Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Aðalskipulagið

Í gær var samþykkt með 13 af 15 atkvæðum að auglýsa drög að aðalskipulagi Reykjavíkur. Ég, Gísli Marteinn Baldursson og Þorbjörg Helg Vigfúsdóttir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu skipulagið en aðrir fulltrúarsjálfstæðisflokksins sátu hjá. Við bókuðum jafnframt sérstaklega okkar afstöðu.

Hér er bókunin okkar:
Það er mikið fagnaðarefni að nú liggi fyrir drög að aðalskipulagi Reykjavíkur sem unnið hefur verið að síðan 2006. Mjög hefur verið vandað til skipulagsins sem unnið er af öllum flokkum i borgarstjórn, lengst af undir forystu Sjálfstæðisflokksins. 

Drögin byggja á nokkrum meginþáttum sem munu bæta borgarumhverfið og auka lífsgæði borgarbúa. Þéttari byggð er lykilþáttur. Með þéttingu byggðar verður hægt að nýta betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum auk þjónustu. Einnig mun samgöngukostnaður borgarbúa lækka þar sem vegalengdir milli vinnu, þjónustu og heimila styttast. Draga mun úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem mengun. Betri forsendur verða fyrir verslun og þjónustu í hverfunum og almenningssamgöngur og aðrir vistvænir ferðamátar eflast. Með skipulaginu er einnig verið að mæta eftirspurn eftir fleiri íbúðum miðsvæðis.

Eitt af þremur lykiluppbyggingarsvæðunum er Vatnsmýrin. Það er trú okkar að við lok aðalskipulagstímabilsins árið 2030 eigi í Vatnsmýrinni að vera blönduð byggð íbúða, háskóla- og atvinnustarfsemi, en ekki flugvöllur. Úttektir hlutlausra aðila sýna fram á að hagræn áhrif af því að nýta Vatnsmýrina undir blandaða byggð og finna flugvellinum nýjan stað eru of mikil til að horft sé framhjá þeim. Í aðalskipulagsdrögunum sem fyrir liggja hefur ekkert breyst varðandi flugvallarmálið frá fyrra skipulagi enda samráð ríkis og borgar engan árangur borið. Lykilatriði er að ríki og borg hefji markvissa vinnu málsins þegar í stað og setji fram verkefnaáætlun um tímaramma og staðsetningarkosti flugvallar út frá skipulagsóskum borgarinnar. Borgin á að okkar mati að ganga samningsfús og lausnamiðuð til þeirra viðræðna þar sem meðal annars dagsetningar á brottflutningi flugvallarins geta verið undir. Ljóst er að einnig opnast tækifæri til að vinna enn betur að framtíðarstaðsetningu flugvallar, og rýna betur staðsetningar eins og Hvassahraun, Löngusker, Bessastaðanes og fleiri, þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verður endurskoðað, en sú vinna hefst að lokinni aðalskipulagsvinnunni.

Nú fer aðalskipulag Reykjavíkur til umsagnar borgarbúa, hagsmunaaðila og allra þeirra sem láta sig framtíðarskipulag borgarinnar varða og við hlökkum til að fá viðbrögð þeirra og taka þátt í frjóum og skapandi umræðum um framtíð borgarinnar okkar. Í því ferli koma upp ýmsar athugasemdir sem nauðsynlegt verður að meta, greina og geta leitt til breytinga þegar lokatillaga verður lögð fram. Það er okkar trú að í meginatriðum sé sú stefna sem dregin er hér upp af aðalskipulagi verði heillaskref fyrir framtíð Reykjavíkur. Aðalskipulag horfir til langrar framtíðar og við teljum að lífsgæði borgarbúa aukist með þeim skrefum sem stigin eru í þessum drögum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband