér að mikið af ábyrgðarsviði borgarstjóra er fært yfir á annan embættismann borgarinnar, vekur einnig upp spurningar um hvort borgarstjóri sé að víkja sér undan ákveðnum skyldum og ábyrgð í sínu starfi.

Borgarstjóri hefur hingað til borið ábyrgð og verið yfirmaður rúmlega 20 embættismanna. Sú tenging, sérstaklega hvað varðar rekstur málaflokka og fjármál, hefur verið talin nauðsynleg til að tryggja að borgarstjóri standi vaktina gagnvart þjónustu við íbúa og sé vel upplýstur um allt er því viðkemur.

Nú fer þetta vald til þegar ráðins skrifstofustjóra í Ráðhúsinu, sem hvorki var kosinn af borgarbúum né ber sérstaka ábyrgð gagnvart þeim. Hér er því á ferðinni tillaga sem breytir starfi borgarstjóra umtalsvert og slíkt getur meirihlutinn ekki gert án ýtarlegrar lýðræðislegrar umræðu.

Ekki hefur verið orðið við beiðnum minnihlutans um að leita álits aðila innan sem utan stjórnkerfisins, auk þess sem engar línur eru í tillögunni settar fram varðandi verksvið, valdsvið og umboð viðkomandi aðila né heldur hver ábyrgð hans er gagnvart borgarráði eða hver samskipti hans eiga að vera við ráðið.

Það sem er verst við þessa aðgerð er að hún færir í raun valdið fjær íbúum Reykjavíkur og nær kerfinu sjálfu. Það er ekki góð þróun, hvort sem hún er skilgreind sem tímabundin eða varanleg.

 

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Tillaga borgarstjóra um breytingu á skipuriti frá 16. september sl. um að skrifstofustjóri borgarstjóra verði æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum felur í sér mikilvæga breytingu sem styrkir stjórnun og samhæfingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Með þessari breytingu er skrifstofustjóra tímabundið falið verkstjórnarhlutverk fyrir hönd borgarstjóra sem borgarritari fór með áður. Miðað er við að ráðningin sé til eins árs.

Reykjavíkurborg þarf að fara í miklar hagræðingaraðgerðir á næsta ári og margar hugmyndir hafa komið fram sem snerta fleiri en eitt svið og því er samhæfing í stjórnkerfinu/embættismannakerfinu nauðsynleg.

Núverandi skrifstofustjóri tekur á sig auknar skyldur, enda afskaplega vel til þess fallinn, hefur til að bera þekkingu, reynslu og áhuga (þornin þrjú) sem nýtist í þessu krefjandi verkefni.

Mýmörg fordæmi eru fyrir slíkum tímabundnum ráðningum og/eða auknum skyldum á stjórnendur. Má þar nefna ráðningu í stöðu skrifstofustjóra borgarstjóra án auglýsingar haustið 2006 og aftur sumarið 2007 til eins árs. Skipulagsstjóri var ráðinn – án auglýsingar og gegndi starfinu í 1 1/2 ár áður en það var auglýst opinberlega. Ráðið var í stöður fjármála- og mannauðsstjóra í eitt ár án auglýsingar árið 2007.

Auk þess má geta þess að fastar stöður borgarlögmanns og sviðsstjóra leikskólasviðs voru ekki auglýstar lausar til umsóknar á sínum tíma, heldur var um tilfærslu í starfi að ræða.

Breyting á starfi skrifstofustjóra er tímabundin og því er ekki talin ástæða til að auglýsa stöðuna. Með auglýsingu nýs starfs væri verið að fjölga stjórnendum í efsta stjórnunarlagi borgarinnar sem kallar á aukin útgjöld borgarsjóðs. Þá vinnur stjórnkerfisnefnd að heildarendurskoðun á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og því ekki talið æskilegt að binda hendur nefndarinnar á þessu stigi. Rétt er að geta þess að borgarstjóri leitaði ráðgjafar borgarlögmanns og mannauðsstjóra varðandi heimild til tímabundinnar ráðningar, áður en tillagan var lögð fram í borgarráði. Ennfremur hélt borgarstjóri sérstakan fund með sviðsstjórum og skrifstofustjórum til að kynna þeim málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki bara hið besta mál?

Hólímólí (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 18:03

2 Smámynd: Einar Guðjónsson

Hver er þessi ágæti maður sem færður hefur verið í betri beitarhaga í Borgarsjóðsbeitinni ?

Einar Guðjónsson, 13.10.2010 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband