Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Í ágúst 2010 vildu Jóhanna og Steingrímur ekki kaupa hlut OR í HS orku í stað Magma

Í ágúst fyrir einu og hálfu ári, þurfti Orkuveita Reykjavíkur skv. samkeppnislögum að selja hlut sinn í HS orku. Eftir að hafa haft 6 mánuði til að gera tilboð í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku vildu Steingrímur og Jóhanna ekki kaupa hlutinn sem Magma falaðist eftir. Að frestinum liðnum fengu þau auka frest til að skoða málið en sáu ekki ástæðu til að kaupa bréfin og stöðva sölu til HS orku - en nú er þetta allt einhverjum öðrum að kenna, sjálfstæðisflokknum, Geir, Davíð og kannski Hæstarétti bara líka?


Hið norræna velferðarkerfi er farið að þvælast fyrir velferðarráðherra

Í Fréttablaðinu í dag eru birtir útreikningar Benedikts Jóhannessonar um hvaða ráðstöfunartekjur skila sér í vasa launamannsins eftir að hann hefur greitt skatta og launatengd gjöld.

Niðurstaðan sýnir að þriðjungur þess sem launamenn með 350 þúsund og 450 þúsund fara í þeirra vasa en annað taka ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir.

Sá sem hefur í mánaðarlaun 350.000,- kr. fær útborgaðar 147.627,- kr.
Sá sem hefur í mánaðarlaun 450.000,- kr. fær útborgaðar 178.997,- kr.

Til viðbótar við útreikningar Benedikts eru eftirfarandi tölur:

Fjárhagsaðstoð einstaklings (eftir skatta) sem býr sjálfstætt er 138.000,- á mánuði í Reykjavík
Atvinnuleysisbætur (eftir skatta)  eru um 138.000,- á mánuði
Fullar greiðslur almannatrygginga til einstaklinga eru 176.000,- á mánuði

Merkilegt er að skoða þetta í samhengi við það sem velferðarráðherra hefur verið að boða síðustu vikur en hann hefur beint þeim tilmælum til sveitarfélaganna að  þau eigi að hækka fjárhagsaðstoð og að bæta þurfi kjör þeirra sem minna mega sín.

Þeir sem hafa lægstu launin á vinnumarkaði fá minna í vasann en þeir sem eru á bótum - þannig er hið norræna velferðarkerfi orðið, þeir eiga ekki rétt á jafn mikilli viðbótar aðstoð og þeir sem eru á bótum. 

Ég held að hann ætti að beina þeim tilmælum til sjálfs sín að reyna að bæta kjör fólks á vinnumarkaði, viðhalda fjárhagslegum hvata svo fleiri haldi áfram að komast út í atvinnulífið. Gera þarf fyrirtækjum kleift að ráða fleira fólk í vinnu, draga úr sköttum væri leið til þess. Þannig stöndum við vörð um velferðarkerfið og getum áfram hjálpað þeim sem minnst mega sín.


 


Verklag velferðarráðherra ekki til sóma

Á undanförnum tveimur fundum velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafa verið lögð fram mál þar sem velferðarráðherra kemur við sögu. Annað varðar fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem verður að teljast smjörklípa í stærra lagi og hins vegar málefni fatlaðra þar sem ljóst er að ekki er tekið á eigin málum en sveitarfélögin látin um að fara í "óþægilegu" verkefnin.

Um daginn (4. janúar) komu tilmæli ráðherra í fjölmiðla undir fyrirsögninni "Vill að sveitarfélögin hækki fjárhagsaðstoð" með þessu klessir ráðherrann sínu eigin vandamáli á sveitarfélögin án þess að fjalla neitt um eigin ábyrgð. Við bókuðum að sjálfsögðu mótmæli við þessu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska að eftirfarandi tilmæli til velferðarráðherra séu bókuð. Ekki er ljóst í hvaða samhengi ráðherra velferðarmála lét þessi tilmæli falla til sveitarfélaganna, miðað við umfjöllun í fjölmiðlum mátti gefa sér að þau kæmu í kjölfar niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar HÍ meðal fólks sem leitar til hjálparsamtaka eftir matarúthlutunum.

Niðurstöður könnunarinnar eru meðal annars þær að skjólstæðingar ráðherrans en ekki sveitarfélaganna eru um 90 % þeirra sem hjálpina sækja en að aðeins 10% gesta séu skjólstæðingar sveitarfélaganna. Með tilmælum sínum beinir ráðherrann vandanum að sveitarfélögunum án þess að fjalla um sína eigin ábyrgð í málinu.

Því er þeim tilmælum beint til ráðherrans að hann byrja að gera sér grein fyrir því að hann er í bestu aðstöðu sem ráðherra í starfandi ríkisstjórn að aðstoða þennan hóp verulega með því að vinna að því að bæta umhverfi fyrirtækja á Íslandi þannig að þau geti tekið ákvörðun um frekari fjárfestingar og ráðið í fleiri störf. 37% gesta hjálparstofnana eru öryrkjar og þá verður að benda á það að það er á könnu ráðherrans að fjalla um kjör öryrkja en ekki sveitarfélaganna.

Seinna málið tengist yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Fyrir hefur legið að skv. búsetureglugerð hefur félagsmálaráðuneytið eða velferðarráðuneytið eins og það heitir nú haft heimild til að hækka leigu skv. vísitölu frá því árið 2003 en ekki gert það þrátt fyrir ábendingar. Nú þegar sveitarfélögin hafa tekið við er þeim látið eftir að fara í þetta mál sem ráðherra hefði átt að taka að sér sómans vegna. Við bókuðum því eftirfarandi:

"Fulltrúar sjálfstæðisflokksins telja ámælisvert að velferðarráðherra hafi ekki afgreitt hækkun vegna búsetureglugerðar áður en málaflokkurinn fluttist yfir til sveitarfélagana. Velferðarráðuneytið hefur haft nægan tíma til framfylgja ákvæði um hækkun en ekki sinnt því frá árinu 2003. Það kemur því í hlut velferðarráðs Reykjavíkurborgar að framfylgja þessari hækkun og svara þeirri óánægju sem eflaust á eftir að hljótast af henni. Mjög óheppilegt er að þessi afgreiðsla verði sú fyrsta sem ráðið fjallar um enda hefur sveitarfélagið unnið að kappi og miklum metnaði að undirbúningi yfirfærslunnar svo notendur upplifi hana á sem jákvæðaðstan hátt. Ekki verður hjá því komist að álykta svo að ráðherra sé hér að veigra sér við að taka á málum og láti aðra um að taka á sig erfið mál."

 


Ekki var nóg að hækka gjöldin í Strætó, einnig var ákveðið að draga úr þjónustu!

Nú eru Sambestu orðnir ósammála, meirihluti borgarráðs er ekki sammála því sem meirihluti umhverfis- og samgönguráðs samþykkti. 

Í tilefni af staðfestingu borgarráðs í morgun á þjónustuskerðingu og gjaldskrárhækkun hjá Strætó bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálstæðisflokksins með eftirfarandi hætti:

,,Með þessari samþykkt fer meirihluti borgarráðs algjörlega gegn meirihlutanum í umhverfis- og samgönguráði en fyrirliggjandi tillaga er fram komin vegna sameiginlegrar afstöðu umhverfis- og samgönguráðs um að taka skuli umrædda ákvörðun um þjónustuskerðingu til baka.  Í umræðum um málefni Strætó í borgarstjórn sl. þriðjudag axlaði enginn borgarfulltrúi meirihlutans ábyrgð á þeirri ákvörðun að ganga til þjónustuskerðingar og gjaldskrárhækkana hjá Strætó. Í þeim umræðum lýsti borgarstjóri því hins vegar yfir að endurskoða skyldi ákvörðunina í ljósi þess að hún virtist hafa verið tekin án formlegrar aðkomu Reykjavíkur. Nú hefur þeirri afstöðu algjörlega verið snúið við með yfirlýsingum um að meirihlutinn hafi í raun tekið þessa ákvörðun, þrátt fyrir að það liggi ekki fyrir hvar hún hafi verið tekin. Þetta er með hreinum ólíkindum og vekur upp spurningar um hver og hvað ráði raunverulega för hjá núverandi meirihluta. Rétt er einnig að minna á að allt umhverfis- og samgönguráð, sem í sitja 3 fulltrúar meirihlutans, bókaði gegn umræddri skerðingu, taldi hana til koma án vitundar þeirra og krafðist þess að hún yrði tekin til baka. Það er ljóst að með þessari ákvörðun svíkur meirihlutinn enn eitt loforðið við kjósendur, fer gegn augljósum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og staðfestir að ákvarðanir um svo mikilvæg mál eru tekin án þess að nokkur kannist við þær, hvað þá að nokkur tryggi að þær séu teknar með hliðsjón af hagsmunum Reykjavíkur.“

Veggjöld og tvöföld skattheimta Sambesta flokksins

Frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar hafnar ekki veggjöldum

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar treysti sér ekki til að mótmæla fyrirhuguðum vegtollum á höfuðborgarsvæðinu á fundi borgarstjórnar í dag.   Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu þess efnis og vildu að borgarstjórn sendi ríkisstjórn og Alþingi skýr skilaboð um að slík tvöföld skattheimta væri ekki sanngjörn gagnvart borgarbúum, en meirihlutinn kaus að vísa tillögunni óafgreiddri til skoðunar hjá umhverfis- og samgönguráði.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um ályktun borgarstjórnar vegna veggjalda er svohljóðandi:

Borgarstjórn skorar á ríkisstjórn og Alþingi að láta ekki verða af hugmyndum um að leggja á veggjald til viðbótar við þá skatta og gjöld sem íbúar greiða nú þegar. Borgarstjórn er ekki andsnúin því að veggjöld séu skoðuð sem fjármögnunarleið vegna samgöngumannvirkja, (t.d. í sérstökum tilvikum þegar íbúar hafa val um aðra akstursleið) en telur rangt að innheimta þann kostnað tvöfalt með hækkun skatta og sérstöku veggjaldi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sagði í ræðu sinni nauðsynlegt að borgarstjórn bregðist við þeirri umræðu sem undanfarið hefur verið um sérstök veggjöld til viðbótar stöðugt hækkandi sköttum og gjöldum.  Hún benti á höfuðborgarsvæðið hefði alltof lengi setið eftir við úthlutun fjármagns vegna samgöngubóta og að í vegaáætlun sem nær til ársins 2012 væri hlutfall höfuðborgarsvæðisins í þeirri úthlutun margfalt lægri en það sem eðlilegt gæti talist, þrátt fyrir að um 63% íbúa séu búsettir á þessu svæði. 

Hanna Birna benti á að það væri óásættanlegt að íbúar þurfi að greiða vegatolla til viðbótar við þau gjöld sem núþegar eru innheimt með bifreiðar- og bensíngjöldum.  ,,Það gengur einfaldlega ekki að ríkisvaldið komist upp með það að margskattleggja almenning í þessu landi, fyrst með því að hækka alla skatta og öll gjöld en síðan með því að bæta sérstöku veggjaldi ofaná.  Vilji menn skoða það að fjármagna samgöngubætur með sérstöku veggjaldi verður það að gerast þannig að aðrir skattar lækki á móti.  Núverandi ríkisstjórn virðist nú varla líkleg til þess.”


Tilmæli til ríkisstjórnarinnar...

Sveitarfélögin beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að byrja að vinna að því að atvinnurekendur og fjárfestar geti farið að taka ákvarðanir um næstu framtíð og kannski skapað nokkur störf.

 


mbl.is Vill að sveitarfélög hækki fjárhagsaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband