Þjónusta og þarfir eldri borgara

Í Reykjavík er fjöldi þeirra sem eru eldri en 70 ára um 11 þúsund manns. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands mun öldruðum fjölga verulega á næstu áratugum. Nauðsynlegt er því að byrja að endurhanna þjónustu við aldraða. Bæði vegna þess að hún er ekki nógu góð í dag og eins að mun fleiri munu þurfa á þjónustu að halda eftir nokkur ár. 

Margt er jákvætt í sambandi við málefni aldraða í Reykjavík. Undirrituð átti sæti í stefnumótunarhópi um málefni aldraðra þar sem margt var skoðað. Meðal annars rannsóknir sem gerðar hafa verið á högum og viðhorfum eldri borgara. Fram kemur að 70% telji að heilsufar sitt sé mjög eða frekar gott. Þá segjast 77% hreyfa sig einu sinni eða oftar í viku og 87% segjast sjaldan eða aldrei einmana. 66% taka þátt í félagsstarfi eldri borgara og 58% taka þátt í einhverju félagsstarfi öðru en félagsstarfi aldraðra. Aðeins 16% af þeim sem eru 80 ára og eldri eru  á dvalar- eða hjúkrunarrými en 84% búa enn heima. 

Stærsti hluti þeirra sem fær heimaþjónustu frá Reykjavíkurborg eru aldraðir (76% árið 2006, samkvæmt úttekt velferðarsviðs). Líklegt er að þetta séu um 2.300 manns í dag. Á biðlista eftir heimaþjónustu fjölgar nú milli ára um 30% sem sýnir að ekki hefur tekist að koma til móts við þær þarfir sem til staðar eru í borginni. Eins er það svo að þeir sem fá aðstoð inn á heimili sín fá lítið um það að segja hvernig sú aðstoð er veitt. Þeir sem fá aðstoð fá ekki að velja hver kemur, hvenær eða hvernig að þjónustunni er staðið. Hér er stuðst við þykkar reglugerðir og kvaðir opinberra starfsmanna um hvernig þeim beri að sinna þjónustu fram yfir það viðhorf að þjónustuna skuli veitt á forsendum þess sem hana fær. Auðvelt er að skilja að ekki ríkir ánægja með slíkt. 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í borginni hvað varðar þjónustu við aldraða er mjög skýr. Fólk á að hafa frelsi til að velja þá þjónustu sem þeim hentar best. Stefnan er að mæta þörf hratt og örugglega og gefa öldruðum tækifæri til að velja þá þjónustuaðila sem hentar þeim. Ef sá sem þarf þjónustu tekur ákvörðun um hvaðan hann sækir þá þjónustu og með hvaða hætti hefur hann í hendi sér það nauðsynlega tæki að geta valið. Um leið verður til heilbrigð samkeppni. Án hennar er ekki hvati til að mæta viðskiptavinum á þeirra forsendum. Mjög nauðsynlegt er að breyta þessu sem fyrst. Eins og staðan er í dag virðast innri reglur Reykjavíkurborgar hafa meiri áhrif á það hvernig þjónustu fólk fær og hversu hratt hún berst en ekki þörf viðskiptavinarins. 
 
Um þetta mál og önnur svipuð tökum við ákvörðun í kosningunum 31. maí næstkomandi.  Afar mikilvægt er að á næsta kjörtímabili komist að ný sjónarmið og breytt vinnubrögð í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um velferð aldraðra sem annarra og ráðast í þær breytingar sem nauðsynlegar eru samfélaginu til hagsbóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það fyrsta sem þarf að gera í sambandi við eldri borgara er að sá ójöfnuður sem fellst  mismunandi ábyrgð ríkisins á lífeyrissjóðum verði leiðréttur.Meðan ríkið ábyrgist tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins kemur aldrei til skerðingar lífeyrisgreyðslna úr þeim.Á sama tíma mega lífeyrisþegar sem fá greitt úr almennum lífeyrissjóðum búa við það að vera stöðugt skertir, og þurfa að auki að borga í gegnum skatta hækkanir til hinna.Krafa eldri borgara og alls þjóðfélagsins á að vera sú að þessi mismunun verði leiðrétt þegar í stað.

Sigurgeir Jónsson, 27.5.2014 kl. 04:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband