Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Skattar og gjöld hækka langt umfram þörf

Til fjölmiðla
Frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins

Taprekstur í borginni annað árið í röð
- þrátt fyrir skatta- og gjaldskrárhækkanir meirihlutans

 

Þetta er annað árið sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hefur haft tækifæri til þess að setja alfarið mark sitt á borgarreksturinn.  Og annað árið í röð er taprekstur í borginni sem gefur til kynna að aðhald í rekstri borgarinnar sé ábótavant.

 

Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2011 og 2012 í A- hluta ársreikningsins er neikvæð um 2,8 milljarða króna. En samanlögð rekstrarniðurstaða tveggja ára þar á undan þegar fyrrverandi meirihluti var við stjórn var jákvæð um 4,7 milljarða króna.  Á tímabili núverandi meirihluta hefur aðhaldið verið ófullnægjandi og kerfið vaxið á kostnað borgarbúa með skatta- og gjaldskrárhækkunum. Auk þess hækka skuldir borgarsjóðs um 2,8 milljarða.
 
Lítið sem ekkert hefur verið hagrætt í kerfinu, þvert á móti eykst kostnaður og ekkert hefur bólað á því átaki í hagræðingu sem meirihlutinn stefndi að við upphaf kjörtímabilsins. Hinsvegar hefur meirihlutinn hækkað skatta og gjöld langt umfram þörf en skattheimta var 2,1 milljarði hærri árið 2012 en upphaflega fjarhagsáætlun gerði ráð fyrir. 

 

Auknar álögur kosta fjölskyldu 800 þúsund á kjörtímabilinu

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið saman dæmi um 5 manna fjölskyldu með meðallaun sem á litla íbúð og þarf að greiða skatta og gjöld í Reykjavík. Þessi fjölskylda mun í lok ársins hafa greitt 800 þúsund krónur umfram það sem hún hefði gert án hækkana núverandi meirihluta frá árinu 2010.   Þess má geta að á árunum 2010 – 2013 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13% en hækkanir á þjónustu borgarinnar nema um 20% á sama tíma. Skattar og gjöld borgarinnar hafa því á þessu sama tímabili hækkað um 7% umfram vísitölu.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrú Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi stefnu meirihlutans í rekstri borgarinnar á borgarstjórnarfundi í dag:

 

„Það er auðvelt að stjórna með því að taka stöðugt fé af fjölskyldum og fyrirtækjum í borginni. Mun skynsamlegra, sanngjarnara og farsælla hefði verið að nýta það svigrúm sem til að hagræða í kerfinu og auðvelda almenningi að takast á við erfiða tíma.  Þannig á borgarstjórn Reykjavíkur ekki að nýta óvæntar skatttekjur upp á 2,1 milljarð til að þenja út eigið kerfi heldur til að lækka álögur á heimilin í borginni.”

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband